08.12.1986
Efri deild: 17. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1407 í B-deild Alþingistíðinda. (1240)

168. mál, læknalög

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Ragnhildur Helgadóttir):

Frú forseti. Haustið 1979 skipaði þáv. heilbr.- og trmrh. Magnús H. Magnússon nefnd sem falið var að endurskoða læknalög nr. 80/1969, með síðari breytingum. Í nefndinni áttu sæti þeir Ólafur Ólafsson landlæknir, sem var formaður nefndarinnar, Ólafur Bjarnason dr. med., prófessor, sem var tilnefndur af læknadeild Háskólans, Guðmundur Oddsson læknir, sem tilnefndur var af Læknafélagi Íslands, María Pétursdóttir skólastjóri, sem tilnefnd var af Samtökum heilbrigðisstétta, og Ingimar Sigurðsson lögfræðingur í heilbr.- og trmrn. sem jafnframt gegndi ritarastörfum fyrir nefndina. Við endurskoðun laganna hugaði nefndin sérstaklega að eftirfarandi atriðum:

1. Reynslunni af framkvæmd gildandi læknalaga sem eru að stofni til frá 1932 og lítið breytt frá þeim tíma.

2. Áhrifunum af tilkomu annarra heilbrigðisstétta á framkvæmd læknalaga. Nú njóta um 20 heilbrigðisstéttir lögverndunar, en þær voru örfáar árið 1932.

3. Að breytingum á læknalögum annarra Norðurlanda, en Ísland hefur um nokkurt skeið verið aðili að norrænum samningi um sameiginleg starfsréttindi lækna á Norðurlöndum þannig að löggjöf einstakra Norðurlanda hefur bein áhrif á framkvæmd þess samnings.

Nefndin lauk störfum í byrjun árs 1983 er hún lagði fyrir ráðuneytið tillögur í búningi lagafrv. Náði nefndin samstöðu um flest efnisatriði og byggir frv. á þeim atriðum sem ekki var ágreiningur um, með örfáum undantekningum. Læknafélag Íslands, Samtök heilbrigðisstétta og læknadeild Háskóla Íslands fjölluðu um frv. á meðan það var í smíðum og kom fram stuðningur við það og ábendingar sem margar voru teknar inn í tillögur nefndarinnar.

Helstu breytingarnar frá gildandi lögum eru eftirfarandi:

1. Lögð er til nýskipan mála varðandi veitingu almenns lækningaleyfis og að kandídatsnámi verði einnig hægt að ljúka á heilsugæslustöðvum en ekki aðeins á sjúkrahúsum.

2. Lögð eru til skýrari ákvæði um hlutverk læknadeildar Háskóla Íslands varðandi mat á læknismenntun sem sótt er erlendis.

3. Lögð eru til skýrari ákvæði um réttindi lækna og í hverju þau skuli fólgin að svo miklu leyti sem hægt er að skilgreina störf þeirra.

4. Lögð eru til hnitmiðuð ákvæði um skyldur lækna og þeim deilt niður eftir viðfangsefnum.

5. Lögð er til önnur skilgreining á hugtakinu „skottulækningar“ og að það geti aldrei náð til lækna.

6. Lögð er til sú aðalregla að lækni sé óheimilt að reka sjálfstæða lækningastarfsemi eftir 75 ára aldur.

7. Lagt er til að ráðherra geti svipt lækna lækningaleyfi tímabundið þannig að ekki þurfi í öllum tilvikum að svipta þá leyfi endanlega.

8. Mörkuð er sú stefna að læknalög gildi sem mest eingöngu um lækna og lækningastarfsemi þannig að í frv. eru færri atriði sem varða aðrar heilbrigðisstéttir en eru í gildandi lögum. Má sem dæmi nefna að ekki er gert ráð fyrir takmörkuðum lækningaleyfum sem samkvæmt gildandi lögum eru ætluð aðilum sem hafa menntun á ákveðnum sviðum læknisfræðinnar en ekki almenna læknismenntun. Eftir tilkomu laga nr. 24/1984, um starfsheiti og starfsréttindi heilbrigðisstétta, geta slíkir aðilar fengið viðurkenningu starfsheitis og starfsréttinda skv. þeim lögum.

9. Frv. gerir ráð fyrir að réttur Læknafélags Íslands verði viðurkenndur, þ.e. nokkur afskiptaréttur af starfsemi lækna og skipulagningu. Skv. gildandi lögum er sá réttur enginn.

Auk þess sem ég hef talið upp hér að framan eru ákvæði læknalaga færð í nútímalegra horf og til samræmis við önnur lög sem sett hafa verið á undanförnum árum á sviði heilbrigðismála og má þá sérstaklega nefna lög um heilbrigðisþjónustu, sbr. núna lög nr. 58/1983.

Ég held að ekki sé ástæða til að tíunda frekar efnisatriði frv. hér heldur vísa til ítarlegrar grg. sem frv. fylgir, en Ingimar Sigurðsson lögfræðingur, einn nefndarmannanna, tók þá grg. saman. Þar er m.a. fjallað um lagasetningu um lækna, réttindi og skyldur lækna og helstu nýmæli frv. auk almennra athugasemda við einstakar greinar.

Ég leyfi mér að leggja til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og trn