20.10.1986
Neðri deild: 4. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 186 í B-deild Alþingistíðinda. (119)

27. mál, lífeyrisréttindi heimavinnandi húsmæðra

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég tek undir meginefni frv., sem hér er til umræðu, sem kveður á um að tryggja heimavinnandi húsmæðrum lífeyrisréttindi. Sem betur fer er það svo að oftar en áður er nú talað máli heimavinnandi fólks úr þessum ræðustól. Það er ekki bara að því er lífeyrisréttindi varðar sem heimavinnandi fólk er sett skör lægra en aðrir þjóðfélagshópar. Það má t.d. nefna fæðingarorlof, það má nefna sjúkradagpeninga o.fl. Það er líka ljóst að störf, sem stunduð eru á vinnumarkaðnum, sem skyld eru heimilisstörfum, eins og ýmiss konar þjónustu- og uppeldisstörf, eru lítils metin í þjóðfélaginu og konur sem vinna þessi störf tilheyra láglaunahópunum í þjóðfélaginu.

Að því er lífeyrisréttindamálið varðar er athyglisvert í skýrslu sem komið hefur frá fjmrn. um lífeyrismál að um 25 þús. manns eru utan lífeyrissjóða og þar af um 17 þús. konur. Þess vegna er ljóst að það er mikið réttlætismál að tryggja heimavinnandi fólki lífeyrisréttindi. Sem betur fer er þetta mál ekki nýtt í sölum Alþingis. Það hefur til að mynda verið flutt af Páli Péturssyni, man ég eftir, þáltill. um þetta efni. Ég hef á nokkrum þingum líka flutt þáltill. um að tryggja heimavinnandi fólki lífeyrisréttindi og þetta hefur komið fram í frumvarpsformi frá Guðmundi H. Garðarssyni, t.d. um Lífeyrissjóð Íslands og eins að því er varðar tillögu Kjartans Jóhannssonar um einn lífeyrissjóð fyrir alla landsmenn. af þessum tillöguflutningi, sem ég hef hér rakið, verður að vona að þetta mál sé að fá aukinn skilning í sölum Alþingis.

Ég hef líka flutt á tveim eða þremur þingum till: til þál. um réttarstöðu heimavinnandi fólks þar sem ríkisstjórninni er falið að láta meta þjóðhagslegt gildi heimilisstarfa og gera úttekt á hvernig félagslegum réttindum og mati á heimilisstörfum er háttað samanborið við önnur störf í þjóðfélaginu. Það er athyglisverð umsögn sem fram kom um það mál á síðasta þingi sem vert er að vekja athygli á, en þar kemur fram í umsögn Þjóðhagsstofnunar um það mál að eftir ýmsum erlendum athugunum að dæma kynni verðgildi heimilisstarfa að liggja á bilinu fjórðungur til helmingur af þjóðarframleiðslu eins og hún er venjulega metin, eins og segir í umsögn Þjóðhagsstofnunar. Það er alveg ljóst að þjóðfélagið metur ekki sem skyldi þessi heimilisstörf og hefur heimavinnandi fólk í alla staði miklu minni réttindi en fólk á vinnumarkaðnum.

Ég stend hér upp, herra forseti, til að beina ákveðnum spurningum til 1. flm. þessa máls. Ég hefði kunnað betur við að í heiti frv. hefði komið fram „heimavinnandi fólk“ en ekki bara heimavinnandi húsmæður. Ég leyfi mér að vona að Kvennalistinn, sem ber þetta mál fram eða tveir þm. hans, hafi einnig í huga að tryggja karlmönnum, ef þeir eru heimavinnandi, slík réttindi. Því kynni ég betur við að hér kæmi fram „heimavinnandi fólk“ en ekki bara húsmæður.

Ég vil líka spyrja hv. flm. að því, sem hún hlýtur að hafa athugað þar sem hér er sett fram frv. um að ríkissjóður eigi að greiða iðgjöld eða 6% framlag vegna heimavinnandi húsmóður, eins og hér stendur, hvað má áætla að kostnaðurinn sé mikill ef þessi leið verður farin. Hve margt heimavinnandi fólk mundi þá fá rétt ef þetta frv. yrði að lögum? Eins vildi ég spyrja hv. flm. að því hvað hún hugsar sér að því er þá varðar sem vinna hlutastarf á vinnumarkaðnum, vinna kannske bara hálfan daginn. Er þá hugmyndin að ríkissjóður eigi að greiða einnig ákveðið framlag fyrir þá sem ekki eru í fullu starfi á vinnumarkaðnum og geta kannske einungis verið í hálfs dags vinnu? Þetta held ég að séu spurningar sem nauðsynlegt er að fram komi við 1. umr. þessa máls.