04.12.1986
Sameinað þing: 25. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1376 í B-deild Alþingistíðinda. (1214)

Stjórn eggjaframleiðslu

Stefán Benediktsson:

Herra forseti. Það eru líklega seinustu forvöð að ræða þetta mál hér á Alþingi, ef marka má orð hæstv. ráðh., því greinilegt er að þetta mál siglir nú hraðbyri í það að komið verði á kvótakerfi í eggjaframleiðslu hér á landi og það með því að maður hefur fregnað að þeir aðilar sem áhuga hafa á þessu kvótakerfi telja sig þegar hafa uppfyllt þau skilyrði sem lögin margfrægu frá því í fyrra gera ráð fyrir. Þá er ráðherra ekkert að vanbúnaði að taka þessa menn upp á sína arma og flytja þá inn í það allsherjar kvótakerfi landbúnaðarins sem við þegar þekkjum.

Auðvitað er markmiðið hér sem endranær í yfir 60 eða 70 ára sögu stjórnunar landbúnaðarframleiðslu hér á landi að gera framleiðsluna hagkvæmari. Maður spyr sig þá bara: Hvers vegna dettur mönnum það enn eina ferðina í hug? Hvers vegna dettur mönnum það raunverulega í hug enn þann dag í dag að þessu markmiði sé hægt að ná með þeim vinnubrögðum sem menn hafa beitt núna um áratuga skeið og engum árangri hafa skilað öðrum en sívaxandi örbirgð bænda? Og alls ekki því sem það átti að skila, þ.e. lækkuðu verði á framleiðsluvörum bænda til neytenda. Aðalvandinn sem við búum við í dag er að landbúnaðarvörurnar sem við eigum að neyta eru einfaldlega of dýrar og þess vegna neytir fólk einhvers annars.

Herra forseti. Ég veit að maður talar hér innan ákveðinna tímamarka en ég ætla þó að leyfa mér í lok máls míns í fyrsta lagi að skora á ráðherra að sýna okkur þær tölur sem hann fullyrti að væru til sem sönnuðu árangur kvótakerfisins til lækkunar útgerðarkostnaðar. Mér finnst það ansi fífldjarft að halda því fram hér í ræðustól að slíkar tölur séu fyrir hendi, því þær eru alls ekki fyrir hendi, og hitt að held ég líka að sé röng fullyrðing að það sé dýrara fyrir þjóðfélagið að láta nokkur eggjabú fara á hausinn en að viðhalda rekstri þeirra með einhverjum hætti. Við eigum velferðarkerfi sem getur tekið við því fólki sem verður fyrir skakkaföllum af því að bú þeirra fara á hausinn. En það velferðarkerfi á eingöngu að vera fyrir fólk en ekki fyrir fyrirtæki.