11.12.1986
Sameinað þing: 28. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1491 í B-deild Alþingistíðinda. (1321)

222. mál, kaup ríkisins á Borgarspítalanum

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Spurningar hv. fyrirspyrjanda voru margar sérkennilegar og fullyrðingar fram settar sem alls ekki stóðust.

Hin fyrsta fullyrðing sem ekki stenst er sú að ekkert hafi verið undirbúið í tíð þessarar ríkisstjórnar að flytja sjúkrahúsin á svokölluð föst fjárlög. Réttara væri að segja bein fjárlög því að við þekkjum það vel að ef forsendur fjárlaga standast ekki hjá stofnunum ríkisins, þá eru oft og einatt og oftar en ekki afgreiddar aukafjárveitingar til að bæta þann halla.

Í fyrra var gert ráð fyrir því í fjárlagafrv. að sjúkrahúsin flyttust af daggjaldakerfi á föst fjárlög. Ég ákvað að beita mér fyrir því að þessu yrði breytt og veittur frestur í eitt ár til að undirbúa þetta mál. Þá fylgdi á eftir þeirri ákvörðun nefndarstarf sem hófst í janúarmánuði og var unnið að undirbúningi með fulltrúum þeirra aðila sem hlut áttu að máli. Þetta nefndarstarf stóð í marga mánuði og fengnir voru til viðtals forsvarsmenn hvers einasta sjúkrahúss sem hér átti hlut að máli. Það var farið ofan í fjármál, rekstur og skipulag hvers einasta sjúkrahúss sem hér átti hlut að máli með þess eigin forráðamönnum þannig að þetta mál hefur verið eins vandlega undirbúið og nokkur kostur var á.

Við stöndum andspænis þeirri staðreynd að á daggjaldasjúkrahúsunum er 16% halli að meðaltali. Á fjárlagasjúkrahúsunum, sem svo má nefna, er 46% halli. Það er eðlilegt og sjálfsagt að bæði þeir sem bera ábyrgð á fjármálum ríkisins eins og Alþingi gerir með fjmrh. í broddi fylkingar og fagráðherra, í þessu tilviki heilbrmrh., ásamt líka Alþingi að sjálfsögðu og enn þá fremur, leiði hugann að því hvort hér sé eitthvað hægt að bæta um í rekstrinum. Einfaldasti hluturinn er sá að haga aðferðum með þeim hætti að sjálft kerfið feli í sér hvatningu fyrir stofnanirnar sjálfar til þess að gera raunhæfar áætlanir og fylgja þeim svo vel sem verða má. Það felur fjárlagakerfið í sér. Og það á að vera hægt að ná nákvæmlega eins góðri þjónustu fyrir þá peninga eins og þá peninga sem eru afgreiddir með ákvörðunum daggjaldanefndar. Vitanlega er þetta ekki hlutur sem skiptir máli um afkomu sjúkrahúsa nema þá að allir hlutir ættu að vera greinilegri, bæði áætlanir og framkvæmd þeirra. Í þessu felst aðhald með því að skynsamlega sé rekið, svo að hin besta þjónusta fáist með sem hagkvæmustum hætti. Þetta er númer eitt og löngu ljóst og rækilega undirbúið fyrir fjárlagavinnuna nú í haust. Hafi komið í ljós að þar hafi einhverjar upplýsingar ekki komið fram eða einhverjar forsendur brostið í þeim áætlunum, sem þá voru gerðar, er það vitanlega skoðað núna á milli umræðna en þar mun ekki skakka nema mjög litlu.

Hv. þm. spyr hvort heilbrmrh. muni beita sér fyrir því að ríkið kaupi Borgarspítalann. Því er til að svara að það er ekki mín stefna að ríkið kaupi Borgarspítalann. Það liggur ósköp ljóst fyrir að það hefur komið fram ósk af hálfu borgarinnar að ríkið gangi til samninga um þetta efni og endurgreiði borginni þá fjármuni sem hún hefur lagt sjúkrahúsinu til umfram þau 15% sem lögskylt er skv. núgildandi reglum. Um þetta hafa þær viðræður snúist.

Ég get hins vegar skýrt frá því að ef hverfa á að þessu ráði tel ég að fyrir slíkri ráðabreytni þurfi að vera ein meginröksemd. Hún er sú að með slíkri breytingu gerist það að fyrirkomulag stjórnunar verði á þann veg að við teljum það hafa aukna hagræðingu í för með sér í þeim tilgangi að hin besta þjónusta náist fyrir fjármuni þar sem ekkert fer forgörðum. Þetta tel ég vera sjálfsagða ábyrgð gagnvart þeim almenningi sem leggur peningana sína í skatta m.a. til að reka stofnanir til að veita þjónustu.

Hér er um að ræða afar mikilvægt starf sem komið er til fyrir frumkvæði Reykjavíkurborgar, það starf sem fer fram á Borgarspítalanum, og það er engin ný saga að það þyki sjálfsögð hagkvæmnisrök og sjálfsögð fagleg rök í því að ná betra og nánara samstarfi milli þeirra stórspítala sem hér eiga hlut að máli, annars vegar innan ríkiskerfisins og hins vegar innan borgarkerfisins, enda hefur það á margan veg komist á.

Nú stendur svo á, eins og hv. þm. vita, að öll sveitarfélagasjúkrahús landsins eru fjármögnuð, rekstur þeirra, af ríkinu frá 90% og yfirleitt er það langt yfir 90%. Rekstur Borgarspítalans er fjármagnaður af borginni innan við 10%. Það er gamalt og nýtt baráttumál sjálfstæðismanna að fjármagnsábyrgð og rekstrarábyrgð fari saman svo sem verða má. Þess vegna hefur það verið mikil röksemd í máli borgarstjóra að það muni gerast með þeirri breytingu sem við hér ræðum um.

Á hinn bóginn er ljóst að það verður að mínu mati og um það erum við sammála- að ganga til móts við þær röksemdir, sem mjög hafa komið fram og að vonum af hálfu starfsmanna Borgarspítalans, að í því kerfi sem við búum við lögum samkvæmt verði að ganga svo frá málum að sjálfstæði Borgarspítalans sé tryggt. Ég held að það sé unnt. Ef af þessu verður mun ég gera það. En ég mun ekki ganga til þessara aðgerða nema að fyrir liggi að ljóst sé með hvaða hætti staðið verður að fyrirkomulagi eftir slíka eignatilfærslu og þá á þann veg að líklegt sé að meiri hagræðing og betri þjónusta fáist með þeirri ráðabreytni. Þetta voru meginatriðin.

Ég leyfi mér að bæta því við, herra forseti, að mig undrar það mjög að heyra baráttumann Heilbrigðisstofnunar Íslands tala á þann veg sem hann gerði áðan. Hér er ekki verið að tala um að stofna Heilbrigðisstofnun Íslands. (SvG: Hvað er ráðherrann að tala um?) Hér er verið að tala um nánara samstarf Borgarspítalans sem, ef af kaupum verður, verður ríkisspítali, spítala sem er starfræktur á sömu þúsund fermetrunum og annar stórspítali landsins. Og Borgarspítalinn þjónar landsmönnum öllum. Það skulum við ekkert fara í grafgötur um. Það vita allir. Eða til hvers er þyrluflugvöllurinn fyrir utan Borgarspítalann nema til þess að þjóna allri landsbyggðinni að sjálfsögðu? En því fylgja engin hagkvæmnisrök að hafa sjúkrahús út um sveitir landsins undir sömu samræmingarstjórn og tvo, þrjá eða fjóra ríkisspítala sem nú þegar eru starfræktir innan ríkisspítalakerfisins á höfuðborgarsvæðinu. Þetta vil ég taka fram og mér finnst engin ástæða til að leggja að líku þetta mál, sem við höfum nú fyrir augum, og svo aftur á móti rekstur annarra sjúkrahúsa út um land. Þar fer það saman að staðarþekking og rekstrarábyrgð kemur sér mjög vel og svo verður auðvitað áfram.