21.10.1986
Sameinað þing: 5. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 203 í B-deild Alþingistíðinda. (134)

30. mál, truflanir í símakerfinu

Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Fjarskipti varða okkur æ meira í daglegu lífi og þar á meðal þjónusta Pósts og síma. Það skiptir ekki aðeins máli að þessi þjónusta sé á viðunandi og jöfnu verði fyrir landsmenn, heldur einnig að hún geti gengið snurðulaust fyrir sig og það eiga margir undir því að svo sé. Ég hef flutt till. til þál. um jöfnun á símkostnaði meðal landsmanna, en hér mæli ég fyrir fsp. til hæstv. samgrh. um truflanir í símakerfinu vegna álags.

Nú eftir að landsmenn, flestir ef ekki allir, eru komnir í sjálfvirkt samband á vegum símans hefur þess gætt og það í vaxandi mæli undanfarin ár að menn nái ekki sambandi og ástæðan er talin vera of mikið álag á símakerfið, tæknibúnaður símans ráði ekki við álagið sem veldur því að menn reyna iðulega tímunum saman að ná beinu sambandi í gegnum sjálfvirka kerfið án árangurs. Það er mjög mismunandi hvernig til tekst, bæði eftir dagstíma og eins þess hvert verið er að hringja, en að mínu mati bitnar þetta alveg sérstaklega á viðskiptavinum símans á landsbyggðinni sem þurfa meira á langlínu að halda en fólk hér á Reykjavíkursvæðinu en auðvitað gildir þetta einnig um samband út á land frá Reykjavík og nágrenni þó ekki sé það kannske eins tilfinnanlegt.

Ég leyfi mér, herra forseti, að spyrja hæstv. samgrh.:

1. Hverjar eru helstu ástæður fyrir truflunum á langlínusambandi vegna álags?

2. Hvaða ráðstafanir eru fyrirhugaðar til úrbóta og hvenær má vænta þess að þær verði gerðar?

Ég vænti þess að við fáum greinargóð svör frá hæstv. ráðherra um þetta efni.