04.12.1986
Sameinað þing: 25. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1374 í B-deild Alþingistíðinda. (1210)

170. mál, fjármögnunarfyrirtæki

Flm. (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég vil gera örstutta athugasemd. Ég gleymdi að svara hv. þm. Jóni Baldvini Hannibalssyni. Ég er ekki hlynntur þátttöku erlendra bankastofnana í íslensku bankakerfi og ég er ósammála röksemdafærslu hv. þm. Jóns Baldvins Hannibalssonar og Gunnars G. Schram um það efni.

Hv. 2. þm. Reykv., Friðrik Sophusson, sagði mér nú svo sem ekkert nýtt. Hér er um gróðavonarfjármagn að ræða og það er ekki sent hingað til að taka áhættu. Það er sent hingað til þess að ávaxtast og ávaxtast hraðar en með öðru móti.

Ég get ekki annað en glaðst yfir hollustuyfirlýsingum hv. 2. þm. Reykv. Friðriks Sophussonar við forsrh. okkar. Það var nú tími til kominn að hv. þm. færi að láta í ljósi aðdáun sína á þeim manni.

Ég held að það sé engin ástæða til þess að hnýta till. mína við vinnu Björns Líndals og Hreins Loftssonar. Mín till. er sjálfstæð og ber að skoðast sem slík en ekki sem einhver partur af því sviði sem þeir eru að fjalla um Björn Líndal og Hreinn Loftsson. Svo á ég heldur ekki von á því að það sé nú alveg að fæðast frv. frá þeirra hendi, hvað þá að það fái framgang hér á þinginu í vetur.

Ég er sammála Gunnari G. Schram um það að erlend lán eru dýr og geta verið hættuleg ef þau keyra úr hófi. Þess vegna þarf að hafa mikla stjórn og mikla aðgát við lántökur erlendis. Þó held ég að það sé skárri leið en það að selja frumburðarréttinn. Ég held að við eigum að kappkosta það Íslendingar að vera hér sjálfseignarbændur á landi okkar, fremur en leiguliðar útlendinga eða starfsmenn þeirra. Ég held að við eigum að kappkosta það fremur að vera húsbændur en hjú heima hjá okkur sjálfum.

Umræðu (atkvæðagreiðslu) frestað.