10.12.1986
Efri deild: 18. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1443 í B-deild Alþingistíðinda. (1303)

Útbýting mála í deildum

Helgi Seljan:

Virðulegi forseti. Klukkan er rúmlega hálfþrjú í næstsíðustu viku þings fyrir jól og Ed. orðin verkefnalaus og ekki í fyrsta sinn nú á liðnum dögum. Ég vildi vekja athygli á þróun þessara mála nú þó þetta sé ekki ný saga. Nd. fær nú til meðferðar hvert stórmálið á fætur öðru, þeim er þar hnappað inn. Fylgifrv. sem afgreiða þarf samhliða fjárlögum fara öll með tölu í Nd. nú að undanteknu einu sem flutt var hér í haust, eins konar bandormur sem hér var fluttur og fór þá til hv. fjh.- og viðskn. og hefur ekki síðan sést en á væntanlega eftir að koma hér, og að vísu hefur lánsfjárlagafrv. verið lagt fram einnig hér.

Þetta er ekki ný saga og ég veit að erfiðleikar hæstv. forseta eru ærnir. Ráðherrar ráða því nokkuð, virðist vera, hvar þeir leggja mál fram og hafa þar ekki neitt samstarf sín á milli að því er virðist vera og því síður að sami ráðherrann geti verið sjálfum sér samkvæmur í því að leggja mál nokkuð jafnt fyrir deildir.

Ég hef áhyggjur af afgreiðslumáta okkar í næstu viku og hlýt að óttast að enn einu sinni verði kannske í ríkara mæli en oft áður um óæskilega hraðafgreiðslu og ósæmileg vinnubrögð að ræða þegar allt það málaflóð sem ég sé að dembist yfir okkur úr Nd. kemur hingað í næstu viku. Á þessu hlýt ég að vekja athygli um leið og ég veit að hæstv. forseti hefur gert allt sitt til að breyta þessu, en hæstv. ráðherrar ekki nema í litlum mæli farið eftir þeim tilmælum.