11.12.1986
Neðri deild: 19. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1535 í B-deild Alþingistíðinda. (1360)

230. mál, skipulagslög

Félagsmálaráðherra (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Ég þakka þær umræður sem hafa farið fram um þetta mál. Ég segi það almennt að auðvitað er hér um gífurlega stórt mál að ræða og þýðingarmikið að um það sé fjallað á sem vandaðastan hátt. Eins og kom fram í framsöguræðu minni skýrði ég frá því hvernig sú umfjöllun hefur verið við meðferð málsins á undanförnum árum. Ekki hefur skort á að það hafi verið sent til allra aðila sem eiga um þessi mál að fjalla í þjóðfélaginu sem ráðgefandi aðilar og þolendur, stjórnendur. M.a. tók ég þá ákvörðun eftir nýafstaðnar sveitarstjórnarkosningar s.l. vor að senda öllum nýjum sveitarstjórnum málið til umfjöllunar þrátt fyrir að það var búið að vera áður í meðförum sveitarstjórna árið áður.

Þetta hefur haft margt gott í för með sér og allar þær umsagnir sem hafa borist um þessi mál. Ég hef mikinn áhuga fyrir að hv. félmn. Alþingis fái þær í hendur. Það er ýmislegt í þeim sem er nauðsynlegt að fjalla um og margt athygli vert sem fram hefur komið.

Í sambandi við það sem hv. 5. þm. Austurl. sagði: Það er fyrst og fremst þessi ágreiningur um valddreifingu í okkar stóra og fámenna landi sem er mismunandi túlkun á því sem við erum hér að tala um. Ég vakti máls á því í minni framsögu að breytingar á skipulagslögum í þessu frv. eiga að ganga á þann veg að auka valddreifingu, færa þessi mál meira til sveitarstjórnanna sjálfra og samtaka þeirra. Þetta er hægt að lesa úr frv. Ég vænti þess að við nánari skoðun komist menn að þeirri niðurstöðu. M.a. er nýjung sem ég vakti athygli á. Það er nýjung að setja skipulagsstofu eða útibú, sem fer með skipulagsmálin, í hvern einasta landshluta. Þetta er nýjung sem gengur til móts við það sem margir sveitarstjórnarmenn hafa viljað til að færa þessi mál meira út til landshlutanna. Í sambandi við útibúshugmyndina sem er í umræðunni núna varðandi þá ákvörðun Byggðastofnunar að vinna að þessum málum er í þessari mynd fyrsta þjónustumiðstöðin sem verið er að vinna að í sambandi við Akureyri. Þar eru stofnanir eins og Byggðastofnun, Húsnæðisstofnun ríkisins, Skipulagsstofnun ríkisins, Fasteignamat ríkisins og Iðntæknistofnun ásamt fleiri aðilum að undirbúa að setja upp þjónustumiðstöð á Akureyri sem yrði fyrsta tilraun á þessu sviði og er mikið í húfi að vel takist þarna til.

Ég get tekið undir það með hv. 5. þm. Austurl. að auðvitað hefði verið æskilegt ef hefði verið hægt að koma fyrr meiri dreifingu á þennan hátt. Ég vek athygli á því að það hefur verið gerð tilraun á undanförnum árum til að setja upp skipulagsstofur í landshlutum einvörðungu um skipulagsmál. Það hefur því miður ekki tekist nógu vel og margir sveitarstjórnarmenn verið óánægðir með hvernig til hefur tekist. En það er ekki þar með sagt að ekki sé grundvöllur fyrir því ef rétt er á haldið. Þetta er að sjálfsögðu til umræðu og ef menn komast að þeirri niðurstöðu að það sé hægt að gera þessa dreifingu enn þá meiri er ekkert því til fyrirstöðu að það komi þá fram í meðförum Alþingis á þessu mikilvæga máli. En við verðum að átta okkur á að það eru viss takmörk fyrir því hvað er hægt að ganga langt á þessu sviði. Ég ætla ekki að fara að ræða hér stjórnsýslumálin, en auðvitað er þetta mikilvægur þáttur í þeim málum. En ég endurtek að það er í frv. gert ráð fyrir því að færa miklu meira ákvörðunarvald til sveitarstjórnanna og til fólksins í byggðarlögunum en nokkurn tíma hefur verið áður gerð tilraun til.

Varðandi það sem hv. 3. þm. Reykn. kom með. Það var margt athygli vert sem hann benti á. Án þess að ég vilji úttala mig um það nákvæmlega hér er í 45. gr. frv. farið inn á nýjar brautir í sambandi við ákvörðun eignarnámsbóta og það vandamál, sem hefur alltaf skotið upp í umræðum og meðferð mála, ekki síst í sambandi við skipulagsmál, hvernig með er farið þegar verið er að meta eignir. Þá hefur alltaf verið tilhneiging til að setja upp framtíðarplan um viðkomandi eignir og gera sveitarfélögum þannig miklu erfiðara fyrir en efni standa til að taka skynsamlegar ákvarðanir og inna af hendi framkvæmdir í skipulagsmálum. Þessu þarf að breyta og ég tek heils hugar undir að við stefnum að því með þessari ákvörðun á sama hátt og umræður hafa fjallað um þessi mál á hv. Alþingi, m.a. um hugmyndir Alþfl. Það er margt í þeim sem ég er alveg sammála. Ég held því að þetta ákvæði í frv. eigi að ganga til móts við þetta sjónarmið eða a.m.k. er það mín skoðun. Hins vegar þurfum við sjálfsagt að ræða nánar við meðferð málsins hvort við þurfum að setja skýrari ákvæði inn í þessa grein. Það kemur að sjálfsögðu til umræðu við meðferð málsins.

Varðandi 15. gr. í sambandi við svæðisskipulagsáætlanir. Það er náttúrlega ákaflega þýðingarmikið mál hvernig með verður farið því að við vitum að það hafa oft og tíðum orðið deilur um meðferð á aðalskipulagi. Mér finnst að það sé tími til kominn að reyna að finna flöt á því að vinna að þessu máli þannig að koma í veg fyrir slíkar deilur. Ég held að þetta nýmæli, þar sem gert er ráð fyrir að ekki sé hægt að stofna til nýs þéttbýlis nema með samþykki ráðherra að fengnum umsögnum skipulagsstjóra og skipulagsstjórnar, eigi a.m.k. að stuðla að því að koma í veg fyrir handahófskennd vinnubrögð að þessu leyti til. Þess eru víða dæmi, sem væri hægt að hafa langt mál um, sem hefði verið hægt að koma í veg fyrir ef skýrari ákvæði í lögum væru um þetta efni. Hins vegar vil ég taka fram að það er þörf á að kveða fastar að orði en þarna er gert. Ég mundi telja að það væri sjálfsagt að ræða það í félmn. þingsins.

Ég tek undir þá skoðun að ástæða er til í sambandi við meðferð skipulagsáætlana að setja skipulagsstjórn ákveðinn skilafrest á umsögnum um þessi mál. Það hefur ekki farið fram hjá mér þrátt fyrir að ég hef í mínu starfi sífellt orðið að vera með eftirrekstur á umsögnum sem þessir aðilar eiga að gefa. Það er góð ábending, sem hér kom fram, að það eru ekki aðeins sveitarstjórnir og aðrar slíkar sem eiga að sæta takmörkun á þessu sviði heldur einnig skipulagsstjórnin sjálf.

Ég tek líka undir það að sjálfsagt væri æskilegt að setja það skýrar í lögin að endurskoða ætti svæðisskipulag á ákveðnu árabili. Ég held að það sé mjög nauðsynlegt. A.m.k. hefur reynslan sýnt það. Sömuleiðis mætti tala langt mál um deiliskipulag og annað slíkt. Ég tel að reynsla í Reykjavík hafi verið slík að það sé alveg nauðsynlegt að ganga eftir því að ákveðin vinna sé innt af hendi af skipulagsskyldum aðilum í sambandi við þessi mál þrátt fyrir að það eigi ekki að binda of mikið í fastar reglur sem stjórnvöld verða sífellt að skipta sér af. Þetta eru hagsmunamál innan hvers byggðarlags og ætti þess vegna að vera kappsmál að vinna það þannig í samvinnu við íbúana að ekki þurfi sífellt að deila og leita úrskurðar um þessi atriði. En því miður vantar mikið á það. Þess vegna er nauðsynlegt að hafa þetta skýrt í gildandi lögum.

Ég get hins vegar tekið undir það með hv. 3. þm. Reykn. að það eru viss mörk sem þarf að átta sig á, hvað á að ganga langt í því að binda alla þætti slíkra mála í reglugerðir og lög þannig að ekki sé hægt að þverfóta fyrir slíku. Ég er einn af þeim sem vilja auka frjálsræði sveitarfélaganna og byggðarlaganna sjálfra til ákvarðanatöku um þessi mál. En það verður alltaf að hafa einhverja ákveðna skýringu, það þekkjum við, jafnvel þó að meðferð þessara mála eigi að vera fullkomin eins og sumir vilja halda að sé hjá sér.

Að öðru leyti vil ég taka fram að mér finnst alveg sjálfsagt að það sé höfð góð samvinna um meðferð þessa máls og mun ekki standa á ráðuneytinu að gefa upplýsingar og taka þátt í að fjalla um ýmsar breytingar sem hv. þm. vilja gera í sambandi við þetta mál. Mikilvægi málsins er mikið. Og ég álít að frv. í þessu formi, með kannske einhverjum breytingum, skili okkur vel fram á við í þessu máli, betur en hv. 5. þm. Austurl. vildi vera láta.

Umræðu (atkvæðagreiðslu) frestað.