11.12.1986
Sameinað þing: 28. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1502 í B-deild Alþingistíðinda. (1335)

222. mál, kaup ríkisins á Borgarspítalanum

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Það er aðeins athugasemd í tilefni af þeirri fullyrðingu hv. 3. þm. Reykv. að betur hafi verið staðið að málum þegar Landakot og Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri hafi verið sett á föst fjárlög. Þá hefði nefnilega verið gerður sérstakur samningur. En eigum við aðeins að upplýsa staðreyndir. Þessi sjúkrahús vissu um þessa ákvörðun sama daginn og fjárlagafrv. var lagt fram. Landakot vissi um þessa ákvörðun tveim klukkustundum áður en fjárlagafrv. var lagt fram. Þetta eru staðreyndirnar í málinu og það er óþarft að vera að halda slíkum firrum fram í þessu máli. Það sýnir bara hve litla trú hv. þm. hefur á þeim fáu rökum sem hann hefur reynt að tína hér fram að tína upp svona vitleysu. (SvG: Þetta er nú pex, hæstv. ráðh.) Já, það er sjónarmið hv. þm. að það sé pex að hafa staðreyndirnar réttar sem verið er að tala um, að tala um staðreyndir en ekki um rangfærslur. Þetta er þinglegur mórall sem ég veit ekki hvort menn kunna við, en það er smekksatriði. (SvG: Það er forsetans að dæma um þinglegan móral.)

Það var kannske ekki stórt atriði og sennilega alveg óvart sem það kom fram, atriði sem er nauðsynlegt að leiðrétta og ég geri ráð fyrir að hv. 3. landsk. þm. hafi ætlað að leiðrétta áðan þegar hún bað um orðið. Það var að í máli hv. 10. landsk. þm. kom fram dæmi um ýmiss konar starfsemi sem aðeins væri á Borgarspítalanum, ekki á Landspítalanum. Það er rétt að mikilvæg verkaskipting er í ýmsum greinum milli þessara stofnana, en ráðgjöf um eyðni er í Landspítalanum en ekki í Borgarspítalanum. Hins vegar er afar mikilvægt samstarf lækna á báðum þessum spítölum um það efni og m.a. viðbúnaður í sjúkrahúsunum. Þetta vildi ég láta fram koma.