11.12.1986
Neðri deild: 19. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1519 í B-deild Alþingistíðinda. (1355)

249. mál, listmunauppboð

Samgönguráðherra (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Meginmarkmiðið með frv. til laga um listmunauppboð o.fl., sem samið hefur verið í viðskrn. og ég mæli nú fyrir, er að gera reglur um listmunauppboð frjálslegri en verið hefur.

Samkvæmt þessu frv. er ekki lengur gert ráð fyrir takmörkuðum fjölda leyfishafa sem aðeins geti haldið uppboð í ákveðnum kaupstað hver fyrir sig, nánar tiltekið hafa leyfin verið bundin við fimm menn í Reykjavík og tvo menn í hverjum hinna tveggja kaupstaða sem leyfi hafa verið veitt til.

Reynslan hefur sýnt að fjöldi leyfishafa hefur verið of takmarkaður og erfiðleikum hefur valdið að geta ekki valið heppilega sali undir uppboð í nágrannakaupstöðum leyfishafa.

Í uppboðsleyfi felst heimild til að selja á frjálsu uppboði hvar sem er á landinu málverk, myndir, listmuni, bækur og frímerki. Rétt hefur þótt að gefa ekki aðeins einstaklingum kost á uppboðsleyfum, heldur og félögum eða öðrum lögaðilum á svipaðan hátt og gert er varðandi verslunarleyfi.

Þá hefur reynslan sýnt að æskilegt sé að lögfesta skýra heimild til að veita líknarfélögum og skyldum aðilum leyfi til að halda í fjáröflunarskyni einstaka uppboð, enda sé þá gætt ákvæða laga um listmunauppboð og annarra laga, t.d. laga um söluskatt.

Í 3. gr. þessa frv. er gert ráð fyrir að söluskattur verði áfram af andvirði seldra bóka og frímerkja en nýmæli er að í stað 25% söluskatts af málverkum, myndum og listmunum komi 10% gjald er renni til listamannanna eða erfingja þeirra samkvæmt höfundalögum. Með lækkun gjalda af málverkum, myndum og listmunum á uppboðum er stefnt að því að greiða fyrir söluformi þessu er nýtur vinsælda hér á landi sem erlendis. Jafnframt er hlúð að listamönnum og lögfest sú regla um sölu á ofangreindum verkum á listmunauppboðum er kallast fylgiréttur í erlendri löggjöf. Í fylgiréttinum felst að við endursölu á listaverkum renni ákveðinn hundraðshluti af söluverði til myndlistarmanna sjálfra eða erfingja þeirra. Ef ákvæðið verður lögfest er talið að með því verði stigið merkt skref í sögu norrænnar höfundaréttarlöggjafar og verði Ísland hér í fararbroddi.

Meiri hluti dönsku höfundaréttarnefndarinnar hefur gert tillögu um fylgirétt í danskri löggjöf. Skref það sem markað er í frv. þessu sýnist útlátalítið, enda er hér aðeins verið að tala um að fella niður söluskatt af málverkum, myndum og listmunum á listmunauppboðum, verkum sem ella yrðu gjarnan seld beint milli aðila án kvaða um greiðslu söluskatts. Ef höfundaréttur er fallinn niður, t.d. af gömlu málverki, eða fénu verði ekki ráðstafað, t.d. vegna þess að ekki er vitað um höfund, rennur gjaldið í starfslaunasjóð myndlistarmanna. Gert er ráð fyrir því að menntmrh. geti sett nánari reglur um ráðstöfun þessa gjalds, bæði að því er varðar fylgiréttinn og starfslaunasjóðinn.

Fleiri nýmæli er að finna í frv. t.d. um að leyfishafar eða uppboðsstjórar megi hvorki gera sjálfir boð á uppboði né láta aðra gera það fyrir sína hönd. Það ákvæði er sniðið eftir ákvæði í lögunum um nauðungaruppboð og er sett til að gæta sem best hagsmuna seljenda og bjóðenda á uppboðum. Að öðru leyti þá vísa ég til frv. og grg. með því.

Herra forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.