04.12.1986
Sameinað þing: 25. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1356 í B-deild Alþingistíðinda. (1193)

Afstaða til stöðvunar kjarnorkuvígbúnaðar

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Ég sé ástæðu til að þakka þá umræðu sem hér hefur farið fram og þann stuðning sem fram hefur komið í umræðunni við þá hugmynd og tillögu af minni hálfu að forusta þingsins og hæstv. forseti hafi frumkvæði að því að skoða gildandi þingsköp með tilliti til breytinga þannig að ekki verði hægt að halda á málum eins og hér hefur verið gert af meiri hluta í þinginu eða meiri hluta í tiltekinni þingnefnd.

Það hefur komið fram hjá talsmanni Framsfl., hv. 9. þm. Reykv., að Framsfl. ætli sér að skila áliti varðandi 151. mál, að fulltrúar hans í utanrmn. ætli að skila áliti. Hv. þm. Páll Pétursson gat þess hér að það hefði tekist illa til án þess að hann festi nákvæmlega hönd á því hvort það var hans eigin þingflokkur, fulltrúarnir í utanrmn. eða nefndin í heild. Ég vísa til þess, eins og fram kom hjá hv. þingflokksformanni Framsfl., að þeir fluttu sérstaka till. vegna þessa máls í fyrra, vegna þeirrar atkvæðagreiðslu og deilna sem fóru fram um afstöðu utanrrh. til málsins á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, svo að það er með fádæmum að fulltrúar flokksins í utanrmn. geti ekki lýst afstöðu til málsins sem búið er að vera á dagskrá hér árum saman. En það er mál út af fyrir sig og betra er vissulega seint en aldrei. En það er hörmulegt þegar menn haga sínum málatilbúnaði með þessum hætti.

Ég vil taka það fram, herra forseti, til að öllu sé til haga haldið varðandi meðferð þáltill.hv. 9. þm. Reykv. kvaddi þegar utanrmn. til fundar eftir að ég bar fram ósk um það 25. nóv. og nefndin kom saman 26. nóv. þar sem þessi till. var rædd og talsmenn annarra þingflokka sem fulltrúa eiga í nefndinni óskuðu eftir frestun til að fá ráðrúm til að bera sig saman um afstöðu til málsins. Ég er ekki með neinar ásakanir við hv. 9. þm. Reykv. af þeim sökum, síður en svo. Hann gegndi formennsku í utanrmn. á þessum dögum.

En ég vænti þess að hæstv. forseti beiti sér fyrir því að þingsköpin verði athuguð og ég treysti því einnig að þetta mál komi hér til þingræðislegrar afgreiðslu þó seint sé eftir að utanrmn. og fulltrúar þar hafa skilað sínum álitum.