08.12.1986
Neðri deild: 17. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1411 í B-deild Alþingistíðinda. (1248)

227. mál, réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Fjármálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins sem er 227. mál á þskj. 243.

Þetta frv. er flutt í beinum tengslum við frv. til laga um kjarasamninga opinberra starfsmanna sem lagt hefur verið fram og rætt við 1. umr. hér í deildinni. Í því frv. eru gerðar breytingar á ákvæðum um samningsrétt og verkfallsrétt opinberra starfsmanna. Við undirbúning frv. var samtökum opinberra starfsmanna gerð grein fyrir efni þess. Þótt þau séu ekki sammála breytingum þeim sem lagðar eru til í þessu frv. í einu og öllu töldu þau þær ekki frágangssök og unnu m.a. að samningu ákvæða í frv. um kjarasamninga opinberra starfsmanna sem miðuð eru við efni þessa frv.

Í frv. felst sú breyting að í upptalningu starfsmanna sem skv. þessum lögum er ekki heimilt að gera verkfall bætast starfsmenn stjórnarráðs, starfsmenn ríkissaksóknara og starfsmenn ríkislögmanns. Eins og er nær bann við verkfalli til deildarstjóra og skrifstofustjóra í stjórnarráðinu og að auki til starfsfólks í forsrn., utanrrn. og launadeild fjmrn. Í heild hefur því tiltölulega lítill hluti starfsmanna stjórnarráðsins verkfallsrétt.

Frv. þetta er flutt í þeim tilgangi að koma í veg fyrir að framkvæmdarvald ríkisins geti lamast vegna átaka um kjaramál og til þess að afnema það misræmi í þessu efni innan stjórnarráðsins sem verið hefur.

Frv. tekur einnig til allra starfsmanna ríkissaksóknara í stað fulltrúa áður og til starfsmanna ríkislögmanns. Embætti þessi kunna að þurfa að fjalla um mál vegna verkfalla og því er talið rétt að starfsmenn þeirra eigi þar engan hlut að máli.

Í frv. til laga um kjarasamninga opinberra starfsmanna er tekið tillit til þessa frv. Er þar gert ráð fyrir að þau stéttarfélög sem skv. þeim lögum hafa rétt til samninga semji eftir því sem um félagsaðild fer fyrir starfsmenn þá sem undir 29. gr. laga um réttindi og skyldur falla. Enn fremur er gert ráð fyrir að viðkomandi félög eigi rétt á að gerðardómur taki mál þeirra til úrskurðar ef samningar takast ekki. Í frv. er einnig sú breyting að listi sá sem birta skal samkvæmt lögum taki einungis til forstöðumanna stofnana. Önnur störf sem frv. tekur til eru þess eðlis að ljóst er á hverjum tíma hver þau eru og ekki þörf á árlegri birtingu skrár um það efni.

Herra forseti. Eins og fram hefur komið er frv. í beinum tengslum við það frv. sem er nú til meðferðar hjá fjh.- og viðskn. um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Það er nauðsynlegt að fjalla um þessi frv. í samhengi ásamt með frv. sem lagt hefur verið fram um Kjaradóm. Ég legg því til að að lokinni þessari umræðu verði frv. vísað til 2. umr. og til hv. fjh.- og viðskn.