04.12.1986
Sameinað þing: 25. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1393 í B-deild Alþingistíðinda. (1227)

178. mál, könnun á tannlæknaþjónustu

Guðrún Agnarsdóttir:

Herra forseti. Aðeins nokkur orð vegna ummæla hæstv. heilbrmrh. um gildi slíkrar rannsóknar.

Í sjálfu sér finnst mér ekki að það þurfi að sanna lögmæti fyrirbyggjandi aðgerða. Eins og ég sagði þó áðan er ég ekki á móti þessari rannsókn og ég tel að það gæti orðið mjög áhugavert, einmitt í samræmi við það sem hæstv. ráðh. sagði, að fylgjast með því til að undirstrika mikilvægi fyrirbyggjandi aðgerða hvernig væri farið tannlæknaþjónustu í byrjun átaks og síðan eftir að það hefði staðið um nokkurt skeið. En það finnst mér þá liggja í orðum hæstv. heilbrmrh., og ég fagna því, að það verði í raun varið fjármunum og mannafla til að halda áfram skipulegri fræðslu og öðrum aðgerðum til tannverndar til að bæta tannheilsu án þess að kosta til þess dýrum viðgerðum. Mér finnst það hafa legið í orðum hennar og ég fagna þessari yfirlýsingu hennar því að það er náttúrlega marklaust út af fyrir sig að vera að hefja rannsókn fyrir einhverja aðgerð ef ekki á að beita verulegu afli til að auka tannheilsu með tannvernd og gera síðan rannsóknir þegar það átak hefur staðið um nokkra hríð. Þess vegna styð ég að þessar rannsóknir verði gerðar til að hægt verði að gera samanburð síðar.