12.12.1986
Sameinað þing: 30. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1574 í B-deild Alþingistíðinda. (1372)

1. mál, fjárlög 1987

Frsm. 2. minni hl. fjvn. (Kristín Halldórsdóttir):

Herra forseti. Í upphafi máls vil ég færa hv. formanni fjvn. þakkir fyrir forustu hans í ströngu starfi nefndarinnar. Einnig þakka ég meðnefndarmönnum mínum samstarfið, svo og ritara nefndarinnar og starfsfólki, bæði í Hagsýslustofnun og í Þórshamri, fyrir alla þeirra aðstoð.

Það er ekki ofsögum sagt af annríki og ati því sem fylgir störfum fjvn. og hvarflar sannarlega oft að manni að betur mætti vinna úr málum ef meiri tími og betri aðstæður væru fyrir hendi. Við þau erfiðu starfsskilyrði sem þessari annríku nefnd eru búin reynir oft á þolinmæði og samstarfshæfileika manna, en e.t.v. einmitt þess vegna komast nefndarmenn og starfsmenn ekkert hjá því að leggja sig alla fram um að láta samstarfið ganga snurðulítið. En þrátt fyrir ágætt samstarf nefndarmanna eru vitanlega skiptar skoðanir um meginstefnu þessa frv. og afgreiðslu einstakra mála svo sem fram kemur í nál. og ræðum í dag.

Ég mæli fyrir nál. á þskj. 302 sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Við lokafrágang síðustu fjárlaga núverandi ríkisstjórnar stendur Alþingi enn einu sinni frammi fyrir því að afgreiða fjárlög sem fá ekki staðist.

Þrátt fyrir langtum meira góðæri á þessu ári en nokkur þorði að spá og þrátt fyrir horfur á áframhaldandi bata í efnahagslífinu er enn stefnt að aukinni skuldasöfnun og vandanum vísað til eftirkomenda.

Rekstrarhalli A-hluta ríkissjóðs síðustu tveggja ára, þ.e. 1985 og 1986, nemur samtals 4,5-4,6 milljörðum kr. og áætlaður halli á næsta ári er nú skv. frv. 1,5 milljarðar kr. Líklegt er að hann verði hærri í raun. Er enn ótryggilega gengið frá mörgum liðum og augljóst að margt getur farið úr böndunum, eins og reynsla undanfarinna ára hefur sýnt, þrátt fyrir margyfirlýsta stefnu fjmrh. um raunhæf fjárlög og afnám aukafjárveitinga.

Við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 1986 var allt kapp lagt á að sýna tekjuafgang og margir endar látnir óhnýttir til að ná því marki. Má nefna sem dæmi að framlag til Lánasjóðs ísl. námsmanna var augljóslega vanáætlað um a.m.k. 250 millj. kr., gert var ráð fyrir 150 millj. kr. óraunhæfum sparnaði í starfsemi Tryggingastofnunar ríkisins og 250 millj. kr. sparnaði í rekstri ráðuneyta og ríkisstofnana, auk þess sem launaliður ríkisspítalanna var misreiknaður um 50 millj. kr. Þannig var útgjaldahliðin augljóslega vanáætluð um a.m.k. 700 millj. kr. að því er virtist beinlínis með þeim ásetningi að sýna snyrtilegri niðurstöðutölur fjárlagadæmisins því að engar alvarlegar tilraunir voru gerðar til þess að láta þær standast.

Í frv. til fjárlaga næsta árs er enn gert ráð fyrir 150 millj. kr. sparnaði í starfsemi Tryggingastofnunar ríkisins, sem varla getur þýtt annað en að ætlunin sé að seilast í vasa sjúkra, og mun Kvennalistinn að sjálfsögðu vinna gegn því af alefli. Hins vegar sýna umtalsverðar hækkanir á yfirstjórn ráðuneyta og ríkisstofnana að ríkisstjórnin hefur gefist upp við að halda rekstrarútgjöldum ríkisins í skefjum. Tilraunir til endurskoðunar á umfangi og tilverurétti ýmissa stofnana og verkefna á vegum ríkisins virðast máttlausar og árangurslitlar og þarf að taka miklu fastari tökum.

Minni hl. fjvn. varaði eindregið við samþykkt fjárlaganna í desember 1985. Að mati okkar var slíkt fullkomið ábyrgðarleysi, og við lýstum okkur fús til samstarfs um algera endurskoðun þess dæmis. Meiri hlutinn skellti skollaeyrum við þeim málflutningi, en nú er öllum ljóst að hann átti við rök að styðjast.

Þrátt fyrir hallarekstur undanfarinna ára og áætlun næsta árs sér ríkisstjórnin það ráð eitt til þess að auka tekjur ríkissjóðs að leggja gjald á innfluttar olíuvörur. Kvennalistinn varar alvarlega við slíkri skattlagningu þar sem með því er höggvið að einni af forsendum fyrir því góðæri sem þjóðin nú nýtur, að vísu í misjöfnum mæli. Ásamt góðum sjávarafla og lækkun vaxta er verðlækkun olíu meginástæðan fyrir verulega bættum hag margra fyrirtækja í sjávarútvegi. Nú vilja stjórnarliðar stefna þeim árangri í voða, en mega hins vegar ekki heyra minnst á skattlagningu stóreigna, arðs af hlutabréfum né að íþyngja megi bönkum og verslunarfyrirtækjum sem mest og best hafa notið góðærisins nú og stefnu stjórnarinnar frá upphafi. Kvennalistinn hefur margsinnis bent á nauðsyn þess að endurskoða tekjuöflunarkerfi ríkissjóðs með það fyrir augum að ná fram réttlátari dreifingu byrðanna.

Rangar áherslur ríkisstjórnarinnar við sparnað í ríkisbúskapnum hafa haft slæmar afleiðingar í samstarfi ríkis og sveitarfélaga. Samdráttur í fjárveitingum til framkvæmdaliða hefur bitnað harkalega á sveitarfélögunum, auk þess sem stjórnarliðar hafa bitið höfuðið af skömminni með árlegum niðurskurði til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Óhjákvæmileg þörf hefur knúið sveitarfélögin til áframhaldandi framkvæmda, og nú er svo komið að ríkið skuldar sveitarfélögunum lögboðin framlög til byggingar dagvistarheimila, skóla, heilsugæslustöðva og sjúkrahúsa og til hafnarframkvæmda svo að skiptir mörg hundruð milljónum kr., og segir lítið þótt framkvæmdaliðirnir séu hækkaðir nokkuð núna í tilefni kosningaárs.

Enginn framkvæmdaliður er þó svo skammarlega vanræktur sem dagvistarheimilin. Sá liður hefur sífellt minnkað að raungildi í tíð núverandi ríkisstjórnar og í fjárlagafrv. er framlag skorið niður um helming frá þessu ári. Núverandi ríkisstjórn lagði til 20 millj. kr. fjárveitingu til þessa framkvæmdaliðar þótt fyrir liggi að til þess að greiða lögboðnar gjaldfallnar skuldir ríkissjóðs vegna afstaðinna framkvæmda þyrfti rétt um 160 millj. kr., og er þá alveg eftir að mæta þörf fyrir nýjar framkvæmdir. Meiri hl. fjvn. hefur nú tosað þessa upphæð upp í rúmar 43 millj. kr. og getur því státað af meira en 100% hækkun á þessum lið frá frv.! Sýnir það glöggt hvílíkar smánartölur um er að ræða. Kvennalistinn tekur ekki þátt í þeim óvinafagnaði og flytur sérstaka brtt. við þennan lið.

Áfram ætla menn að grafa undan fjárhagsgrundvelli Lánasjóðs ísl. námsmanna með því að ætla sjóðnum of lágt beint framlag og neyða hann til allt of mikillar lántöku. Afleiðingarnar eru síaukinn fjármagnskostnaður og þar með er sjóðnum gert æ erfiðara að ná því marki að standa undir sér að mestu leyti sjálfur.

Framkvæmdasjóður fatlaðra er enn einu sinni skorinn niður þrátt fyrir gífurlega þörf í þeim málaflokki. Á sama tíma er ausið fé í byggingu útsölustaða fyrir Áfengisverslun ríkisins og verður vart lengra komist í rangri forgangsröð að mati Kvennalistans.

Lögbundið framlag til Ferðamálaráðs er skorið niður um a.m.k. 30 millj. kr. á sama tíma og gróskan í ferðamálum skilar sívaxandi tekjum í ríkissjóð. Hins vegar stendur ekki á ríkissjóði að greiða reikninga svo skiptir tugum milljóna vegna ferðalaga og fundahalda stóriðjunefndar sem aldrei geta leitt til annars en vitlausrar fjárfestingar í úreltri atvinnugrein. Og dæmigert fyrirhyggjuleysi ríkisstjórnarinnar birtist ekki síst í því að framlag til Rannsóknasjóðs er sama krónutalan þriðja árið í röð, þrátt fyrir yfirlýsingu um nauðsyn þess að efla rannsóknir og vísindastarfsemi í landinu.

Svona mætti áfram telja, en meginniðurstaðan er þessi:

Rangar áherslur ríkisstjórnarinnar birtast í sparnaði og aðhaldi í félagslegum framkvæmdum og rekstri, en rekstrargjöld ráðuneyta og sumra ríkisstofnana fá að þenjast út án mikillar fyrirstöðu.

Sóað er í óarðbærar framkvæmdir en látið undir höfuð leggjast að styðja arðvænlega uppbyggingu í atvinnulífinu.

Vilja og samstöðu skortir til þess að endurskoða rekstur og tekjuöflun ríkisins með það að markmiði að stöðva hallarekstur ríkissjóðs.

Þetta er sú mynd sem við blasir í einstöku góðæri og þetta eru meginástæður þess að Kvennalistinn getur ekki staðið að samþykkt þessa frv.“

Herra forseti. Því er svo fyrst við að bæta að nú hefur hæstv. fjmrh. kunngert að horfið hafi verið frá þeirri skattlagningu á olíuvörur sem fyrirhuguð var og gagnrýnd er í þessu nál. Kvennalistinn fagnar þeirri ákvörðun en það hlýtur að vera umhugsunarefni að enn einu sinni hafa aðilar vinnumarkaðarins orðið að hafa vit fyrir hæstv. ríkisstjórn.

Þessi nýjasta ákvörðun hæstv. ráðh. breytir auðvitað fjárlagadæminu. Nýgerðir kjarasamningar gera það einnig svo og sú 450 millj. kr. hækkun sem þegar hefur orðið útgjaldamegin í meðförum fjvn. Væntanlega hækka þær tölur enn við 3. umr. Allt þetta eykur hallann á næsta ári um 2-2,5 milljarða jafnvel þótt þessar ráðstafanir þýði alls ekki hreint tekjutap fyrir ríkissjóð. Á móti koma einnig meiri skatttekjur en gert var ráð fyrir við undirbúning fjárlaga samkvæmt síðustu upplýsingum frá Þjóðhagsstofnun. En hallinn blasir við, meiri en gert var ráð fyrir í frv. og slíkum halla er ekki hægt að fresta til framtíðarlausnar til viðbótar við hallarekstur síðustu ára eins og reyndar er vikið að í nál. því sem ég las áðan. Við munum fjalla nánar um tekjuhlið frv. við 3. umr. en það má vera alveg ljóst að Kvennalistinn getur ekki fallist á neinar lausnir sem fela í sér auknar byrðar lágtekjufólks, þær verða hin breiðari bök að bera.

Varðandi þá brtt. sem nefnd er í álitinu um hækkun framlags til byggingar dagvistarheimila þá mun hv. þm. Sigríður Dúna Kristmundsdóttir mæla fyrir þeirri till. síðar á þessum fundi og einnig fyrir till. okkar um framlag til lista og menningarmála. Hv. þm. Guðrún Agnarsdóttir mælir hins vegar fyrir till. Kvennalistans um framlag ríkissjóðs til stofnkostnaðar Háskóla Íslands en hann fékk þá afmæliskveðju í fjárlagafrumvarpinu að ríkisstjórnin ætli honum ekki annað fé til mannvirkjagerðar en eigið happdrættisfé. Einnig mælir Guðrún Agnarsdóttir fyrir till. okkar varðandi Rannsóknasjóðinn en eins og fram kemur í nál. því sem ég var að lesa finnst okkur lítið til um metnað ríkisstjórnarinnar í þeim efnum. Af þeim brtt. sem hafa þegar birst á borðum þm. má sjá að fleirum ógnar þetta.

Fleiri brtt. flytjum við ekki við þessa umræðu þótt vissulega væri ástæða til þess og hugsanlega gerum við það við 3. umr. en eins og kom fram í máli hv. formanns fjvn. er eftir að fjalla um æðimörg mál og stór sem bíða þá 3. umr.

Ég hefði t.d. viljað sjá aðra meðferð á Lánasjóði ísl. námsmanna og vil ítreka það sem segir í nál. mínu að með því að neyða Lánasjóðinn til þess að fjármagna útlán sín með lántökum í sífellt hærra hlutfalli er jafnt og þétt verið að grafa undan sjóðnum. Nú á þessu ári fara um 214 millj. af ráðstöfunarfé sjóðsins í vexti og afborganir af teknum lánum og á næsta ári verður sú tala komin upp í rúmlega 257 millj. kr. Samkvæmt útreikningum stjórnar Lánasjóðsins vantar 44,7 millj. kr. á beint framlag ríkissjóðs til þess að mæta áætlaðri útlánaþörf sjóðsins og er þá ekki reiknað með víxillánum til fyrsta árs nema sem hefur verið mikið deilumál síðan hæstv. menntmrh. vísaði - það var raunar hæstv. fyrrv. menntmrh. - fyrsta árs nemum á biðstofur bankanna fyrir tveimur árum. Málefni Lánasjóðsins verða væntanlega rædd nánar við 3. umr. eftir viku.

Þá vil ég taka fram að ég styð fram komna tillögu um réttmætt framlag til Framkvæmdasjóðs fatlaðra. Mönnum er tíðrætt um virðingu Alþingis og vitna þá gjarnan til lélegrar fundarsóknar alþm. eða gaspurs af einhverju tagi úr ræðustóli. Að mínu viti er þó virðingu Alþingis hættast og freklegast misboðið með þeim hætti að hér setja menn lög á lög ofan sem síðan eru brotin í fjárlögum eins og raunin hefur orðið með Framkvæmdasjóð fatlaðra. Vissulega hefur mikið áunnist í bættri aðstöðu fyrir fatlaða þótt alrangt sé að framlög til þessa málaflokks hafi tuttugufaldast á fáum árum eins og hæstv. forsrh. hefur látið hafa eftir sér. Nær mun að tala um tvöföldun og er þó mjög mikið ógert enn þá og getum við ekki leyft okkur neinn hægagang. Þörfin í þessum málaflokki beinlínis æpir á okkur sem höfum atkvæðisrétt hér á Alþingi og ég vil taka það fram að þessi orð eru ekki til komin vegna aðgerða fatlaðra á Austurvelli í gær þótt áhrifamiklar væru. Þessi sannleikur hefur verið að renna upp fyrir mér á undanförnum árum eins og mörgum öðrum í þjóðfélaginu og þrátt fyrir að mikið skorti á skilning almennings og ráðamanna tel ég að töluverð breyting hafi orðið á viðhorfi almennings til fatlaðra. Þeim fækkar sífellt sem líta á fatlaða sem aumkunarvert ölmusufólk. Svo er þeim sjálfum og aðstandendum þeirra fyrir að þakka.

Þá er annar málaflokkur sem hefur sætt furðulegri meðferð ráðamanna og það eru ferðamálin sem einnig er minnst á í nál. Árið 1976 setti Alþingi lög um ferðamál og ákvað að fjármagna starfsemi Ferðamálaráðs með 10% af söluverðmæti Fríhafnarinnar á Keflavíkurflugvelli og til þess að draga nú enga burst úr nefi ríkissjóðs var útsöluverð á áfengi og tóbaki í Fríhöfninni hækkað um 10% í þessu skyni. Er skemmst frá því að segja að við þetta lagaákvæði hefur aldrei verið staðið. Í ár er þessi tekjustofn skertur um 70% og samkvæmt fjárlagafrumvarpinu er Ferðamálaráði ætluð á næsta ári sama krónutala og í ár, 15 millj. kr. Stór hluti kostnaðar við starfsemi Ferðamálaráðs er í erlendum gjaldeyri og samkvæmt skuldbindingum og er fyrirsjáanlegt að stórlega skertar tekjur þess duga ekki til þess að standa við þær skuldbindingar, hvað þá að þær leyfi nokkurt svigrúm til uppbyggingar ferðaþjónustu hér innanlands.

Varðandi þann þátt þá vil ég lýsa stuðningi við tillögu á þskj. 290 þar sem lagt er til að nýr liður komi við fjárlaganúmerið 10-651: Til umhverfisverndar á ferðamannastöðum 10 millj. kr. Þegar Alþingi breytti lögum um ferðamál árið 1985 var reynt að tryggja tekjustofn Ferðamálaráðs með ákvæði um það að hann rynni milliliðalaust frá Fríhöfninni til Ferðamálaráðs. Það dugði ekki til eins og dæmin sanna. Svona ósamræmi milli lagasetningar og framkvæmdar er til mikillar vansæmdar og grefur undan trausti almennings til Alþingis og ríkisstjórnar. Þessi tvö dæmi, um Framkvæmdasjóð fatlaðra og Ferðamálaráð, eru mjög alvarleg dæmi um þetta og hafa valdið ómældu tjóni því menn búast auðvitað við því að lagasetning haldi og gera sínar áætlanir í samræmi við það.

Kvennalistinn hefur reynt að vekja til umhugsunar og aðgerða í ferðamálum og ef vel tekst til með framkvæmd tillögu okkar um úrbætur í ferðaþjónustu sem samþykkt var á s.l. vori gæti þessi viðleitni borið árangur á næstu árum. Fjvn. hefur óneitanlega reynt að koma til móts við brýnustu þarfir, t.d. með því að veita sérstaklega 750 þús. kr. til umbóta við Geysi í Haukadal og 900 þús. kr. til lagfæringar og til að leggja göngustíga í Dimmuborgum í Mývatnssveit, einni af náttúruperlum okkar sem er í hættu vegna átroðnings og umferðar. En við megum ekki gleyma því að sá hagnaður sem við höfum af ferðaþjónustu er dýru verði keyptur ef varanleg spjöll verða á náttúru landsins vegna ágangs ferðamanna. Þá hefur fjvn. komið að nokkru til móts við óskir Ferðamálasamtaka landshlutanna með 600 þús. kr. fjárveitingu og verður það þessum ungu samtökum vonandi hvatning þótt ekki komi háar upphæðir í hverra hlut.

Málefni Borgarspítalans voru til umræðu í gær vegna viðræðna um eigendaskipti og má búast við því að ýmsir muni taka þá umræðu upp í dag. Ég ætla ekki að hafa mörg orð um það mál en ítreka andstöðu Kvennalistans við það og sérstaklega hvernig að því hefur verið staðið. Fréttir um þessar viðræður komu flatt upp á fjvn. eins og aðra enda minntist borgarstjóri ekki á það þegar hann kom á fund nefndarinnar og enginn þar minnist þess að hafa heyrt mótmæli forráðamanna borgarinnar gegn því að Borgarspítalinn fari á föst fjárlög. Allur þessi málatilbúnaður ber því vott um fljótræði og gerræði og verður vonandi stöðvaður.

Ég læt þá þessi fáu dæmi nægja um einstaka liði þessa frv. enda mundi það æra óstöðugan að fjalla um alla liði svo sem vert væri.

Herra forseti. Heildarniðurstöður fjárlagadæmisins eru enn í algjörri þoku og lítið sem við höfum að byggja á og ekki skýrðust málin í ræðu hv. formanns fjvn. áðan. Þar var aðeins minnt á markmið en ekkert fjallað um leiðir. Ekki er auðveldara að lesa út úr fréttaskeytum Þjóðhagsstofnunar, enda höfum við ágætt dæmi um forspárhæfileika hennar. Í þjóð hagsáætlun fyrir árið 1986 sagði nefnilega orðrétt, með leyfi forseta:

„Ekki eru horfur á örum hagvexti á næsta ári.“ Síðan spáðu þeir vísu menn 2% hagvexti en hann verður í reynd um 6% samkvæmt nýjustu upplýsingum og munar nú um minna. Ef spádómum þeirra skakkar í sömu átt á næsta ári má þjóðin því enn búast við bættum hag. Þeim mun alvarlegra er að ríkisstjórnin og meiri hluti Alþingis skuli ekki sjá sér fært að koma betra lagi á ríkisbúskapinn og hafa ekki önnur ráð en að vísa vandanum til eftirkomenda.

Í húsmæðraskólum landsins, sem hæstv. menntmrh. leggur nú niður einn af öðrum með pennastriksaðferðinni, lásu nemendur litla en gagnlega kennslubók sem heitir því skemmtilega nafni „Hvernig fæ ég búi mínu borgið?". Hæstv. ríkisstjórn þyrfti að eignast þá bók.