10.12.1986
Neðri deild: 18. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1483 í B-deild Alþingistíðinda. (1317)

212. mál, virðisaukaskattur

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Hugmyndir þær sem hæstv. fjmrh. gerir sér um samstarf og samráð eru vægast sagt heldur kyndugar. Kannske birtast þær mönnum í hvað dæmigerðustu ljósi þessa dagana í tengslum við svokallað Borgarspítalamál. Þar er einnig mikið talað um nauðsyn á samstarfi og samráði þrátt fyrir að það mál beri að með þeim hætti að eitthvað á annað þúsund manns, sem starfa við þessa merkilegu stofnun, frétta í fjölmiðlum eða úti í bæ að til standi eða jafnvel að við liggi að það sé búið að skrifa undir samning um að selja stofnunina með manni og mús eins og það er kallað.

Ef við lítum á samstarfsviljann í þessu máli skal þess getið að við áttum von á því að þetta mál kæmi til umræðu í byrjun vikunnar. S.l. föstudag, þegar þingflokkur Alþfl. hafði enn ekki séð þetta frv., gerði ég ráðstafanir til að útvega þingflokknum það úr fjmrn. Sú viðleitni bar því miður ekki árangur þannig að við sáum frv. fyrst í þeirri mynd sem það hér liggur fyrir í byrjun vikunnar. Fyrir hendingu óskaði hæstv. fjmrh. sjálfur eftir því að umræðu yrði frestað. Þetta segir allt sem segja þarf um samstarfsvilja og samstarfsóskir.

Að nefna síðan í sömu andránni þau vinnubrögð sem viðhöfð voru í danska þinginu af hálfu ríkisstjórnar þar við stjórnarandstöðu varðandi vandaða viðleitni til endurskoðunar á skattakerfi er náttúrlega að bera saman tvennt sem er eins og svart og hvítt. Hér hefur ekki verið uppi neinn samstarfsvilji eða samstarfstilburðir af neinu tagi. Málið er einfaldlega lagt hér fyrir og menn taka afstöðu til þess á þeim grundvelli.

Hæstv. fjmrh. spurði: Er nú Alþfl. allt í einu farinn að óska eftir því að endurskoðun skattakerfisins verði tafin? Heyr á endemi! Það er á engan hallað þótt það sé rifjað upp að enginn annar þingflokkur hefur jafnrækilega, jafnoft og jafnsamfellt gagnrýnt gildandi skattakerfi á hinu háa Alþingi. Nægir að vitna í tillöguflutning margvíslegan um það, allt frá tillögum um rannsókn og úttekt á umfangi skattsvika, frumkvæði að því kom frá þessum þingflokki, margvíslegar tillögur um aðgerðir gegn skattsvikum og tillögugerð að öðru leyti um afnám tekjuskatts á almennar launatekjur og tillögur og hugmyndir, reyndar er ofmælt að segja tillögur í formi þskj. um endurskoðun söluskattskerfis, en málflutning í ræðu og riti á Alþingi og á þskj. um það.

Það endurspeglar því ekki vilja til tafa þó að því sé lýst yfir að þingflokkur Alþfl. geti ekki fallist á það frv. sem hér liggur fyrir. Ég komst að orði eitthvað á þá leið að ef við ættum að geta veitt því atfylgi að okkar leyti fæli það í sér að það þyrfti að semja frv. upp á nýtt því að það yrði að gera á því svo veigamiklar og róttækar breytingar. Það kann að vera álitamál hvort það er gerlegt og hvort um það getur náðst samkomulag. Ef hæstv. fjmrh. er að segja að hann vilji það til vinna að samkomulag geti tekist milli þingflokka í þessu máli að frv. verði tekið og limað sundur lið fyrir lið og nýtt samið má vel vera að það takist jafnvel á þessu stutta þingi, því sem lifir af því, að koma þessu máli á lögbækur. Miðað við allar aðstæður, miðað við forsögu málsins og miðað við vinnubrögð tel ég það hins vegar harla ólíklegt. Ég verð að játa að mér finnst það raunar harla ólíklegt miðað við málflutning hæstv. ráðh. eins og hann birtist í svörum hans áðan. Ég tók skilmerkilega fram hvers vegna það væri að við þm. Alþfl. erum ósáttir við þetta frv. og getum ekki stutt það og hefði þess vegna vænst þess í ljósi ummæla um samstarfsvilja að hæstv. fjmrh. viki að því og ræddi það málefnalega. Okkar röksemdir voru þessar:

1. Álagningarprósentan er allt of há.

2. Við höfum rökstudda ástæðu til að ætla að afnám undanþága, víkkað skattskyldusvið, hert innheimta og aukið eftirlit muni skila ríkissjóði verulegum tekjuauka umfram það sem áætlað er í þessu frv. og það þýði þar með að þess sé kostur að lækka álagningarprósentuna verulega.

3. Við nefndum að miðað við þessa háu álagningarprósentu verði áhrif frv. til verðhækkunar, þar á meðal áhrif á kjarasamninga, óeðlilega mikil.

4. Við vildum fá nánari úttekt á áhrifum þessa frv. eða þeirrar lagasetningar sem af því leiddi á einstakar atvinnugreinar.

5. Við nefndum að það væru fyrir því málefnaleg rök að endurskoða hvort tveggja í senn, tekjuskattslög og löggjöf um óbeina skatta eða neysluskatta, og það væri nánast ógjörningur að afgreiða annað málið eitt út af fyrir sig án þess að fyrir lægi nákvæmlega hvað menn ætluðu að gera í hinu. Þetta segir sig nánast sjálft vegna þess að ef fyrir liggur að menn ætla að framkvæma gerbreytingu á tekjuskattskerfinu, sem fæli í sér verulega hækkun á skattfrelsismörkum, verulega grisjun á frádráttarliðum og upptöku staðgreiðslukerfis, mætti meta það mál út af fyrir sig sem lið í tekjujafnandi aðgerðum til móts við verðhækkunaráhrif sem hlytust af nýju kerfi óbeinna skatta.

Loks nefndum við að þær hliðarráðstafanir, sem hér eru boðaðar og eru m.a. nauðsynlegar vegna þess hversu fyrirhuguð álagningarprósenta er há, væru af því tagi að við gætum með engu móti stutt þær.

Í stað þess að fjalla um þetta á málefnalegum grundvelli eða gefa til kynna afstöðu sína til einstakra atriða svaraði hæstv. fjmrh. aðallega með útúrsnúningi. Útúrsnúningurinn var einkum sá að segja: Flokksþing Alþfl. hefur samþykkt stuðning við virðisaukaskatt. Það út af fyrir sig er rétt. Hins vegar var það engan veginn skilyrðislaust og jafngildir engan veginn stuðningi við þetta virðisaukaskattsfrumvarp vegna þess að sú ályktun sem hæstv. fjmrh. vitnaði til, sem er útdráttur úr miklu lengra skjali, endurspeglar það ekki réttilega. Þar að auki kom það hvergi fram í mínu máli að við höfnuðum virðisaukaskatti sem slíkum. Því fer fjarri. Ég tek fúslega undir það að frá fræðilegu sjónarmiði hefur virðisaukaskattur kosti umfram það söluskattskerfi sem við búum við og um það þarf ekkert að deila. Þess vegna hefur það frá upphafi komið til greina að endurskoðun söluskattskerfis af okkar hálfu yrði í formi virðisaukaskatts. En það getur ekki orðið í formi þess frv. sem hér liggur fyrir, eins og ég er búinn að tíunda og telja upp lið fyrir lið. Við höfum sagt: Við erum tilbúin til viðræðna við aðra flokka um að koma á virðisaukaskatti, en það er bundið ákveðnum skilyrðum. Ég er þegar búinn að telja upp hver þau helstu eru. Þetta frv. fullnægir ekki þeim skilyrðum. Meðan svo er erum við andvígir frv. þó við höldum því að sjálfsögðu opnu að ef eitthvert hald reynist í almennum orðum talsmanna ríkisstjórnarinnar um að þeir séu reiðubúnir til samkomulags og samninga erum við fúsir til að láta á það reyna. En frv. í óbreyttri mynd samþykkjum við ekki.

Tilraunir hæstv. fjmrh. til að láta líta svo út sem Alþfl. hafi hringlað með sínar tillögur eru út í hött. Við stöndum frammi fyrir vali. Ef ekki getur náðst samstaða um virðisaukaskatt er þess að geta að menn eru orðnir sammála um að söluskattskerfið sé ótækt óbreytt, það hafi gengið sér til húðar. Það er prýðilega rökstutt í grg. frv. þó ég minnist þess reyndar að fyrir tveimur, þremur árum, þegar við hófum þá gagnrýni af fullum krafti á hinu háa Alþingi, urðu ákaflega fáir til þess að taka undir það og síst af öllu flokksbróðir hæstv. núv. fjmrh. og forveri hans á stóli fjmrh. Við stöndum frammi fyrir því vali að ef ekki tekst samkomulag um breytt form á þessu virðisaukaskattsfrv. hafa menn þann kost að endurskoða gildandi söluskattskerfi. Það kemur prýðilega fram, eins og ég sagði, hvað það er sem þarf að gera til þess að það verði á annað borð nothæft skattkerfi. Það er auðvitað fyrst og fremst í því fólgið að víkka skattskyldusviðið og afnema undanþágur í stórum stíl.

Hæstv. fjmrh. spurði: Hversu langt á að ganga í afnámi á undanþágum? Undanþágurnar styðjast við ákveðin rök. Það eru einhverjar ástæður fyrir því að þessar undanþágur hafa verið veittar. Þær eru að vísu mjög margvíslegar og margvísleg rök á bak við það, engan veginn öll þau sjónarmið að taka tillit til uppsöfnunaráhrifa og þar af leiðandi samkeppnisstöðu atvinnuvega. Þau eru af margvíslegu tagi, bæði lögbundin og ólögbundin. Margt af því eru bara geðþóttaákvarðanir og atkvæðakaupahugmyndir einstakra fjármálaráðherra á liðinni tíð. En það vill svo til að við höfum beint spurningum til fjmrn. um það mál og gáfum í því ákveðna forsendu um hvað við ættum við með afnámi á undanþágum. Í þeim spurningum var gert ráð fyrir að það yrði að öðru jöfnu undanþágulaust nema að því er varðaði endursöluvörur, hráefni og útflutningsvörur, og reyndar ríkisgeirinn sjálfur. Þetta voru þær undanþágur sem við gáfum þegar við beindum þeirri spurningu til fjmrn.: Hverju mundi slíkt söluskattskerfi skila í formi aukinna tekna til ríkissjóðs? Svörin voru af því tagi að tekjuaukinn af þessu gæti allt að því tvöfaldað tekjur ríkissjóðs, en það var ekki okkar hugmynd, til þess ber enga nauðsyn, heldur er þá spurningin þessi: Ef afnám undanþáganna leiðir til þessarar niðurstöðu er um leið hægt í þessu kerfi að lækka söluskattsprósentuna mjög verulega. Það er eitt af þeim markmiðum sem við viljum ná. Eins og mig minnir að ég hafi vitnað til í ræðu minni áðan var svar fjmrh. á þessa leið:

„Sé tekið mið af þeirri útvíkkun skattskyldusviðsins sem fram kom í svari mínu við fyrstu tveimur liðum fsp. lætur nærri að 12% söluskattur skili ríkissjóði sömu tekjum og núverandi skattkerfi.“

Auðvitað liggur í augum uppi að það gæti ekki orðið niðurstaðan vegna þess að í óbreyttu söluskattskerfi er óhjákvæmilegt að taka tillit til samkeppnishæfni íslenskra atvinnuvega, útflutningsatvinnuvega og samkeppnisgreina, og taka tillit til uppsöfnunaráhrifa, sem eru höfuðgalli í söluskattskerfinu, í formi endurgreiðslna þannig að nettó gæti niðurstaðan ekki orðið þessi þó að hún gæti engu að síður, að því er virðist, orðið mun lægri prósenta en hér er gert ráð fyrir sem er um leið rökstuðningur fyrir því að ég tel að fjmrn. vanmeti í grg. sinni fyrir virðisaukaskattinum þann tekjuauka sem ríkið getur gert sér vonir um í undanþágulitlu kerfi, hvort heldur er um að ræða virðisaukaskatt eða söluskatt.

Reyndar er ástæða til að geta þess að í þeim hugmyndum sem við reifuðum um undanþágulítið söluskattskerfi var það veigamikið atriði að söluskattur í mun lægri prósentu yrði lagður á allan innflutning við tollafgreiðslu. Í grg. með þessu frv. segir á bls. 40, með leyfi forseta:

„Hlutfall innfluttra vara í heildarneyslunni er mjög hátt hér á landi miðað við önnur nálæg lönd. Um árabil hefur allur innflutningur verið skráður og flokkaður í tölvum á einstaka innflytjendur, en þau gögn geta skattyfirvöld síðan notað til veltueftirlits. Hér er um mjög mikil eftirlitsgögn að ræða sem munu ekki eiga sér hliðstæðu með öðrum þjóðum. Eftirlit með heildarveltu ætti m.a. af þessum ástæðum að geta orðið mjög virkt hér á landi.“

Þetta er eitt út af fyrir sig mjög veigamikill þáttur í því að reyna að koma í veg fyrir með árangursríkum hætti undandrátt og skattsvik í söluskatti. Að vísu yrði það í framkvæmd að byggjast á einhverjum heimildum um gjaldfrest í kerfinu. Niðurstaðan í þessu máli er því ósköp einfaldlega sú: Það er út af fyrir sig mjög æskilegt ef það gæti tekist að ná víðtæku samkomulagi um aðgengilegt form á virðisaukaskatti vegna þess að um það er ekki deilt að það skattform hefur ákveðna kosti. Eins og þetta mál er lagt fyrir virðist samkomulagsviljinn vera lítill á þessu stigi málsins og bilið milli sjónarmiða, a.m.k. mín annars vegar og okkar í þingflokki Alþfl. og stjórnarliða hins vegar, virðist vera býsna breitt. Ef ekki tekst slíkt samkomulag ber ríkisstjórninni hins vegar skylda til að gera breytingar á núverandi söluskattskerfi. Þær gat hún gert miklu fyrr vegna þess að það er tiltölulega fljótlegt ef hún vill standa við þá gagnrýni sem hér er sett fram og tíunduð lið fyrir lið á núverandi söluskattskerfi. Það er talið beinlínis ónýtt. Loksins liggur sú viðurkenning skjalfest fyrir. Henni hefði verið í lófa lagið að gera löngu brýnar breytingar á því kerfi, gera það a.m.k. virkt í stað þess að horfa aðgerðarlaust á það árum saman og tala sífellt um virðisaukaskatt. Við erum búin að sjá mörg virðisaukaskattsfrv. og margar skýrslur. Má það reyndar furðulegt heita að ekki skuli hafa gengið betur af hálfu hæstv. fjmrh. og ráðuneytis hans að koma því í það form sem trúlega gæti leitt til einhverrar samstöðu vegna þess að andstaðan byggist ekki á neinum fordómum gegn virðisaukaskatti, andstaðan byggist á alveg sérstökum afmörkuðum þáttum sem auðvelt er að færa rök fyrir.

Að lokum var spurt: Ef við værum að mæla með undanþágulausu söluskattskerfi, hvernig ætti þá að mæta vanda þeirra atvinnugreina sem áður voru undanþegnar söluskatti en hlytu að bera hann? Svarið við því er ósköp einfalt: Sá vandi er þeim mun minni sem söluskattsprósentan yrði lægri. Það er mikill munur á hvort við erum að tala um 12 eða 15% söluskatt eða 24% virðisaukaskatt. Vandinn er þeim mun minni sem söluskattsprósentan er lægri út af fyrir sig. Það er mjög þýðingarmikið atriði. En í annan stað er ekkert undan því að víkjast og hefur alltaf verið vitað að ef menn ætla á annað borð að halda sig við undanþágulaust söluskattskerfi eða undanþágulítið felur það í sér kvöð um endurgreiðslu til að koma í veg fyrir uppsöfnunaráhrif. Tekjuauka af slíku kerfi í lægri prósentu yrði að einhverju leyti að verja til þess. Að öðru leyti gildir það sama um það kerfi og virðisaukaskatt að einhverjum fjármunum verður að verja til tekjujafnandi aðgerða. En jafnvel um það atriði eins og önnur á það við að það er ekki sama með hvaða hætti það er gert. Það fer ekki saman að segja: Það er einn höfuðkostur virðisaukaskattsins að hann er hlutlaus að því er varðar áhrif skattsins á efnahagsstarfsemina, einstakar atvinnugreinar og fyrirtæki, en ætla síðan að beita hliðarráðstöfunum sem eru aðallega í því fólgnar að greiða niður hefðbundnar landbúnaðarafurðir og eyða þar með hlutleysisáhrifunum, ætla þannig að stýra neysluvali og hafa þar með áhrif á stöðu atvinnuvega. Þetta tvennt fer ekki saman. Þetta er í algjörri þversögn. Hitt er kannske ekki að undra að 1. þm. Suðurl., hæstv. fjmrh., skuli leggja fyrir þingið þau áform að ætla að auka skattheimtu í formi virðisaukaskatts og nota tækifærið við upptöku virðisaukaskatts til að auka tekjuöflun ríkisins um 2,5-3 milljarða og ætla að nota bróðurpartinn af þeirri upphæð til að greiða niður ket og smér. Ég leyfi mér hins vegar að vefengja að slík framsóknarmoðsuða eigi miklu fylgi að fagna í flokki hæstv. fjmrh.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri. Ég árétta að lokum að þingflokkur Alþfl. hefur ekki af neinum „prinsip“-ástæðum hafnað virðisaukaskattsforminu og það er staðreynd að við erum reiðubúnir að leita samkomulags við aðra þingflokka um það, en engu að síður er það staðreynd eftir athugun þessa máls í okkar þingflokki að í óbreyttu formi getum við ekki samþykkt það. Ef hins vegar kemur fram einhver vilji, hvort heldur er af hálfu stjórnarliða eða annarra þingflokka hér, að endurskoða þetta mál frá grunni og taka tillit til þeirrar gagnrýni sem við höfum fram fært, bæði að því er varðar veigamestu efnisatriði frv. sjálfs og hliðarráðstafanirnar, mun ekki standa á okkur að taka þátt í því starfi. En þá verður sá samstarfsvilji að birtast í verki og það mundi fela í sér, eins og ég sagði áðan, nánast að vísa á bug þessu frv. og semja nýtt í staðinn.