11.12.1986
Neðri deild: 19. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1510 í B-deild Alþingistíðinda. (1348)

233. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Félagsmálaráðherra (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til l. um breytingu á lögum nr. 73 26. nóv. 1980, um tekjustofna sveitarfélaga, með síðari breytingum, 233. mál Nd. á þskj. 250.

Skv. 8. mgr. 26. gr. laga nr. 73 26. nóv. 1980, um tekjustofna sveitarfélaga, skulu fjárhæðir í 26. gr. laganna breytast í samræmi við skattvísitölu eins og hún er á hverjum tíma, sbr. 121. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum. Þar sem ekki er gert ráð fyrir því að í fjárlögum ársins 1987 verði tilgreind skattvísitala er nauðsynlegt að breyta fjárhæðum í 26. gr. laganna nr. 73 1980 með sérstökum lögum. Að mati Þjóðhagsstofnunar er gert ráð fyrir að laun hækki um 31% á milli áranna 1985 og 1986. Er því skv. frv. þessu gerð sú tillaga að fjárhæðir í 26. gr. laganna nr. 73/1980, um tekjustofna sveitarfélaga, hækki um 31%. Er sú hækkun í samræmi við hækkun frádráttarliða frá tekjum sem gerð er tillaga um af sama tilefni í frv. til l. um breytingu á lögum um tekjuskatt og eignarskatt sem liggur til afgreiðslu á Alþingi.

Eins og kemur fram í 1. gr. frv. eru þessar breytingar þannig í sambandi við 26. gr. að hjá þeim aðilum sem ræðir um í 2. mgr. 22. gr. laganna og heimilisfastir hafa verið hér á landi allt tekjuárið skal við álagningu lækka útsvarið um 4009 kr. í staðinn fyrir 2250. Í sambandi við börn innan 16 ára aldurs, sem eru heimilisföst hjá framfæranda, skal lækka útsvar hans um 802 kr. í staðinn fyrir 450. Í staðinn fyrir niðurfellingu á útsvari sem nemur ákveðinni lágmarksupphæð skal sú upphæð vera 1160 kr. í frv. í stað 650 skv. núgildandi lögum.

2. gr.: Lög þessi öðlast þegar gildi og skulu koma til framkvæmda við álagningu útsvara á árinu 1987 vegna tekna á árinu 1986.

Herra forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til 2. umr. og hv. félmn.