04.12.1986
Sameinað þing: 25. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1360 í B-deild Alþingistíðinda. (1203)

170. mál, fjármögnunarfyrirtæki

Flm. (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja á þskj. 180 till. til þál. um fjármögnunarfyrirtæki. Tillgr. hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að láta undirbúa löggjöf um fjármögnunarfyrirtæki þannig að unnt sé að marka stefnu um að hve miklu leyti erlendum aðilum skuli heimiluð þátttaka í slíkri starfsemi hér á landi.“

Á undanförnum árum höfum við sett hér á Alþingi lög um viðskiptabanka og seðlabanka. Í lögunum um viðskiptabanka er kveðið svo á að erlendum bönkum sé einungis heimiluð starfsemi hér á landi í formi umboðsskrifstofa, en hlutverk umboðsskrifstofa er takmarkað við upplýsinga- og ráðgjafarþjónustu, en ekki hina hefðbundnu lánastarfsemi.

Á síðustu misserum hafa sprottið upp á Íslandi fjármögnunarfyrirtæki og sum með verulegri þátttöku erlendra aðila. Engin almenn löggjöf hefur verið sett um slíka starfsemi og hafa þau verið stofnuð samkvæmt lögum um hlutafélög sem afmarka einungis rekstrarform þeirra. Fyrirtæki þessi eru stofnuð til að veita hvers kyns fjármálaþjónustu, svo og að hafa með höndum skylda starfsemi. Starfsemin er fjármögnuð með hlutafé, að hluta til erlendu, og með erlendum lántökum og með útgáfu verðbréfa til sölu.

Til þessa hafa þau fyrirtæki sem stofnuð hafa verið í þessum tilgangi lagt aðaláherslu á „leysingarstarfsemi“ (leasing), en stefna jafnframt að annarri sérhæfðri fjármálaþjónustu við fyrirtæki og einstaklinga. Umfang þessarar starfsemi er enn þá óljóst, en gera má ráð fyrir að innan fárra missera gætu slík fyrirtæki verið búin að ná verulegum ítökum í efnahagslífi þjóðarinnar. Ekki er útilokað að með þessu móti nái slík fyrirtæki virkum yfirráðum yfir mikilvægum þáttum atvinnulífsins, svo sem í fiskeldi, mikilvægum fyrirtækjum í sjávarútvegi, fiskvinnslu ellegar verktakastarfsemi.

Skv. iðnaðarlögum nr. 42/1978 má enginn reka iðnað hér á landi nema að fengnu leyfi lögreglustjóra. Sé um einstakling að ræða skal hann vera íslenskur ríkisborgari og búsettur hér á landi. Eigi í hlut félag með ótakmarkaðri ábyrgð, t.d. sameignarfélag, skulu allir félagsmenn vera íslenskir ríkisborgarar og búsettir hér á landi. Í félagi með takmarkaðri ábyrgð, t.d. hlutafélagi, er þess hins vegar krafist að stjórnarmenn og framkvæmdastjórar uppfylli skilyrði um íslenskt ríkisfang og búsetu. Iðnrh. getur veitt undanþágu frá þeim skilyrðum sem hér hafa verið talin, en þó skal meiri hluti hlutafjár í hlutafélagi alltaf vera eign manna búsettra hér á landi.

Ef við lítum á hvernig þessu er háttað með verslun er það þannig að sá sem vill öðlast leyfi til verslunar hér á landi, sbr. lög nr. 41/1968, um verslunaratvinnu, verður einnig að fullnægja skilyrðum um íslenskt ríkisfang og búsetu. Einstaklingur verður þannig að hafa íslenskt ríkisfang og vera heimilisfastur á Íslandi. Í félagi með ótakmarkaðri ábyrgð verða allir stjórnarmenn og prókúruhafi að fullnægja þessum skilyrðum. Í félagi með takmarkaðri ábyrgð er einungis áskilið að einn stjórnarmanna, endurskoðendur og framkvæmdastjórar hafi íslenskt ríkisfang og heimilisfesti hér á landi. Enn fremur skal hlutafé í hlutafélagi vera að meira en helmingi eign manna búsettra hér á landi. Viðskrh. getur þó veitt undanþágu frá þessum skilyrðum standi sérstaklega á.

Í lögum nr. 50/1978, um vátryggingarstarfsemi, er erlendu vátryggingarfélagi heimilt að reka starfsemi að fengnu leyfi tryggingamálaráðherra. Í lögum nr. 53/1963, um veitingasölu, gististaðahald o.fl., segir að enginn megi gera sér veitingasölu né rekstur gististaða að atvinnu nema að fengnu leyfi lögreglustjóra. Meðal þeirra skilyrða sem sett eru fyrir slíkri leyfisveitingu er að umsækjandi sé heimilisfastur á Íslandi og hafi verið það s.l. ár. Sé um félag að ræða er lögreglustjóra því aðeins heimilt að veita því leyfi ef stjórnarformaður, þeir sem firma rita og þeir sem bera ábyrgð á skuldbindingum félagsins, ef einhverjar eru, fullnægja þessu skilyrði.

Ýmis önnur lög um einstakar atvinnugreinar hafa að geyma strangari ákvæði um ríkisfang, búsetu og meirihlutaeign hlutafjár. Má t.d. nefna lög nr. 33/1922, um rétt til fiskveiða í landhelgi, lög nr. 34/1964, um loftferðir, og lög nr. 53/1970, um skráningu skipa. Auk ákvæða í lögum um einstakar atvinnugreinar er fjallað um fjárfestingar erlendra aðila í fyrirtækjum hér á landi í lögum nr. 19/1966, um eignarrétt og afnotarétt fasteigna. Lög þessi krefjast þess að einstaklingur hafi íslenskt ríkisfang til að geta öðlast eignarrétt eða afnotarétt yfir fasteign. Eigi félag með ótakmarkaðri ábyrgð hlut að máli skulu allir félagsmenn hafa íslenskt ríkisfang, en sé um hlutafélag að ræða skulu allir stjórnarmenn vera íslenskir ríkisborgarar. Lögin gera einnig ráð fyrir að hlutafé í hlutafélagi skuli a.m.k. að 4/5 vera í eigu íslenskra ríkisborgara. Dómsmrh. getur þó skv. lögunum veitt undanþágu frá þessum skilyrðum ef, eins og þar segir, „ástæða þykir til“.

Í lögum nr. 32/1978, um hlutafélög, segir að meiri hluti stofnenda hlutafélags skuli hafa haft heimilisfesti hér á landi a.m.k. í tvö ár. Þar segir enn fremur að framkvæmdastjórar og meiri hluti stjórnar skuli vera hér búsettur, en viðskrh. er heimilt að veita undanþágu frá þessu skilyrði. Þá er viðskrh. heimilt samkvæmt hlutafélagalögum að veita erlendu hlutafélagi rétt til starfa hér á landi að fullnægðum tilteknum skilyrðum, þar á meðal því að félagið fullnægi ákvæðum hlutaðeigandi atvinnulöggjafar um starfsemi sína hér. Lög um samvinnufélög hafa ekki að geyma ákvæði um þátttöku erlendra aðila í samvinnufélögum og lög um sameignarfélög hafa ekki verið sett hér á landi.

Það er eins og sjá má á þessari upptalningu, nokkuð mismunandi hvernig haldið er á þessum málum í hinum einstöku atvinnugreinum og við hin einstöku skilyrði, en það má segja að löggjafinn gjaldi verulega vaníð við að leyfa erlendum aðilum að fjárfesta hér á landi. Þess vegna er mjög óeðlilegt að um fjármögnunarfyrirtæki skuli ekki vera til löggjöf og það sé raunar hægt að fara fram hjá allri hinni löggjöfinni einungis í gegnum fjármögnunarfyrirtæki. Það er á hinn bóginn svo að afstaða til eignarhalds útlendinga í íslenskum fyrirtækjum hefur lengi verið ágreiningsefni á meðal okkar. Á seinni árum hefur mjög verið slakað á um þá aðgát sem erlendri fjárfestingu hefur verið sýnd. Afstaða manna til erlendrar fjárfestingar markast m.a. af því hve vel eða að hverju marki þeir treysta Íslendingum sjálfum til að sjá fyrir sér. Það hefur reyndar aldrei verið hörgull á mönnum hér á landi sem hafa talið að Íslendingum væri ofviða að sjá um sig sjálfir og þeim bæri að leita til útlendinga um aðstoð við uppbyggingu atvinnulífsins og rétt væri að þeir rækju það í verulegum mæli.

Á seinni árum hefur átt sér stað mjög ör þróun í fiskirækt og fiskeldi. Ég er þeirrar skoðunar að þau mál hafi að hluta til farið úr böndum. Fiskeldisstöðvarnar eru mjög stórar hér, t.d. miklu stærri en Norðmenn treysta sér til að byggja í sínu landi. Það er tekin mjög mikil áhætta með þessum stóru stöðvum hér, bæði fjárhagsleg áhætta, áhætta vegna sóttvarna og einnig aukin mengunarhætta ef stöðvarnar eru mjög stórar. Þetta svið hefur verið opnað upp á gátt fyrir útlendingum. Íslendingar þurfa að vísu að eiga meiri hluta hlutafjár, en útlendingum er kleift að eiga 49% hlutafjár. Lánsféð er oftast erlent að verulegu leyti og útvegað af hinum erlendu aðilum þannig að hin virku yfirráð eru raunverulega komin úr höndum okkar Íslendinga.

Ég er ekki að gera lítið úr því að Íslendingar hafa á þessu sviði öðlast dýrmæta reynslu. Uppbyggingin hefði ekki orðið nærri því svona ör ef þessi leið hefði ekki verið farin. En hún er áhættusöm að mínum dómi og á henni eru þær skuggahliðar m.a. að flestir hentugustu staðirnir eru komnir undir fiskeldisstöðvar sem að meira og minna leyti eru í eigu útlendinga og undir virkum yfirráðum útlendinga. Það kann að verða í framtíðinni nokkuð þröngt um íslenska fiskeldismenn og fiskeldisfrömuði í sínu eigin landi ef þeir vilja fara á flot með alíslensk fyrirtæki.

Í fiskiðnaði og fiskveiðum höfum við verið betur á verði og það hefur sannarlega komið sér vel að varðveita yfirráð okkar höfuðatvinnuvegar í höndum Íslendinga sjálfra. Ég er þess fullviss að við hefðum aldrei unnið landhelgisdeiluna með þeim hætti sem við gerðum ef erlendir hagsmunir, t.d. enskir, enskt fjármagn hefði verið ráðandi í einhverjum verulegum mæli í íslenskum sjávarútvegi. Sama má segja um orkulindir okkar, fallvötnin. Við höfum staðið nokkuð fastir á því að varðveita þau í íslenskri eigu. Það er einnig mikilvægt. Í stóriðju höfum við nokkra reynslu af samstarfi við erlent fjármagn og eignarhaldi útlendinga. Sú reynsla er ekki sérlega glæsileg. Þessi fyrirtæki hafa keypt af okkur rafmagn og því miður oft undir framleiðslukostnaðarverði, þannig að við höfum orðið að borga með þeim viðskiptum á margan hátt. Ísland freistar útlendra fjármálajöfra að því er virðist og nú nýlega hafa þeir Wallenberg og Nicolin sýnt landinu áhuga og fengið fótfestu hér. Ég stóð á sínum tíma að lögum um þróunarfélag. Ég átti ekki von á því að það yrði að fáum misserum liðnum komið í slagtog með Wallenberg og Nicolin, þegar við gengum frá þeim lögum. Það eru fleiri fjármálajöfrar og jafnvel braskarafélög sem hafa komið auga á Ísland og þá möguleika sem hér finnast.

Varðandi þessa erlendu fjárfestingu sýnist sitt hverjum. Það er sjálfsagt að það komi fram að ýmsir líta erlenda fjárfestingu allt öðrum augum en ég. Sumir eru mér algerlega ósammála og sumir ósammála að hluta til. Ég tel að það sé mikilvægt að Íslendingar hafi ætíð virk yfirráð yfir atvinnulífi sínu og þess vegna beri að gaumgæfa ítarlega af hálfu stjórnvalda hvernig ástand er nú og marka ákveðna stefnu um það hvernig þessari þróun skuli stýrt í framtíðinni. Við erum ekki sammála um erlenda fjárfestingu, en um hitt eigum við allir að geta orðið sammála að mínum dómi, að um þessa starfsemi sé ekki óhætt annað en setja lög, beinlínis bráðnauðsynlegt að marka lagaramma, glöggva sig á því hvernig málum er háttað núna og marka starfseminni ákveðinn bás í efnahagslífi Íslendinga, víðan eða þröngan eftir atvikum.

Að lokinni þessari umræðu geri ég tillögu um að þessi till. verði send atvmn. til athugunar.