04.12.1986
Sameinað þing: 25. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1389 í B-deild Alþingistíðinda. (1224)

178. mál, könnun á tannlæknaþjónustu

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Það er fyrst út af máli síðasta ræðumanns, hv. 3. landsk. þm., um nýjar áherslur í sambandi við tannheilsuna. Ég vil geta þess að gefnu tilefni að það sem hv. þm. lýsir eftir, aukin framlög úr Tannverndarsjóði til fræðslustarfsemi til að vernda tannheilsuna, er þegar komið af stað og þegar búið að vinna mjög mikið og skipulagt verk í þessu, enda framlög úr þessum umrædda sjóði verið fjórfölduð í því skyni á þessu ári. Það sem verið er að gera og hv. þm. hefur e.t.v. orðið var við í fjölmiðlum eða annars staðar er að aðstoðarfólk tannlækna á tannlæknastofum hefur fengist til mjög mikilsverðs samstarfs í þessu sambandi, bæði kynnt ýmiss konar tannverndaraðgerðir á fjölförnum stöðum eins og í stórmörkuðum og í apótekum, tannfræðingur verið ráðinn til að aðstoða við skipulagða tannfræðslu í skólum landsins og fjölmörg atriði eru nú þegar komin í framkvæmd til að vinna að skipulagðri fræðslu- og upplýsingaherferð meðal almennings.

Þetta var um það sem gerist í tannverndinni í þrengsta skilningi og fram fer undir stjórn Magnúsar R. Gíslasonar, yfirmanns tannheilsudeildar í ráðuneytinu. Hann hefur ásamt ráðgjöfum sem tengjast bæði Tannlæknafélagi Íslands og tannlæknadeild Háskóla Íslands skipulagt mjög mikilsvert starf í þessu skyni.

Annar mikilvægur þáttur, sem þessu tengist og þessi sami tannlæknir hefur vissulega tekið þátt í, er einmitt að koma á framfæri manneldismarkmiðum fyrir Íslendinga sem ekki síst hafa að geyma ábendingar um hvernig vernda megi tannheilsuna betur. Þetta eru auðvitað atriði sem eru ekki þess eðlis að sett verði í lög eða reglugerð hvað fólk eigi að láta ofan í sig og í hvaða hlutföllum. Hins vegar tel ég að sem best kynning manneldismarkmiða eigi eftir að skila sér í minni útgjöldum þjóðarinnar til lækninga annaðhvort á tönnum eða öðru. Talandi um það væri e.t.v. nærtækt að útbýta eintaki af því plaggi meðal þm. þótt það sé ekki komið í sérlega faglegt útgáfuform eða myndskreytt. Frá þessu hefur verið gengið fyrir nokkru, Manneldisráð Íslands hefur samþykkt þessi markmið og heilbrrn. hefur staðið að því að kynna þetta nýlega og nokkuð verið um það fjallað í fjölmiðlum. Ég vonast til að meira verði um það á næstunni. Það er enginn vafi á því að þar er líka mikilvægur liður í tannverndinni.

Annars ætlaði ég aðallega að nefna örfáum orðum það sem mér þykir máli skipta í sambandi við þá till. sem hér liggur fyrir. Ég hygg varðandi þær aðgerðir sem ég hef gert grein fyrir og mun verða haldið áfram að vinna að ekki sé spurning um hvort eitthvað slíkt sé í gangi. Samþykkt þessarar till. hlýtur að hafa þýðingu fyrir miklu fleira. Ég er hlynnt því máli sem hér er á dagskrá. Ég hygg að einmitt það að láta slíka könnun fara fram fljótlega þegar þetta tannverndarátak er nýhafið af meiri krafti en nokkurn tíma hefur verið sé mjög skynsamlegt, að láta könnun fara fram núna og svo aftur að þó nokkrum árum liðnum til þess að menn geti borið saman tannheilsu fólks áður en farið var að vinna með auknu afli að tannverndaraðgerðunum og hinum margumræddu forvarnarverkum. Þetta held ég að hafi verulega þýðingu.