08.12.1986
Neðri deild: 17. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1417 í B-deild Alþingistíðinda. (1260)

228. mál, Kjaradómur

Páll Pétursson:

Herra forseti. Sem fyrirsvarsmaður fjh.- og viðskn. deildarinnar vil ég ekki gera hlut okkar minni en efni standa til, en ef verið er að ræða um „súper“-þingmenn eru þeir áreiðanlega ekki síður staddir í hv. allshn. deildarinnar en í fjh.- og viðskn. (ÓÞÞ: Þó er hlutur hinna ekki gerður minni en efni standa til.) A.m.k. er það ekki svo með framsóknarmennina.

Að öðru leyti er þessi umræða of seint á ferðinni. Ef menn hefðu viljað breyta þessari aldarfjórðungs gömlu hefð um að kjarasamningar opinberra starfsmanna færu til fjh.- og viðskn. og setja þá til einhverrar annarrar nefndar hefði átt að gera það áður en kjarasamningar opinberra starfsmanna voru sendir til fjh.- og viðskn. Hér er um að ræða tvö frv. sem eru fylgifrv. kjarasamninga opinberra starfsmanna og sjálfsagt að fylgi því máli og séu meðhöndluð í sömu nefnd. Þar af leiðir að nú þegar er búið að taka ákvarðanir sem hljóta að leiða til þess að fylgifrv. fylgi aðalfrv. og lendi hjá fjh.- og viðskn.