10.12.1986
Efri deild: 18. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1442 í B-deild Alþingistíðinda. (1301)

232. mál, Landkaupasjóður kaupstaða og kauptúna

Félagsmálaráðherra (Alexander Stefánsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. til l. um niðurfellingu laga nr. 54 frá 21. maí 1981, um Landkaupasjóð vegna kaupstaða og kauptúna.

1. gr. frv. er þannig:

„Lög nr. 54 frá 21. maí 1981, um Landkaupasjóð vegna kaupstaða og kauptúna, falla úr gildi. Jafnframt skal Lánasjóður sveitarfélaga skv. lögum nr. 35 frá 29. apríl 1966 yfirtaka eignir og skuldir Landkaupasjóðs og það hlutverk sem sá sjóður hafði skv. lögum nr. 54/1981.“

2. gr.: „Lög þessi öðlast gildi 1. janúar árið 1988.“ Árið 1963 voru sett lög nr. 41 27. apríl 1963, um aðstoð ríkisins við kaupstaði og kauptún vegna landkaupa. Tilgangur laganna kom fram í fyrirsögn þeirra, en í 1. gr. laganna var ákvæði um að ríkissjóður legði árlega á næstu tíu árum fram 3 millj. kr. sem heimilt væri að lána kaupstöðum og kauptúnum til að kaupa lönd og lóðir innan takmarka hlutaðeigandi sveitarfélags. Þéttbýlissveitarfélög víða um land höfðu mjög leitað ásjár ríkisins um fjárhagsaðstoð til að kaupa lönd og lóðir af einkaaðilum, en þá var engin fjármálastofnun í landinu til sem lánaði eða taldi sér skylt að veita sveitarfélögum langtímalán í þessu skyni.

Á árunum 1964-1972 voru árlega veittar 3 millj. kr. á fjárlögum til ráðstöfunar skv. landkaupasjóðslögunum frá 1963 og á árunum 1974-1980 voru árlega veittar 10 millj. kr. í þessu skyni. Samanlagt hefur framlag ríkissjóðs til Landkaupasjóðs á árunum 1964-1980 verið 97 millj. kr. miðað við verðlag hvers árs. Frá og með árinu 1981 hefur ekkert fé verið ætlað í fjárlögum til Landkaupasjóðsins. Á rúmlega tveggja áratuga starfsemi Landkaupasjóðsins hafa 50 sveitarfélög í öllum landshlutum fengið hjá honum lán til landkaupa, þar af tíu kaupstaðir, Grindavík, Garðabær, Seltjarnarnes, Akranes, Bolungarvík, Ísafjörður, Dalvík, Eskifjörður, Selfoss og Ólafsvík, og hafa sum þessara sveitarfélaga fengið lán oftar en einu sinni úr sjóðnum.

Skv. lögum nr. 41/1963 voru lánskjör ákveðin þannig að lánin voru svonefnd annuitets-lán til 25 ára með föstum vöxtum, 5% pr. anno, en með lögum nr. 50/1974 var ákveðið að taka upp verðtryggingu á útlánum sjóðsins. Í árslok 1980 nam skuldabréfaeign sjóðsins 183,6 millj. kr. sem vegna myntbreytingar urðu í ársbyrjun 1981 1 millj. 836 þús. kr. og skv. efnahagsreikningi sjóðsins 31. des. 1985 nam hrein eign hans 8 millj. 136 þús. 600 kr. Þess má geta til viðbótar að í árslok 1986 er eign sjóðsins um 10 millj. kr., en lán á þessu ári hafa verið til tveggja sveitarfélaga, þ.e. til Hólmavíkur 600 þús. og til Reyðarfjarðar 300 þús.

Þegar lög nr. 41/1963 voru sett var sem fyrr segir engin lánastofnun til í landinu sem veitti sveitarfélögunum langtímalán til landkaupa. Á árinu 1966 voru sett lög um Lánasjóð sveitarfélaga og tók hann til starfa á árinu 1967. Er þeim sjóði fyrst og fremst ætlað það hlutverk að veita sveitarfélögum fjárfestingarlán og skv. samningi félmrn. við Lánasjóð sveitarfélaga hefur sjóðurinn allt frá árinu 1967 annast afgreiðslu lána úr Landkaupasjóði, svo og annast innheimtu og bókhald fyrir sjóðinn, en félmrh. hefur tekið ákvarðanir um lánveitingar svo sem lögin mæla fyrir um.

Þar eð ríkissjóður hefur frá og með árinu 1981 hætt að leggja Landkaupasjóði til fjármagn, ráðstöfunarfé sjóðsins hefur farið minnkandi og starfandi er sjóður sem hefur það meginhlutverk að veita sveitarfélögum lán til langs tíma sýnist með öllu ástæðulaust að reka Landkaupasjóð áfram sem sjálfstæða stofnun til frambúðar heldur er lagt til að sameina hann Lánasjóði sveitarfélaga sem í tvo áratugi hefur séð um starfsemi Landkaupasjóðsins. Er því í frv. þessu lagt til að lög nr. 54 frá 21. maí 1981, um Landkaupasjóð vegna kaupstaða og kauptúna, verði felld úr gildi og Lánasjóður sveitarfélaga yfirtaki hlutverk og eignir Landkaupasjóðsins frá ársbyrjun 1988.

Stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga samþykkti á fundi sínum 24. okt. 1986 að höfðu samráði við stjórn Lánasjóðs sveitarfélaga að beina þeim tilmælum til félmrh. að Landkaupasjóður ríkisins skv. lögum nr. 54/1981 yrði sameinaður Lánasjóði sveitarfélaga. Ég hef því ákveðið að fara að óskum Sambands ísl. sveitarfélaga í þessu máli og þess vegna flyt ég þetta frv. á þskj . 249, enda ekki ástæða til að hafa tvö kerfi eins og hefur verið undanfarið.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að hafa lengra mál um þetta. Hér er um lítið mál að ræða, en þó mikilvægt að þessi breyting nái fram að ganga. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði frv. vísað til 2. umr. og félmn.