10.12.1986
Neðri deild: 18. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1475 í B-deild Alþingistíðinda. (1315)

212. mál, virðisaukaskattur

Fjármálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Það er í sjálfu sér ekki mikil þörf á því að víkja að þeirri gagnrýni sem hér hefur komið fram. Hún er ekki veigamikil eins og hún hefur verið rökstudd hér í umræðunni eða af hálfu talsmanna stjórnarandstöðunnar. Ég tel þó rétt að víkja að einstökum atriðum.

Hv. 3. þm. Reykv. vék að því í upphafi ræðu sinnar að ég hefði tekið fram að þrír flokkar væru sammála því að taka upp virðisaukaskatt. Þar vísaði ég til þess að ríkisstjórnin er sammála um það, og stjórnarflokkarnir, að leggja þetta fram og að Alþfl. hefur nýlega gert um það ályktun. Ég hefði auðvitað átt að minnast á það að fyrrv. ríkisstjórn gerði einnig um þetta samþykktir en Alþb. átti aðild að þeirri stjórn. Ég tók það að vísu fram í upphafsræðu fyrir þessu máli að fjmrh. fyrri ríkisstjórnar hefði hafið það verk sem hér er lagt fram og hefur verið unnið að síðan og auðvitað tekið heilmiklum breytingum á þeim tíma. En óneitanlega er það staðreynd sem fyrir liggur að það var hv. þm. Ragnar Arnalds sem á sínum tíma sem fjmrh. hóf þetta starf.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Gunnars Thoroddsens segir svo, með leyfi forseta:

„Athugað verði að breyta söluskatti í skatt með virðisaukasniði innan tveggja ára.“

Nú er ég ekki í færum um að dæma nákvæmlega um það hvað átt er við þegar þannig er tekið til orða að tala um „skatt með virðisaukasniði“. Það má sjálfsagt teygja það svolítið og toga og ég ætla ekki að fullyrða um það hver hafi verið hugur þeirra sem þann texta sömdu. Hitt er ljóst að fjmrh. þeirrar ríkisstjórnar, hv. 3. þm. Norðurl. v., Ragnar Arnalds, túlkaði þetta á þann veg að hann fól sérstakri nefnd að semja frv. um virðisaukaskatt og það er upphaf þess máls sem við erum nú að ræða í dag. Á þeim tíma þótti málið vera svo brýnt, að hverfa frá söluskatti og taka upp nýtt kerfi, virðisaukaskatt eða skatt með virðisaukasniði, að talið var nauðsynlegt að gera það innan tveggja ára þegar sú ríkisstjórn var mynduð árið 1980.

Það er nauðsynlegt að hv. 3. þm. Reykv. hafi þetta í huga í umfjöllun sinni um þetta mál og minnist þess. Hann ræddi um nauðsyn samstöðu og samvinnu um málið og því fremur sem Alþb. átti þannig svo drjúgan þátt að upphafi málsins eins og hér hefur verið rakið, þá er eðlilegt að ætla sem svo að þeir Alþýðubandalagsmenn séu í alvöru tilbúnir til slíks samstarfs. Ég er fyrir mitt leyti mjög fús til þess að í þeirri nefnd sem um málið fjallar sé haft fullt samstarf og samráð við stjórnarandstöðuna. Auðvitað eru fjölmörg atriði í frv. sem þessu sem ræða þarf og vega og meta á hvern veg á að haga. Hliðarráðstafanirnar eru svo auk þess sérstakur þáttur sem við höfum lýst yfir að við viljum gjarnan ræða við aðra aðila, þar á meðal stjórnarandstöðuna, í því skyni að ná sem víðtækastri samstöðu.

Hv. 3. þm. Reykv. vék einnig að verðlagsniðurstöðum frv. Hann hélt því fram að með þessu frv. hækkaði allt verðlag um 24% þar sem ekki er söluskattur í dag og benti á að hliðarráðstafanirnar eru ekki hluti af frv. sjálfu. Auðvitað er það svo að hliðarráðstafanir, sem snerta aðra löggjöf eða stjórnvaldsákvarðanir, geta ekki og eiga ekki að vera hluti af frv. sjálfu. En við vildum tryggja með frv. að það væri til fjármagn til þessara hluta og að það kæmi fram með hvaða hætti unnt væri að tryggja það að þessi kerfisbreyting mundi ekki leiða til þess að framfærslukostnaður heimilanna hækkaði óeðlilega mikið.

Niðurstaðan af öllu þessu er sú, sem fram kemur í athugasemdum með frv., að með þessum hliðarráðstöfunum og því fjármagni sem þannig er tryggt er unnt að haga málum á þann veg að þegar tekið hefur verið tillit til niðurgreiðslna, tollalækkana og aukningar á barnabótum, þá er fjögurra manna fjölskylda, hjón með tvö börn, heldur betur sett en í núverandi kerfi. Auðvitað kemur þetta svolítið misjafnlega niður en þetta er eigi að síður staðreynd þegar horft er á málið í heild. Það verður þess vegna ekki sagt að þessi kerfisbreyting sé gegn láglaunafólkinu í landinu. Það er þvert á móti verið með ákveðnum hætti að tryggja það að þessi venjulega fjölskylda standi í svipuðum sporum og jafnvel heldur betur en nú.

Hv. þm. vék einnig að því að að hans mati væri þörf á jafnmiklu eftirliti, skatteftirliti eftir að þessi skattur væri upp tekinn eins og í söluskattskerfinu. Ég geri ráð fyrir því að þm. séu um það sammála að það sé nauðsynlegt að halda uppi virku skatteftirliti þó að kerfisbreyting sé gerð. Hins vegar er það samdóma álit flestra að með þessu nýja skattkerfi sé það auðveldara og hægara um vik og að það kerfi sé öruggara. Í athugasemdum með frv. segir m.a., með leyfi forseta:

„Öryggi virðisaukaskattsins ætti hins vegar að verða meira en söluskattsins, þegar af þeirri ástæðu að margvíslegri óvissu er eytt varðandi skattskyldumörkin og heilsteypt og rökrétt skattkerfi kemur í stað úr sér gengins kerfis. Undandráttur ætti einnig að minnka þar eð aðili, sem dregur veltu undan virðisaukaskatti, kemst ekki hjá því að greiða sjálfur skatt af aðföngum sínum.“

Þannig hygg ég að umfjöllun hv. þm. um þetta atriði hafi ekki við rök að styðjast.

Hv. þm. vék einnig að því að skriffinnska mundi aukast og slík aukning yrði að hafa tilgang í sjálfu sér. Hér hefur verið á það bent að skattskýrslum vegna þessara breytinga þarf ekki að fjölga þó innheimtuaðilum fjölgi vegna þess að uppgjörstímabilum er fækkað og á það hefur verið bent að skattskýrslurnar sjálfar verði einfaldari í sniðum. Eigi að síður fylgir þessu í ýmsum efnum meiri skriffinnska, hjá því verður ekki komist, en að sama skapi má spyrja: Geta menn hugsað sér það að lifa við núverandi söluskattskerfi óbreytt? Og ef þeir vilja breyta því, sjá þeir að það sé unnt að gera án þess að það hafi áhrif á skriffinnsku eða starfsmannahald við innheimtu skattsins?

Hér hefur einnig verið bent á að einföldun skattakerfisins í heild sinni kann að leiða til þess að unnt verði að fækka starfsfólki á öðrum sviðum þannig að það er engan veginn víst að það þurfi alla þá 35 menn til viðbótar þegar á hólminn er komið og þegar við höfum tekið jafnframt upp nýtt og einfaldara tekjuskattskerfi.

Hv. þm. vék einnig að niðurgreiðslum til húshitunar og hvernig ætti að koma þeim fyrir. Ég hygg að það liggi í augum uppi að það er ákaflega einfalt mál. Það mundi fara til orkufyrirtækjanna sjálfra, það eru tiltölulega fáir aðilar, og kostnaðarhækkunin kæmi því aldrei fram á reikningum notenda.

Hann vék einnig að spurningunni um hvort unnt væri að taka upp þessi nýju skattkerfi samtímis, virðisaukaskatt og nýtt tekjuskattskerfi. Það verður verulegt álag á skattkerfið að innleiða þessar grundvallarbreytingar á sama tíma. Hjá því getur ekki farið. Ég hygg hins vegar að menn séu sammála um að bæði þessi kerfi séu úr sér gengin, það sé full þörf og tími kominn til að taka á þessu verkefni og það megi ekki dragast mikið lengur. Um það höfum við heyrt margar ræður á hinu háa Alþingi. Mín skoðun er sú að þó að þetta sé á marga lund erfitt eigi að vera hægt að ná þessu fram, en auðvitað fer það að einhverju leyti eftir því hversu Alþingi vinnst við meðferð og úrvinnslu málsins hér. En að mínu mati er þetta unnt.

Hv. 5. þm. Reykv. taldi ekki vera á valdi þessa þings að ná um þetta samstöðu. Það er býsna skrýtin fullyrðing. Hvers vegna ætti þetta þing ekki að geta náð samstöðu um skattamál, um breytingu á óbeina skattkerfinu og beinu skattheimtunni í landinu? Er það allt í einu orðin afstaða Alþfl. að vilja tefja fyrir framgangi þessara mála? Hv. 3. þm. Reykv., sem yfirleitt er viðskotaillur, og flokkur hans fylgir þeirri stefnu að það eru sjaldnast miklar líkur á að unnt sé að ná víðtækri samstöðu með honum, hefur þó lýst því yfir við þessa umræðu að það sé eðlilegt að freista þess að ná sem víðtækastri samstöðu um málið. Ég skildi hans orð á þann veg að hans flokkur væri tilbúinn að leggja eitthvað af mörkum í því efni og fagna því út af fyrir sig. Það kemur mér þess vegna mjög á óvart þegar formaður Alþfl. lýsir því yfir að það sé enginn tími til þess og þetta þing sé ekki í neinum færum til þess að leita eftir því að samstaða náist um þessi mál. Hlýtur þar eitthvað annað að búa að baki en heill hugur varðandi það nauðsynjaverk að koma fram eðlilegum breytingum og nauðsynlegum.

Hv. 5. þm. Reykv. tók einnig fram að Alþfl. styddi ekki þetta frv. Öll afstaða Alþfl. í skattamálum er orðin hin kynlegasta og ekki síst að því er varðar óbeinu skattana. Framan af þessu kjörtímabili var það megintillaga flokksins að það ætti að byggja upp söluskattskerfið, afnema allar undanþágur, byggja það kerfi upp á þann veg á nýjan leik. Þetta var eitt höfuðmál Alþfl. og ekki svo lítill gauragangur gerður í ölluin þeim málflutningi. Á flokksþingi Alþfl. núna í haust var snúið við blaðinu í þessu efni og ályktað um að það væri rétt að taka upp virðisaukaskatt. Með leyfi forseta segir svo í ályktun flokksþings Alþfl. um skattamál:

„Viðurkennt er af öllum að verulega vanti á að söluskattur skili sér, bæði vegna þess að undanþágur eru margar og algengt er að söluskatti sé hreinlega sleppt í viðskiptum manna á milli. Flokksþingið ályktar því að taka beri upp virðisaukaskatt. Tryggt verði að skatturinn verði ekki til þess að hækka framfærslukostnað heimilanna.“

Hér er um að ræða mjög ótvíræða ályktun. Flokksþing Alþfl. ályktar að taka upp virðisaukaskatt. Með mjög afdráttarlausum hætti er horfið frá hinni fyrri stefnu. Nú eru ekki liðnar margar vikur frá því að þessi ályktun var gerð og þá kemur formaður Alþfl. upp í ræðustól á hinu háa Alþingi og heldur því fram að nú sé kannske komið svo að það sé eftir allt saman miklu betra að gera breytingar á söluskattskerfinu og hætta að ræða um virðisaukaskatt. Þannig virðist flokkurinn hlaupa frá einni stefnu til annarrar. Í fyrra var það breyting á söluskatti, í haust var það virðisaukaskattur, í desember er það aftur breyting á söluskattskerfinu. Hver verður stefna Alþfl. í janúar, hver verður hún í febrúar þegar flokkurinn hleypur svona fram og til baka? Það er furðulegt hvernig þessum málflutningi er hagað.

Hv. 5. þm. Reykv. vék einnig að því að skattprósentan væri að mati Alþfl. of há og Alþfl. væri hugsanlega tilbúinn að samþykkja virðisaukaskatt ef skattprósentan væri miklu lægri. Þá er rétt að lýsa eftir því hvernig á að lækka skattprósentuna. Virðisaukaskattskerfið felur sjálfkrafa í sér að tvísköttun eða uppsöfnun söluskattsins er hætt í kerfinu sjálfu. Það þarf ekki útgreiðslur eða endurgreiðslur. Þegar af þeirri ástæðu skilar hver prósenta ekki því sama og söluskattsprósentan vegna þess að tvísköttun er hætt. Það verður að taka tillit til þessa.

Hann vék einnig að því að þetta væri hæsta virðisaukaskattshlutfall í heimi. Nú er það auðvitað rangt. Í þessu sambandi verður einnig að hafa í huga að við erum með tiltölulega lægri tekjuskatt en flestar aðrar þjóðir og þess vegna ekki óeðlilegt að óbeinu skattarnir séu svipaðir eða kannske lítið eitt hærri en hjá öðrum þjóðum. Í Svíþjóð er virðisaukaskatturinn 23,46%, í Danmörku 22%, á Ítalíu til að mynda er hæsta hlutfall 38% og í ýmsum löndum er mismunandi skatthlutfall. Á Írlandi er almenna hlutfallið 25%, en einnig eru lægri hlutföll á ákveðnum sviðum. Þannig fær þessi fullyrðing auðvitað ekki staðist.

Ef Alþfl. hefur enn einu sinni skipt um skoðun í þessu efni og vill ræða breytingar á söluskattskerfinu með því að afnema allar undanþágur og lækka skatthlutfallið, hvernig á þá að mæta vanda atvinnuveganna? Nú vitum við að þessar skattundanþágur hafa ekki verið gerðar algerlega út í bláinn. Þær hafa verið gerðar í flestum tilvikum til að reyna að lagfæra það óréttlæti og þá mismunun sem felst í söluskattskerfinu. Hvað á að gera varðandi vörur sem seldar eru úr landi, útflutningsframleiðsluna? Er í hugmyndum formanns Alþfl. gert ráð fyrir að leggja söluskatt þar á? Á að gera það gagnvart útflutningsframleiðslunni eða á að undanþiggja hana áfram? Og ef á að undanþiggja hana áfram, hvernig kemur það við tekjuöflunarhugmyndirnar? Það má þylja upp langa lista um undanþágur. T.d. veiðarfæri. Ætlar formaður Alþfl. að leggja söluskatt á veiðarfæri, á áburð og grasfræ, á eldsneyti fyrir loftför og svartolíu og gasolíu á fiskvinnsluvélar? Ætlar formaður Alþfl. að leggja söluskatt á fiskvinnsluvélar? Það væri fróðlegt að fá þeirri spurningu svarað þegar hann ræðir um hugmyndir sínar um uppstokkun á núverandi söluskattskerfi. Hverju svarar hv. þm. því? Ætlar hann að leggja söluskatt á sjálfvirkar gagnavinnsluvélar? Á að taka þá skattheimtu upp? Vélar og tæki til fiskeldis og fiskræktar. Hvaða hugmyndir hefur formaður Alþfl. um söluskattsálagningu á þessi tæki eða vill hann taka til baka það hagræði sem ákveðið hefur verið að veita þessari atvinnugrein? Þannig mætti auðvitað lengi telja.

Ég held að það sé alveg óhjákvæmilegt að þeir sem eru að tala um að byggja upp söluskattskerfið svari þessu. Hvernig ætla þeir að mæta vanda atvinnuveganna sem hafa fengið undanþágur af þessu tagi? Eða ætla þeir að innleiða hér enn meira ranglæti í skattheimtu með því að leggja söluskatt á alla þessa aðila sem við höfum verið að aðstoða til að styrkja atvinnulífið? Þessu verða talsmenn þessarar kerfisbreytingar að svara.

Svo skýtur það svolítið skökku við þegar hv. 5. þm. Reykv. segir að það sé eitt aðalgagnrýnisefnið á virðisaukaskattsfrv. að það leggist virðisaukaskattur á ýmislegt sem núna er undanþegið í söluskattskerfinu, eins og til að mynda hótelrekstur. Þetta færir hv. þm. fram sem eitt aðalgagnrýnisefnið. Í sömu mund er hann að tala um að það sé æskilegt að taka upp og byggja upp gamla söluskattskerfið og afnema allar undanþágur. Hvað meinar hv. þm. með þessu? Hvernig er hægt að koma öllum þessum málflutningi heim og saman? Það er nauðsynlegt að fá á þessu glöggar skýringar. Það eiga að gilda önnur lögmál þegar verið er að tala um söluskattskerfi. Þá á að afnema allar undanþágur. En því er engu svarað, ekki með einu orði, hvernig á að mæta aðstöðu atvinnuveganna. Þegar aftur er farið að ræða um virðisaukaskattinn er talað um að það þurfi að koma á undanþágum fyrir þær atvinnugreinar sem núna eru undanþegnar söluskatti. Allur þessi málflutningur er býsna kyndugur en í samræmi við annað sem frá hv. þm. kemur í umræðum á hinu háa Alþingi og kemur að því leyti ekki á óvart.

Ég hygg að það þurfi ekki við þessa umræðu að víkja að fleiri atriðum sem fram hafa komið hjá talsmönnum stjórnarandstöðunnar, en ég ítreka að stjórnarflokkarnir eru vissulega fúsir til að eiga samstarf við stjórnarandstöðuna og samráð við afgreiðslu og umfjöllun þessa frv. Í flóknu máli sem þessu þarf vafalaust að ýmsu að hyggja og það er eðlilegt að freista þess, gera það sem unnt er til að ná sem víðtækastri samstöðu. Ég tek undir þau sjónarmið að það er æskilegt, þegar um er að ræða tekjuöflunarkerfi ríkisins, að um það náist breið samstaða. Því meira traust er á kerfinu og því meiri líkur eru á því að það haldi.

Það var vitnað til þess sem gerðist í Danmörku í þeim efnum. Þeir hafa virðisaukaskatt. Það er hluti af þeirra samstöðu að þeir eru ánægðir með virðisaukaskattinn og þeir hafa verið að gera breytingar sem taka gildi um næstu áramót á tekjuskattskerfinu sem að sumu leyti ganga í svipaða átt og við erum að undirbúa hér. Fyrir þessu hefur ríkisstjórn borgaraflokkanna beitt sér og það er fagnaðarefni að einmitt hinir sósíalísku flokkar á Alþingi Íslendinga skuli taka heils hugar undir þessa stefnumörkun. Í Danmörku, af því að þangað var vitnað, tóku sósíaldemókratar þátt í þessu samstarfi.

Ég ítreka það enn að ég er fús til að láta á það reyna hvort um þessi mál geti tekist samstarf og að taka þá eðlilegt tillit til sjónarmiða annarra í því efni. En mér þykir ótækt ef menn ætla að hefja þann málflutning að nú verði að skjóta öllu á frest, það liggi nú ekki meira á en svo að bæta tekjuöflunarkerfi ríkisins, og berja í þá bresti að það sé sjálfsagt að fresta því um eitt ár enn. Mér finnst að menn eigi í fullri alvöru að takast á við þetta verkefni og takast á við það á þessu þingi.