04.12.1986
Sameinað þing: 25. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1391 í B-deild Alþingistíðinda. (1225)

178. mál, könnun á tannlæknaþjónustu

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég þakka þær umræður sem hafa orðið um þessa till. Sérstaklega fagna ég því sem kom fram hjá hæstv. heilbrmrh. í þessu máli. Hæstv. heilbrmrh. hefur sýnt það í ráðuneytinu að hún hafi vissulega skilning á þessu máli og hefur tekið á mörgu í heilbrigðisráðuneytinu að því er snertir tannlækningarnar. Ég nefni kannske sérstaklega það sem lengi hefur vantað og tók langan tíma að koma á, þ.e. greiðslukvittanir fyrir tannlækningar sem mjög erfiðlega gekk að fá tannlækna til að samþykkja.

Ég fagna því að hún skuli taka undir að æskilegt sé að slík könnun fari fram á tannlæknaþjónustunni. Ég hygg að það væri skynsamleg leið líka, sem hún bendir á, að slík könnun færi fram fljótlega og síðan aftur eftir að gert hafi verið átak í tannverndarmálum. Ég vænti þess að þau orð sem hæstv. ráðh. hefur látið falla í þessu máli muni hjálpa til þess að þetta mál fái stuðning á þinginu og eins og ég nefndi í minni framsögu að hægt verði að samþykkja það fyrir jólaleyfi þm. Mér er kunnugt um að það eru margir tannlæknar mjög áhugasamir um að slík könnun fari fram sem hér er á dagskrá og ég ítreka að hér er um mjög lítinn kostnað að ræða eða 135 þús. kr. þannig að ég vænti stuðnings hæstv. ráðh. við framgang málsins hér á þingi.

Varðandi orð hæstv. fjmrh. að því er snertir skattgreiðslur tannlækna verð ég að segja að það olli mér vonbrigðum að yfirmaður skattamála hér á landi, hæstv. fjmrh., skyldi ekki sjálfur hafa sjálfstæða skoðun á því hvort hann teldi að það bæri að athuga sérstaklega af hálfu ríkisskattstjóra eða skattrannsóknarembættisins þær upplýsingar sem hér liggja fyrir. Ég er í sjálfu sér ekkert að draga í efa að skattrannsóknarstjóri muni skoða þetta mál, en ég hygg að það væri líka málinu til bóta ef sjálfur yfirmaður skattamála á Íslandi, hæstv. fjmrh., hefði einhverja skoðun á þessu máli, hvort það bæri að skoða sérstaklega.

Hann ræddi nokkuð um viðmiðunarreglur ríkisskattstjóra og launamatið. Ef hæstv. fjmrh. hefur fylgst með tillöguflutningi mínum og umræðum á Alþingi á undanförnum árum að því er varðar skattamál og kannske skattaundandrátt sérstaklega ætti honum ekki að koma það á óvart að ég hef lagt mikla áherslu á að þessar reiknuðu tekjur sem ríkisskattstjóri ákvarðar yrðu endurskoðaðar og það var reyndar einn liður í þeirri till., sem ég flutti 1983 og var samþykkt á Alþingi, að þetta launamat yrði sérstaklega skoðað. Ég hygg að hæstv. núv. fjmrh. og fyrrv. fjmrh. hafi nokkuð unnið samkvæmt þessari till. Fyrrv. fjmrh. bætti við mannafla hjá skattstofunum sem varð til þess að auka nokkuð tekjur ríkissjóðs, þ.e. það skilaði sér meira inn og meiri árangur varð af skattaeftirlitinu á eftir. Mig minnir að það hafi verið talað um fimmföldun á endurálagningu frá skattstofunum þegar farið var að taka á þessu máli.

Ég geri ráð fyrir að hæstv. fjmrh. hafi líka verið að framkvæma einn lið í þessari till., sem samþykkt var á Alþingi, sem kvað á um endurskoðun á launamati. Þetta var endurskoðað og þessar viðmiðunarreglur eða launamat hækkað. Ég er honum alveg sammála um að þær eru mjög óeðlilegar þessar tölur sem hafa verið og sú hækkun sem þarna hefur komið fram núna, lægsta launamatið frá 239 þús. og upp í hæst 828 þús., og að þar sé meira að segja ekki nóg að gert og það þurfi að skoða þetta allt enn frekar og kannske hvort það sé rétt að fara þá leið, hvort það sé þá ekki hægt að finna einhverja skilvirkari leið en hér er farin.

Að því er varðar sjálfstæða atvinnurekendur er það kafli út af fyrir sig sem hægt er að ræða. Það kom einmitt fram í svarinu sem fjmrh. dreifði á Alþingi að það er ekki nema upp undir helmingur af sjálfstæðum atvinnurekendum sem greiðir tekjuskatt. Þeir greiða sennilega um 25% af öllum tekjuskattinum. Ég hygg að við séum sammála um það, ég og hæstv. fjmrh., að það eigi hvergi að hlífa sjálfstæðum atvinnurekendum og standa þannig að málum að þeir greiði sinn skatt eins og þeim ber. Að vísu var ég ósammála þeirri leið, sem hann fór á s.l. sumri, að leggja á aukinn skatt, upp á 650 millj. ef ég man rétt. Ég taldi t.d. að hann hefði ekki staðið rétt þar að málum þegar slík endurálagning kom fram að hækka þá ekki til samræmis persónuafslátt og barnabætur. Ef ég man rétt voru skattahækkanir þarna milli ára um 64% meðan persónuafslátturinn og barnabæturnar hækkuðu ekki nema um 30%. Þetta er atriði sem mér hefði fundist að hæstv. fjmrh. hefði átt að taka á. En varðandi skattgreiðslur hjá sjálfstæðum atvinnurekendum held ég að við séum hvergi ósammála.