04.12.1986
Sameinað þing: 25. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1379 í B-deild Alþingistíðinda. (1218)

Stjórn eggjaframleiðslu

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Formsins vegna er það eðlilegt að frummælandi beini spurningum sínum til hæstv. landbrh., oddvita framsóknarkerfisins í landbúnaðareinokun. En það er bara formsins vegna, vegna þess að það er þarflaust að spyrja. Svörin eru gefin fyrir fram. Það er markmið Framsfl. að koma ekki aðeins landbúnaðinum heldur sjávarútveginum líka undir miðstýrt einokunarkerfi og um það þarf ekkert að deila. Orð hæstv. ráðh. báru því vitni.

Í raun og veru á að beina þessum spurningum til formanns Sjálfstfl., 1. þm. Suðurl., og tit þeirra sjálfstæðismanna. Spurningin er þessi: Ætlið þið, herrar mínir, hv. alþm., sjálfstæðismenn, að láta þetta líðast? Eða ætlið þið að sjá til þess að þessi aðför að þessum geira landbúnaðarframleiðslu, sem er stórt neytendamál, þessi aðför til að koma þessari framleiðslu undir einokunarkerfi framsóknarmanna, ætlið þið að láta líðast að hún takist? Má treysta því að þið fylgið eftir orðum ykkar hér og sjáið til þess að þetta gerist ekki? Því nú duga ekki orð, nú spyrjum við um athafnir.