20.10.1986
Neðri deild: 4. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 187 í B-deild Alþingistíðinda. (120)

27. mál, lífeyrisréttindi heimavinnandi húsmæðra

Gunnar G. Schram:

Herra forseti. Ég hef kvatt mér hér hljóðs í umræðum um frv. sem hér liggur fyrir, frv. til l. um lífeyrisréttindi heimavinnandi húsmæðra, breytingar á lögum nr. 55/1980, um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda.

Hér er um mjög athyglisvert og merkt mál að ræða og mikið réttlætismál. Þessum málum hefur áður verið hreyft hér í þingsölum, eins og fram kom í ræðu hv. síðasta ræðumanns. Ég minnist þess að sennilega hefur það verið í eitt fyrsta skipti í frv. því sem Guðmundur H. Garðarsson, þáv. þm. Sjálfstfl., flutti fyrir rúmlega tíu árum um lífeyrissjóð fyrir alla landsmenn. Iðulega síðan hafa verið flutt mál í þessa veru. Því miður hefur þetta mál ekki fengið þann byr í sölum Alþingis að það hafi náð samþykkt. En það er full ástæða til að ræða það hér og að stóraukinn skilningur skapist á því í þjóðfélaginu hvert er virði, gildi og mikilvægi framlags, starfs og hlutverks hinnar heimavinnandi húsmóður. Það hefur allt til þessa verið vanmetið allt um of. Þó liggur í augum uppi, og hver maður þekkir það af sinni eigin fjölskyldu, hve verðmætt og mikilsvert það hlutverk er, móðurhlutverkið, hlutverk uppalandans, hlutverk konunnar sem raunverulega ber hita og þunga dagsins innan veggja heimilisins.

Það hefur verið reynt að meta það til fjárverðmæta og Þjóðhagsstofnun hefur vikið að því að það mundi sennilega nema um fjórðungi til þriðjungi af þjóðarframleiðslunni. Það er að vísu mjög erfitt að meta þetta framlag, en ef það er rétt skiptir verðmæti þessarar vinnu, sem raunar er með öllu ólaunuð í peningum en ekki þakklæti, 25-30 milljörðum kr. á ári. Af þeim tölum sést hve gífurlegt framlag það er sem heimavinnandi húsmæður eða heimavinnandi maki, svo að maður tali nú á jafnréttisöld, leggur þarna af mörkum.

Heimilið er, verður og hlýtur að verða áfram grunneining hvers þjóðfélags. Það er fjölskyldan sem er grunneiningin. Ábyrgðin á umönnun hennar og rekstri heimilisins hefur undantekningarlítið hvílt á herðum kvenna. Á þeim eina vettvangi virðist þeim hafa verið treyst til að stjórna eins og flm. benda á, enda starfið ekki metið til launa. Því er það að þegar þær konur sem eingöngu eða að mestu leyti hafa stundað þessi störf koma á eftirlaunaaldur njóta þær ekki greiðslu úr lífeyrissjóði. Þetta er vitanlega misræmi og það sem meira er: misrétti.

Ég nefndi tölur um vinnuframlag heimavinnandi kvenna áðan, en ég veit ekki hvort allir gera sér ljóst það atriði í öðru samhengi, þ.e. þær gífurlegu fjárhæðir sem heimavinnandi konur spara þjóðfélaginu með því að ala upp börn, annast sjúka og aldraða, vanheila og þroskahefta og reka þá einingu sem heimilið er. Öll koma þessi störf heimilinu til góða og þegar eitthvað bjátar á, konan veikist eða fellur frá, sést hvers virði þau eru í beinhörðum peningum. Það er alveg ljóst að það eru gífurlegar fjárhæðir sem sparast ríki og sveitarfélögum við byggingu dagheimila, vistheimila, leikskóla og annarra uppeldisstofnana þar sem hin heimavinnandi húsmóðir annast þau störf og tekur raunverulega að sér að framkvæma það sem svo margir verða að leita til ríkisins með.

Þetta vill oft gleymast í umræðunni og ég vildi aðeins bæta einu við til viðbótar sem sýnir raunverulega það misrétti sem þjóðfélagið býr heimavinnandi konum, þ.e. fjölskyldum þar sem aðeins annar makinn vinnur úti. Það getur verið af mörgum ástæðum. Það getur verið vegna þess að börnin eru mörg og ung á heimilinu. Það getur verið vegna veikinda barna eða eldri ættingja. Það getur verið vegna þess að konan á þess ekki kost vegna einhvers konar fötlunar að fara út á hinn almenna vinnumarkað. Hver er afstaða laganna og þá fyrst og fremst skattalaganna til slíks heimilis þar sem aðeins annar makinn er fyrirvinna og getur verið fyrirvinna? Skattalögin taka einfaldlega á því á þann hátt að refsa því heimili og þeim konum sem eru heimavinnandi með því að skattleggja tekjur þess heimilis mun hærra en nákvæmlega sömu tekjur sem annað heimili hefur þar sem báðir makarnir eru útivinnandi. Á þessu getur munað í dag samkvæmt skattalögum okkar allt að 80 þús. kr. Heimili þar sem konan er heimavinnandi og hefur ekki tekjur en annast bú og börn, getur þurft að borga allt að 80 þús. kr. meira af sömu heildartekjum en það heimili þar sem báðir makarnir geta unnið úti. Í þessu speglast eitt ranglætið enn sem hreyft er við með þessu frv.

Ég vildi með þessum fáu orðum, herra forseti, vekja athygli á því að hér er um merkt mál að ræða sem ég vona að fái góðan framgang.