11.12.1986
Sameinað þing: 28. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1496 í B-deild Alþingistíðinda. (1328)

222. mál, kaup ríkisins á Borgarspítalanum

Kolbrún Jónsdóttir:

Herra forseti. Ég skal reyna að hafa þetta stutta athugasemd, en ég mótmæli því, sem kom fram hjá ráðherra, að sama ætti ekki að gilda um öll sjúkrahús í landinu ef verið er að breyta lagagildi, þ.e. ríkið greiði nú upp í 85% fyrir Borgarsjúkrahúsið, en áður fyrr voru skiptin 40 og 60%. Nú eru sjúkrahús víðs vegar um landið þar sem hreppsfélögin greiddu 40% og ríki 60% og ef ríkið er núna svo efnað að það getur keypt mismuninn af borginni ætti það að geta keypt alls staðar um landið. Eftir þeim lögum sem gilda eru ekki undir stjórn ríkisins þær hjúkrunarstofnanir og sjúkrastofnanir sem ríkið borgar 85% í þannig að hér hefur ekki komið fram nein skýring á hvers vegna borgin vill selja Borgarsjúkrahúsið. Þetta er í mínum huga einungis spurning um tilfærslu á fjármunum og hvernig borgin getur náð í meira fjármagn til framkvæmda. Þetta er mjög eðlilegt þegar fjárhagsstaða sveitarfélaga er mjög þröng, en mjög óeðlilegt ef á að mismuna landsmönnum með því að eitt sveitarfélag geti selt gömul tæki og steinsteypu, en önnur sveitarfélög á landinu sem reka sjúkrahús megi sitja með sárt ennið og jafnvel úrelt tæki en ríkið komi þar ekki inn í og greiði mismuninn á þeim prósentum sem nú eru í gildi og þeim sem voru í gildi þegar sjúkrastofnanirnar voru byggðar. Ég tel að það sé mjög mikilvægt að þetta verði rætt við 2. umr. fjárlaga því að það eru tólf aðrar stofnanir sem fara líka á föst fjárlög og ég tel það blekkingu í fjölmiðlum að tala um að þetta sé einhver spurning um föst fjárlög eða daggjaldakerfi.