04.12.1986
Sameinað þing: 25. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1366 í B-deild Alþingistíðinda. (1205)

170. mál, fjármögnunarfyrirtæki

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Hér liggur fyrir till. til þál. f;á hv. 2. þm. Norðurl. v. þar sem lagt er til að Alþingi feli ríkisstjórninni að láta undirbúa löggjöf um fjármögnunarfyrirtæki, einkum og sér í lagi með tilliti til þess að hve miklu leyti erlendum aðilum skuli heimiluð þátttaka í slíkri starfsemi hér á landi.

Ég tel að það sé afar skiljanlegt að þetta mál komi inn á hv. Alþingi til umræðu. Mér fannst þó síðasti ræðumaður tala nokkuð öðruvísi um þetta mál en ég held að almennt sé farið að gera, bæði í þessu þjóðfélagi og eins í okkar nágrannalöndum. Það er alveg ljóst að víðast hvar hafa menn haft skilning á því að það getur verið af hinu góða að fá erlent fjármagn til að byggja upp atvinnulíf og það fari yfir landamæri og sé jafnvel hollara að það gerist í því formi að áhættufjármagn geti borist yfir landamæri fremur en þjóðin kæfi sig í erlendum skuldum eins og hv. síðasti ræðumaður stóð fyrir þegar hann sat í ríkisstjórn á sínum tíma.

Það er einu sinni þannig að sumir telja að þeir hafi ávallt vit á öllum málum betur en allir aðrir og síðasti ræðumaður er einn þeirra. Hann sagði hér í ræðustól að menn hefðu leikið af sér í samningum og tiltók tvo samninga, sem Alþingi Íslendinga stóð að, annars vegar um ÍSAL og hins vegar Íslenska járnblendifélagið. Ég leyfi mér að rifja upp að það var forveri hv. síðasta ræðumanns, einn þeirra, þm. og ráðherra, Magnús Kjartansson, sem stóð í því á sínum tíma að semja við Union Carbide um járnblendiverksmiðju við Hvalfjörð. Hann hafði skilning á því að semja við útlendinga en það hefur hv. síðasti ræðumaður aldrei haft.

Ég vil rifja það upp fyrir hv. þm. að fyrir nokkrum árum flutti ungur varaþm. Framsfl. þáltill. og enn fremur lagafrv. sem gengu út á að örva það að erlent áhættufjármagn gæti komið til Íslands. (Gripið fram í: Hann var kominn til útlanda þá.) Sá maður fékk samþykkta þáltill. og nú stendur yfir vinna á vegum viðskrn. þar sem þessi ágæti maður, Björn Líndal, hefur unnið að því að safna gögnum og gera tillögur um það hvernig þetta megi gerast og ég fagna því að sjálfsögðu. Þetta samþykkti hv. Alþingi, enda hefur Alþingi haft þá skoðun að það þurfi að semja heildarlöggjöf um þessi mál og koma málum þannig fyrir að erlent áhættufjármagn megi notast í íslensku atvinnulífi.

Björn Líndal og Hreinn Loftsson, sem með honum starfar, vinna að þessu verkefni með þeim hætti að þeir eru að safna saman upplýsingum um íslenska löggjöf, um löggjöf í nágrannalöndunum og síðan verður það auðvitað mat hæstv. ríkisstjórnar hvort fram kemur lagafrv. En þessi þáltill. sem hér liggur fyrir fjallar fyrst og fremst eða eingöngu um fjármögnunar- eða fjármálafyrirtækin. Það eru starfandi þrjú fyrirtæki hér á landi sem eru nokkuð stór í sniðum þar sem erlent fjármagn kemur nærri. Eitt er á vegum Sambandsins, það heitir Lindin. Þar ræður ríkjum m.a. Þórður Ingvi Guðmundsson, háttsettur maður hjá Framsfl. Leysing er fyrirtæki þar sem Helgi Bergs ræður ríkjum, það er sameignarfyrirtæki, reyndar hlutafélag margra aðila, og loks er það Glitnir sem Iðnaðarbankinn á aðild að og þar er enn fremur um erlent fjármagn að ræða. Ég tel að þessi fyrirtæki hafi gert margt til bóta og óska eftir því, þegar hv. atvmn. fær þetta mál til umsagnar, að það verði kannað hve mikið fjármagn hafi t.d. runnið til Norðurl. v. frá þessum fyrirtækjum sem hér eru nefnd.

Ég held að æskilegt sé að hafa erlenda aðila með, það geti verið til bóta, það geti verið til bóta að láta þá taka áhættu með okkur fremur en að þeir hafi ávallt sitt á þurru þegar við tökum lán hjá þeim. Hins vegar verðum við að gæta okkur á því að þeir fari ekki inn í okkar auðlindir allar eins og t.d. í fiskveiðar eða í orkuna sjálfa. Þar þurfum við að gæta okkar sérstaklega og ég tek undir það með þeim sem þau sjónarmið hafa viðrað.

Varðandi það hvort löggjöf um fjármögnunarfyrirtækin þurfi að vera með sama hætti og bankalöggjöf á Íslandi held ég að þess þurfi varla. Norðmenn hafa farið þá leið, hafa mjög flókna löggjöf um fjármögnunarfyrirtækin, en þess ber að geta að bankalöggjöfin er fyrst og fremst neytendalöggjöf fyrir almenning í landinu en þeir sem versla við fjármögnunarfyrirtæki eru yfirleitt ýmiss konar kaupsýslu- og athafnamenn sem vita nákvæmlega hvað þeir eru að gera. Hitt ber þó að taka fram að verðlagseftirlit og Seðlabanki ættu að gefa miklu betri upplýsingar en þessir aðilar gera í dag um þessa starfsemi.

Ég vil enn fremur, herra forseti, minna á það að hæstv. forsrh. lýsti því yfir - reyndar ekki hér á landi en í einni af sínum opinberu heimsóknum nýlega ég man ekki hvar það var, ég held að það hafi verið í Svíþjóð frekar en í Kína - að Íslendingar ætluðu sér að opna landið fremur en nú er fyrir erlendu fjármagni og nú þyrfti að endurskoða alla löggjöf þar að lútandi. Að því er unnið. (JBH: Hann hefur orðið fyrir áhrifum frá félaga Deng.) Það má vel vera, hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson.

Hér á landi hafa starfað fyrirtæki í eigu útlendinga, það eru tölvufélög, dótturfyrirtæki. Það gerist í gegnum löggjöfina um verslunaratvinnu, fjármálafyrirtæki sem ég hef nefnt og fiskeldisfyrirtæki sem hv. flm. gerði talsvert að umtalsefni.

Það er algengur misskilningur, sem oftast kemur úr ákveðnu horni, að útlendingar standi í biðröðum eftir því að komast með sitt fjármagn inn í íslenska atvinnuvegi. Þvert á móti held ég að við þurfum að vinna talsvert í því að fá þá til þess að koma með áhættufjármagn inn í þá atvinnuvegi sem við viljum byggja upp til þess að við getum náð meiri hagvexti og betri lífskjörum hér á landi. Það er nægt lánsfjármagn í landinu, nægt lánsfjármagn, en það vantar eigið fjármagn í fyrirtækin og það er einmitt það sem þarf að gera og þess vegna þarf að örva erlenda fjárfestingu í landinu og um það þurfum við reglur. Þær reglur verða auðvitað til og það er verið að vinna að því starfi eins og hv. flm. þessarar tillögu veit mætavel. Og ég tel að hv. nefnd, sem fær þetta mál til meðferðar, eigi að bíða eftir að því starfi ljúki, því lýkur í þessum mánuði, og síðan eigi ríkisstjórnin, sem við styðjum báðir, ég og hv. flm., 2. þm. Norðurl. v., að fá hæstv. viðskrh. til þess að flytja hér inn í þingið heildartillögur um það hvernig fara eigi með þessi mál. Ekki eingöngu fjármögnunarfyrirtækin, heldur alla fjárfestingu sem erlendir aðilar vilja taka þátt í. Þetta er stórt mál og undir það vil ég taka sé það meining hv. flm. tillögunnar. Andi nýrra laga verður að vera jákvæður og til þess ætlaður, eða lögin, að örva erlenda fjárfestingu í landinu innan þeirra reglna sem við viljum setja.

Herra forseti. Ég sá ástæðu til þess að rifja það upp að það var varaþm. Framsfl. sem flutti hér inn í þingið tillögur um þetta efni. Það er unnið að tillögu á grundvelli þeirrar þál. sem þá var samþykkt og ég treysti því að hv. flm., 2. þm. Norðurl. v., standi með mér og öðrum stjórnarliðum að því að fá fram lagafrv. þar sem um er að ræða heildarreglur um þessi efni og þar skulum við standa saman og biðja hæstv. viðskrh. að leggja það frv. fram.