04.12.1986
Sameinað þing: 25. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1376 í B-deild Alþingistíðinda. (1213)

Stjórn eggjaframleiðslu

Landbúnaðarráðherra (Jón Helgason):

Herra forseti. Það mun vera orðið langt síðan að fram fóru að koma hugmyndir og óskir um að stjórna eggjaframleiðslu eins og fleiri búgreinum. Ég man ekki hversu margar tillögur mér hafa borist og viðtöl ég hef átt af þeim sökum.

Á s.l. ári voru samþykkt ný lög um framleiðslu, verðlagningu og sölu búvara. Þar gerði Alþingi ráð fyrir heimild til þess að slík skipan gæti verið tekin upp. Ég hef jafnan sagt að það yrði að fara eftir vilja framleiðendanna sjálfra. Þeim er veittur þessi möguleiki í gildandi lögum og ef þeir óskuðu eftir því þá mundi ég taka það til athugunar. Það er rétt að þetta hefur verið í meiri umræðu nú að undanförnu en áður. Ástæðan fyrir þessu er vissulega ekki sú að þarna eigi að leggja í aukinn kostnað, meiri birgðir, heldur er það markmiðið að reyna að gera framleiðsluna hagkvæmari.

Það hefur t.d. komið fram hversu mikill sparnaður er talinn hafa orðið í útgerð hér á landi við það að koma kvótakerfinu á vegna betri rekstrar - það er eitt glöggt dæmi um það hvað hægt er að gera með því að hafa skynsmlegar aðferðir - og að það sé betri leið en að leggja í mikinn kostnað, bæði í fjárfestingu og framleiðslu, sem ekki skilar sér og síðan verður það að ráðast hversu margir verða gjaldþrota. Ég hika ekki við að segja að ég tel að sú leið sé allt of dýr fyrir þjóðfélagið. Ég held að þjóðin hafi nú á þessu ári fengið reynslu af því hversu dýrt það er að láta gjaldþrot ráða því. Því vitanlega hækkar svo verðið þegar nægilega margir eru farnir á hausinn og það eru neytendur sem verða þá að borga raunverulega allan kostnaðinn á einn eða annan hátt. Því hef ég talið það skynsamlegt að fara þessa leið. En eins og ég sagði: því aðeins að framleiðendur sjálfir séu sammála um það að því marki sem lögin kveða á um.

Ég mun skoða rækilega þau gögn sem hafa verið að berast til ráðuneytisins núna og athuga hvort þar eru uppfyllt þau skilyrði sem lögin tiltaka og að því loknu mun ég taka afstöðu til málsins. (KSG: Er samstaða í ríkisstjórninni?) Samkvæmt lögum hefur landbrh. þessa heimild. Alþingi hefur falið honum það að framkvæma þessi lög. Ég hef ekki borið þetta mál upp í ríkisstjórninni enn þá, það er ekki komið á það stig, en að sjálfsögðu mun ég gera það áður en málið verður endanlega afgreitt.