04.12.1986
Sameinað þing: 25. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1388 í B-deild Alþingistíðinda. (1223)

178. mál, könnun á tannlæknaþjónustu

Guðrún Agnarsdóttir:

Herra forseti. Það er að sjálfsögðu mjög nauðsynlegt að kanna umfang skattsvika í þessu þjóðfélagi og jafnframt að bæta skattheimtu ríkisins, sérstaklega þannig að hún verði réttlátari og þeir greiði sem það geta og það sem þeim ber en stingi ekki undan. Hins vegar getur það orkað tvímælis að taka fyrir eina stétt umfram aðrar í þessum efnum. Sannarlega er líka nauðsynlegt að kanna árangur í rekstri heilbrigðisþjónustunnar á sem flestum sviðum en ekki bara þessu eina, en tannlæknaþjónusta er að sjálfsögðu heilbrigðisþjónusta.

Ég er ekki viss um að það þurfi í raun að gera slíka könnun, þó að hún kunni að gefa mjög góðar og víðtækar upplýsingar, til þess að breyta þeirri áherslu sem nú er á tannlæknaþjónustu á Íslandi. Ég er ekki að mæla gegn því að þessi könnun verði gerð, alls ekki, en ég tel að það sé hægt að breyta þeirri áherslu sem er í tannlæknaþjónustu hérlendis án þess að gera veigamikla könnun. Það hefur þegar sýnt sig hjá okkur, eins og kom reyndar fram í máli hv. flm., að á Íslandi eru fleiri skemmdar tennur í börnum en annars staðar á Norðurlöndunum. Þetta stafar ekki síst af því að hér er ekki beitt nægilega góðum fyrirbyggjandi aðgerðum.

Á undanförnum árum hef ég borið fram fyrirspurnir á þinginu um það hvernig væri farið með fé Tannverndarsjóðs, en Tannverndarsjóður kom til 1975 þegar gerður var samningur milli Tannlæknafélags Íslands og Tryggingastofnunar ríkisins um að leggja sem svarar 1% af kostnaði Tryggingastofnunarinnar við tannlækningar í sjóð sem standi undir kostnaði við fræðslu um tannvernd sem trúnaðarlæknir skipuleggur í samvinnu við heilbrigðisráðuneytið. Fé þessa sjóðs hefur að mestu leyti legið óhreyft og ekki nýst til tannverndar fyrr en á allra síðustu árum, en þó hafa legið í þeim sjóði á síðustu árum fjárhæðir sem nema nærri hálfri milljón kr. eða jafnvel meir.

Ég vek jafnframt athygli á því að nú er í gangi á vegum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar stórtæk áætlun um heilbrigði fyrir alla árið 2000 og hluti af þessari áætlun er einmitt áætlun sem hefur verið samþykkt af alþjóðasamtökum tannlækna um að stuðla að heilbrigði í munnholi fyrir alla árið 2000. Í þessari áætlun hafa alþjóðasamtökin, sem íslenskir tannlæknar eru aðilar að, sett sér markmið til að bæta heilbrigði í munnholi. Þessi markmið byggjast ekki fyrst og fremst á viðgerðum á tönnum. Þau byggjast fyrst og fremst á fyrirbyggjandi aðgerðum. Mikilvægur þáttur í tannskemmd hjá okkur Íslendingum er einmitt mikið sykurát. Hér er ekki blandað flúor í neysluvatn eins og víða til tannverndar og það er að sjálfsögðu álitamál hvort slíkt eigi að gera eða þá að auka neyslu flúorefna í töfluformi eða með því að bera á tennur. En það er kannske eitt sem er umfram allt árangursríkt. Það er að auka heilbrigðisfræðslu fyrir börn, foreldra og aðra fullorðna sem annast börn. Auka almenna þekkingu um tannhirðu og næringu. Þetta er hægt að gera í sjálfu sér áður en fyrir liggja niðurstöður úr könnun sem slíkri. Og þetta þarf að gera. Það þarf að koma á skipulegri fræðslu um tannhirðu þannig að við verðum ekki með meiri hluta þess fjár sem við verjum til tannlæknisþjónustu í tannviðgerðum. Ef við lítum t.d. á það sem hinar Norðurlandaþjóðirnar gera, þá nota Danir aðeins um 40% af opinberum útgjöldum sínum til tannlækninga í tannviðgerðir en 60% í fyrirbyggjandi aðgerðir. En við notum mestan hluta okkar fjár í tannfyllingar og gerviuppbyggingar og trúlega líka tannréttingar. Það hefur verið allt of erfitt að fá fjármuni í fyrirbyggjandi starf.

Það er mikill skilningur og stuðningur við þessa áætlun heilbrigðismálastofnunarinnar hjá heilbrigðisyfirvöldum nú og þau hafa beitt sér fyrir því að hefja starf við þessa áætlun og þá vonandi jafnframt líka að styðja aðgerðir til tannverndar. Ég tel þetta mjög mikilvægt. Ég mæli ekki gegn þessari könnun og ég mæli heldur ekki gegn því að hún verði hluti af nánari könnun á því hvernig skattframtali er háttað og hvernig skattheimtu er hægt að bæta hérlendis, en ég held hins vegar að það sé hægt að byrja á aukinni skipulegri fræðslu um tannvernd án þess að niðurstöður slíkrar könnunar liggi fyrir því það er þar sem skórinn kreppir fyrst og fremst hjá okkur.