08.12.1986
Neðri deild: 17. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1416 í B-deild Alþingistíðinda. (1258)

228. mál, Kjaradómur

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Báðir síðustu ræðumenn hafa undirstrikað að það hefur átt sér stað tilfærsla á verkefnum frá allshn. yfir til fjh.- og viðskn. Það er í sjálfu sér ekki fjárhagsmál á nokkurn hátt hvort menn fái greidd laun eftir Kjaradómi eða í verkfalli. Það getur enginn svarað því fyrir fram undir hvorum kringumstæðunum er um hærri launagreiðslur að ræða. Málið í eðli sínu getur ekki heyrt undir fjh.- og viðskn. Það er ekki verið að taka ákvarðanir um fjárútlát af neinu tagi. Það er verið að taka ákvarðanir um réttindi og skyldur. Eru réttindi og skyldur orðin að fjárhagsmáli? Hvenær gerðist það? Er ætlunin að fara að reikna í krónutölu hvað þetta þýðir fyrir ríkið? Það verða fróðlegir útreikningar ef menn telja að það sé hægt að gera dæmið upp á þann hátt.

Auðvitað blasir við að það er verið að færa til verkefni með þessu móti. Tilfærslan hefur ekki byrjað á þessu þingi, það er alveg rétt. En í eðli sínu á málið ekkert erindi í fjh.- og viðskn. Það fjallar einfaldlega ekki um útreikninga á fjárupphæðum. Það fjallar um réttindi og skyldur.

Ég ætla ekki að hafa þessa umræðu lengri. En mig undrar ef menn telja að það geti verið rétt stefna í sölum þingsins að færa til mál á milli nefnda aðeins vegna þess að einhverjir ákveðnir þm., kannske að eigin áliti „súper“-þingmenn, hafa verið settir í ákveðnar nefndir og vilji mjög gjarnan fá málin til sín. Mér er alveg ljóst hverjir það eru sem hafa verið settir í fjh.- og viðskn. þingsins. Ég kannast mjög vel við þennan klúbb. Og ég skil vel að þeir vilji fá að taka á þessu máli. En þetta mál fjallar ekki um fjárhagsmál. Þetta mál fjallar um réttindi og skyldur. Og það er grundvallaratriði að menn geri sér grein fyrir því hvort það er verið að framkvæma þingsköp með eðlilegum hætti þegar svona er að málum staðið eða hvort það er verið að undirstrika að það eigi að taka upp þá stefnu að ráðherrar velji sjálfir til hvaða nefnda málum er vísað.