04.12.1986
Sameinað þing: 25. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1364 í B-deild Alþingistíðinda. (1204)

170. mál, fjármögnunarfyrirtæki

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Hv. 2. þm. Norðurl. v. hreyfir með þessari þáltill., sem hann hefur mælt fyrir, mikilsverðu máli um fjármögnunarfyrirtæki og að löggjöf verði sett um þau þannig að hægt sé að marka stefnu um að hve miklu leyti erlendum aðilum skuli heimiluð þátttaka í slíkri starfsemi hér á landi. Það má segja að þetta mál sé komið vonum seinna til umræðu í þinginu. Ég þakka hv. flm. fyrir frumkvæðið og þá er ég sérstaklega með í huga það sérstæða skref, sem stigið var á s.l. sumri og er vafalaust tilefni þess að till. þessi er flutt, þar sem var sú ákvörðun stjórnar Þróunarfélags Íslands að heimila erlendum auðjöfrum, sænskum, að eignast meiri hluta í fyrirtæki hér á landi gegnum fjármögnun. Þar var um að ræða fyrirtæki, ég held nafnið sé Silfurberg, án þess að ég vilji alveg fullyrða um heitið því að ég hef ekki gögn hér fyrir framan mig, og þar voru íslensk lög og lagafyrirmæli sniðgengin. Ja, með mesta velvilja mætti segja að það væru hagnýttar gloppur í íslenskri löggjöf til að heimila þessum sænsku auðkýfingum að eignast þarna meiri hluta í íslensku fyrirtæki. Því var svo hagað þannig að íslenskir stjórnarmenn fengju að vera í meiri hluta í fyrirtækinu þó kapítalið væri að meiri hluta erlent. Þetta var fyrsta fyrirtækið í rauninni sem spratt af Þróunarfélagi Íslands sem sett var á laggirnar hér eftir miklar stimpingar milli stjórnarflokkanna vorið 1985, hygg ég vera, og sannarlega býsna sérstætt að þá skyldi staðið að málum með þeim hætti sem þarna var gert undir forustu hæstv. forsrh. sem fer með málefni Þróunarfélagsins og ákvörðun stjórnarinnar auðvitað tekin í vitorði við hæstv. forsrh. Það er full ástæða til að ætla að núv. ríkisstjórn hyggist ganga sömu götu, hagnýta sér gloppur og smugur í íslenskri löggjöf til að smeygja hér erlendum aðilum fram hjá íslenskum lögum inn í íslenskan atvinnurekstur.

Þess má geta að þeir sænsku aðilar sem þarna eiga í hlut eru mjög áhrifamiklir í sænsku atvinnulífi og hafa einmitt náð þar undirtökum í mjög mörgum iðnfyrirtækjum í krafti minni hluta í gegnum keðju af fyrirtækjum, eiga meiri hluta í einu og láta það svo fjármagna dótturfyrirtæki og tekst þannig í krafti takmarkaðs fjármagns og minni hluta að ráða í reynd keðju af fyrirtækjum. Ég hygg að út af þessu umrædda fyrirtæki, sem Þróunarfélagið setti með klækjum á laggirnar s.l. sumar með blessun hæstv. forsrh., sé einmitt eitt slíkt dótturfyrirtæki til komið. Það er kennt við silfur. Ætli það heiti ekki Silfurlax. Þetta er rétt að hafa í huga þegar menn eru að ræða þau mál sem þessi þáltill. fjallar um.

Ég er alveg sammála áhyggjum flm. till. Það er fyllsta ástæða til þess að halda ekki opnum smugum í íslenskri löggjöf eða gloppum sem geri kleift að hleypa inn í íslenskan atvinnurekstur fram hjá Alþingi, fram hjá almennum fyrirmælum í lögum, erlendum aðilum. Það var svo sem líkt þeim sem þarna stóðu að máli að fara að hagnýta sér slíkar smugur eins og gert var.

Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að það væri skynsamlegt að kveða á um í ályktunartillögu Alþingis að haldið verði við þá stefnu ótvírætt að erlendir aðilar fái ekki heimild til að eiga meiri hluta í atvinnurekstri í íslenskum fyrirtækjum. Ég held að það sé alveg nauðsynlegt að samræma íslenska löggjöf í þessum efnum þannig að það gildi í reynd hið sama um allan atvinnurekstur. Og mín skoðun er sú að Íslendingar eigi, nema í undantekningartilfellum, að standa einir að atvinnurekstri í okkar landi.

Hv. 2. þm. Norðurl. v. rakti hvernig erlent kapítal er í rauninni búið að taka forustuna í uppbyggingu fiskeldis í landinu undanfarin ár. Þrátt fyrir takmarkanir um 49% eignaraðild að hámarki hafa þeir í reynd náð yfirtökunum í krafti lánsfjár og í krafti þekkingar sem þeim er ætlað að leggja til og íslensku aðilarnir eru að greiða stórfé fyrir margir hverjir. Það er mál út af fyrir sig hvernig innlendir aðilar láta erlend fyrirtæki blóðmjólka sig með sölu á svokallaðri tækniþekkingu á okurverði. Íslenska járnblendifélagið er dæmið um eina slíka tilhögun og skattareglurnar varðandi ÍSAL eru annað dæmi sem er allt á nýlendustigi er óhætt að fullyrða, hvernig þessir aðilar hirða arð og komast hjá skattgreiðslum í gegnum svokallaða sölu eða þóknun fyrir tækniþekkingu.

Það er full ástæða til þess við meðferð þessarar till. að fá fram á henni breytingu þar sem vilji Alþingis og stefnumörkun af hálfu þingsins kemur fram varðandi þá löggjöf sem ríkisstjórninni er falið að setja. Þar eigum við að sníða stakkinn mjög þröngt að því er varðar erlent áhættufjármagn eins og það er kallað.

Menn hafa verið þeirrar skoðunar nokkuð almennt, fulltrúar íslensks atvinnurekstrar líka, að gjalda varhug við að útlendingar komi inn í sjávarútveginn í landinu, undirstöðuatvinnuveg okkar. Lög mæla fyrir um það að útlendingar megi ekki eiga krónu í íslenskum fiskiskipum, í fiskibátum hérlendis. Það er sannarlega vel og ætti að vera til eftirbreytni varðandi aðra þætti atvinnulífs. Þarna er auðvitað alveg nauðsynlegt að samræmis sé gætt. Og við skulum hafa það í huga að þessir erlendu aðilar, sem kynnu að leggja fé sitt hér inn í atvinnurekstur eftir gildandi lögum eða gloppum í löggjöf, munu auðvitað með einum og öðrum hætti reyna að koma fótunum inn fyrir í sjávarútveginum fram hjá íslenskum lögum eftir að umsvif þeirra fara að vaxa og það er ekkert ýkja langt á milli okkar hefðbundna sjávarútvegs og þess fiskeldis sem hér er að ryðja sér braut með útlendinga að verulegu leyti í forustu. Þetta er stórmál og ég lýsi fylgi við þann málflutning sem kom hér fram hjá flm., vildi ganga þar enn lengra í ýmsum efnum og tel nauðsynlegt að við meðferð þessa máls í nefnd verði fjallað um hvaða vegarnesti ríkisstjórn fær í sambandi við fjármögnunarfyrirtæki og löggjöf varðandi þau.