04.12.1986
Sameinað þing: 25. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1381 í B-deild Alþingistíðinda. (1221)

178. mál, könnun á tannlæknaþjónustu

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Á síðustu dögum hafa orðið nokkrar umræður í fjölmiðlum um heildartekjur tannlækna og kostnað við tannlæknaþjónustu landsmanna í framhaldi af svari fjmrh. við fsp. minni um tekjur og skatta tannlækna. Ýmsar spurningar hafa vaknað í framhaldi af þessu svari ráðherra, sem og vegna upplýsinga sem stjórn Tannlæknafélagsins hefur látið frá sér fara um tekjur tannlækna og heildarkostnað vegna tannlækninga. Auk þess sem benda má á ýmsar mótsagnir í því sem fram hefur komið frá tannlæknum sjálfum, sem og að upplýsingar frá þeim um heildartannlæknakostnað falla ekki saman við heildarrekstrartekjur sem fram koma á skattframtölum.

Þá hafa ýmsir leitt að því líkur að töluverð fjárhæð af því sem inn kemur vegna tannlæknakostnaðar skili sér ekki til skatts. Í Tímanum í dag er þeirri spurningu m.a. slegið fram á forsíðu hvort 450 millj. vanti í skattframtöl tannlækna.

Ég hef þennan inngang að máli mínu nú þegar ég mæli fyrir till. til þál. á þskj. 188 um könnun á tannlæknaþjónustu en upplýsingar sem fá má út úr slíkri könnun, sem hér er gert ráð fyrir, gætu vissulega gefið góða vísbendingu um hver raunverulegur kostnaður er við tannlæknaþjónustu landsmanna og þá einnig hvort rétt sé að verulegar fjárhæðir skili sér ekki til skatts hjá tannlæknum.

Eins og fram kemur í grg. með till. er markmiðið með þessari könnun að fá fram hvað áætla megi að hinir einstöku aldurshópar í þjóðfélaginu sæki sér oft tannlæknaþjónustu, sem og hver útgjöld fjölskyldna og einstaklinga eru af þeim sökum. Ljóst er að slík könnun gæti haft margvíslegt gildi. Má þar nefna hvort einstakir aldurshópar eða þjóðfélagshópar sæki síður tannlæknaþjónustu en aðrir og þá hvaða áhrif það hefur að almannatryggingakerfið tekur ekki þátt í tannlæknakostnaði fyrir fólk á aldrinum 17-67 ára. Á þeim upplýsingum sem fá mætti úr þessari könnun mætti líka byggja hvaða leiðir eru vænlegastar til að auka tannvernd og fyrirbyggjandi aðgerðir og þar með að draga úr

tannlæknakostnaði. Sömuleiðis gætu upplýsingar úr þessari könnun auðveldað alla ákvarðanatöku um frekari þátttöku trygginganna í tannlæknakostnaði, sem og um mótun stefnu í tannlækningum og tannlæknaþjónustu almennt.

Þær upplýsingar sem fram komu í svari ráðherra um heildarrekstrartekjur tannlækna gera þessa könnun sem ég mæli fyrir enn brýnni því brýnt er að leita allra leiða til að fá fram hver raunverulegur tannlæknakostnaður er á landinu. - Ég sé að hæstv. fjmrh. er hér genginn í salinn. - Við ræðum hér till. til þál. um könnun á tannlæknaþjónustu en þeirri till. tengist að nokkru leyti svar sem hæstv. fjmrh. gaf hér á Alþingi fyrir nokkru um tekjur og skatta tannlækna þannig að ég taldi æskilegt að hæstv. fjmrh. yrði viðstaddur þessar umræður og svaraði þá einni eða tveimur spurningum sem fram koma hjá mér um þetta mál.

Ég tel brýnt að þessi könnun fari fram og það verði leitað allra leiða til að fá fram hver raunverulegur tannlæknakostnaður er hér á landi, ekki einungis vegna þeirra atriða sem ég áður nefndi og snerta stefnu hins opinbera í tannlækningum og tannlæknaþjónustu almennt, heldur verði vart við annað unað, hvorki af tannlæknastéttinni né stjórnvöldum, en að hið rétta komi í ljós bæði að því er snertir heildartannlæknakostnað sem og hvort um skattaundandrátt sé að ræða. Í slíkum málum er nauðsynlegt að hið rétta komi í ljós þannig að þeir í stéttinni sem greiða sína skatta liggi ekki undir ámæli um undandrátt sem og að á þeim málum verði tekið ef í ljós kemur að menn standa ekki í skilum með tekjur sínar til skatts. Þær upplýsingar sem hingað til hafa komið fram um heildartannlæknakostnað og tekjur tannlækna gefa vissulega einar og sér nægjanlegt tilefni til að þessi mál verði skoðuð ofan í kjölinn og að Alþingi beri skylda til að stuðla að því að sú könnun á tannlæknaþjónustu sem ég hér mæli fyrir verði framkvæmd.

Því til viðbótar kemur einnig gildi slíkrar könnunar við mótun stefnu í tannlæknaþjónustu almennt. Nokkur atriði skulu tilgreind sem fram hafa komið. Miklar mótsagnir hafa komið fram hjá tannlæknum um hvert sé hlutfall tryggðra hópa í tannlæknaverkum og heildarkostnaði tannlækninga. Í fyrstu var haldið fram að hlutur tryggðra væri 10-15%. Skömmu síðar hélt stjórn Tannlæknafélagsins því fram að hlutur tryggðra væri 50% og nú síðast gefa upplýsingar, sem fram hafa komið á Alþingi, til kynna að hlutur tryggðra sé 70%. Hér er um lykilatriði að ræða þegar leggja á mat á hver heildartannlæknakostnaður er á landinu. Staðreyndir sem hægt er að ganga út frá eru greiðslur hins opinbera vegna tryggðra hópa sem er þekkt stærð. Því segir það sig sjálft að ef meta á heildartannlæknakostnað út frá þeirri forsendu er lykilatriði að vita hvert sé hlutfall tryggðra í heildartannlæknakostnaði. Svo að ekki sé meira sagt eru hlutföll sem tannlæknar gefa sjálfir mjög á reiki í þessu efni og sveiflurnar stórar þegar ýmist er haldið fram 10-15% eða 50% hlut tryggðra en þetta er þýðingarmikið atriði í málinu, reyndar lykilatriði til að komast til botns í hver er raunverulegur tannlæknakostnaður á landinu. Sú könnun sem ég hér mæli fyrir að fram fari gæti gefið þýðingarmiklar upplýsingar um þetta mikilvæga atriði málsins.

Í öðru lagi hefur stjórn Tannlæknafélagsins haldið því fram að heildartannlæknakostnaður hafi verið 746 millj. á árinu 1985, en samkvæmt skattskýrslum eru heildarrekstrartekjur tannlækna 530 millj. á árinu 1985. Hér skeikar 216 millj. kr. og maður spyr: Hvað veldur? Tannlæknar gefa sjálfir upp að heildarrekstrarkostnaður á tannlæknastofu sé um 3 millj. Á sama tíma halda þeir fram, eins og í Morgunblaðinu 14. nóv. s.l., að heildarveltan sé að meðaltali um 3 millj. Samkvæmt þessari forsendu er litið eftir í laun til tannlækna.

Skattaframtöl gefa til kynna að laun tannlækna á árinu 1985 séu um 63 þús. kr. Ef reiknað er einnig með uppgefnum rekstrarhagnaði á skattframtölum eru mánaðartekjur á árinu 1985 um 71 þús. kr. Í Morgunblaðinu 14. nóv. hefur stjórn Tannlæknafélagsins haldið því fram að laun tannlækna á árinu 1985 hafi verið rúmlega 108 þúsund kr. á mánuði. Hér munar einnig miklu á því sem stjórn Tannlæknafélagsins heldur fram um laun tannlækna á því ári sem fram kemur í skattframtölum.

Í þessari grein stjórnar Tannlæknafélagsins í Morgunblaðinu má einnig sjá að tannlæknar sem vinna við tannréttingar bera mun meira úr býtum, en samkvæmt því sem þeir gefa upp er um ellefu tannlækna að ræða sem vinna við tannréttingar sem hafa 88 millj. tekjur á árinu 1985 vegna tryggðra hópa eða um 8 millj. á hvern tannlækni.

Í svari fjmrh. kemur fram að nettóeignir tannlækna hækkuðu um 1100 þús. kr. á hvern tannlækni að meðaltali á árinu 1985, en launin hækkuðu að meðaltali milli þessara ára um rúm 200 þús. kr. á hvern tannlækni. Og því spyr maður: Hvernig getur eignaaukning á hvern tannlækni að meðaltali verið 1100 þús. meðan launin samkvæmt skattframtölum hækka einungis um liðlega 200 þús. kr.?

Það er ljóst að skattgreiðslur tannlækna eru mjög misjafnar ef marka má það sem fram kom í Þjóðviljanum í ágúst, en þar er gerð úttekt á ellefu tannlæknum. Þar er kona ein, tannlæknir, með hæstar tekjur og skatta. Þessi úttekt sýnir að tekjur hennar hafa verið um 5-6 millj. og hún greiðir 2,5 millj. kr. í tekjuskatt. Hún hefur tífalt meiri tekjur en næsti tannlæknir sem er gefinn upp og hennar skattar samtals eru 2,5 millj. en sá lægsti greiðir 148 þús. Hér er um mjög mikinn mismun að ræða og reyndar má segja óeðlilega mikinn mismun í einni og sömu stéttinni.

Og enn frekari spurningar vakna: Hvernig stendur á því að samkvæmt skattframtölum má sjá að heildartannlæknakostnaður á hvern einstakling sem tryggingarnar greiða fyrir nálgast 5500 kr. á ári en rúmlega 1000 kr. fyrir hópinn sem ekkert fær greitt úr tryggingunum, þ.e. hópinn 17-67 ára sem telur 146 þús. manns. Hér er þó um að ræða hópinn sem helst þarf á að halda dýrum viðgerðum, gullfyllingum, krónum og brúaraðgerðum.

Fram hafa að vísu komið og komist í mínar hendur síðustu daga tannlæknareikningar frá fólki sem sýnir að tannlæknakostnaður er mun meiri en hér kemur fram. Hér eru þrír reikningar upp á nærri 30 þús. í þrjú skipti fyrir 4 eða 5 ára barn, venjulegar tannviðgerðir, sem þýðir um 10 þús. kr. á hverja klukkustund. Hér hef ég líka fengið frá konu möppu með hennar sögu um tannlækningar. Hún greiddi 378 þús. fyrir 37 skipti hjá tannlæknum sem einnig þýðir um 10 þús. kr. á hvert skipti.

Og fleiri spurningum er ósvarað. Í Danmörku eiga allir landsmenn kost á tannlækningum almannatrygginga. Almennt er þátttaka trygginganna 50% fyrir þær tannviðgerðir sem þær á annað borð taka þátt í. Það gefur auga leið að tekjur sem danskir tannlæknar hafa vegna tryggðra hópa ættu þá að vera nokkru hærra hlutfall af þeirra heildartekjum en íslenskra tannlækna þar sem almannatryggingakerfið hér á landi tekur mjög takmarkaðan þátt í tannlæknakostnaði. Samt hafa danskir tannlæknar einungis 30% af sínum tekjum vegna tryggðra hópa meðan íslenskir tannlæknar virðast hafa um 70% af tekjum sínum vegna tryggðra hópa, en 30% vegna þeirra sem utan tryggingakerfisins standa ef marka má skattaframtöl þeirra.

Annað er einnig athyglisvert þegar rætt er um þá niðurstöðu sem nú er fram komin úr skattframtölum tannlækna. Við skulum ekki gleyma einu mikilvægu atriði. Sé um verulegan skattaundandrátt að ræða hjá tannlæknum er sökin ekki öll hjá tannlæknum. Við verðum að athuga að það skattakerfi sem við búum við opnar fyrir alls konar smugur og leiðir til þess að stunda „lögleg skattsvik“. Ég nefni sem dæmi viðmiðunarreglur þær sem ríkisskattstjóri notar til ákvörðunar reiknaðs endurgjalds. Þessar reiknuðu tekjur ríkisskattstjóra eru síðan notaðar til að reikna sjálfstæðum atvinnurekendum skatt. Hvernig voru þessar viðmiðunarreglur t.d. árið 1985, þ.e. árið sem á skattskýrslum kemur fram að heildartannlæknakostnaður var 530 millj. kr.? Þar kemur fram að þessi reiknuðu laun ríkisskattstjóra voru frá 176 þús. kr. í hæst 528 þús. kr. Og hverjir féllu undir þessar hæstu viðmiðunartekjur sem skattstjóri reiknar sjálfstæðum atvinnurekendum? Jú, ég vitna orðrétt í viðmiðunarreglur ríkisskattstjóra, með leyfi forseta, en þar segir:

„Sérmenntaðir menn sem vinna við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi í sérgrein sinni. Undir þennan flokk falla t.d. lyfjafræðingar, læknar, lögfræðingar, löggiltir endurskoðendur, ráðgjafarsérfræðingar hvers konar, tannlæknar, verkfræðingar og fleira.“

Hér er um að ræða tekjur sem eru áætlaðar 528 þús. kr. á árinu 1985. Og þegar þessar 528 þús. kr. eru bornar saman við upplýsingar sem fram koma í svari skattstjóra nú út af sköttum tannlækna kemur í ljós eftirfarandi: Á öllum skattframtölum tannlækna voru einungis gefnar upp í heild 31 millj. kr. í launatekjur, en það er í þeim dálki skattframtala sem launþegar fylla út þegar þeir gefa upp sínar tekjur. Í þennan reit skattframtalanna gefa tannlæknar upp að meðaltali um 14 þús. kr. í árstekjur árið 1985 vegna tekna árið 1984. Þegar litið er í reitinn reiknuð laun við eigin atvinnurekstur er aftur á móti að finna töluna 127 millj. sem gefur að meðaltali hverjum tannlækni í árstekjur rúmar 600 þús. kr. á því ári. Þessi tala er nálægt því að vera sú viðmiðunartala sem ríkisskattstjóri notar til að ákvarða tannlæknum tekjur sem á árinu 1985 voru samkvæmt reglum skattstjóra 528 þús. kr. Sé um undandrátt að ræða hjá tannlæknum skulum við ekki gleyma því að þá má einnig rekja það til þess að skattalögin eins og þau eru nú úr garði gerð veita sjálfstæðum atvinnurekendum ýmsar smugur.

Þá er kannske rétt að minnast á það í leiðinni að það kom fram skýrsla, eins og allir muna, á þingi nýlega eða fyrir ári þar sem fram kom að undandráttur frá skatti var áætlaður um 6,5 milljarðar kr. ef ég man rétt. Við erum hér að tala um aðeins eina stétt. Ef gerð yrði sambærileg úttekt á fleiri stéttum hér á landi og hér hefur verið gerð á tannlæknum er ég viss um að ekki mun alltaf koma heim og saman það sem áætlað er að ýmsar stéttir hafi í tekjur og það sem gefið er upp á skattframtölum.

Hér hafa verið nefnd nokkur dæmi sem glöggt sýna að nauðsyn er á þeirri könnun á tannlæknaþjónustunni sem ég hér mæli fyrir að fari fram. Slík könnun mundi hafa tvíþættan tilgang: Annars vegar að veita mikilvægar upplýsingar sem að gagni mættu koma við að upplýsa raunverulegan tannlæknakostnað landsmanna og þá hvernig tekjur tannlækna skili sér til skatts. Í annan stað gæfi slík könnun mikilvægar upplýsingar sem að gagni koma þegar verið er að marka stefnuna í tannlækningum og tannverndarmálum Íslendinga. Staðreyndin er að tannheilsa Íslendinga er mun verri en okkar nágrannaþjóða og er það vissulega mál út af fyrir sig sem stjórnvöldum ber skylda til að gefa gaum. Könnun sem gerð hefur verið á tannskemmdum 12 ára barna hér á landi samanborið við önnur lönd sýnir athyglisverða niðurstöðu.

Á árinu 1983 voru að meðaltali átta skemmdar tennur, tapaðar eða fylltar í 12 ára börnum hér á landi meðan í Hollandi, Finnlandi og Noregi voru um fjórar skemmdar tennur í 12 ára börnum. Í Bandaríkjunum voru tvær tennur skemmdar í 12 ára börnum að meðaltali en hér á landi voru það um átta tennur. Við hljótum að gefa gaum að þessari staðreynd þegar tannlæknakostnaður er orðinn svo stór útgjaldaliður í okkar heilbrigðiskerfi. Liggur það í augum uppi að með öflugum fyrirbyggjandi tannverndaraðgerðum væri hægt að draga verulega úr tíðni tannskemmda hjá börnum og þar með tannlæknakostnaði. Þessi könnun, sem ég hér legg til að framkvæmd verði, gæti einmitt veitt mikilvægar upplýsingar um hvernig best verði á þessum málum tekið, en hún á að leiða í ljós eftirfarandi atriði skipt eftir kyni, aldri, búsetu og atvinnustétt: áætluð árleg útgjöld fjölskyldna og einstaklinga vegna tannlækninga og hversu oft einstakir aldurshópar notfæra sér tannlæknaþjónustuna.

Ég vek í lokin athygli á því, sem fram kemur í grg. með þessari till., að ég hef beðið Félagsvísindastofnun Háskólans að leggja mat á það hvað slík könnun mundi kosta. Þar kemur fram að slík könnun mundi aðeins kosta um 135 þús. kr. Miðað við þær upplýsingar sem fram hafa komið á síðustu dögum verður að vænta að Alþingi taki á þessum málum nú þegar og samþykki fyrir jólaleyfi þm. að slík könnun fari fram. 135 þús. kr. kostnaður er varla til þess að tala um þegar svo mikið er í húfi eins og ég tel að fram hafi komið í mínu máli. Því vil ég í lokin leyfa mér að vænta að þessi till. fái skjóta meðferð í nefnd og verði afgreidd fyrir jólaleyfi þm. Ég vísa til bréfs Félagsvísindastofnunar sem fram kemur í þáltill., en af þeim upplýsingum sem þar koma fram má draga þá ályktun að bregðist Alþingi fljótt við í þessu máli væri hægt að vænta niðurstöðu úr þessari könnun fyrri hluta næsta árs.

Herra forseti. Ég vil í lokin beina þeirri fsp. til hæstv. fjmrh. varðandi þær upplýsingar sem fram hafa komið hér á Alþingi í svari hans við fsp. minni um tekjur og skatta tannlækna. Telur hann, miðað við þær upplýsingar sem fyrir liggja, að það sé rétt og eðlilegt að skattrannsóknarstjóri taki sérstaklega á þessu máli og hvort hann geti upplýst þingið um hvort eitthvað slíkt sé í undirbúningi af hálfu skattayfirvalda? Auðvitað væri nauðsynlegt, þegar verið er að ræða hér um eina atvinnustétt og hugsanlegan skattaundandrátt, að taka upp almenna umræðu um skattamál og skattsvik almennt, en að gefnu tilefni, þar sem hér liggja fyrir upplýsingar um tannlæknastéttina, vil ég fá að beina þessari fsp. við umræðu um þessa þáltill. um könnun á tannlæknaþjónustu til hæstv. fjmrh.

Herra forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að þessari till. verði vísað til hv, félmn.