11.12.1986
Neðri deild: 19. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1532 í B-deild Alþingistíðinda. (1359)

230. mál, skipulagslög

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. 45. gr. þessa frv. hljóðar svo: „Við ákvörðun eignarnámsbóta skv. 42. og 44. gr. skal m.a. taka tillit til verðs sambærilegra eigna á almennum markaði og hver arður af eigninni hefur verið við eðlilega notkun fram að gerð skipulags eða eignarnámi, en eigi skal miða eignarnámsbætur við ætlað framtíðarverð eignar.“

Í athugasemdum við þessa grein segir:

„Þessi grein fjallar um ákvörðun eignarnámsbóta og eru þau ákvæði nýmæli í íslenskum lögum en eiga sér hliðstæðu t.d. í norskum lögum. Niðurlag greinarinnar er til komið vegna þess að í ýmsum matsgerðum virðist byggt á áætlunum um framtíðarverð.“

Eins og forseta og hv. þingdeild mun kunnugt höfum við þm. Alþfl. á ýmsum undanfarandi þingum flutt lagafrumvarp um ákvörðun eignarnámsbóta sem sérstaklega mundu eiga við í grennd við þéttbýli þar sem við höfum lifað við það fyrirkomulag á undanförnum árum að verð á landi hækkaði fyrir tilstuðlan þéttbýlisins en án þess að eigandi landsins hefði lyft fingri sjálfur til þess að gera það með neinum hætti verðmætara. Við höfum talið að hér væri um mikið óréttlæti að ræða og þess vegna væri nauðsynlegt að grípa sérstaklega á þessu vandamáli og setja afdráttarlaus ákvæði í lög um það að þegar sveitarfélag eða ríkið þyrfti á landi að halda og það væri tekið til eignarnáms væri ekki metin til verðs til eignarnámsþolans sú verðhækkun sem orðið hefði á landinu fyrir tilstuðlan almannasamtaka, þ.e. sveitarstjórna eða ríkisins.

Nú er mér spurn. Er það öruggt að það ákvæði sem hér er gert ráð fyrir í 45. gr. svari þeim kröfum sem við Alþýðuflokksmenn höfum talað fyrir hér í þinginu á undanförnum ýmsum þingum og flutt lagafrumvörp um? Ef svo er er hér um mjög merkilegt nýmæli að ræða af hálfu ríkisstjórnar þó að það teljist ekki nýmæli að því leytinu að það hafi ekki verið um það rætt áður. En við mundum að sjálfsögðu, Alþýðuflokksmenn, fagna því mjög ef þessa grein, eins og hún stendur hér í þessu frv. til skipulagslaga, mætti skilja og túlka og hún mundi reynast eins og við höfum gert ráð fyrir í okkar tillögum. Af þessum orsökum beini ég þeirri fsp. til ráðherra hvort hann telji og hans ráðuneyti að hér séu tekin af öll tvímæli í þessum efnum og að sú grein sem hér um ræðir mundi hafa sömu áhrif að því er varðaði mat á landi vegna eignarnáms eins og þau frv. sem við Alþýðuflokksmenn höfum flutt.

Í annan stað, herra forseti, langar mig að gera að umræðuefni svokallaðar samvinnunefndir og svæðaskipulög. Eins og hv. deild mun vera kunnugt hefur verið í gangi samvinnunefnd og eins konar svæðaskipulag hefur átt að heita að væri í gangi hér fyrir þéttbýlissvæðið. Ég get ekki sagt að afraksturinn af því starfi hafi verið nægilega góður, því miður. Af þeim orsökum hef ég verið óánægður með það starf og tel reyndar að þéttbýlið hér um slóðir, þ.e. sveitarfélögin í grennd við Reykjavík og Reykjavíkurborg sjálf, hafi liðið fyrir það að ekki hafi tekist að ná tökum á svæðaskipulagi þessa svæðis í heild sinni.

Nú er þess víðast hvar getið í umsögnum með þeim greinum sem fjalla um svæðaskipulagið að verið sé að fara sömu götu og áður. Þannig segir um 12. gr. að hún sé nær samhljóða gildandi lögum og um 13. gr. að hún sé að efni til í samræmi við gildandi lög, um 15. gr. að tvær fyrri málsgreinarnar þarfnist ekki skýringa, þar er fjallað um landnotkun og fleira þess háttar, en hins vegar að 3. málsgr. 15. gr. sé nýmæli. En sú grein er á þessa lund:

„Ef svæðisskipulag liggur ekki fyrir verða þéttbýliskjarnar ekki myndaðir nema með samþykki ráðherra að fengnum umsögnum skipulagsstjóra og skipulagsstjórnar.“

Nú er mér spurn: Eru þeir fátæklegu uppdrættir, sem títt nefnd samvinnunefnd hefur unnið varðandi þetta svæði hér, af því tagi að þeir geti talist fullnægjandi svæðisskipulag þannig að reisa megi þéttbýliskjarna skv. þeim eins og frá þeim er gengið nú? Eða mundi þetta ákvæði, ef að lögum yrði, þýða það að nú væri komin bremsa á þróun í þessum efnum og ekki yrði frekar að gert í myndun þéttbýliskjarna í neinu sveitarfélaganna öðruvísi en að samþykki ráðherra kæmi til að undangengnu nýju svæðisskipulagi?

Í annan stað vil ég spyrja hvernig þetta sé hugsað af hálfu ráðherra og ráðuneytis, hvort hér eigi að vera strangt aðhaldsákvæði og þá hvernig því mundi verða beitt. Mér sýnist ekki að hér séu nein ákvæði um það, en ráðherra leiðréttir mig þá ef rangt er, að svæðisskipulag, ef það skyldi nú vera fyrir hendi, skuli endurskoða með ákveðnu árabili. Þau ákvæði eru í þessu frv. að því er aðalskipulag varðar en ég kem ekki auga á að svo sé varðandi svæðisskipulag. Ég held að það sé ekki síður nauðsynlegt í sambandi við svæðisskipulag að skylda sé fyrir hendi til endurskoðunar á áratugs fresti eða svo.

Því geri ég þetta að sérstöku umtalsefni að, eins og flestir vita, eru umferðarnet hér um slóðir í allnokkrum ógöngum og almenningssamgöngur í ógöngum, svo að tvö dæmi séu tekin, vegna þess að aldrei hefur náðst heildaryfirsýn og heildarskipulag að því er varðar þetta þéttbýlissvæði.

Í þriðja lagi kem ég aðeins með fáeinar ábendingar. Í sambandi við meðferð skipulagsáætlana eru allströng ákvæði um að sveitarstjórnir skuli auglýsa breytingar á aðalskipulagi og deiliskipulagi og frestir tilgreindir út og suður, hversu lengi uppdrættir skuli hanga uppi og hversu langur frestur sé til að ganga frá athugasemdum og þar fram eftir götunum og síðan hvenær þær skuli kynntar skipulagsstjórn. Hins vegar er enginn frestur tilgreindur að því er varðar umsögn skipulagsstjórnar sjálfrar. Þar segir einungis: „Að fenginni heimild skipulagsstjórnar skal sveitarstjórn auglýsa“. En skipulagsstjórn getur samkvæmt þessu, ef rétt er lesið hjá mér verið með ótakmarkaðan frest á afgreiðslu sinni. Ég tel ótækt að setja sveitarfélögum og almenningi strangar kröfur um það á hversu mörgum dögum þessir aðilar skuli gera upp hug sinn um eitt eða annað en að skipulagsstjórn þurfi í rauninni aldrei að gera upp hug sinn samkvæmt þessu. Ég held að þetta þurfi að taka til sérstakrar skoðunar.

Að lokum, herra forseti, einungis ábending um það að það gætir þó nokkurrar tilhneigingar hjá ráðuneytum og kannske hjá Alþingi til þess að njörva mjög fast niður ýmsa þætti í þjóðlífinu með reglugerðum og reglum af ýmsu tagi og það getur stundum verið mönnum fjötur um fót. Mér sýnist að í þessu, eins og það liggur fyrir, gæti nokkuð þessarar tilhneigingar. Hér virðist vera strengt á klónni að því er deiliskipulag varðar. Vitaskuld eru menn að gera það til að tryggja rétt fólksins sem fyrir býr á hverjum deilireit. En menn verða nokkuð að hafa í huga að hendur sveitarstjórna séu ekki svo þrælbundnar að þær geti sig hvergi hreyft eða hrært. Þetta er einungis almenn athugasemd og ég mun ekki tilfæra nein sérstök dæmi í þessum efnum en vænti þess að sú nefnd sem fær þetta til umfjöllunar hyggi að því jöfnum höndum að tryggja hagsmuni fólksins, hvort sem það býr á deilireit eða blaði aðalskipulags eða svæðaskipulags, og sveitarfélagsins þannig að það hafi eitthvert svigrúm til athafna og geti athafnað sig með þokkalega bærilegum hætti.

Ég skal ekki hafa þessar athugasemdir fleiri á þessu stigi, herra forseti, þær eru vafalaust ófullkomnar. Ég held að ýmislegt í þessu frv. til skipulagslaga horfi hins vegar nokkuð til bóta, t.d. að því er varðar meira svigrúm sveitarstjórnanna sjálfra til þess að annast þessi mál og tel að það nýmæli horfi til réttrar áttar.

Eins og ég sagði skal ég ekki fjölyrða um þetta frekar á þessu stigi en vænti þess að ráðherra og nefnd taki þær athugasemdir sem ég hef hér fram borið til athugunar og að betra tækifæri gefist að loknum nefndarstörfum til þess að ræða þetta ítarlegar.