12.12.1986
Sameinað þing: 30. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1547 í B-deild Alþingistíðinda. (1370)

1. mál, fjárlög 1987

Frsm. meiri hl. fjvn. (Pálmi Jónsson):

Herra forseti. Fjvn. hóf störf við undirbúning að afgreiðslu fjárlaga hinn 6. okt. s.l. eða fáum dögum áður en að Alþingi var kvatt saman til funda. Á dögunum fyrir þingbyrjun átti nefndin fundi með fulltrúum frá 55 sveitarfélögum landsins, en þar kynntu fulltrúar sveitarfélaganna óskir sínar í sambandi við afgreiðslu fjárlaga. Þetta var gert svo sem stundum áður til að drýgja starfstíma nefndarinnar og er þess síst vanþörf.

Frá því Alþingi kom saman hefur nefndin haldið um 40 bókaða fundi, auk fjölmargra funda meiri hl. nefndarinnar. einstakra undirnefnda og nefndarhluta. Á formlega fundi nefndarinnar hafa komið fulltrúar frá um 240 aðilum, ráðuneytum, stofnunum, sveitarfélögum og félagasamtökum, auk allra þeirra sem á einn eða annan máta hafa haft samband við einstaka nefndarmenn eða nefndarhluta.

Þá hafa nefndinni að þessu sinni borist á sjötta hundrað bókuð erindi sem flest hafa það sameiginlegt að farið er fram á aukin útgjöld á fjárlögum. Þær óskir sem nefndinni berast eru því fjölmargar og það er vandasamt verk og tímafrekt að vega þær og meta. Sá tími sem til þess gefst er í raun og veru of knappur, ekki síst vegna þess hve viðtöl á vegum nefndarinnar taka oft langan tíma. Þann þátt í starfi nefndarinnar er þó afar erfitt að stytta því eðlilegt er að þeir sem telja sig á einhvern hátt bera skarðan hlut frá borði við undirbúning fjárlagafrv. fái tóm til þess að bera upp sín mál og skýra þau fyrir nefndinni.

Það er ekkert nýtt að starf fjvn. sé annasamt og það er nú sem fyrr hlutskipti fjárveitinganefndarmanna að verða að láta störf sín í nefndinni ganga fyrir öðrum störfum á Alþingi sem þeir að sjálfsögðu hefðu kosið að hafa meiri tíma til að sinna. M.a. þessa vegna og alls þess starfs sem unnið hefur verið í fjvn. vil ég við upphaf þessarar umræðu flytja meðnefndarmönnum mínum öllum þakkir fyrir mikil og tímafrek störf, ánægjulegt samstarf og mikla þolinmæði í minn garð. Ég flyt einnig nýjum starfsmanni nefndarinnar, Runólfi Birgi Leifssyni, þakkir fyrir vel unnin störf og hagsýslustjóra, Magnúsi Péturssyni, og starfsliði hans fyrir margvíslega aðstoð.

Það fjárlagafrv. sem hér er til 2. umr. er að ýmsu leyti óvenjulega vel úr garði gert og í athugasemdum með frv. er að finna ítarlegar upplýsingar um stöðu og þróun margvíslegra málaflokka sem áhrif hafa á ríkisbúskapinn og á þjóðarbúskapinn í heild. Telja verður að umfang og rekstur á vegum ríkisins og ríkisstofnana sé metið með raunhæfari hætti í þessu frv. en oft hefur gerst áður. Enn fremur gerir frv. ráð fyrir nokkurri aukningu á fé til fjárfestingar í þeim fjárfestingarliðum sem mest hefur verið kreppt að í fjárlögum á síðustu árum. Á hinn bóginn blasir við sú staðreynd að frv. er lagt fram með halla, en það þrengir að sjálfsögðu möguleika Alþingis til að verja auknu fé til ýmissa þarfra verkefna.

Þrátt fyrir þessa stöðu leggur fjvn. fram brtt. á þskj. 282 sem fela í sér hækkun á útgjöldum fjárlagafrv. um 448 millj. kr. eða sem svarar liðlega 1% af útgjöldum fjárlagafrv. Leitast hefur verið við að ná sem víðtækustu samkomulagi um þær brtt. sem hér eru lagðar fram, enda eru þær fluttar af fjvn. í heild. Fulltrúar minni hl. í fjvn. áskilja sér þó samkvæmt venju rétt til að flytja eða fylgja brtt. sem fram kunna að koma og hafa fyrirvara um afstöðu til einstakra tillagna.

Það kann að vekja athygli að þessar brtt. fela í sér að meiri hluta útgjöld vegna fjárfestingar, en að minni hluta útgjöld vegna rekstrar eða nýrrar starfsemi. Þetta er auðvitað vegna þess að á undanförnum árum, einkanlega tvö síðustu árin, höfum við dregið svo saman útgjöld ríkisins til flestra greina verklegra framkvæmda að ekki varð lengra gengið. Það hafa hlaðist upp vandamál sem óhjákvæmilegt var að greiða nokkuð úr. Þess vegna gerist það hvort tveggja í senn að í fjárlagafrv. er um nokkuð aukið fé að ræða til sumra greina verklegra framkvæmda og brtt. nefndarinnar sýna að nefndin telur óhjákvæmilegt að ganga nokkru lengra í að greiða úr þessum efnum.

Auðvitað finnst mörgum að of skammt sé gengið og auðvitað er víða við vanda að etja. Sveitarfélögin sitja víða hvar uppi með skuldir þar sem þau hafa farið hraðar í framkvæmdir en fjárveitingar ríkisins á undanförnum árum hafa gefið tilefni til. Það er hins vegar skoðun mín að við getum ekki gengið lengra að sinni í þá átt að greiða úr þessum málaflokkum með tilliti til hinnar erfiðu stöðu ríkisfjármála sem við blasir.

Við þessa umræðu verður ekkert sagt um hver verða muni endanleg niðurstaða fjárlaga. Til 3. umr. bíða ýmsar mikilvægar ákvarðanir. Rétt er að vekja athygli á því að samkvæmt venju bíða til 3. umr. ákvarðanir er snerta tekjuhlið fjárlaganna. Við 3. umr. verða einnig kynntar nýjar verðlags- og launaforsendur sem tekin verður ákvörðun um í kjölfar nýgerðra kjarasamninga.

Þá bíður einnig 3. umr. afgreiðsla á málum B-hluta stofnana, einnig Tryggingastofnunar ríkisins, ríkisspítala, ákvarðanir er varða heimildir skv. 6. gr. fjárlaga og nokkur smærri atriða sem ekki hefur unnist tími til fyrir þessa umræðu að ljúka afgreiðslu á. Þau mikilvægu mál sem ég hef hér greint frá að bíði 3. umr. munu hafa afgerandi áhrif á hvernig niðurstöður verða við lokaafgreiðslu fjárlaga.

Þegar fjárlög voru afgreidd á Alþingi fyrir ári voru þau með rekstrarjöfnuði. Ég fullyrði að sú afgreiðsla var síst óraunsærri en endranær miðað við þær ákvarðanir sem þá lágu fyrir.

Við 1. umr. fjárlaga þann 30. okt. s.l. skýrði hæstv. fjmrh. frá því hvaða ástæður lægju að baki því að þessi staða væri breytt. Það verður ekki endurtekið hér að öðru leyti en því að þær aðgerðir sem hæstv. ríkisstjórn ákvað að grípa til í tengslum við kjarasamninga s.l. vetur höfðu neikvæð áhrif á stöðu ríkissjóðs um 1800 millj. kr.

Flestir munu sammála um að þar hafi verið réttilega að verki staðið og flestir munu sammála um að sú þjóðarsátt sem á þennan hátt náðist um kjaramálin hafi orðið veigamikil undirstaða þeirrar jákvæðu þróunar sem staðið hefur í efnahagsmálum allt þetta ár. Vonandi er að nýgerðir kjarasamningar raski ekki þeirri þróun.

Um þessar mundir má segja að við búum við efnahagslegt góðæri þó að þessa góðæris gæti ekki í öllum atvinnugreinum landsmanna. Samkvæmt upplýsingum Þjóðhagsstofnunar hefur framleiðsla farið vaxandi og viðskiptakjör þjóðarinnar batnandi þannig að talið er að á þessu ári muni þjóðartekjur aukast um 8%. Talið er að á árinu náist sem næst jafnvægi í viðskiptum við útlönd í fyrsta sinn síðan á árinu 1978, en það er eina árið í 15 ár sem jafnvægi hefur verið í viðskiptum við útlönd. Talið er einnig að á þessu ári hafi greiðslubyrði sem hlutfall af útflutningstekjum okkar farið lækkandi og að skuldastaða okkar gagnvart útlöndum verði í árslok lægri en í upphafi ársins.

Áhrifanna af þessari hagstæðu þróun gætir auðvitað á margan hátt hér innanlands. M.a. koma þau skýrt fram í auknum ráðstöfunartekjum launafólks. Það sést ef til vill best af því að talið er að tekjur launafólks aukist um 30-35% á árinu sem nú er senn lokið en að verðbólga vaxi á sama tíma um 11-12%. Um þetta verður ekki annað sagt en að góðærið hafi skilað sér til fólksins.

Hér verður ekki gerð tilraun til að meta áhrif nýgerðra kjarasamninga á ríkisbúskapinn á næsta ári. Að því efni mun að einhverju leyti verða vikið við 3. umr. þessa máls. Ljóst er hins vegar að þessir kjarasamningar fela í sér mjög merkilega nýbreytni, þ.e. alvarlega tilraun til þess að breyta launakerfi landsmanna í átt til aukins jafnaðar. á hinn bóginn er líka ljóst að þeir munu þrengja stöðu ýmissa ríkisfyrirtækja og ríkissjóðs á næsta ári, m.a. vegna takmarkandi ákvæða um gjaldskrárbreytingar og skattahækkanir.

Núverandi ríkisstjórn hefur verulega dregið úr skattheimtu á sínum ferli. Ýmsir sérskattar hafa verið lækkaðir eða felldir niður og tekjuskattur hefur verið lækkaður. Nettólækkun skatta í tíð núverandi ríkisstjórnar er frá árinu 1982 til þessa árs um 2700 millj. kr. Í raun ætti því að vera minni ástæða til að setja núverandi hæstv. ríkisstjórn skorður í þessum efnum en oft hefur verið áður.

Það heyrist oft um það rætt að skattar séu háir hér á landi. Ef betur er að gáð sýnist þetta vera mikill misskilningur. Í skýrslum frá OECD sést að fyrir rúmum 20 árum var tiltölulega lítill mismunur á skattheimtu í hinum einstöku aðildarlöndum samtakanna. Sömu sögu var að segja um opinber útgjöld þessara þjóða. Árið 1983 hafði þetta breyst á þann veg að mismunur á milli einstakra aðildarlanda OECD var orðinn mikill hvort heldur sem um var að ræða opinber útgjöld sem hlutfall af landsframleiðslu eða tekjur hins opinbera. Í örfáum þessara landa er skattbyrði lægri en á Íslandi árið 1983, en í flestum þeirra mun hærri.

Á Íslandi voru opinber útgjöld ríkis og sveitarfélaga árið 1983 35,2% af landsframleiðslu, en á hinum Norðurlöndunum var þetta hlutfall að meðaltali 50,6%, hæst í Svíþjóð 61%. Allir sjá að hér er um gífurlega mikinn mismun að ræða. Af öðrum nágrannalöndum okkar má nefna að í Bretlandi var þetta hlutfall 1983 43,1% og í Vestur-Þýskalandi 47,6% .

Þegar verið er að tala um mikla skattbyrði á Íslandi eða mikil opinber útgjöld, sem flestir vilja að séu sem lægst, hlýtur að vera miðað við eitthvað annað en það sem kemur fram í þessum samanburði.

Ég tel ástæðu til að vekja athygli á þessum staðreyndum, m.a. vegna þess hve stjórnmálamenn tala stundum fjálglega um mikil opinber útgjöld á Íslandi og mikla skattbyrði. Skal þá enn minnt á að skattbyrðin hefur farið lækkandi síðan 1983.

Enginn skal taka orð mín svo að ég sé að mæla með auknum útgjöldum hins opinbera því ég hef í starfi mínu sem formaður fjvn. lagt ríka áherslu á að styðja þá stefnu hæstv. ríkisstjórnar að halda ríkisútgjöldum í skefjum. En það hlýtur að vera álitamál hversu oft við getum samið um kaup og kjör á hinum almenna vinnumarkaði á þann máta að velta verulegum hluta byrðanna yfir á ríkissjóð og opinber fyrirtæki án þess að skattar verði innheimtir á móti.

Grunur minn er sá að sú neikvæða skattamálaumræða, sem iðulega heyrist og við tökum stundum þátt í, eigi rætur sínar að rekja til þess hve mörgum finnst skattbyrðin skiptast ranglátlega á milli einstakra skattgreiðenda. Ég er þeirrar skoðunar að skattkerfið sé orðið svo götótt, bæði að því er tekur til beinna skatta og óbeinna skatta, að breytingar séu óhjákvæmilegar. Endurskoðun skattkerfisins, sem nú fer fram á vegum hæstv. fjmrh., er því nauðsynjaverk.

Á þessu ári hafa orðið miklar hækkanir á launaútgjöldum ríkissjóðs. Að sjálfsögðu er það mestmegnis vegna hækkunar á launum opinberra starfsmanna, en laun þeirra eru talin hafa hækkað nokkru meira en laun annarra starfshópa.

Í fjárlagafrv. er gert ráð fyrir að launaútgjöld ríkissjóðs á næsta ári verði 13,5 milljarðar kr. miðað við desemberverðlag þessa árs. Mér þykir ástæða til að vekja athygli á þessari tölu, en hún þýðir að ef laun starfsmanna ríkisins hækka að meðaltali um 1%, aukast útgjöld ríkissjóðs um 135 millj. kr. á einu ári. Lífeyrisgreiðslur lífeyristrygginga hækka að jafnaði í samræmi við launahækkanir og 1% hækkun lífeyristrygginga þýðir um 60 millj. kr. hækkun á útgjöldum Tryggingastofnunar ríkisins miðað við eitt ár. .

Það er að mínum dómi eftirtektarvert að 1% hækkun launa eykur þar með útgjöld ríkisins á einu ári um allt að 200 millj. kr. Að sjálfsögðu fylgir auknum tekjum fólksins yfirleitt meiri velta í þjóðfélaginu og þar með vaxandi tekjur ríkissjóðs. En ég nefni þessar tölur eigi að síður til að minna á það hversu mikið er í húfi fyrir ríkisbúskapinn að stöðugleiki sé í efnahagslífinu, að sæmileg kyrrð sé í launamálum og að fólkið hafi trú á þeirri efnahagsstefnu sem ríkisstjórn fylgir.

Ég fæ ekki betur séð en núverandi hæstv. ríkisstjórn megi vel við það una hvernig hún hefur náð þessum markmiðum sínum.

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. hefur látið þá skoðun koma fram að þrátt fyrir að við höfum með opnum augum tekið á ríkissjóð kvaðir og útgjöld í tengslum við þýðingarmikla lausn kjaradeilna, sem leiða til þess að ríkisbúskapurinn verður um sinn rekinn með halla, beri okkur að stefna að jafnvægi í rekstri ríkisins. Ég er honum sammála. En til þess að þetta megi takast er nauðsynlegt að halda sívakandi þeim markmiðum sem við höfum starfað eftir á síðustu árum. Þau eru m.a.:

1. Almennt aðhald í rekstri ríkisins og ríkisstofnana og snörp tök til breytinga á rekstrarþáttum eða stjórnun ef aðhald bilar.

2. Varúð í uppsetningu nýrra stofnana eða nýrrar starfsemi á vegum ríkisins og athugun á því hvað annað megi þá helst þoka á móti.

3. Gagnger athugun á viðamiklu þjónustukerfi ríkisins sem hafi það að markmiði að gera það virkara og koma í veg fyrir sífellda útþenslu án þess að úr nauðsynlegri þjónustu dragi.

4. Móta stefnu um skiptingu verkefna og tekjustofna milli ríkis og sveitarfélaga sem hafi það að markmiði að flytja nokkuð af þeirri starfsemi ríkisins til sveitarfélaga sem lagst getur á þau með sem jöfnustum fjárhagslegum þunga. Sveitarfélögin fái tekjustofna í samræmi við það.

5. Ákvarðanir og ábyrgð fari saman.

6. Sala þeirra fyrirtækja sem ætla má að aðrir aðilar geti rekið jafnvel eða betur en ríkið sjálft. Á þessi markmið er hér minnt vegna þess að eftir þeim hefur verið starfað á undanförnum árum. Hæstv. ríkisstjórn hefur náð verulegum árangri í sumum þessara markmiða, í öðrum hefur gengið miður.

Allar breytingar taka tíma og margvísleg atriði þarf að athuga til þess að sanngirni sé gætt. En ég hygg að hvergi megi slaka á við að vinna þessum markmiðum brautargengi ef við ætlum að komast hjá því að auka skattheimtu að nýju.

Herra forseti. Ég mun þá gera grein fyrir þeim brtt. sem birtar eru þskj. 282. Við þetta þskj. hefur verið flutt brtt. frá fjvn. sem eru leiðréttingar. Sú brtt. er á þskj. 309.

Forsætisráðuneyti, aðalskrifstofa.

1. Lagt er til að önnur gjöld hækki um 1 millj. kr. á Yfirstjórn til þess að ljúka svokallaðri framtíðarkönnun. Verða útgjöld aðalaskrifstofu þá 10 millj. 457 þús. kr.

2. Tilfærslur á viðfangsefninu Gjöf Jóns Sigurðssonar hækki um 445 þús. kr. og verði 795 þús. Er það í samræmi við ályktun Alþingis frá 1974 um að framlagið skuli eigi nema lægri fjárhæð en sem svarar árslaunum prófessors við Háskóla Íslands.

3. Þjóðgarðurinn á Þingvöllum og Þingvallanefnd. Lagt er til að Önnur gjöld hækki um 400 þús. kr. og verði 1 millj. 400 þús. kr. Það er til lífríkisrannsókna í Þingvallavatni, en þær hafa verið í gangi og þeim hefur stjórnað Pétur M. Jónasson, prófessor við Kaupmannahafnarháskóla, og að mati fjvn. skilað góðu starfi.

Þá er menntamálaráðuneytið.

Raunvísindastofnun Háskólans. Lagt er til að laun hækki um 600 þús. kr. á viðfangsefninu Eðlisfræðistofa og er það til þess að þar verði tekin inn ný staða sérfræðings í þéttiefnisfræðum.

Íslensk málstöð. Lagt er til að önnur laun hækki um 300 þús. kr. vegna sérgreinds verkefnis og verði launaliðurinn þá 2 millj. 848 þús. kr.

Menntaskólinn í Reykjavík. Lagt er til að tekið verði upp nýtt viðhaldsviðfangsefni, 500 þús. kr., vegna endurbóta á hátíðasal skólans.

Menntaskólinn á Akureyri. Lagt er til að önnur gjöld hækki um 2 millj. kr. sem er vegna endurbóta og er þar lagt til að verði farið í 1. áfanga af viðhaldsverkefni sem er búið að gera áætlun um á vegum skólans. Í öðru lagi er lagt til að tekið verði upp nýtt viðfangsefni, hönnun heimavistar 300 þús. kr., en sú heimavist ætti jafnframt að geta þjónað Verkmenntaskólanum á Akureyri.

Menntaskólinn í Kópavogi, fjölbraut. Lagt er til að fjárfestingarliður verði tekinn upp, 1 millj. 800 þús. kr., sem er vegna grunnskóla í Kópavogi. Eins og hv. alþm. er kunnugt yfirtók Menntaskólinn í Kópavogi grunnskólahúsnæði og er þetta væntanlega lokagreiðsla til standa skil á hlut menntaskólans í þeim framkvæmdum.

Þá er Kennaraháskóli Íslands. Lagt er til að laun hækki um 1 millj. 650 þús. kr. Hækkunin skýrist með því að lagt er til að tekin verði upp ný staða lektors í hagnýtri kennslufræði og ný staða fulltrúa við endurmenntunarnámskeið, en síðan verði tekinn upp sérstakur liður sem að hluta er launaliður vegna samstarfsverkefnis Kennaraháskólans og Fræðsluskrifstofunnar á Austurlandi um sérkennslunám.

Æfinga- og tilraunaskóli Kennaraháskóla Íslands. Lagt er til að tekið verði upp stofnkostnaðarverkefni, til framkvæmda við lóð skólans 875 þús. kr. og vegna tækjakaupa 300 þús. kr.

Íþróttakennaraskóli Íslands. Lagt er til að tekinn verði upp nýr liður, Viðhald og tækjabúnaður 800 þús. kr. sem er vegna tækjakaupa í nýtt íþróttahús skólans.

Fjölbrautaskólar í Reykjavík. Lagt er til að tekið verði upp nýtt stofnkostnaðarviðfangsefni, 4 millj. kr., til að hefja byggingu íþróttahúss við Fjölbrautaskólann í Breiðholti, en við þá miklu skólastofnun hefur engin íþróttaaðstaða verið.

Fjölbrautaskóli Suðurnesja. Lagt er til að tekinn verði upp nýr stofnkostnaðarliður, viðbygging 3 millj. kr., og verður þá varið, ef þetta verður samþykkt, samtals 4 millj. til stofnkostnaðar við Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Skólinn býr við afar þröngt kennsluhúsnæði, bóknám fer fram á sjö stöðum í bænum og húsnæði er ekki nema tæpur helmingur þess sem þyrfti að vera. Fyrir liggur mjög hagkvæm áætlun að mati okkar í fjvn. um byggingu á vegum skólans sem áætlað er að kosti í heild um 26 millj. kr., en hlutur ríkisins í því fyrirtæki yrði um 16 millj. kr. Hér er lagt til að hefja þetta verk og tekur það væntanlega um fjögur ár að greiðslur ríkisins komist til skila.

Fjölbrautaskólinn á Akranesi. Lagt er til að varið verði 1 millj. 200 þús. kr. til viðbótar í stofnkostnað við byggingu heimavistar sem þar er í gangi.

Framhaldsskólinn í Vestmannaeyjum. Lagt er til að tekinn verði upp nýr liður, Verknámshús 3,5 millj. kr., og hækka gjöld sem því nemur, en það er nýbygging.

Fjölbrautaskólinn á Sauðárkróki. Lagt er til að tekinn verði upp nýr liður, Loftræstibúnaður 800 þús. kr. Þetta er vegna loftræstibúnaðar í verknámshús skólans. Heilbrigðisyfirvöld og Vinnueftirlitið hafa hótað því að loka verknámshúsinu ef ekki fást úrbætur í þessu efni.

Námsgagnastofnun. Lagt er til að Önnur gjöld hækki um 1 millj. 200 þús. kr. vegna framleiðsludeildar og um 700 þús. kr. vegna Fræðslumyndasafns.

Tækniskóli Íslands. Lagt er til að eignakaup verði hækkuð um 3 millj. 900 þús. kr. vegna tækjabúnaðar. Er þetta vegna tveggja nýrra deilda sem teknar eru til starfa en tækjabúnað skortir nær algjörlega, þ.e. röntgentæknideild og iðnrekstrardeild.

Stýrimannaskólinn í Reykjavík. Lagt er til að tekinn verði upp nýr fjárfestingarliður, Lóðaframkvæmdir 2,4 millj. kr. og er það til að ljúka áfanga við framkvæmdir við lóð skólans, en það er talið mjög nauðsynlegt og nauðsynlegra nú en ella vegna þess að skólinn hefur fengið mjög dýr og viðkvæm tæki og aur og ryk berst af lóðinni inn í skólann og setur þessi tæki í hættu. Þess má geta að Stýrimannaskólinn í Reykjavík hefur búið við það frá upphafi að þar hefur ekkert verið gert fyrir lóð skólans. Hér er fyrsti áfangi í því verki.

Iðnskólinn í Reykjavík. Lagt er til að Önnur gjöld verði hækkuð um 1 millj. kr. til viðhalds á fasteignum skólans og eru þar 3 millj. þá til ráðstöfunar.

Iðnskólar utan Reykjavíkur. Lagt er til að liðurinn hækki um 4,5 millj. kr. Er það um 2 millj. kr. vegna fræðsluátaks í verksmiðjuiðnaði í samræmi við ákvæði í kjarasamningum sem gerðir voru fyrr á þessu ári um endurmenntun iðnverkafólks. Auk þess verði tekinn upp nýr liður, 2,5 millj. kr. vegna tannsmíðanáms.

Iðnskólar, almennt. Lagt er til að Önnur gjöld lækki um 1 millj. vegna viðhalds Vörðuskóla og um 900 þús. vegna gluggaviðgerða í Iðnskólanum í Reykjavík og eru þetta leiðréttingar. Lagt er til að eignakaup hækki á hinn bóginn um 3 millj. kr. vegna tækjakaupa í Iðnskólanum í Reykjavík og hefur skólinn þá um 4 millj. kr. til ráðstöfunar úr ríkissjóði til þeirra hluta. Gert er ráð fyrir framlagi Reykjavíkurborgar á móti.

Hússtjórnarskólar. Lagt er til að Önnur gjöld hækki um 800 þús. kr. sem er viðhaldsfé.

Bygging grunnskóla og íbúða fyrir skólastjóra. Lagt er til að fjárfestingarliður hækki um 23 millj. 695 þús. kr. og verði 209 millj. 195 þús. kr. Vísað er til skiptingar á þessum fjárlagalið í sérstöku yfirliti.

Dagvistarheimili, stofnkostnaður. Lagt er til að tilfærslur hækki um 23 millj. 195 þús. kr. og verði 43 millj. 195 þús. kr. Vísað er til sérstaks yfirlits um sundurliðun þessara verkefna með brtt. Rétt er að vekja á því athygli að í fjárlagafrv. voru aðeins 20 millj. kr. ætlaðar til þessa verkefnis, en í fjárlögum yfirstandandi árs er gert ráð fyrir 40 millj. kr.

Náms- og fræðimenn, framlög. Lagt er til að Önnur gjöld á lið 5.22, Stúdentagarðar, verði hækkuð um 3 millj. kr. Það er viðhald á stúdentagörðunum og verða þá til ráðstöfunar til þess verkefnis 7 millj. kr. Þær viðhaldsaðgerðir eru langt komnar, en mun þó þurfa nokkurt lánsfé á þessu ári ef takast á að ljúka þeim á næsta ári.

Jöfnun á námskostnaði, tilfærslur. Lagt er til að liðurinn verði hækkaður um 5 millj. kr. og verði 25 millj. kr. Hér er um fjárlagalið að ræða sem hefur staðið óbreyttur í eitt eða tvö ár.

Fullorðinsfræðsla. Lagt er til að tekinn verði nýr liður, 1.40 Félagsmálanámskeið 150 þús. kr. Þjóðminjasafn Íslands. Lagt er til að laun verði hækkuð um 600 þús. kr. til að stofna rannsóknastöðu er tengist nafni dr. Kristjáns Eldjárns, fyrrum forseta Íslands og þjóðminjavarðar.

Þjóðskjalasafn Íslands. Lagt er til að Önnur gjöld verði hækkuð um 1 millj. 500 þús. kr. og verði 4 millj. 698 þús. kr. á rekstrarviðfangsefni 1.01, en 6 millj. 198 þús. kr. alls. Þetta er gert í tengslum við að verið er að undirbúa að safnið færist í nýtt húsnæði.

Listasafn Íslands. Lagt er til að Önnur gjöld hækki um 600 þús. kr. sem er rekstur, ýmsir rekstrarliðir sem stafa af flutningi Listasafnsins í nýtt húsnæði.

Blindrabókasafn Íslands. Lagt er til að önnur gjöld hækki um 600 þús. kr. og verði 3 millj. 233 þús. kr.

Náttúruverndarráð. Lagt er til að liðurinn Önnur gjöld hækki um 500 þús. kr. á viðfangsefninu Rannsóknarstörf við Mývatn.

Listir, framlög. Lagt er til að tilfærslur hækki alls um 12 millj. 241 þús. kr. og verði 86 millj. 707 þús. kr. Þar er að miklu leyti um að ræða verðuppfærslu á fjárlagafrv., en einnig að teknir verði upp sex nýir liðir sem sumpart eru inni í safnliðum frv. Þeir eru Leiklistarstarfsemi, Bandalag ísl. leikfélaga, Leiklistarráð, Alþýðuleikhúsið, Skuldagreiðslur og Ferðaleikhúsið. Að öðru leyti er vísað til brtt. um þetta efni.

Vísindaleg starfsemi, styrkir. Lagt er til að tilfærslur á liðnum 1.10, Vísinda- og fræðistörf, hækki um 150 þús. kr. vegna byggingarstyrks til Surtseyjarfélagsins.

Norræn samvinna. Lagt er til að tilfærslur hækki um 490 þús. kr. Hækkunin skiptist þannig að gert er ráð fyrir að 90 þús. kr. komi fram sem hækkun á styrk til Norræna félagsins og 400 þús. kr. á nýjan lið sem kallast Norræni sumarháskólinn vegna sérstaks móts á Íslandi n.k. sumar.

Íþróttasjóður. Lagt er til að tilfærslur hækki um 9 millj. 389 þús. kr. og verði 37 millj. 589 þús. kr. Vísað er til sérstakrar sundurliðunar á yfirliti sem fylgir brtt. á þskj. 282. Rétt er að vekja á því athygli að í fjárlagafrv. var þessi fjárlagaliður lækkaður frá síðasta ári.

Æskulýðsmál. Lagt er til að liðurinn hækki um 2 millj. 814 þús. kr. og verði 14 millj. 298 þús. kr. Hækkunin skiptist þannig að til Æskulýðsráðs ríkisins hækki framlag um 183 þús. kr., til Ungmennafélags Íslands um 1 millj. 515 þús. kr. og til Bandalags ísl. skáta um 1 millj. 116 þús. kr.

Ýmis íþróttamál. Lagt er til að tilfærslur hækki um 4 millj. 745 þús. kr. og verði 37 millj. 798 þús. kr. Lagt er til að hækkunin skiptist þannig að Ólympíunefnd Íslands hækki um 3 millj. 925 þús. kr. Inni í þeirri hækkun felist 2,5 millj. kr. framlag til HSÍ vegna Ólympíuleikanna í Seoul 1988 sem í fjárlagafrv. er gert ráð fyrir að felist inni í liðnum Íþróttasamband Íslands. Enn fremur er gert ráð fyrir að á þessum fjárlagalið verði varið fé til undirbúnings annarra íþróttagreina til þátttöku í Ólympíuleikunum í Seoul og í Ólympíuleikunum í Calgary sem fara fram á árinu 1988. Að dómi nefndarinnar var óhjákvæmilegt að styrkja þetta undirbúningsstarf á næsta ári og hefði ekki að nægu gagni komið að styrkja þetta mál einungis á því ári sem leikarnir fara fram. Því er þessi till. flutt. Í öðru lagi: Íþróttamál fatlaðra 425 þús. kr., Íþróttastarfsemi, almennt 208 þús. kr. og Skáksamband Íslands vegna skákmóta 187 þús. kr.

Húsfriðun. Lagt er til að liðurinn hækki um 2 millj. 400 þús. kr. og verði 12 millj. 454 þús. kr. og skiptist hækkunin þannig: Húsfriðunarsjóður hækki um 350 þús. kr., Nesstofa um 50 þús. kr., Byggða- og minjasöfn um 1500 þús. kr. og Sjóminjasafn Íslands um 500 þús. kr.

Liðurinn 999, Ýmislegt. Lagt er til að tilfærslur hækki um 5 millj. 107 þús. kr. og verði 21 millj. 163 þús. kr. Undir þennan lið eru tekin ný viðfangsefni. j fyrsta lagi til Dimmuborga í Mývatnssveit, þar sem er áætlað að styrkja gangstígagerð og reyna að búa svo um hnúta að náttúra Dimmuborga spillist ekki af mjög miklum átroðningi, liðurinn Geysir í Haukadal, Náttúrugripasafnið í Vestmannaeyjum, Landssamband hjálparsveita skáta, björgunarnámskeið, en á vegum Hjálparsveitar skáta fara fram björgunarnámskeið fyrir aðrar hjálparsveitir samtímis og er verið að sameina þá starfsemi.

Söfn, styrkir. Til Fóstrufélags Íslands styrkur sem er vegna samnorræns móts og námskeiðs sem haldið verður hér á Íslandi n.k. sumar, en slík mót eru haldin hér 10. hvert ár. Enn fremur er um að ræða liðinn Hlíðardalsskóli, viðhald, með svipuðum hætti og er í gildandi fjárlögum.

Er þá lokið við að lýsa og skýra tillögur sem varða menntmrn., en áður en ég segi skilið við skýringar varðandi það ráðuneyti vil ég geta þess að ráðuneytið hefur beðið mig að koma á framfæri athugasemd varðandi texta í athugasemdum með fjárlagafrv. er varðar Héraðsskólann að Núpi í Dýrafirði, en í sundurliðun í brtt. nefndarinnar sést hvernig fé er skipt á milli héraðsskólanna í landinu án þess að þar sé þó um hækkun að ræða.

Í athugasemdum menntmrn. segir að engin kennsla verði við Héraðsskólann að Núpi í Dýrafirði skólaárið 1986-1987, en fjárveiting til skólans verði notuð til endurbóta á húsnæði hans. Verði nemendafjöldi nægur haustið 1987 verður skólinn starfræktur skólaárið 1987-1988 með hefðbundnum hætti. Áætlun sú er hér er gerð er miðuð við ofangreint. Þessi athugasemd menntmrn. er tilkomin vegna þess að í athugasemdum með fjárlagafrv. er gert ráð fyrir að skólinn verði lagður niður.

Þá eru hér brtt. er varða landbúnaðarráðuneytið: Jarðeignir ríkisins. Lagt er til að framlög hækki um 3 millj. 83 þús. kr. og verði 10 millj. 786 þús. kr. Þetta er vegna þess að Jarðeignir ríkisins þurfa samkvæmt lögum að standa skil á greiðslum fráfaranda þegar ábúðarskipti verða.

Jarðasjóður. Lagt er til að framlag hækki um 2 millj. og verði 4 millj. kr.

Búnaðarfélag Íslands. Lagt er til að liðurinn Yfirstjórn hækki um 2 millj. kr. og verði 11 millj. 869 þús. kr. vegna verkefnaráðinna starfsmanna. Ráðunautar. Lagt er til að liðurinn hækki um 550 þús. kr. vegna þess að tekin verði upp staða ráðunauts í ferðaþjónustu bænda. Sérfræðileg aðstoð við landbúnaðinn. Lagt er til að við liðinn bætist 1100 þús. kr. sem er vegna yfirvinnu og ferðakostnaðar. Landþurrkun. Lagt er til að liðurinn hækki um 73 þús,. kr. og verði 540 þús. kr. Sundurliðun er prentuð á sérstöku yfirliti. Sértekjur. Lagt er til að liðurinn lækki um 1300 þús. kr. og verði 2 millj. 75 þús. kr. og er það leiðrétting vegna þess að sértekjur hafa verið ofreiknaðar.

Rannsóknastofnun landbúnaðarins. Lagt er til að Rannsóknarsvið hækki um 150 þús. kr. þar sem viðurkennt verði 3/4 úr stöðugildi sérfræðings í svínarækt í stað 1/2 stöðu sem nú er viðurkennd. Tilraunastöðin Skriðuklaustri. Lagt er til að liðurinn Viðhald á húsi Gunnars Gunnarssonar á Skriðuklaustri verði hækkaður um 600 þús. kr.

Skógrækt ríkisins. Lagt er til að tekinn verði upp nýr liður, Tilraunir með rótarskóga 150 þús. kr. Sá liður hefur verið í fjárlögum á undanförnum árum, en féll niður við gerð fjárlagafrv. Lagt er til að varið verði 2,3 millj. kr. til að hefja 15 ára áætlun um ræktun nytjaskóga, en gert er ráð fyrir að á móti framlagi ríkisins komi jafnhátt framlag úr Framleiðnisjóði landbúnaðarins. Skógrækt einstaklinga. Lagt er til að sá liður hækki um 85 þús. kr. og verði 400 þús. kr.

Sauðfjárveikivarnir. Lagt er til að liðurinn Viðhaldsverkefni á varnargirðingum hækki um 1 millj. 500 þús. kr.

Landgræðslu- og landverndaráætlun. Lagt er til að stofnkostnaður hækki samtals um 9 millj. 203 þús. kr. og verði 60 millj. 121 þús. kr. Vísað er til brtt. og skiptingar á þskj. 282 til nánari skýringa.

Jarðræktarlög, framlög. Lagt er til að liðurinn Ráðunautar hækki um 1 millj. 450 þús. kr. og verði 22 millj. 169 þús. kr. Er hér um launalið að ræða, leiðréttingu, en við frumvarpsgerð höfðu fallið niður 21/2 stöðugildi héraðsráðunauta þar sem ríkissjóður leggur fram 65% launa.

Jöfnunargjald í landbúnaði. Lagt er til að liðurinn hækki um 13 millj. 650 þús. kr., en hér er um að ræða endurgreiðslu á uppsöfnuðum söluskatti vegna loðdýraræktar með líkum hætti og er við endurgreiðslu söluskatts varðandi samkeppnisiðnað.

Landbúnaðarmál, ýmis starfsemi. Lagt er til að hækkun til Skógræktarfélags Íslands verði 655 þús. kr.

Bændaskólinn á Hvanneyri, rannsóknarhús. Lagt er til að liðurinn hækki um 1 millj. 100 þús. kr. til að reisa gróðurskála við rannsóknarhúsið, en ætlast er til að byggingu rannsóknarhússins ljúki á næsta ári.

Garðyrkjuskóli ríkisins. Lagt er til að Viðhald á gróðurhúsum hækki um 600 þús. kr. og verði 2 millj. 600 þús. kr.

Þá hef ég lokið við að greina frá till. er varða landbrn.

Sjávarútvegsráðuneytið: Hafrannsóknastofnun. Lagt er til að teknir verði upp tveir nýir liðir. Í fyrsta lagi nýr liður sem kallast Lúðueldi á Reykjanesi 1 millj. 500 þús. kr. Um er að ræða rannsóknir á því að ala upp lúðu í eldiskerum. Í öðru lagi nýr liður sem er Alþjóðlegt samstarfsverkefni í hafrannsóknum og lífríki hafsins í hafinu milli Íslands og Austur-Grænlands. Hér er um alþjóðlegt samstarfsverkefni að ræða og lagt til að til þess sé varið 2 millj. 700 þús. kr. þannig að ef í þetta verður farið á næsta ári liggi ekki eftir hlutur Íslands, að fjárskortur af hálfu Íslendinga komi ekki í veg fyrir að hægt verði að hefja þetta verk. Í þriðja lagi er lagt til að viðhaldsfé hafrannsóknaskipanna verði hækkað um 4 millj. og 800 þús. kr.

Söluskattur í sjávarútvegi, endurgreiðsla. Lagt er til að af 700 millj. kr. endurgreiðslu söluskatts í sjávarútvegi verði varið 25 millj. kr. til Útflutningsráðs Íslands. Mér hafa borist nánari skýringar frá hæstv, sjútvrh. sem rétt er að rekja varðandi þennan lið. Þar segir: Miðað er við að endurgreiðsla söluskatts í sjávarútvegi skiptist milli veiða og vinnslu á næsta ári með svipuðum hætti og verið hefur í ár skv. ákvæðum laga nr. 24/1986. Þjóðhagsstofnun áætlar að u.þ.b. 31% af uppsöfnun söluskatts í sjávarútvegi eigi sér stað í veiðum. Samkvæmt því munu 220 millj. kr. af þessum fjárlagalið renna til Fiskveiðasjóðs Íslands. Í ár hafa vextir af lánum sem veitt voru af Fiskveiðasjóði til fiskiskipa fyrir árslok 1985 verið niðurgreiddir um 60%. Er hætt við því að algjört afnám þessarar vaxtaniðurgreiðslu á næsta ári muni hafa mjög alvarlegar afleiðingar fyrir hluta fiskiskipaflotans. Er því æskilegt ef unnt væri að afnema vaxtaafsláttinn í áföngum. Þá er fjárhagsstaða Fiskveiðasjóðs veik og er full ástæða til að styrkja eiginfjárstöðu hans. Af þeim 480 millj. sem eftir eru renna 25 millj. til Útflutningsráðs, eins og fyrr er frá greint varðandi tillögur nefndarinnar, en 455 millj. kr. til beinna endurgreiðslna til framleiðenda sjávarafurða í hlutfalli við útflutningsverðmæti með svipuðum hætti og verið hefur í ár.

Dóms- og kirkjumálaráðuneyti:

Ríkissaksóknari. Lagt er til að laun hækki um 400 þús. kr. Þar er um að ræða Önnur laun fyrir tímabundin verkefni við að tölvutaka sakaskrá og málaskrá og aðkeypta sérfræðiþjónustu vegna efnahagsbrota.

Borgarfógetinn í Reykjavík. Lagt er til að launaliður hækki um 415 þús. kr., en það er eitt stöðugildi sem ákveðið hafði verið af ráðningarnefnd.

Sýslumaðurinn á Patreksfirði. Lagt er til að stofnkostnaður hækki um 3 millj. kr. vegna endurbóta á skrifstofuhúsnæði.

Sýslumaður og bæjarfógeti Sauðárkróki. Lagt er til að stofnkostnaður hækki um 3 millj . kr. Þar er um að ræða kostnað við byggingu skrifstofuhúsnæðis.

Sýslumaðurinn í Vík í Mýrdal. Lagt er til að stofnkostnaður hækki um 2 millj. kr. vegna innréttinga leiguhúsnæðis og skrifstofubúnaðar, en sýslumannsembættið hefur þar búið í leiguhúsnæði og verður að víkja þaðan og hverfa í nýtt leiguhúsnæði. Þarf þá fé til innréttinga á þeim stað.

Sýslumaður og bæjarfógeti Hafnarfirði. Lagt er til að liðurinn Yfirstjórn hækki um 415 þús. kr. sem nemur einu stöðugildi sem ákveðið hefur verið af ráðningarnefnd.

Fangamál, ýmis kostnaður. Lagt er til að stofnkostnaður vegna ríkisfangelsa hækki um 1 millj. kr. og er það vegna viðhalds á fangahúsinu á Litla-Hrauni.

Landhelgisgæsla Íslands. Lagt er til að launakostnaður hækki um 180 þús. kr. vegna 1/3 hluta starfs við símavörslu. Enn fremur verði kostnaður við tækjabúnað aukinn um 1 millj. og 800 þús. kr., en það er vegna tækjabúnaðar til að gera sprengjur óvirkar.

Ýmis kirkjuleg málefni. Lagt er til að sá kostnaður hækki um 600 þús. kr., en auk þess hækki kostnaður vegna Skálholtsstaðar um 200 þús. Þá er till. um að verja 5 millj. kr. til viðgerðar á Hóladómkirkju, en talið er að sú viðgerð þoli ekki bið. Hóladómkirkja er eitt af merkustu húsum þessa lands.

Félagsmálaráðuneyti:

Vatnsveitur. Lagt er til að stofnkostnaður hækki um 8 millj. kr. og verði 18 millj. Hér er um mikla hækkun að ræða sem er tilkomin vegna þess að fjvn. hefur kynnt sér að miklar vatnsveituframkvæmdir eru í gangi á vegum sveitarfélaganna og mjög miklar óskir um að hefja nýjar vatnsveituframkvæmdir.

Málefni fatlaðra. Lagt er til að kostnaður samkvæmt 10. gr. laga um málefni fatlaðra hækki um 4 millj. kr. og verði 41 millj. 811 þús. kr. Eins og frv. var lagt fram var gert ráð fyrir nokkurri lækkun á þessum fjárlagalið, en þessu fé er varið til að styrkja aðstandendur fatlaðra barna sem vistuð eru í heimahúsum og kostar mun minna í útgjöldum ríkisins en að vista slík börn á opinberum stofnunum. Því er það álit fjvn. að fé af þessu tagi sé vel varið.

Málefni fatlaðra í Reykjavík. Tekinn er upp nýr liður, Sambýli í leiguhúsnæði 1 millj. 600 þús. kr.

Málefni fatlaðra á Reykjanesi. Tekinn er upp nýr liður, Sambýli í Kópavogi fyrir börn 3 millj. 180 þús. kr. og er áætlað að heimila rekstur á heimilinu frá 1. júlí með 61/2 stöðugildi. Enn fremur að liðurinn Atvinnuleit fyrir fatlaða verði hækkaður um 500 þús. kr.

Málefni fatlaðra, Vesturlandi. Lagt er til að tekinn verði upp nýr liður, Sumarbúðir 710 þús. kr.

Málefni fatlaðra, Vestfjörðum. Liðurinn Svæðisstjórn hækki um 445 þús. kr. og verði 2 millj. 564 þús. kr.

Málefni fatlaðra, Norðurlandi vestra. Tekinn verði upp nýr liður, Sambýli á Sauðárkróki fyrir börn með geðræn vandamál, og verði hann 820 þús. kr.

Málefni fatlaðra, Norðurlandi eystra, svæðisstjórn. Lagt er til að liðurinn hækki um 320 þús. kr. Um er að ræða Önnur laun, fyrir lausráðinn starfsmann. Lagt er til að tekið verði upp nýtt viðfangsefni, Sambýli á Húsavík, og gert ráð fyrir að heimilað verði að ráða í fimm stöðugildi frá 1. sept. Vistheimilið Sólborg. Lagt er til að launaliður hækki um 415 þús. kr. sem er leiðrétting vegna sérkjarasamninga. Þá er liðurinn Sumarbúðir í Botni. Lagt er til að liðurinn hækki um 240 þús. kr. Vistheimilið Sólborg að nýju. Lagt er til að liðurinn Sértekjur lækki um 1 millj. 50 þús. kr. og er það leiðrétting.

Þá er Málefni fatlaðra, Austurlandi. Lagt er til að liðurinn Svæðisstjórn hækki um 410 þús. kr. sem er vegna ráðningar bílstjóra.

Málefni fatlaðra, Suðurlandi. Lagt er til að tekið verði upp nýtt vistheimili að Skaftholti í Gnúpverjahreppi og að fjárveiting verði 2 millj. 160 þús. kr. Þá er lagt til að tekin verði upp hálf ný staða við leikfangasafnið í Vestmannaeyjum er kosti á launalið 315 þús. kr. Þá er lagt til að auka Önnur gjöld vegna rekstrar á meðferðarheimilinu Lambhaga, Selfossi um 197 þús. kr.

Ég vil láta þess getið að þessi liður, sem hér eru brtt. við í allmörgum töluliðum og stafliðum, hefur verið mjög endurskoðaður, bæði á vegum fjvn., hagsýslustofnunar og á vegum félmrn., og reynt að takmarka þær tillögur sem hér eru fluttar við þau viðfangsefni sem talin voru þýðingarmest þeirra sem sótt var um, en umsóknir voru æðimiklu meiri.

Þá er liðurinn Vinnumál, ýmislegt. Lagt er til að liðurinn hækki um 3 millj. 450 þús. kr. og verði 17 millj. 866 þús. kr. og verður þessum lið skipt af fjvn. með bréfi til félmrn.

Ýmis starfsemi. Lagt er til að Slysavarnafélag Íslands hækki um 594 þús. kr. og verði 5,4 millj. kr. Lagt er til í öðru lagi að liðurinn Sjómannastofur hækki um 40 þús. kr., verði 500 þús. kr. Í þriðja lagi: Liðurinn Félagasamtök hækki um 613 þús. kr. og verði 5 millj. 500 þús. kr. Kvennaathvarf í Reykjavík. Lagt er til að liðurinn hækki um 1 millj. kr. Ýmis framlög. Lagt er til að liðurinn hækki um 200 þús. kr. og verði 1 millj. 500 þús. kr. Stofnkostnaður. Lagt er til að varið verði 600 þús. kr. til varnargarða við Höfðabrekkujökul til að verja Víkurkauptún fyrir hugsanlegu Kötlugosi gegn jafnhárri fjárhæð annars staðar frá og að tekinn verði einnig upp nýr liður, 2,5 millj. vegna varnargarða við Markarfljót gegn jafnhárri fjárhæð annars staðar frá.

Þá eru tillögur sem varða heilbrigðismálaráðuneytið:

Heyrnar- og talmeinastöð Íslands. Lagt er til að liðurinn Eignakaup hækki um 500 þús. kr. vegna FM-heyrnartækja í skólum fyrir börn og enn fremur að veittar verði 300 þús. kr. vegna innréttinga í heyrnarklefa við nýtt útibú stofnunarinnar á Akureyri.

Sjónstöð Íslands. Lagt er til að sértekjur lækki um 1 millj. kr. vegna breytinga á gjaldtöku fyrir hjálpartæki.

Málefni fatlaðra undir heilbrmrn. Lagt er til að breyting verði á texta, þ.e. að viðfangsefnið 1.60, sem áður hét Gigtarfélag Íslands, heiti nú Gigtlækningastöð Gigtarfélags Íslands. Fjárhæðin stendur óbreytt.

Sjúkrahús og læknisbústaðir: Tilfærslur á viðfangsefninu Bygging sjúkrahúsa, heilsugæslustöðva og læknisbústaða hækki um 57 millj. 280 þús. kr., verði 177 millj. 280 þús. kr.

Þá er enn fremur lagt til að tekið verði upp nýtt viðfangsefni, Sjúkrahús St. Franciscusarreglunnar í Stykkishólmi, og verði framlag til þess sjúkrahúss 8,5 millj. kr. Fyrir afgreiðslu fjárlaga þessa árs var gert samkomulag um að greiða af hálfu ríkisins til þessa sjúkrahúss 7 millj. kr. á ári í tvö ár, en þá með þeim hætti að liðurinn væri verðtryggður. Með þessu er staðið við það samkomulag. Rétt er að geta þess að St. Franciscusarreglan leggur fram mikið fé til þessarar byggingar og byggingin er að verulegu leyti rekin á hennar vegum. Að öðru leyti skal vísað í sundurliðun á sérstöku yfirliti á þskj. 282.

St. Jósefsspítali, Landakoti. Lagt er til að laun hækki um 3 millj. kr. og eru þá teknar inn fjórar nýjar stöður. Lagt er til að Önnur gjöld verði leiðrétt til hækkunar um 4 millj. kr.

Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri. Lagt er til að hækka laun um 1 millj. 200 þús. kr. vegna stöðu nýs aðstoðarlæknis, en talið er að í raun felist í því sparnaður fyrir rekstur sjúkrahússins.

Heilsugæslustöðvar. Lagt er til að Önnur gjöld hækki um 8 millj. kr. og eru þar af 3 millj. ætlaðar til viðhaldsverkefna. Annað er m.a. vegna breytinga á kjarasamningum. Þannig hækka laun um til að mynda 3 millj. kr. aðeins vegna breytingar á túlkun kjarasamninga.

Heilbrigðismál, ýmis starfsemi. Teknir verði upp fjórir nýir liðir. Það er í fyrsta lagi Krabbameinsfélag Íslands, þ.e. til rannsókna og forvarnarstarfs við brjóstakrabbamein 5 millj. kr. Liðurinn Hjartavernd vegna Monica-rannsókna 1 millj. kr., en Monica-rannsóknir eru fjölþjóðlegt rannsóknastarf undir yfirstjórn Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar sem Hjartavernd hefur verið falið af landlækni að annast en getur illa tekið það verkefni að sér þó hún hafi gert það á þessu ári án þess að fá til þess eitthvert fjárframlag. Þá er liðurinn Atvinnusjúkdómar, sem er lokagreiðsla, 150 þús. kr. Liðurinn Kynsjúkdómar, alnæmi. Lagt er til að hann hækki um 5 millj. kr. sem er vegna fræðslustarfs um þetta efni. Hækkun nemur þá alls 19 millj. 275 þús. kr. og verður heildarfjárveiting á þessum lið 65 millj. 934 þús. kr.

Þá er liðurinn Gæsluvistarsjóður, framlag. Tekið er upp nýtt viðfangsefni, Vernd, félagasamtök, og lagt er til að framlag verði 1 millj. kr. sem er vegna kaupa félagasamtakanna á húseign við Laugateig.

Þá er liðurinn Bindindisstarfsemi. Lagt er til að tilfærslur til Stórstúku Íslands hækki um 33 þús. kr. og verði 500 þús. kr. Enn fremur er tekið upp nýtt viðfangsefni, Norrænt bindindisþing, sem meiningin er að halda hér á landi á sumri komanda og verði það styrkt með 300 þús. kr.

Þroskaþjálfaskóli Íslands. Lagt er til að laun hækki um 300 þús. kr. og verði þá 4 millj. 914 þús. kr.

Fjármálaráðuneyti:

Ríkisskattstjóri. Lagt er til að liðurinn hækki um 2 millj. 770 þús. kr. og verði 56 millj. 231 þús. kr. Er þetta vegna fjögurra nýrra staða við embættið sem ráðningarnefnd hefur samþykkt að taka upp.

Samgönguráðuneyti:

Vegagerð ríkisins. Lagt er til að tilfærslur til einstaklinga, heimila og félagasamtaka, sem kallað hefur verið Gisting og byggð á þessum fjárlagalið, falli niður og færist á fjárlaganúmer 1.26 Ýmislegt.

Vitastofnun Íslands.

Lagt er til að Önnur gjöld hækki um 1 millj. 400 þús. kr. vegna vitabygginga og verði 14 millj. kr. Er hækkunin m.a. vegna endurbóta á Miðfjarðarskersvita. Við 3. umr. verður af hálfu meiri hl. nefndarinnar flutt till. um hækkun vitagjaldsins við 3. gr. frv.

Hafnamál. Lagt er til að tilfærslur hækki um 73 millj. 639 þús. kr. og verði 266 millj. 966 þús. kr. Hækkunin skiptist þannig á viðfangsefni: Ferjubryggjur 2 millj. 7 þús. kr., hafnarmannvirki og lendingarbætur 58,5 millj. kr., sjóvarnargarðar 9 millj. 132 þús. kr. og nýtt viðfangsefni, Landshöfnin Rifi 4 millj. kr. sem að mestu leyti er skuldagreiðsla, en auk þess er talið mikið hættuástand orðið í höfninni vegna þess að þar er ekki orðið nema þriggja metra dýpi. Að öðru leyti er vísað til sundurliðunar á þessum liðum í sérstöku yfirliti á þskj. 282.

Siglingamálastofnun ríkisins. Lagt er til að laun hækki um 1170 þús. vegna þriggja nýrra starfa, skipaskoðunarmanns á Vestfjörðum, skrifstofumanns og rafmagnsskoðunarmanns. Önnur gjöld hækki um 1881 þús. kr. vegna húsaleigu, umdæmisskrifstofa og vegna skyndiskoðunar skipa. Lagt er til að Eignakaup hækki um 310 þús. kr. vegna tækjakaupa fyrir hávaðamælingar um borð í fiskiskipum. Enn fremur er lagt til að sértekjur lækki um 1 millj. 550 þús. kr. vegna skipaskoðunargjalds sem flyst á viðeigandi lið í 3. gr. frv. Við 3. umr. þessa máls mun meiri hl. fjvn. flytja till. við 3. gr. um hækkun skipaskoðunargjaldsins.

Flugmálastjórn. Lagt er til að laun hækki um 1 millj. 170 þús. kr. Hækkunin skýrist af því að lagt er til að heimila að 67% staða flugvallareftirlitsmanns á Þórshöfn verði 100% staða. Það kostar 195 þús. kr. Enn fremur að heimila eina stöðu flugvallareftirlitsmanns á Akureyri, 650 þús. kr., og hálfa stöðu við Loftferðaeftirlit, 325 þús. kr.

Liðurinn Flugvellir, önnur gjöld. Framkvæmdir hækka um 9,4 millj. kr. og verða 69,4 millj. kr. Vísað er í sundurliðun á einstök verkefni í sérstöku yfirliti sem fylgja á brtt. nefndarinnar.

Ýmis framlög. Lagt er til að tilfærslur hækki um 6 millj. 330 þús. kr. og verði 12 millj. 75 þús. kr. Hækkunin skýrist m.a. af nýjum viðfangsefnum sem eru: Björgunarbúnaður Sigmunds 125 þús. kr., fræðsluefni um öryggismál sjómanna, myndbanki, 600 þús. kr., sjálfvirkt tilkynningakerfi fyrir fiskiskip 2,5 millj. kr., ferðamálasamtök landshluta 600 þús. kr. og nýr liður vegna samnorræns verkefnis um jarðskjálftarannsóknir á Suðurlandi 500 þús. kr.

Liðurinn Ýmislegt er m.a. vegna útivistaraðstöðu við Geysi í Haukadal og inn á þennan lið færist liðurinn af Vegagerð ríkisins Til einstaklinga, heimila og samtaka, gisting og byggð og verður honum skipt síðar með bréfi til ráðuneytisins.

Landmælingar Íslands. Lagt er til að Önnur laun verði hækkuð um 600 þús. kr. vegna fjarkönnunarstofu sem ætlað er það hlutverk að safna saman ýmsum fjarkönnunargögnum, gervitunglamyndum o.fl. og að sértekjur verði lækkaðar um 1 millj. 200 þús. kr.

Iðnaðarráðuneyti:

Iðntæknistofnun Íslands. Lagt er til að liðurinn Yfirstjórn hækki um 1 millj. 370 þús. kr. vegna sérgreindra verkefna og að liðurinn Tækjabúnaður hækki um 600 þús. kr. og verði 9 millj. kr.

Viðskiptaráðuneyti:

Lagt er til að á liðnum Yfirstjórn hækki styrkur til Neytendasamtaka um 116 þús. kr. og verður liðurinn þá í heild um 27 millj. 618 þús. kr.

Herra forseti. Ég hef þá lokið við að gera grein fyrir og skýra brtt. fjvn. við þessa umræðu. Ég legg til, herra forseti, að frv. verði samþykkt með þeim breytingum sem ég hef mælt fyrir.