08.12.1986
Efri deild: 17. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1406 í B-deild Alþingistíðinda. (1238)

192. mál, grunnskóli

Davíð Aðalsteinsson:

Hæstv. forseti. Ég lýsi fylgi við frv., tel að það sé að mörgu leyti skynsamlegt „eins og við mátti búast“.

Hv. 1. flm. þessa frv. sagði frá því að sums staðar hefði borið við að meiri hluti í sveitarstjórnum hefði beitt minni hlutann ofríki, þó að það væru ekki nákvæmlega hans orð átti hann við það, og skólanefndarmenn hefðu allir verið skipaðir úr hópi stuðningsmanna viðkomandi meiri hluta í sveitarstjórn. Ég álít að slíkt ofríki hafi þá komið fram einfaldlega vegna þess að það hafi ekki verið óskað eftir að kosningar til viðkomandi nefndar væru leynilegar og bundnar hlutfallskosningar eins og, ef ég man rétt, var áður í sveitarstjórnarlögum. Nú er slíkt ákvæði skv. 2. mgr. 57. gr. núverandi sveitarstjórnarlaga. Það hlýtur að vera hægt að koma við hlutfallskosningum, enda þótt fjöldi sé lægri en fimm eða sjö eins og er gert ráð fyrir í frv. Ég bendi á þetta, tel að slík málsmeðferð og slík niðurstaða, sem hv. flm. hefur vafalaust sagt réttilega að væri til dæmi um, hljóti í þeim tilvikum að vera að kenna sjálfum sveitarstjórnarmönnum ef um það er að ræða að fulltrúar í skólanefnd væru allir á bandi meiri hlutans, ef ég má svo að orði komast, meiri hluta í viðkomandi sveitarstjórn. Öðru máli gegnir hugsanlega ef um aukinn meiri hluta er að ræða.

En ég tek undir að það er eðlilegt í skólanefndum ekki síður en í öðrum nefndum sem kjörnar eru á vegum sveitarstjórna að þar sé sá fjöldi fulltrúa að mögulegt sé að gæta þess að fulltrúar sem flestra hópa eða samtaka - segjum stjórnmálaflokka sem eiga aðild að sveitarstjórn eigi fulltrúa í svo mikilvægum nefndum sem ég játa að skólanefndirnar eru. Ég tek undir þetta frv. og vænti þess að það fái jákvæða umfjöllun og jákvæða meðferð í menntmn.