04.12.1986
Sameinað þing: 25. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1379 í B-deild Alþingistíðinda. (1219)

Stjórn eggjaframleiðslu

Karl Steinar Guðnason:

Herra forseti. Það virðist staðfest að það er vilji og ætlun landbrh. að setja kvóta á þessa framleiðslu þrátt fyrir mótmæli verkalýðssamtakanna, þrátt fyrir mótmæli neytendasamtakanna sem hafa mjög öflugt mótmælt þessu og bent á það að í öllum tilvikum þar sem svona er farið að þá hefur verðlag hækkað og útgjöld ríkisins hækkað. Ég mótmæli þessum vinnubrögðum mjög eindregið og vænti þess ef landbrh. ætlar að gera þetta, sem hann segist reyndar ætla að gera, að þá verði aðrir í ríkisstjórninni til þess að taka fram fyrir hendurnar á honum.

Ég minni á að það velferðarkerfi sem íslensk alþýða hefur komið á hér í þjóðfélaginu er fyrir fólkið en ekki fyrir fyrirtækin og ég vænti þess að aðrir í ríkisstjórninni komi í veg fyrir það að komið verði á velferðarkerfi fyrirtækja í eggjaframleiðslu þar sem einstaklingar geta makað krókinn en aðrir dottið upp fyrir.

Ég vil enda þetta með þessum áskorunum og vil minna á það að þessar stundirnar er verið að reyna að gera kjarasamning þar sem menn eru að tala um það að lækka verðlag eða halda verðlagi stöðugu. Á að rétta aðilum vinnumarkaðarins þennan kinnhest sem hér er á ferðinni? Ég spyr.