08.12.1986
Neðri deild: 17. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1412 í B-deild Alþingistíðinda. (1249)

227. mál, réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég vil fyrst taka það fram af hálfu okkar þm. Alþb. að það er mjög erfitt fyrir okkur að sækja þingfund hér milli kl. 6 og 7 í dag þannig að ég vildi fyrir okkar hönd gjarnan beiðast undan því. Við erum að sjálfsögðu reiðubúin til að mæta aukalega á þingfundum næstu daga fram að jólum eftir því sem nauðsyn krefur, en þannig stendur á að það er erfitt að koma því við fyrir okkur á þessum tíma í dag. Ég vildi ekki vera að biðja um orðið um þingsköp út af þessu máli, herra forseti. Við erum tilbúin til þess jafnframt fyrir okkar leyti að greiða fyrir því að þau þingmál sem hér eru á dagskrá fái meðferð á venjulegum þingtíma deildarinnar ef það er kleift af öðrum ástæðum.

Hér liggja fyrir þrjú þingmál sem eru um kjaramál opinberra starfsmanna. Hér er á dagskrá eitt málanna, þ.e. frv. til laga um breytingu á lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. En ég ætla að leyfa mér, herra forseti, til að flýta fyrir af minni hálfu að nefna þessi mál öll, þ.e. þau mál sem eru á dagskrá, nr. 3 um lögreglumenn, nr. 4 það sem nú er til umræðu og nr. 5 um Kjaradóm.

Það mál sem hæstv. fjmrh. mælti fyrir núna rétt í þessu felur í sér takmörkun á verkfallsrétti opinberra starfsmanna. Það er gert ráð fyrir því að til viðbótar við þá sem ekki er heimilt að gera verkfall verði bætt skv. þessu frv. starfsmönnum stjórnarráðsins, starfsmönnum ríkissaksóknara og starfsmönnum ríkislögmanns. Ég er þeirrar skoðunar að þarna sé gengið býsna langt, a.m.k. að því er varðar starfsmenn stjórnarráðsins, og ekki sé ástæða til að hafa ákvæðin um bann við verkfalli þessara starfsmanna jafnvíðtæk og frv. gerir ráð fyrir. Ég tel að með þessum ákvæðum sé verið að svipta starfsmenn stjórnarráðsins mannréttindum og eðlilegra hefði verið að koma þessum hlutum fyrir með þeim hætti að þau störf sem óhjákvæmileg teljast verði unnin þó um vinnudeilur sé að ræða en að öðru leyti geti starfsmenn stjórnarráðsins eins og aðrir starfsmenn ríkisins haft verkfallsrétt ef þeir telja óhjákvæmilegt að grípa til slíks í kjaradeilum.

Ég tek hins vegar eftir því að samtök opinberra starfsmanna hafa tekið þátt í undirbúningi frv. og hafa fallist á að vinna að meðferð þess þó þau séu ekki sammála þeim breytingum sem frv. gerir ráð fyrir. Ég mun fyrir mitt leyti ekki greiða þessu frv. atkvæði, en þar sem opinberir starfsmenn og samtök þeirra hafa látið þetta yfir sig ganga með þeim hætti sem gerð er grein fyrir í frv. mun ég ekki við meðferð málsins greiða atkvæði gegn frv. en ekki styðja það með þeim hætti sem það er hér.

Í annan stað er á dagskránni frv. til laga um breytingu á lögum um Kjaradóm þar sem bætt er nokkrum embættismönnum við þann lista sem Kjaradómur á að fjalla um. Þar er um að ræða landlækni, yfirdýralækni, ríkislögmann, rektor Kennaraháskóla Íslands, skrifstofustjóra Alþingis og ríkisendurskoðanda. Ég held að í rauninni sé þetta samræming við þau frv. sem hér eru lögð fram að öðru leyti þannig að ég hef ekki margt um það að segja, en vík að lokum, herra forseti, að frv. um breytingu á lögum um lögreglumenn. Þar er gert ráð fyrir að lögreglumenn ríkisins, þ.e. lögreglumenn sem við teljum svo í venjulegum skilningi þess orðs og tollverðir, verði sviptir verkfallsrétti, að þeir megi hvorki gera verkföll né taka þátt í verkfallsboðun.

Þetta frv. er flutt í framhaldi af samningum sem gerðir voru við tollverði og lögreglumenn á s.l. ári og aðilar gerðu með sér bókun annars vegar 18. júlí s.l. og hins vegar 15. sept. s.l., sem er samhljóða, þar sem segir:

„Aðilar eru sammála um að fyrirhuguð breyting á lögum um lögreglumenn, er banni verkföll þeirra, nái til tollvarða með sama hætti og til annarra lögreglumanna ríkisins.“

Í fyrri bókuninni segir: „Aðilar eru sammála um að verkfallsréttur lögreglumanna skuli afnuminn. Ríkisstjórnin mun beita sér fyrir því á Alþingi að inn í lögin um lögreglumenn nr. 56/1972 komi ákvæði er banni verkföll lögreglumanna ríkisins.“

Það liggur sem sagt fyrir samkomulag við þau tvö stéttarfélög sem þetta frv. varðar. En ég er fyrir mitt leyti andvígur frv. Ég tel að það sé óþarfi að ganga svo langt í því efni að svipta lögreglumenn og tollverði verkfallsrétti. Ég tel að það sé verið að svipta fólk þarna mikilvægum mannréttindum, að menn geti lagt niður vinnu til að þrýsta á um kaup og kjör. Þess vegna mun ég ekki styðja þetta mál, en þar sem stéttarfélögin hafa fallist á það mun ég við meðferð málsins í hv. fjh.- og viðskn. og skil nefndarinnar láta það afskiptalaust en láta andstöðu mína við efni málsins koma fram í nál.