11.12.1986
Neðri deild: 19. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1513 í B-deild Alþingistíðinda. (1352)

246. mál, Ríkismat sjávarafurða

Sjávarútvegsráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til l. um breytingu á lögum um ríkismat sjávarafurða. Með frv. þessu er lagt til að ríkismat sjávarafurða á ferskum fiski verði afnumið í núverandi mynd.

Á síðari árum hefur meðal hagsmunaaðila í sjávarútvegi gætt vaxandi efasemda um hvort núverandi ákvæði um skyldur Ríkismats sjávarafurða til að meta allan ferskan fisk þjónuðu upphaflegum tilgangi sínum. Hafa menn bent á að gæði fiskafla yrðu best tryggð með því að tengja mat hans með mun beinni hætti en nú er við fjárhagsleg skipti þeirra sem kaupa og selja aflann.

Á vegum sjútvrn. var 2. okt. s.l. haldinn fundur með helstu hagsmunaaðilum í sjávarútvegi um framtíð Ríkismats sjávarafurða. Var það samdóma álit fundarmanna að skyldumat Ríkismatsins á ferskum fiski skyldi lagt niður, en þess í stað tekið upp gæðamat sem væri í höndum fiskkaupenda og fiskseljenda.

Með frv. þessu er lagt til að gerðar verði lágmarksbreytingar á lögum um Ríkismat sjávarafurða til að gera mögulegt að ferskfiskmat flytjist yfir til hagsmunaaðilanna sjálfra. Í frv. er aðeins kveðið á um afnám núverandi skyldumats opinberra aðila á ferskum fiski, en ekki ákveðið með hvaða hætti framkvæmd þessara mála skuli háttað hjá viðskiptaaðilum. Liggur í hlutarins eðli að það mun fyrst og fremst verða þeirra mál að koma sér saman um slíka tilhögun.

Með frv. eru ekki gerðar tillögur um breytingar á öðrum ákvæðum laga um Ríkismatið en þeim er lúta að ferskfiskmatinu. Þrátt fyrir afnám skyldumatsins hefur Ríkismatið áfram mikilvægu hlutverki að gegna í íslenskum sjávarútvegi. Ríkisvaldinu ber að sjá til þess að sjávarútvegurinn búi yfir virku gæðastjórnunarkerfi sem tryggir að afurðirnar uppfylli þær kröfur um gæði sem markaðirnir gera þannig að íslenskar sjávarafurðir verði taldar gæðavara. Því er nauðsynlegt að til sé stofnun sem hefur yfirsýn yfir alla þætti gæðamála í sjávarútveginum.

Þá mun Ríkismatið áfram sinna eftirliti með hreinlæti og búnaði og yfirmati á afurðum og útgáfu útflutningsvottorða þar sem opinberra vottorða er krafist af erlendum kaupendum. Þá er í frv. gerð tillaga um að úrskurðar Ríkismatsins megi leita varðandi ágreining um ferskfiskmat með svipuðum hætti og nú gildir um yfirmat á afurðum, en það fyrirkomulag hefur reynst vel.

Ef frv. þetta verður að lögum mun það óhjákvæmilega hafa í för með sér þörf á að endurskipuleggja starfsemi og uppbyggingu Ríkismats sjávarafurða frá grunni. Í framhaldi af því starfi er síðan stefnt að því að leggja fram nýtt heildarfrv. um Ríkismat sjávarafurða.

Afnám skyldumats Ríkismatsins og endurskipulagning stofnunarinnar í framhaldi af því mun leiða til verulegrar útgjaldalækkunar fyrir ríkissjóð. Sparnaður þessi felst bæði í lækkun útgjalda til greiðslu launa og til annars rekstrar stofnunarinnar. Í frv. til fjárlaga fyrir árið 1987 er gert ráð fyrir að fjárveiting til stofnunarinnar lækki af þessum sökum um 25 millj. kr. frá því sem verið hefði við óbreytta starfsemi. Á komandi árum verður árlegur sparnaður enn meiri þar sem áhrif breytingarinnar koma ekki að fullu fram á fyrsta ári.

Hinn 1. des. s.l. voru samtals 79,6 stöðugildi hjá stofnuninni. Á þessari stundu er ekki hægt að fullyrða hvað starfsmönnum stofnunarinnar muni fækka mikið við þá endurskipulagningu sem leiðir af samþykkt þessa frv. Ljóst er þó að verkefni ferskfiskmatsmanna falla niður og munu þeir því láta af störfum. Alls er hér um að ræða nærfellt 60 menn er gegna 43,6 stöðugildum víðs vegar um land. Endurskipulagningin mun án efa leiða til frekari fækkunar starfsfólks.

Vissulega skapar breyting af þessu tagi óhjákvæmilega vandamál hjá því starfsfólki sem gegnt hefur stöðum sem niður verða lagðar. Hjá því verður ekki komist. Til hins ber að líta að atvinnuástand í landinu er það gott að flestallt það fólk ætti að geta fengið ný störf við sitt hæfi. Í því sambandi ber að hafa í huga að mat á ferskum fiski verður áfram stundað þótt framkvæmd þess flytjist skv. frv. þessu til viðskiptaaðilanna. Má því, ef að líkum lætur, búast við að starfsþjálfun núverandi matsmanna geri líklegt að þeir eigi kost á störfum áfram á þessu sviði.

Ef frv. þetta nær fram að ganga mun verða fylgst með þessum málum af hálfu sjútvrn. og leitast við að leysa vandamál sem upp kunna að koma varðandi einstaka starfsmenn er láta verða af störfum.

Á fundum hagsmunaaðila í sjávarútvegi hefur í haust verið fjallað nokkuð um framtíð Ríkismatsins. Hefur þar komið skýrt í ljós að enda þótt menn séu sammála um þörf þess að endurskoða starfsemi stofnunarinnar ríkir nokkur skoðanamunur um hvernig að því skuli standa. Af ályktun 15. þings Sjómannasambandsins sést að menn vilja þar fara varlega í sakirnar og telja að hagsmunaaðilar í sjávarútvegi þurfi að koma sér saman um hvað við skuli taka áður en tímabært sé að leggja skyldumatið niður. Aðalfundur Landssambands ísl. útvegsmanna vill hins vegar ganga lengra en gert er í frv. þessu og leggja stofnunina niður í heild sinni. Ályktanir fiskiþings um framtíð Ríkismatsins eru hins vegar því miður ekki eins skýrar og skyldi.

Eins og getið var um hér að framan hefur Ríkismatið mikilvægu hlutverki að gegna þrátt fyrir afnám skyldumatsins. Tillögur LÍÚ um að leggja stofnunina niður og fela öðrum stofnunum óhjákvæmileg verkefni verða því að teljast óraunhæfar. Ég tel alveg ástæðulaust að óttast að hagsmunaaðilar muni ekki koma sér saman um með hvaða hætti gæði afla skuli metin í framtíðinni. Við því er hins vegar varla að búast að viðræður um það hefjist af alvöru nema fyrir liggi að skyldumati hins opinbera verði hætt.

Með frv. þessu er stigið skref til að draga úr umsvifum hins opinbera. Í frv. felst framhald þeirrar stefnu sem mörkuð var með afnámi sjóðakerfisins á síðasta vori. Dregið er úr afskiptum ríkisins af fjárhagsmálefnum sjávarútvegsins.

Oft er á það bent að meðferð og frágangur þess afla sem ætlaður er til sölu á erlendum markaði sé til fyrirmyndar og mun betri en á afla sem landað er til vinnslu innanlands. Þetta sýnir að áhrifaríkasta leiðin til bættrar aflameðferðar er að tengja gæðamat aflans með beinni hætti við verðlagningu hans en verið hefur hingað til. Með frv. þessu er hagsmunaaðilum í sjávarútvegi veitt svigrúm til að skapa þessi tengsl gæða og verðs. Þess er því að vænta að frv. þetta leiði til hvors tveggja í senn, sparnaðar fyrir ríkissjóð og aukinnar tekjuöflunar fyrir þjóðarbúið í heild með bættum gæðum sjávarafurðanna, okkar helstu útflutningsvöru.

Ég vil að lokum, herra forseti, leggja til að frv. þessu verði vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.