04.12.1986
Sameinað þing: 25. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1371 í B-deild Alþingistíðinda. (1208)

170. mál, fjármögnunarfyrirtæki

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Ég skal vera mjög stuttorður. Mig langar aðeins til þess að benda hv. 2. þm. Norðurl. v. á nokkur undirstöðuatriði sem ég held að sé kominn tími til að hann skilji.

Í fyrsta lagi þetta: Ástæðan fyrir því að svokallað áhættufjármagn, sem er hugtak notað yfir fjármagn sem t.d. er hlutafé eða getur tapast fyrst í viðkomandi félögum, rentar sig betur en annað fjármagn er sú áhætta sem við þetta fjármagn er bundin. Það er þess vegna alltaf munur á vöxtum eða ávöxtunarkröfu slíks fjármagns og annars fjármagns. Þetta þekkja allir sem hafa komið nálægt eðlilegum banka- og fjármögnunarviðskiptum. Ástæðan er sú að sumt af þessu fjármagni tapast. Það er þess vegna ekkert óeðlilegt við það að áhættufjármagn eigi að renta sig betur því að það geta komið áföll sem geta orðið þegar fyrirtæki fara á hausinn og þá tapast þetta fjármagn alveg. Það þekkja ýmsir þeir sem hafa átt fjármuni í fyrirtækjum og hafa glatað þeim vegna þess að fyrirtæki hafa orðið gjaldþrota. Þetta er auðvitað svo augljóst sem mest getur verið, en mér fannst hv. 2. þm. ekki alveg hafa gert sér það fyllilega ljóst, en vonandi - ja, mér sýnist það hef ég bætt úr því nú.

Ég skal ekki um það dæma hvort vasapeningar mínir renti sig betur eða verr en t.d. vasapeningar hv. 2. þm. Norðurl. v. Ég hygg að þingfararkaup hans sé vasapeningar því að hann er stórbóndi norður í landi og býr þar góðu búi og ég hygg að það standi undir honum og fjölskyldu hans, annað séu vasapeningar. Og ég efast ekki um, ef hann er líkur frændum sínum fyrir norðan, að hann sé maður til þess að ávaxta það fjármagn vel.

Að lokum þetta. Hæstv. forsrh. Steingrímur Hermannsson hefur lýst því yfir að það þurfi að samræma reglur um erlent fjármagn hér á landi, bæði er varðar beina fjárfestingu og fjármagn sem kemur hér í gegnum fjármögnunarfyrirtæki. Þessa yfirlýsingu styð ég eindregið. Ég styð einnig þá vinnu sem fer fram á grundvelli þáltill. framsóknarmannsins Björns Líndals. Ég veit að henni er að ljúka og ég tel í framhaldi af því eðlilegt að hæstv. ríkisstjórn hlutist til um það að lagt verði fram á Alþingi frv. um þessi efni og mæli með því að þær hugmyndir sem koma fram í þessari þáltill. hv. 2. þm. Norðurl. v. verði samferða þeirri vinnu, enda er hér um náskyld mál að ræða. Ég vonast að sjálfsögðu til þess að hv. 2. þm. Norðurl. v. styðji hæstv. forsrh. og sjónarmið hans jafndyggilega í þessu máli - ég ætlaði að segja og öðrum, þá mundi ég eftir því að hann gerir það ekki. Ég get orðað þetta öðruvísi: Hann styðji a.m.k. sjónarmið hæstv. forsrh. í þessu máli jafnvel og ég geri. Það er nú alveg lágmark að formaður þingflokks framsóknarmanna geri það.