21.10.1986
Sameinað þing: 5. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 204 í B-deild Alþingistíðinda. (135)

30. mál, truflanir í símakerfinu

Samgönguráðherra (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Með truflunum vegna álags er líklega átt við það að ekki náist samband vegna álags og er skýringin í flestum tilvikum línuskortur. Einnig geta álagstoppar vegna áhrifa sjónvarps og ákveðinna hljóðvarpsþátta haft mjög truflandi áhrif á símakerfið. Sams konar álagstoppar koma á kvöldin þegar í gildi er hálft gjald. Þá má benda á að á þessu ári hafa einnig komið fram nokkrar bilanir í kerfinu þess eðlis að afkastageta þess hefur minnkað og hefur stundum tekið talsverðan tíma að uppgötva og gera við slíkar bilanir, m.a. vegna skorts á viðhaldsmönnum.

Hins vegar hefur undanfarið tekist að lagfæra ýmsar kerfisbilanir og er símakerfið núna í raun mun betur í stakk búið til að anna þeirri umferð sem þörf er á þrátt fyrir verulega aukna notkun. Samt sem áður eru á nokkrum stöðum í kerfinu flöskuhálsar þar sem erfitt getur verið að ná sambandi á mestu álagstímum og þá sérstaklega á toppálagstíma á kvöldin.

Uppbygging stafræns símakerfis hér á landi hófst árið 1983. Stafrænu símstöðvarnar þola mun meira álag en eldri gerðir stöðva og er línubúnaður þeirra einnig til muna ódýrari. Um leið og farið var að kaupa stafrænar stöðvar var ákveðið að hætta að kaupa efni til aukningar á eldri kerfum en losa í þess stað út efni samfara uppsetningu stafrænu stöðvanna og nýta það til stækkunar annars staðar.

Þær ráðstafanir sem Póst- og símamálastofnunin telur nauðsynlegar til úrbóta eru fyrst og fremst að halda þeim uppbyggingarhraða sem hafinn er á stafræna símakerfinu jafnframt því að auka langlínusamböndin. Gallar á stafræna kerfinu í Reykjavík stafa ýmist af bilunum á útstöðvum og samtengingu við eldra flutningakerfið, t.d. í Landssímahúsinu. Þar hafa verið gerðar lagfæringar og með ljósleiðarakerfinu á milli Landssímahússins og Múla, bæði vegna aukningar á línufjölda og jafnframt er það kerfi ekki eins háð truflunum, t.d. af völdum rafmagns, og eldra kerfið.

Stafrænu stöðvarnar eru nú víða að taka við. Það hefur verið sett upp stafræn stöð á Sauðárkróki. Það er verið að setja upp stafræna stöð núna á Húsavík. Næsta verkefni verður uppsetning stafrænnar stöðvar á Egilsstöðum og þar næst kemur Borgarnes.

Í sambandi við það að jafna símagjöldin, þá er það ekki hægt fyrr en búið er að gera ákveðnar breytingar á kerfinu þannig að það geti tekið við hugsanlegri aukningu á álagi. Hins vegar er búið að jafna símagjöldin allvíða og er það gert um leið og þessar tæknilegu breytingar eru gerðar. T.d. er 92-svæðið allt eitt og sama kerfi. Þannig er það í Skagafirði. Þannig verður það á Húsavík og í Norður-Þingeyjarsýslu. Þannig verður það á Egilsstöðum og í nágrenni Egilsstaða eftir því sem tækninni fleygir fram og þannig mun það einnig verða í Borgarfirði þegar lokið verður þessum framkvæmdum.

Það er enn fremur nauðsynlegt að fjölga mönnum við viðhald og eftirlit símakerfisins vegna aukins tæknibúnaðar og nýrra þjónustugreina, svo sem sjálfvirka farsímans og almenna gagnaflutninganetsins.

Ég vil að síðustu líka bæta því við að ljósleiðari hefur nú verið lagður frá Reykjavík og austur á Hvolsvöll sem er stórfelld breyting. Ég fyrir mitt leyti legg áherslu á að framkvæmdum við ljósleiðarakerfið haldi linnulaust áfram, en það verður ekki gert nema með því að Landssíminn fái sitt til þess að fylgja þessari öru tækniþróun. Farsíminn er eitt mesta öryggistæki sem tekið hefur verið í þjónustu símans og ég hygg að í septembermánuði hafi verið komnir um 1360 farsímar í loftið.