11.12.1986
Sameinað þing: 28. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1501 í B-deild Alþingistíðinda. (1334)

222. mál, kaup ríkisins á Borgarspítalanum

Sigríður Dúna Kristmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Það er ekki vansalaust að enn á ný skulum við ræða stórmál sem þetta í fyrirspurnatíma en allir vita að fyrirspurnatími er mjög takmarkaður að því leytinu til að þm. hafa í raun, aðrir en ráðherra og fyrirspyrjandi, ekki leyfi til að gera nema eina örstutta athugasemd. Ég lýsi því hér þeirri skoðun minni að ég tel að það sé kominn tími til að við þm. setjumst niður og skoðum aftur þetta ákvæði þingskapalaganna.

En ég kom í ræðustól núna til að koma á framfæri tveimur leiðréttingum og einni upplýsingu og ég vona að það samrýmist þingsköpum, herra forseti.

Í máli hv. þm. Ólafs Þ. Þórðarsonar kom fram að aðeins brot af Reykvíkingum sæki þjónustu Borgarspítalans. Það er ekki rétt. 75% af sjúklingum Borgarspítalans eru Reykvíkingar.

Í öðru lagi hefur hér verið talað um hallarekstur Borgarspítalans, en það hefur enginn minnst á að Borgarspítalinn hefur með höndum umfangsmestu slysaþjónustu sem sjúkrastofnanir hér á landi sinna og að slysalækningar eru einhverjar dýrustu lækningar sem um getur. Þess vegna mætti búast við því að hallarekstur Borgarspítalans væri mun meiri en annarra sjúkrahúsa og mun meiri en hann er í dag.

Í þriðja lagi, og það er leiðrétting og sú síðasta sem ég vil koma á framfæri, herra forseti, og það er vegna orða hæstv. ráðh. áðan þess efnis að hún hafi ekki talið sér skylt að bera mál þetta undir þm. Kvennalistans á því stigi sem það væri núna. Ég vil upplýsa hæstv. ráðh. um að þm. Kvennalistans hafa ekki farið fram á að ráðherra bæri þetta mál undir þann þingflokk fyrstan af öllum. Hins vegar höfum við látið í ljós þá skoðun að sjálfsagt, nauðsynlegt og eðlilegt hefði verið að hafa samráð við starfsfólk Borgarspítalans um þetta mál. Að það skuli ekki hafa verið gert lýsir í rauninni vel öllu verklagi í þessu máli.