04.12.1986
Sameinað þing: 25. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1397 í B-deild Alþingistíðinda. (1231)

185. mál, kaupleiguíbúðir

Guðrún Agnarsdóttir:

Herra forseti. Það er alveg fáránlegt að hér skuli lengst af hafa verið einn og kannske tveir eða enginn þm. viðstaddur fyrir utan flm. og sjálfa mig. Tveir ráðherrar sáust þó an í máli sem var rætt á undan þessu.

Það er athyglisvert mál sem hér er til umræðu og ástæða er til að fagna því að umræður fari fram um húsnæðismál á Alþingi, enda mikill vandi óleystur í þeim efnum. Það eru þó margar spurningar sem vakna við lestur þessarar þáltill. Þetta mál var aðalkosningamál Alþfl. í sveitarstjórnarkosningunum s.l. vor og mátti því vænta þess að það bærist inn á borð alþm.

Eftir lestur þessarar till. til þál. höfum við Kvennalistakonur ýmsar spurningar og athugasemdir fram að færa. Það sem ég rek fyrst augun í er að hvergi kemur fram skilgreining á hugtakinu kaupleiguíbúð. Samkvæmt mínum skilningi er það íbúð byggð eða keypt af sveitarfélagi eða samtökum, fjármögnuð með lánum úr Byggingarsjóði ríkisins eða Byggingarsjóði verkamanna og þessar íbúðir er svo ýmist hægt að kaupa eða leigja.

Nú er framkvæmd húsnæðismála með þeim hætti að ýmist eru veitt lán úr Byggingarsjóði ríkisins eða Byggingarsjóði verkamanna eins og þingheimur veit - og þingheimur er ekki stór í þessum sal nú. En hér er stungið upp á þriðju leiðinni sem á að fara í stórum stíl. Sú spurning vaknar hvort ekki væri ástæða til að fara í gegnum kerfið í heild og einfalda það í stað þess að bæta við nýrri leið. Er það t.d. meining flm. að kaupleiguíbúðir verði til við hlið verkamannabústaða eða eiga þær að koma í staðinn fyrir þá?

Í nýlegri könnun Húsnæðisstofnunar ríkisins um þörf á leiguhúsnæði kemur fram að sveitarfélög og fern félagasamtök telja þörf á um það bil 3000 leiguíbúðum. Skv. þessari till. yrði þeirri þörf fullnægt á fimm árum og væri það auðvitað vel, en þá eru eftir aðrar 3000 íbúðir skv. till. Hvaða þarfir eiga þær að uppfylla? Hvernig eru þessar tölur fengnar? Eru þær í samræmi við áætlaða þörf um húsnæði á næstu árum?

Þess er getið í till. að sveitarfélögin eigi að leggja fram 15-20% af kostnaðarverðinu og þau eiga að fá það fé í gegnum Jöfnunarsjóð sveitarfélaga, alls 250 millj. kr. Hvaðan á það fé að koma? Er það hugsað sem viðbót við fé Jöfnunarsjóðsins eða á að taka það af því taka það fé.

Það vaknar einnig sem fyrir er? Það liggur fyrir að sá sjóður á mjög í vök að verjast og sveitarstjórnarmenn hafa lýst þungum áhyggjum vegna niðurskurðar á framlögum til sjóðsins. Eins og nú horfir er hann ekki aflögufær. Málið horfir auðvitað öðruvísi við eigi að bæta stöðu hans, en einhvers staðar verður að sú spurning hvort svo viðamikið verkefni sé leggjandi á sveitarfélögin eins og mál standa nú. Það gengi eflaust hjá hinum stærstu þeirra, en það verður að kanna hvers hin smærri eru megnug í þessum efnum því áform þessi hafa óhjákvæmilega töluverðan kostnað í för með sér fyrir þann sem framkvæmir. Þó er vert að benda á að minnstu sveitarfélögin skortir leiguhúsnæði ekki síst.

Flm. leggja til að félagasamtök geti einnig orðið framkvæmdaaðilar, en hvernig eiga þau að fara að því að fjármagna 15-20% af byggingarkostnaði? Ég vil líka spyrja: Hverjir koma til með að eiga rétt á kaupleiguíbúðum? Allir? Í raun þýðir þetta kerfi. sem till. stingur upp á, 100% lán til þeirra sem kaupa íbúðir innan þessa kerfis. Er það í raun grundvallarhugsun till.?

Mig langar einnig til að spyrja flm.: Hvað verður um rétt sveitarfélagsins eftir að íbúðir hafa verið seldar? Eiga þau forkaupsrétt og á hvaða verði á að selja íbúðirnar og endurselja þær? Er meiningin að setja reglur um slíkt og eftir hverju á að fara? Innan verkamannabústaðakerfisins hefur það verið vandamál við hvað skuli miðað þegar íbúðir koma til endursölu. En auðvitað er þetta mál sem hægt er að leysa. Ég er forvitin að fá að heyra hvað hv. flm. ætla sér í þessum atriðum.

Skv. húsaleigulögunum gilda reglur um hvernig leiga skuli ákveðin. Skv. till. á leigan að duga fyrir afborgunum og vöxtum auk sameiginlegs reksturs. Er það ekki ætlun flm. að sveitarfélagið fái neitt í sinn hlut, t.d. til að eiga í varasjóði til viðhalds og annars sem upp á kann að koma? Hvað um fasteignagjöldin? Hver á að greiða þau?

Þá vaknar sú spurning hvort sú leiga sem nefnd er í till. sé ekki of lág. Húsnæðisstofnun ríkisins hefur reiknað út að eðlileg leiga sé nú um l0 þús. kr. og eru þá hvorki afborganir né vextir inni í dæminu. Því væri fróðlegt að fá að vita hvernig sú upphæð, sem nefnd er í till., 7805 kr., er fengin og hvort hún standist.

Það mætti velta vöngum yfir fleiri hliðum þessa máls, en niðurstaða okkar er sú að auðvitað eigi að skoða þá leið sem hér er stungið upp á. Æskilegra er þó að endurskoða kerfið í heild, fjármögnun þess og húsnæðisþörfina í landinu á næstu áratugum.

Kerfið þarf að verða sveigjanlegra. á næstunni eru væntanlegar tillögur svokallaðrar félagsíbúðanefndar sem skipuð var af hæstv. félmrh. s.l. sumar og var einmitt minnst á í framsögu hv. 1. flm. Þar til þær tillögur birtast fögnum við að sjálfsögðu öllum umræðum um húsnæðismál, en teljum þó rétt að bíða átekta í stórframkvæmdum þar til tillögur nefndarinnar líta dagsins ljós. Það hefði verið fróðlegt að heyra frá hv. 2. þm. Norðurl. e., ef hann hefði verið staddur hér í húsinu, hvers væri að vænta frá þeirri nefnd, en hann á eftir því sem ég best veit sæti í félagsíbúðanefnd.

Ég vil að lokum bera fram fsp. til flm. um það hvernig þetta fyrirkomulag hafi reynst erlendis, sérstaklega með tilliti til þess þegar hluti íbúðanna hefur verið seldur en aðrar eru enn í leigu. Hver er ábyrgð sveitarfélaganna í þeim efnum?

Að síðustu vil ég minna á þær tillögur sem þingkonur og varaþingkonur Kvennalistans hafa flutt í húsnæðismálum hér á þinginu, t.d. nú síðast um byggingu leiguhúsnæðis sem hv. varaþingkona Kristín Ástgeirsdóttir mælti fyrir í vikunni, á þriðjudaginn var. Sú till. felur í sér átak í byggingu leiguhúsnæðis, en það málefni hefur verið á stefnuskrá Kvennalistans frá öndverðu. Fólk verður að geta valið um hvort það kaupir húsnæði eða leigir. Því er nauðsynlegt að leita allra leiða til úrbóta í þeim málum og því er gott að þetta mál skuli komið hér til umræðu þó að ýmislegt þurfi að skýra frekar um framkvæmd þess.

Umræðu (atkvæðagreiðslu) frestað