12.12.1986
Sameinað þing: 30. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1579 í B-deild Alþingistíðinda. (1373)

1. mál, fjárlög 1987

Frsm. 3. minni hl. fjvn. (Karvel Pálmason):

Herra forseti. Ég vil að sjálfsögðu byrja á því að taka undir þær þakkir sem hér hafa verið fluttar til formanns fjvn. og meðnefndarfólks míns þar, svo og til ritara nefndarinnar og þess fólks sem unnið hefur með nefndinni frá Fjárlaga- og hagsýslustofnun. Einhvern tíma sagði ég hér, líklega fyrir tveimur árum síðan, að hlutverk hv. þm. Pálma Jónssonar væri ekki öfundsvert, að stýra í gegnum það að komast frá fjárlögunum á viðunandi hátt. Hafi það verið slæmt þá sýnist mér það enn þá verra nú, hans hlutskipti í þeim efnum. Og á svo góður drengur ekki slíkt hlutskipti skilið.

Á þskj. 305 er nál. Í því nál. er að finna þær meginbreytingar í fjárlagagerð og í ríkisfjármálum og peningamálum sem Alþfl. hefur talað fyrir æðilengi. Hann hefur talað fyrir þeim, hann hefur flutt um það frumvörp og tillögur hér í þinginu og flutti á síðasta hausti æðimargar breytingartillögur við fjárlagafrumvarpið fyrir árið 1986. Hvorki þessar tillögur né fjárlagatillögurnar á síðasta hausti náðu samþykki, andstaðan virtist mikil og virðist enn. Eigi að síður er nú, hugsa ég, fleirum orðið ljóst að breytinga er þörf í þessum efnum.

Í þessu nál. er mörkuð sú stefna sem Alþfl. vildi fylgja ef hann hefði áhrif á þessi mál í komandi framtíð. Hér má segja að sé skilgreint með hvaða hætti Alþfl. vill breyta ríkisfjármálunum og peningamálunum í landinu. Það er auðvitað löngu orðið ljóst að eins og þessi mál hafa gengið fyrir sig gengur þetta dæmi ekki upp. Allir þekkja skattamálin, húsnæðismálin og svo mætti fleira telja.

Án þess að ég ætli í einstökum atriðum að lesa upp nál. mun ég vitna í það undir vissum kringumstæðum þar sem áherslupunktar eru hvað mestir og sem mér þykir rétt að vekja sérstaka athygli á.

Alþfl. er það auðvitað ljóst að á þessu stigi verður málum ekki breytt. Það er ljóst að meiri hl. er annarrar skoðunar, vill sigla hina gömlu leið sem löngu er komin á enda og löngu hefur beðið skipbrot. Eigi að síður er talið rétt að móta þessa stefnu þó ekki sé í beinu tillöguformi, ekki kannske síst vegna þess að nú mun ekki langt í það að hæstv. ríkisstjórn muni líklega láta af völdum og sú stefna sem hún hefur fylgt undangengin nær fjögur ár.

Það hefur verið minnst á það fyrr í þessum umræðum hversu mikið góðæri íslenska þjóðin hefur búið við undangengin a.m.k. tvö eða þrjú ár. Slíkt góðæri hefur ekki gengið yfir þjóðina í áratugi eins og verið hefur nú en þrátt fyrir þetta mikla góðæri hefur það ekki skilað sér til fólksins sem það hefði átt að gera. Ætli sé ekki langt síðan nokkur dæmi hafa verið um það að svo mörg uppboð, nauðungaruppboð, hafi verið á dagskrá eins og þetta yfirstandandi ár? Gífurleg fjölgun í þeim efnum segir sína sögu um það hvernig haldið hefur verið á fjármálum gagnvart almenningi í þessu landi.

Það er fleira en þetta sem má nefna. Ég tek mjög undir það sem hér var sagt áðan, bæði af hv. þm. Geir Gunnarssyni og hv. þm. Kristínu Halldórsdóttur. Menn eru nú óðum að minna á sig, þeir sem hafa gleymst hjá hæstv. ríkisstjórn og stjórnarmeirihluta hér á Alþingi. Fatlaðir minntu á sig í gær og það rækilega og ég vænti þess að það verði kannske til þess að breyting verði á þeirri stefnu sem hér er uppi að því er varðar afgreiðslu þeirra mála. Hverjir verða næstir til að minna á sig með einhverjum öðrum hætti í þjóðfélaginu? Hér hefur svo sannarlega ríkt ójöfnuður, óréttlæti, sem ekki er að sjá að nein breyting verði á að óbreyttum aðstæðum.

Við 1. umr. þessa frv. mælti hv. þm. Eiður Guðnason fyrir hönd Alþfl. Hann fór að mörgu leyti ofan í þær tillögur sem Alþfl. hefur flutt, ítrekaði þau sjónarmið sem þar hafa komið fram og minnti á. En það er ekki nóg með að að því er fjármálin varðar hafi þetta gengið svona. Við vitum líka, það er ekki betri kostur, hvað hefur gerst að því er varðar byggðamálin. Við horfum upp á það nánast daglega að fjöldi fólks yfirgefur dreifbýlið, flytur hér á Reykjavíkursvæðið eða suðvesturhornið og nú er svo komið fyrir stórum landsvæðum að íbúum fer ört fækkandi. Flest bendir til þess að veruleg fækkun eigi sér stað í þjónustugreinum, fiskveiðum og fiskverkun en fjölgun á öðrum sviðum. Frumgreinar atvinnulífsins hafa verið vanræktar. Ástæða er til þess að stjórnendur, hverjir sem þeir kunna að verða, snúi við blaði og hugi betur að grundvellinum fyrir lífi á þessu landi. Sá grundvöllur er að sjálfsögðu í höfuðatvinnuveginum sem er sjávarútvegur, svo og landbúnaði líka að hluta. Það er ekki að sjá að hæstv. ráðherrar hafi hugað að í þessum efnum. Þeir eru fáir hér innan dyra eins og venjulega, aðeins hæstv. fjmrh. sem hér er viðstaddur. Sá hinn sami hæstv. ráðh. sem gengur dreissugt hér um dyr á öllum tímum og er ástæða til þess að minna hæstv. fjmrh. á það að það kann að styttast í hans veru í þeim stól. (Fjmrh.: Vill þm. koma og máta stólinn?) Nei, ekki á hann nú kost á því held ég að gera slíkt, en hitt er rétt, að hann mundi standa hærra upp úr honum heldur en hæstv. fjmrh. (Gripið fram í.) Ég heyri að það fer strax að hitna í kolunum þegar ég kem í ræðustól. Hér hefur verið drungi og deyfð yfir öllu allt til klukkan að ganga fimm en nú eru menn orðnir röskari og glaðlegri. Kannske verða menn glaðbeittari hér á eftir en verið hefur. (Gripið fram í: Það er kominn galsi í mannskapinn.) Já, svo kann að vera.

Herra forseti. Á s.l. hausti greip Sjálfstfl. til þess ráðs að skipta um fjmrh. Oddvita sjálfstæðismanna í Reykjavík, Albert Guðmundssyni, var vísað á dyr úr fjmrn. Í stól hans settist formaður Sjálfstfl., Þorsteinn Pálsson. Albert Guðmundsson var ekki talinn valda verkefni sínu. Honum var gefið að sök að fyrirsjáanlegur væri mikill halli á ríkisbúskapnum í heild, að hvergi örlaði á viðleitni til að losa ríkisbúskapinn úr viðjum sjálfvirkrar útgjaldaþenslu, að ekki örlaði á ráðdeild og aðhaldi í ríkisbúskapnum, að hann hefði engar tillögur fram að færa um stöðvun skuldasöfnunar, stöðvun útgjaldaþenslu, afnám sjálfvirkni, hvað þá heldur að hann hefði fram að færa tillögur um róttækar kerfisbreytingar í ríkisrekstri sem löngu væru tímabærar. Formaður Sjálfstfl. hefur nú fengið tvö tækifæri til að standa við stóru orðin og sýna árangur sinn í verki. Árangurinn lætur á sér standa. Albert er farinn og Þorsteinn kominn og rétt ófarinn. Það hefur verið skipt um menn en hvorki um stefnu né vinnubrögð. Allt situr við það sama. Núverandi fjárlagafrumvarp er í hefðbundnum stíl. Það gæti alveg eins verið eftir Albert Guðmundsson eða þá hv. þm. Ragnar Arnalds eða Tómas Árnason. Það er sama hvort litið er í tekjuöflunar- eða gjaldahlið fjárlaga, viðleitni manna til að hafa stjórn á ríkisbúskapnum er komin í þrot. Það er vonlítið til árangurs að krukka í kerfið með smávægilegum brtt. Reyndar er óframkvæmanlegt að flytja brtt. af neinu tagi við 2. umr. þar sem ekki liggur fyrir endurmat á tekjuhlið í kjölfar kjarasamninga. Tímabærar brtt. sem máli skipta kalla hins vegar á sérstaka löggjöf og verða auk þess að framkvæmast á lengri tíma en einu fjárlagaári samkvæmt fyrir fram ákveðinni forgangsröð verkefna. Þetta er undirstrikað í þessu nál. af hálfu Alþfl. Hér þarf tíma til að breyta um stefnu.

Ég sagði áðan að við hefðum búið við hið mesta góðæri undangengin tvö ár. Það var sagt áðan, ég held að það hafi verið hv. þm. Geir Gunnarsson sem nefndi það, að á þessum tveimur árum hefði halli á ríkisbúskapnum numið um 6 milljörðum kr., í mesta góðæri sem yfir landið hefur gengið. Er ekki eðlilegt að menn spyrji: Hvað er til ráða í þessum efnum? Hallinn á yfirstandandi ári er talinn hafa verið um 2,2 milljarðar. Fjárlagafrumvarpið, sem nú er verið að ræða, var lagt fram með um 1600 millj. kr. halla. Það er nú komið upp í um 2 milljarða. Það er augljóst að hallinn á næsta ári verður a.m.k. 3-3,5 milljarðar því eins og hér hefur komið fram þá er enn eftir að fara ofan í það hvað kjarasamningarnir, sem þegar hafa verið gerðir og þeir kjarasamningar sem kunna að fylgja á eftir, hafa í för með sér að því er ríkissjóð varðar. Þetta mun kannske skýrast fyrir 3. umr. þannig að menn sjái þá betur í spilin. En augljóslega má reikna með að halli verði a.m.k. 3 milljarðar á næsta ári.

En er þá ekki rétt að víkja að því: Hvernig stöndum við að fjárlagaafgreiðslu og fjármála ríkisins í heild? Jú, hér á hv. Alþingi er afgreitt fjárlagafrv. til eins árs í senn. Frv. eða lög sem að verulegu leyti er lítið farið eftir oft og tíðum. Hér eru líka afgreidd lánsfjárlög sem eiga að setja ríkisstjórninni skorður við því hversu mikið lánsfjármagn hún tekur að láni. Þessi lög eru líka þverbrotin. Við vitum um aukafjárveitingarnar sem núna, seinni partinn í nóvember, voru upp á 1600 millj. Við erum með fjárlögin, við erum með aukafjárveitingar, við erum með lánsfjárlögin þverbrotin langt umfram það sem heimildir leyfa og við vitum fyrir fram. Ætli það sé ekki farið að nálgast milljarð sem ríkið skuldar sveitarfélögum vegna unninna framkvæmda sem ríkið er aðili að? Verklag með þessum hætti nær auðvitað ekki nokkurri átt. Ég hygg að öllum sé það ljóst að hér þarf að breyta til. Menn verða að finna annan vettvang til þess að koma fjármagninu til skila á miklu hagkvæmari og betri hátt en hér er um að ræða.

Til hvers er þá verið með þennan endalausa leikaraskap? Af hverju geta menn ekki sest niður, hugsað út frá öðrum forsendum en menn hafa gert kannske 30, 40 eða 50 ár og reynt að leiða líkur að skikkanlegri og betri vinnubrögðum, reynt að koma sér niður á að framkvæma breytingar sem að sjálfsögðu ekki verða gerðar allar í einu? En það er hægt að miða við það að gera tilteknar breytingar, t.d. á einu kjörtímabili, til þess að koma þessum málum á skikkanlegri veg en nú hefur verið gert og sýnist verða gert ef áframhaldandi ráðamenn fá að ráða ferðinni. Það þarf auðvitað samræmda áætlunargerð í því að breyta þessum málum, bæði að því er varðar ríkið og viðskipti ríkisins við sveitarfélögin. Því þarf að breyta.

Varðandi þetta fjárlagafrv., sem nú er til 2. umr., þá er það öllum ljóst að forsendur þess eru miðaðar við desemberverðlag. Augljóslega hljóta þær forsendur að gjörbreytast, og eru orðnar breyttar frá því að þetta frv. var unnið, og það eru engar líkur á því að þær forsendur verði fyrir hendi á næsta ári. Dettur nokkrum í hug að desemberverðlag nú gildi á næsta ári? Það er enginn vafi á því að hækkanir koma mjög verulega við 3. umr. þessa fjárlagafrv.

Ég held að það hafi verið hv. þm. Geir Gunnarsson sem vék að því hér áðan hvernig misskiptingin á sér stað að því er varðar framlög til hinna ýmsu málaflokka og ýmsu þátta. Það er alveg á ljósu að hæstv. ráðherrar sjá um sig og sína í þessum efnum. Hækkanir til ráðuneyta, til yfirstjórna ráðuneyta sýna þá leið sem þessir hæstv. ráðherrar varða. Menntmrn.: Yfirstjórnin þar hækkar um 38,4% á sama tíma og menn eru að telja að eðlilegar launahækkanir verði í kringum 13-15%. Forsrn.: Yfirstjórnin þar hækkar um 28,3%. Sjútvrn.: Yfirstjórnin þar hækkar um 33,9%. Dómsmrn.: Yfirstjórnin þar hækkar um 28,3%. Ætli það sé nú mikið umfangs þar í þeim efnum? Félmrn.: Yfirstjórnin þar hækkar um 49%. Samgrn.: Yfirstjórnin þar hækkar um 49,9%. Iðnrn.: Yfirstjórnin þar hækkar um 26,5%. Á sama tíma eru framkvæmdamálaflokkar skornir niður frá því sem verið hefur. Þarna sýnir það sig sjálft að kerfið sér um sína. Kerfið vefur þannig utan á sig að það fær allt sitt á þurru þó að aðrir séu skornir nánast við trog. Þarna má sannarlega segja að Parkinsons-lögmálið sé í fullu gildi að því er þessa þætti fjárlaganna varðar. Og þarna eru í fararbroddi hæstv. ráðherrar allir upp til hópa.

Eitt ljósasta dæmið í þessu er líklega embætti ríkislögmannsins. Um það er getið í fjárlagafrv. og, með leyfi forseta, nýlegt embætti ríkislögmanns, sem áætlað er að kosti tæpar S millj. kr. á árinu 1987, er dæmi um það hvernig embætti hafa tilhneigingu til að blómstra. Embættið var stofnað með lögum nr. 51/1985. Í fjárlagafrv. 1985 voru því áætlaðar 1 millj. 129 þús. kr., þar af 907 þús. kr. launakostnaður. Í fjárlagafrv. þessa árs, þ.e. ársins 1986, var kostnaðurinn áætlaður 2 millj. 584 þús. kr., þar af laun 1 millj. 746 þús. kr. Í fjárlagafrv. fyrir árið 1987 nær tvöfaldast kostnaðurinn enn í 4 millj. 755 þús. kr. og þar af 4 millj. 208 þús. kr. í launakostnað. Þetta sýnir hvernig kerfið sjálft hleður upp á sig óendanlega án nokkurrar stjórnunar.

Annað dæmi höfum við í þessu og það er hæstv. fjmrh., sem á að gæta kassans, sem þar talar. Í Tímanum, málgagni annars ríkisstjórnarflokksins, er fullyrt að hæstv. fjmrh. haldi því fram að aðhald hafi engan árangur borið í því að stemma stigu við yfirvinnu í ráðuneytum. Allt saman er þetta laust, allt gengur þetta nánast sjálfala og enginn hefur stjórn á einu eða neinu.

Ég hef sagt það áður og get sagt það hér einu sinni enn: Ég er alveg sannfærður um það að öll þjónusta af hálfu ráðuneyta og ríkis gæti gengið með eðlilegum hætti og ekkert verr þó að 20-30% af því starfsliði, sem þar væri, væri látið hætta. Það eru nóg önnur verkefni í þjóðfélaginu fyrir þetta fólk.

Eins og fram hefur komið hér áður, þá eru margir þættir óljósir í sambandi við þetta fjárlagafrv. Ég vil t.d. spyrja hæstv. ráðherra, að vísu er enginn þeirra viðstaddur eins og er, en mér þætti þó viðeigandi að hæstv. fjmrh. væri viðstaddur þessa umræðu og vildi gjarnan óska eftir því við hæstv. forseta, að hæstv. fjmrh. væri nú í salnum. (Forseti: Er hv. ræðumanni óhægt um vik að halda áfram ræðu sinni meðan málið verður athugað um hérvist hæstv. fjmrh.?) Það er afskaplega óhægt um að halda áfram spurningum til hæstv. ráðh. sem ekki er viðstaddur. (Forseti: Það mun líklegt vera. Við skulum freista þess að vita hvort ráðherrann er í húsinu.) (JBH: Býst ræðumaður við að fá einhver svör þó ráðherrann væri viðstaddur?) Við skulum ekki gera því skóna að hæstv. ráðh. hafi ekki málfrelsi og svari ekki hér. - Ég sé að hæstv. fjmrh. gengur nú í salinn.

Ég var að víkja að því, hæstv. ráðh., að ýmsir óvissuþættir væru nú í þessu frv. og vildi gjarnan beina þeim fsp. til hæstv. ráðh. hvernig úr þeim málum ætti að rætast. Það hafa verið uppi óskir um nokkuð verulega hækkun hjá Pósti og síma. Hvað mun verða gert í þeim efnum? Nú er vitað að það fyrirtæki hefur staðið höllum fæti og stendur nú höllum fæti. Má búast við svo og svo miklum prósentuhækkunum hjá Pósti og síma á næsta ári? Ef svo er, hversu miklum? Við höfum heyrt raddir uppi um það að rafmagnsverð ætti að hækka allt frá 20 upp í 38%. Er slíkt á döfinni? Og ef hækkanir verða, hverjar eru þær líklegastar að verði staðreynd á næsta ári? Hvað með Ríkisútvarpið? Eru menn hættir við að selja deildir frá því? Uppi voru hugmyndir frá hæstv. fjmrh. um að selja hluta af Ríkisútvarpinu. Kannske hefur það breyst.

Hádegisfréttir hermdu í dag að hæstv. ríkisstjórn væri hætt við 600 millj. kr. orkuskattinn. Allt til dagsins í morgun var því haldið fram að hér yrði flutt frv. til útlistunar á þeim skatti og sá skattur, 600 milljónirnar, er innifalinn í fjárlagafrv. eins og það er. Einhver breyting hlýtur þarna að verða á og hvaða tekjustofn er hæstv. fjmrh. að hugsa um í staðinn fyrir orkuskattinn, 600 milljónirnar sem nú kvað vera hætt við? (GJG: Það var löngu vitað að hann yrði felldur niður.) Það má vel vera að hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson, hinn gáfaði maður, hafi vitað þetta löngu fyrir og það færi betur að þær gáfur blómstruðu betur hér innan sala þingsins en þær hafa gert til þessa.

Ég vildi gjarnan spyrja hæstv. iðnrh. einnar eða tveggja spurninga og vissulega væri gott ef hæstv. iðnrh. væri við, því að auðvitað snýr þetta mál ekki hvað síst að hæstv. ráðherrum. Þeir bera ábyrgð á þessu máli hér og það er þeirra auðvitað að svara séu þeir um það spurðir. Mér leikur t.d. forvitni á að vita hvað verður með orkujöfnunargjaldið sem lagt var á á sínum tíma, 1,5% söluskattsstig ef ég man rétt. Hvað verður um það gjald? Þetta mundi nema um 1 milljarði á næsta ári, sem á auðvitað að fara til þeirra sem bera hvað þyngstar byrðar af háu orkuverði. Það kynni nú ekki vera að þetta eins og fleira rynni í ríkishítina og því væri ráðstafað þar, ekki til þeirra sem það var ætlað heldur í allt aðrar áttir. Eða getur einhver hæstv. ráðh. upplýst það hér hvað hefur orðið um andvirði orkujöfnunargjaldsins undangengin ár? Hvert hefur það farið? Hver hefur fengið þá peninga? Ég hygg að þeir hafi ekki fengið þá sem áttu að fá þá. (GJG: Orkubú Vestfjarða.) Nei, hv. þm. Nú ruglast þú í ríminu. Orkubú Vestfjarða hefur ekkert fengið af því. Það er mesti misskilningur. Nú má hv. þm. lesa sér betur til. Nei, það hefur farið í ríkiskassann örugglega og verið ráðstafað þaðan sem ekki átti að gerast.

Enn er hér spurning sem ég vildi gjarnan beina til hæstv. ráðh. Ég veit ekki hvaða hæstv. ráðh. ber ábyrgð á því. Í fjárlagafrv. nú er ekki til stafkrókur um sjúkraflug. Það er fellt niður. Ég spyr hæstv. ráðh. að því: Er það virkilega meining manna að fella þennan lið út? Er það virkilega meining hæstv. ríkisstjórnar að fella þennan lið út, að mínu viti þennan mjög mikilvæga lið til þess að koma við þar sem þarf og þyrfti auðvitað meira en gert hefur verið á undanförnum árum til þess að styrkja þá aðila sem sjá um þessa neyðarþjónustu? Ég vil gjarnan fá svör við því hvort þetta á að falla út.

Ég á hér nokkrar spurningar enn eftir til hæstv. menntmrh. en ekki sést hann hér. Er þó knýjandi að fá hann í salinn til þess að beina að honum a.m.k. tveim spurningum. Þær eru það mikilvægar að mínu viti að svör við þeim verða að fást.

Herra forseti. Meðan leit er haldið uppi að hæstv. menntmrh. er kannske rétt að víkja aftur að fjárlagafrv. Það er alveg með eindæmum að mínu viti. Ef menn fletta nú upp á bls. 207 í fjárlagafrv., þá sjá þeir rúma blaðsíðu þar sem taldir eru upp lagabálkar, lög sem eru í gildi, samþykkt af Alþingi, en í hverju einasta tilviki, 14 tilvikum, þrátt fyrir að þessi lög séu í gildi, þá skulu þau ekki vera í gildi. Þetta er inntakið í öllum þessum 14 liðum þar sem verið er að fella úr gildi hluta af þeim lögum sem eiga að vera í gildi og skerða þær fjárveitingar sem til þeirra eiga að fara. Eru þetta vinnubrögð sem er treystandi? Eru svona vinnubrögð traustsins verð? Er á því byggjandi að menn haldi svona vinnubrögðum áfram? Alþingi sjálft hefur sig að háði og spotti í þessum efnum, að mér finnst. Hér er verið að samþykkja lög á lög ofan sem engin meining er að nái fram að ganga eða við verði staðið. Hvers konar löggjafarsamkunda er það sem með þessum hætti hagar sér? Er eðlilegt að almenningur í landinu beri mikið traust til slíkra einstaklinga sem haga sér með þessum hætti? Ég held að þetta sé kannske eitt af mörgum dæmum sem eru á þann veg að hér á að breyta um stefnu. Hér á ekki að halda áfram þessum skollaleik sem hefur verið við lýði og er við lýði enn. Hér eiga menn að breyta um vinnubrögð. Um það eru þær tillögur og þau mál sem Alþfl. hefur flutt hér ár eftir ár, og mun halda áfram að flytja, og mun greinilega komast í þá aðstöðu að hafa áhrif á að þau nái fram að ganga. Til þess er leikurinn að sjálfsögðu gerður. Nei, svona vinnubrögð eru alveg forkastanleg og ég trúi ekki öðru en að hæstv. fjmrh. sé mér sammála um það að þetta er rangt. Þetta er gjörsamlega rangt og getur ekki gengið til lengdar.

Ég sé að enn hefur leitin að hæstv. menntmrh. ekki borið árangur. (Forseti: Forseti vill taka fram að gefnu tilefni að leitin hefur ekki borið árangur en henni er haldið áfram og menn vænta þess að takast muni að finna hæstv. ráðh. áður en ræðumaður lýkur máli sínu.) Ég þakka hæstv. forseta þetta þó að litla bót hafi það veitt, a.m.k. í bili.

Það er þá rétt að víkja að þeim hæstv. ráðh. sem inni er eins og stendur. Það er hæstv. heilbrmrh. Það er engin ástæða til þess að ræða ekki það mál sem hvað mest er nú til umræðu að mér heyrist. Það er sala Borgarspítalans. Nú virðist það vera orðið fósturbarn Sjálfstfl., einkaframtaksflokksins, að ríkið kaupi einkafyrirtækin. Hvar skyldi nú stuttbuxnadeildin frá íhaldsflokknum vera, sem vildi „báknið burt“ með hv. þm., varaformann Sjálfstfl. í broddi fylkingar? Mér sýnist nú að hér hafi menn þokkalega snúið málum við en um það þarf ég ekki að hafa mörg orð. Þar hafa flokksmenn sjálfir sagt sitt orð um. Eðlilega. En það sem ég ætlaði að spyrja hæstv. heilbrmrh. um er: Ef svo fer að Borgarspítalinn verður keyptur af ríkinu, ríkið kaupi hann, er þá ekki augljóst að öll önnur sjúkrahús verða yfirtekin á ríkið, og ekki bara sjúkrahúsin, heldur og heilsugæslan í heild í landinu? Eða ætla þeir sem kunna að gangast fyrir þeirri ákvörðun að ríkið kaupi Borgarspítalann, ætla þeir litlu þorpunum úti á landi, á landsbyggðinni, ætla þeir því fáa fólki að sjá fyrir heilsugæslunni og sjúkrahúsunum á þeim landsvæðum, en að ríkið yfirtaki allt hér á Reykjavíkursvæðinu? Við þessu þarf að fá svör.

Þessi ákvörðun, ef ríkið kaupir Borgarspítalann, hlýtur að hafa í för með sér að ríkið yfirtekur öll sjúkrahús í landinu og þar með heilsugæslustöðvarnar líka. Hér á Reykjavíkursvæðinu er hugsanlega hægt að reka heilsugæslu á þokkalegan hátt án þess að tap verði á slíkum rekstri. En slíkt er ekki gert í fámennum sveitarfélögum. Þau halda ekki uppi slíkum rekstri á sinn kostnað.

Það er einkennilegt með þetta borgarspítalamál. Það er ekki langt síðan borgarstjórinn í Reykjavík sat á fundi fjvn. til þess að gera grein fyrir þeim óskum og þörfum sem Reykjavíkurborg þyrfti á að halda að því er varðaði fjárframlög af hálfu ríkisins. Ekki minnst einu orði á þetta mál. Mér er spurn: Er það ríkisstjórnin sem stendur að þessu máli eða er það bara hæstv. heilbr.- og trmrh.? Það væri þarflegt að fá svör við slíku. Eða er það bara sú hæstvirt þrenning, hæstv. fjmrh., heilbrmrh. og borgarstjóri, sem ætla að gera út um þetta mál? Ég veit það að formaður fjvn., hv. þm. Pálmi Jónsson, hafði ekki hugmynd um þetta mál fyrir tveim dögum síðan. Til fjvn. hefur engin beiðni borist í einu eða neinu að því er þetta mál varðar. Enginn hefur haft uppi andmæli gagnvart fjvn. í þeim efnum að setja sjúkrahús á föst fjárlög. Hvaðan kemur þetta og hver er tilgangurinn? - Ég sé að hæstv. heilbrmrh. er flúinn úr salnum. (Heilbr.- og trmrh.: Nei, aldeilis ekki.) Ja, ekki sást hún. Ekki sást hæstv. ráðh., kemur í ljós nú. (Heilbr.- og trmrh.: Ég var bara að dempa hljóðið með því að vera hérna aðeins fjær.) Ef hæstv. ráðh. þolir ekki þetta þá ætti hún bara að vera utandyra. Ég hef enga trú á því að hæstv. ráðh. geti ekki unað hér inni þó að það heyrist í mönnum. Kannske vill hún að menn tuði hér þannig að hún heyri ekki neitt. Það færi kannske best í hennar eyrum. En ég vil eigi að síður fá svör og ég vænti þess að hæstv. ráðh. heyri til mín.

Hver er meiningin ef Borgarspítalinn verður seldur, hvað verður þá gert við önnur sjúkrahús úti á landsbyggðinni, í fjórðungunum? Og hvað verður gert við heilsugæslustöðvarnar sem eru reknar í fámennissveitarfélögum, að verulegum hluta á þeirra kostnað? Um það vil ég vita. Þetta er ekki svo lítil ákvörðun sem hér er um að ræða. Hér eru menn að tala um 600-700 millj. Einhvern tímann hafa menn hrist hausinn yfir minni upphæð við afgreiðslu fjárlaga heldur en þeirri.

Og ég spyr enn: Er það ríkisstjórnin sem stendur á bak við slíka ákvörðun eða er það bara hæstv. heilbr.- og trmrh. einn? Og kannske hæstv. fjmrh.? Þingið á heimtingu á að fá svör við því. Hér er um svo stórar fjárfúlgur að ræða, svo notað sé það orð sem ég held að hafi verið haft eftir Ríkisútvarpinu í dag, um svo stórar fjárfúlgur að ræða að þingið getur ekki látið slíkt fara fram hjá sér án þess að hafa sína skoðun á því.

Ég sé ekki enn, hæstv. forseti, að leitin að menntmrh. hafi borið árangur. (Gripið fram í: Talaðu bara við Tryggva.) Hvað segir hv. þm. Guðmundur Bjarnason? (Gripið fram í: Talaðu bara við varamann.) Auðvitað er hægt að tala við hv. þm. en ég á ekki von á því að hann vilji sitja fyrir svörum í þessum efnum, þannig að ég bíð hæstv. ráðh.

En það er líklega rétt á meðan að undirstrika hér alveg sérstaklega Framkvæmdasjóð fatlaðra. Ég trúi því ekki fyrr en þá kann á það að reyna að meiri hlutinn hér á Alþingi ætli að afgreiða það mál eins og það mál stendur í dag. Það er enn opin leið í þessum efnum. Það er enn opin leið til þess að greiða fyrir því sem ríkið hefur lofað en svikist um að standa við í gegnum árin. Sú leið er að hækka framlagið til þessa þáttar. Auðvitað ætti slíkt framhald að vera eins og lög gera ráð fyrir. En þetta er einn af þeim mörgu lagabálkum sem eru á þann veg að hæstv. ríkisstjórn og meiri hluti Alþingis ætlar ekki að hafa þau í gildi. (Forseti: Forseti vill að gefnu tilefni og út af fsp. hv. ræðumanns taka fram að það hafa verið gerðar allar þær ráðstafanir sem unnt er til að ná hæstv. menntmrh. hingað inn, en það hefur ekki tekist svo að forseti getur ekki betur gert og verður ræðumaður að gera það upp við sig hvort hann vill bíða með þessar spurningar sínar þar til síðar eða freista þess enn að hæstv. ráðh. finnist). Já, ég skil vel erfiðleika hæstv. forseta, en mín spurning var sú: Finnst ekki hæstv. forseta nauðsynlegt að viðkomandi ráðherrar séu viðstaddir umræðu sem þessa í málaflokkum sem beinast að þeim sjálfum? Ef ráðherrar geta ekki verið hér við, þá er það spurning hvort ástæða er til að fresta fundi þar til þeir mega vera að því og ganga í salinn. Enn er hægt að doka við. Ekki er allt búið enn.

Ég vil aðeins minna hér á tvö mál. Það er í fyrsta lagi varðandi liðinn Lögskráning sjómanna. Ég vil að vísu ekki fullyrða það en ég minnist þess ekki að sá liður sé inni í frv. eins og það er núna. Ég mælist til að það verði athugað milli umræðnanna því ég tel, og það hafa sjómannasamtökin lagt ríka áherslu á, að þeim þætti megi ekki sleppa fyrr en búið er að ráða til lykta þeim þáttum sem þar er ætlað að vinna. Þessir peningar þurfa að vera inni þannig að hægt sé að standa við þau áform að koma lögskráningu á sjómönnum í lag. Hún hefur verið í megnasta ólagi mörg undangengin ár.

Í öðru lagi vil ég minna á, hér eru auðvitað fleiri sem gætu gert það, en ég vil minna á að ég veit ekki til þess að inni í frv. séu núna neinar fjárveitingar til stöðugleikamælinga fiskiskipa. Það er eitt af verkefnum Öryggismálanefndar sjómanna sem hún tók upp, hefur gert, skilað af sér, með sérnefnd, til ráðuneytis og óskað eftir því, þetta er held ég á tveggja ára bili sem þarna þyrftu að koma fjárveitingar og það er nauðsynlegt. Þetta eru ekki háar fjárveitingar en það er nauðsynlegt að þessum þætti verði sinnt og ég beini því sérstaklega til meirihlutamanna hér á hv. Alþingi að huga að þessum þáttum tveim sem ég hef hér nefnt.

Ég veit heldur ekki til þess að neitt fjármagn sé inni fyrir hinu svokallaða skólaskipi en það er mál sem ástæða væri til að ræða við hæstv. menntmrh. Það heyrir undir hans málaflokka. Ég vil að vísu ekki fullyrða neitt en ég minnist þess ekki að í þann þátt séu fjármunir inni í frv. eins og það er núna.

Þá vil ég líka minna á að hér hafa orðið umræður um ferðamálin, einn þann málaflokk sem talinn er að ætti að geta blómstrað í náinni framtíð ef að honum er hugað, ætti að geta orðið atvinnuskapandi þáttur fyrir fleiri. Ég er hér með bréf í höndunum frá Ferðamálaráði Íslands sem ég held að sé nauðsynlegt að gera þingheimi grein fyrir og vil það, með leyfi hæstv. forseta. (EgJ: Það hafa allir fengið þetta bréf.) Það skiptir ekki meginmáli, hv. þm. Egill Jónsson, ef menn ekki lesa það. Það er meginmálið. Það er ekki nóg að menn fái það í hendur. Þeir verða að líta á það og til þess að létta mönnum þann róður skal ég lesa það fyrir hv. þingmenn. Það hljóðar svo:

„Reykjavík, 4. des. 1986. Til alþingismanna.

Á fundi Ferðamálaráðs í dag var ítarlega fjallað um fjármál ráðsins og þann vanda sem skapast hefur vegna síendurtekins niðurskurðar á lögbundnum“ og taki menn nú eftir: á lögbundnum, ég var að vísa til þess áðan að það eru 14 slík ákvæði í frv. sem skerða lög sem eru í gildi - „á lögbundum tekjum frá Fríhöfninni á Keflavíkurflugvelli. Í þessu sambandi er rétt að hafa í huga að þegar þessi tekjustofn var markaður í lögum árið 1976 var söluverð Fríhafnarinnar jafnframt hækkað um 10% til þess að ríkissjóður héldi sínum tekjum óskertum. Á fyrrnefndum fundi Ferðamálaráðs var samþykkt áskorun til allra þingmanna sem ég leyfi mér hér með að senda yður hjálagt.“

Hefur hv. þm. Egill Jónsson lesið þetta bréf? Veit hann hvert framhaldið er? Það er meira. (BD: Er verið að hlýða mönnum yfir?) Ja, það er nauðsynlegt, hv. þm. Björn Dagbjartsson, að hlýða mönnum yfir, sem tala í þessum dúr. Það mætti fara svo kannske að hv. þm. yrði kallaður upp ef hann er lítið lesinn. Það er áskorun til þingmanna frá fulltrúum í Ferðamálaráði:

„Þar sem fyrirsjáanlegt er að starfsemi Ferðamálaráðs stöðvast í aprílmánuði á næsta ári vegna þeirrar miklu skerðingar á lögbundnu framlagi til ráðsins sem frv. til fjárlaga ársins 1987 gerir ráð fyrir skorum við á þingmenn að þeir beiti sér fyrir því að við afgreiðslu fjárlaga ársins 1987 verði staðið við lögbundið fjárframlag til Ferðamálaráðs.“

Undir þetta skrifa: Kjartan Lárusson, formaður Ferðamálaráðs Íslands, Konráð Guðmundsson, skipaður af samgrh., Erna Aradóttir, skipuð af samgrh., Ásberg Sigurðsson, skipaður af samgrh., Skarphéðinn D. Eyþórsson, Félag hópferðaleyfishafa, Íslaug Aðalsteinsdóttir, Félag ísl. ferðaskrifstofa, Friðrik Haraldsson, Félag leiðsögumanna, Gunnar Sveinsson, Félag sérleyfishafa, Lárus Ottesen, Ferðafélag Íslands, Vilhjálmur Guðmundsson, Flugleiðir hf., Gísli Gíslason, Náttúruverndarráð, Bjarni Í. Árnason og Áslaug Alfreðsdóttir, Samband veitinga- og gistihúsa, Magnús Oddsson, Arnarflug hf. og önnur flugfélög, Oddný Björgvinsdóttir, Ferðaþjónusta bænda, Júlíus Hafstein, Reykjavíkurborg, Sigurður Sk. Bárðarson, Ferðamálasamtök Vesturlands, Arnór Jónatansson, Ferðamálasamtök Vestfjarða, Auður Gunnarsdóttir, Ferðamálasamtök Norðurlands vestra og eystra, Rúnar Pálsson, Ferðamálasamtök Austurlands, Bragi Einarsson, Ferðamálasamtök Suðurlands, Pétur Jóhannsson, Ferðamálasamtök Suðurnesja.

Ég held að hv. þingmenn ættu að leggja eyrun við slíku. Hér gæti verið um að ræða gróskumikinn þátt í atvinnulífinu ef honum er sinnt, en eins og nú stefnir eins og sagt er hér, þá mun starfsemi Ferðamálaráðs stöðvast í apríl n.k. Og hvað þá? Hvað skal þá gera? Nú ættu hv. stjórnarliðar, hv. þm. Björn Dagbjartsson o.fl. að koma hér upp og segja til hvað á að gera. Hafa menn svör við því? (Gripið fram í: Ekki Björn.) Ekki Björn, nei. Nei, en svona er þetta á miklu fleiri sviðum.

Ég sé ekki, hæstv. forseti, að þessi mikla leit að hæstv. menntmrh. ætli að bera neinn árangur. (Forseti: Forseti vill taka fram að hann fékk skilaboð rétt áðan um það að hæstv. ráðh. væri á leiðinni, en hversu langt hann er kominn á þá leið, það veit ég ekki.) Enn ítreka ég þakkir mínar til hæstv. forseta að standa í svona ströngu hér við þessa umræðu.

Ég ætla að rifja aðeins upp á meðan það sem ég spurði um hér áðan og vænti þess að fá svör við því. Ég spurði um hugsanlegar hækkanir hjá Pósti og síma, hverjar þær kunni að verða ef af þeim verður. Ég spurði um hugsanlegar hækkanir raforkuverðs, hverjar þær verða ef um það verður að ræða að raforkuverð hækki. Ég spurði um Ríkisútvarpið, hvort enn væru uppi hugmyndir um það að selja hluta af því. Og ég spurði um orkujöfnunargjaldið. Hæstv. iðnrh. hefur ekki sést í salnum síðan en trúlega geta aðrir hæstv. ráðh. svarað að því er þetta varðar. Ég spyr enn um sjúkraflugið, hvað þar eigi að gerast. Ætla menn alveg að fella niður þennan lið horfandi upp á það að þeir sem stunda þessa neyðarþjónustu eiga í mestu erfiðleikum með hana? Menn skulu hugsa til einangraðra staða yfir háveturinn ef eitthvað kemur upp á, hugsa til þess ef hætta verður við þennan þátt í öryggisnetinu sem við höfum búið við og fella hann niður vegna þess að Alþingi neitar að sinna þeirri skyldu sinni að styðja þessa aðila í stað þess að skera þá við trog. Ég held a.m.k. að það séu það margir hv. þingmenn hér sem þekkja til aðstæðna úti á landsbyggðinni í þessum efnum að ég trúi því varla að það sé meining meiri hluta hér á Alþingi að fella þetta burtu. Ég veit ekki hvort hv. þm. Guðmundur Bjarnason varaformaður fjvn., getur neinu svarað til um það, það er ekki gengið á hann með svör, þegar enginn hæstv. ráðh. fæst til að segja hér eitt orð í þessum efnum.

Ég ætla aðeins að minna á að auðvitað er það rétt sem hv. þm. Pálmi Jónsson sagði hér í dag að stjórnarandstaðan innan fjvn. hefur tekið þátt í skiptingu fjárveitinga á hina ýmsu málaflokka en ber eigi að síður enga ábyrgð á því fjármagni sem þar er um að ræða. Það er meiri hlutinn sem þar hefur ákvarðað og stjórnarandstæðingar innan fjvn. eru með fyrirvara á þessari skiptingu og áskilja sér rétt til þess að flytja eða fylgja brtt. - Nú sé ég að hæstv. menntmrh. er kominn í salinn eftir mikla leit. (GJG: Hvar var hann?) Það getur hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson átt við hann einan.

Ég ætlaði að spyrja hæstv. menntmrh. í fyrsta lagi um Núpsskóla. Í athugasemdum með fjárlagafrv. er gert ráð fyrir að honum verði lokað fyrir fullt og allt. Sú ákvörðun var tekin í vor af hæstv. ráðh., og að mér fannst þá einhliða, að loka skólanum yfirstandandi skólaár og nýta síðan þá fjármuni sem gæfust til þess að koma skólahúsnæðinu og öðru á staðnum í betra lag en verið hefur. Síðan kemur þetta alveg nýtt upp í athugasemdum með fjárlagafrv. að þessum skóla eigi að loka fyrir fullt og allt. Ég óska eindregið skýringa á því hvort þessi athugasemd er rétt, hvort hún á að standa. (Menntmrh.: Hún á ekki að standa. Það er búið að segja formanni fjvn. frá því fyrir löngu eða þm. frá því.) Hæstv. menntmrh., það dugar ekki að segja formanni þessum eða hinum frá því. Það þarf þá að koma fram a.m.k. í ræðu við afgreiðslu fjárlaga ef athugasemdir eiga ekki að standa. (Gripið fram í: Það hefur formaður fjvn. gert.) Gerði hann þetta í dag? (Gripið fram í: Hvar var hv. þm. þá?) Þá treysti ég þeim orðum. Heyrði hæstv. menntmrh. þetta í dag? (Menntmrh.: Ég heyrði það, já.) Þú heyrðir það, já. Nú blikka augu hæstv. ráðh. (Gripið fram í: Það er gott skyggni með gleraugunum.) Ef þetta hefur komið fram í ræðu Pálma Jónssonar hef ég enga ástæðu til þess að ætla annað en að því verði haldið til haga og því til skila haldið.

Það var annað sem ég ætlaði einnig að spyrja hæstv. menntmrh. um. Ég ætla að taka það fram strax að ég hef allan fyrirvara á skiptingu í skólahúsnæði, skólaþættinum, og þá sérstaklega með í huga Ísafjörð. Við umræður hér við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið í ár mun hv. þm. Sighvatur Björgvinsson hafa tekið þetta mál upp og hæstv. menntmrh. tekið þátt í umræðunum á þann veg að hæstv. ráðh. mundi beita sér fyrir lausn á vandamálunum, sem uppi voru á Ísafirði að því er varðaði grunnskólann og íþróttahúsið, með aukafjárveitingum upp á 3 millj. kr. Nú er mér ekki kunnugt um að þessi aukafjárveiting hafi átt sér stað og þeir heimamenn kannast ekki við það. (Menntmrh.: Hvaða heimamenn?) Hvaða heimamenn? Forsvarsmenn í þessum efnum á Ísafirði. Hins vegar mun það hafa gerst að þeim hafi verið útvegað lán til eins árs að upphæð 3 millj. kr., sem fellur í gjalddaga í janúar n.k. að mér er sagt, og það kalla ég ekki aukafjárveitingu. En nú spyr ég hæstv. menntmrh.: Beitti hann sér fyrir aukafjárveitingu í þessum efnum á Ísafjörð sem við var staðið á árinu í ár? Hvaða plagg er þetta, hæstv. ráðh.? (Menntmrh.: Brtt. minni hl.) Það er engin aukafjárveiting í þeim. Það þýðir ekki að yppta öxlum yfir þessu. Þetta er nefnilega stórmál. Og nú kemur enn meira vegna þess að í a.m.k. 3-4 ár hefur íþróttahúsið á Ísafirði verið með fjárveitingu, að vísu oft litla, en þó nokkra stundum. Nú leggur meiri hl. fjvn. til að þetta sé strikað út, íþróttahús á Ísafirði verði ekki á fjárlögum sem sérstakur liður eins og það hefur verið. (Menntmrh.: Og Bolungarvíkin.) Bolungarvík hefur verið inni. Er þetta kannske að tillögu hæstv. ráðh.? Og ég spyr: Er það virkilega meiningin að þetta mál fari svona hér í gegn?

Ég sé það í Alþingistíðindum, umræðum frá því í fyrrahaust, það er í 10. hefti 1985, þar sem hæstv. menntmrh. hefur talað í þessu máli og ég vil, með leyfi hæstv. forseta, lesa það, það er örstutt. Hæstv. menntmrh. segir:

„Herra forseti. Hv. 3. þm. Vestf. orðfærði í upphafi ræðu sinnar ástand skólamála á Ísafirði. Ég skal af hreinskilni játa, að fyllstu upplýsingar um stöðu þessa máls bárust mér ekki í hendur fyrr en í gærmorgun snemmendis“ - taki menn nú eftir „fyrr en í gærmorgun snemmendis þannig að ég hafði ekki gert mér grein fyrir stöðu málsins eins og ég segi. Höfuðgalli málsins virðist mér sá í fljótu bragði að ráðuneytið hafi ekki upphaflega gert tillögur, samkvæmt yfirlýsingum sínum, samningum og loforðum til fjárlagagerðar. Ég hef hafið viðræður, lauslegar enn, við fjmrh. um málið og mun reyna að finna lausn á því.“

Þetta er tilvitnun í ræðu hæstv. menntmrh. fyrir ári síðan og þess vegna spyr ég: Var þetta innt af hendi? Var aukafjárveiting veitt? Sé svo, þá hvenær? Og ég spyr enn: Er það virkilega meining hæstv. ráðh., og þá meiri hlutans hér, að strika íþróttahúsið á Ísafirði út af fjárlagafrv.? Við þessu vil ég fá svör. Auðvitað ræður meiri hlutinn hér, við því er ekkert að gera, en það þarf að koma í ljós hvað menn hyggjast fyrir.

Mig langar enn til að spyrja hæstv. menntmrh. nokkuð út í stöðu Félagsheimilasjóðs. Hún er ískyggileg og ég veit ekki til þess að frumvarpstölunum hafi verið breytt, ég veit ekki betur en að það sé enn inni sem lagt er til í frv. og það er freklegur niðurskurður. Ég spyr um þetta mál sérstaklega vegna þess að norður á Hólmavík er félagsheimili heimamanna gamall braggi frá stríðsárunum, hvorki vatnsheldur né vindheldur. Heimamenn hafa aurað saman í nokkrar upphæðir heima fyrir til þess að geta hafið byggingu félagsheimilis, en einhverra hluta vegna hafa þeir ekki fengið heimild til þess frá ráðuneyti, að ég best veit. Og af því að ég veit að heimamenn leggja ofurkapp á þetta, allir upp til hópa, vil ég spyrja hæstv. ráðh.: Liggur ekki enn fyrir vilyrði ráðuneytis um að þeir geti nýtt sitt eigið fjármagn til þess að hefja framkvæmdir við byggingu félagsheimilis?

Mér skilst að eitthvað álíka sé á Ólafsvík, ef ég veit rétt. Þar eru líka uppi geigvænleg vandamál að því er varðar félagsheimili þeirra Ólafsvíkinga, en auðvitað eru hér menn sem taka það mál upp aðrir en ég. En um þetta vil ég sérstaklega spyrja hæstv. menntmrh.

Ég skal nú, herra forseti, fara að stytta mál mitt. Ég vék hér í upphafi að því, að í nál. á þskj. 305 eru settar fram í megindráttum þær tillögur sem Alþfl. hefur verið talsmaður fyrir í breytingu á fjárlagagerð og í ríkisfjármálum. Ég sagði þá að ég sæi ekki ástæðu til þess að fara að lesa það allt saman upp. (Fjmrh.: Hver samdi þær?) Er það megináhyggjuefni hæstv. fjmrh. hver samdi þær? Ekki eru nú áhyggjurnar miklar. Og ég spyr: Breytir það einhverju hver samdi þær? Ég vænti þess að hæstv. ráðh. verði jafnfljótur hér upp á eftir til að svara mínum spurningum og hann er hér til að grípa fram í. Ég bíð eftir því að fá hrein svör frá hæstv. ráðh. um það sem spurt var um og ég skal ekkert biðja hann um að upplýsa hver hafi sagt honum það. Ef hann er að meina það, ef það felst í hans orðum, þá skal ég láta það kyrrt liggja. Ég ítreka, hæstv. fjmrh., að það hefði líklega verið farið betur með ríkisféð og það hefði komið betur til skila í hendur almennings í landinu ef hugað hefði verið að þeim till. sem Alþfl. hefur verið með. Ég er ekki að segja að þær séu allar hundrað prósent réttar, það er nú sjaldnast svo, en megindrátturinn í þessum till. er í rétta átt og það hefði hæstv. fjmrh. átt að hugsa fyrr um.

Það er trúlega rétt sem hv. þm. Geir Gunnarsson sagði í dag að þeir Bakkabræður vissu hvar botninn væri. En hæstv. fjmrh. hefur ekki hugmynd um hvar botninn er í þessum efnum sem um er verið að tala (SvG: Hann er í Hafskip.) eða hæstv. ríkisstj. Botninn í Hafskip, segir hv. 3. þm. Reykv. (ÓÞÞ: Hvar er botninn?) Hjá hæstv. ríkisstjórn? Ég held að hv. þm. Ólafur Þórðarson sem stjórnarliði, stuðningsmaður ríkisstjórnarinnar, ætti nú að spyrja sjálfan sig, ekki mig. (ÓÞÞ: Ræðumaður er að veita upplýsingar almennt, hvar er botninn?) Í hverju? (ÓÞÞ: Ræðumaður hlýtur að vita hvernig hann reifaði mál sitt.) Það þýðir ekki að segja: hlýtur að vita þetta eða hitt. Botninn í hverju? (ÓÞÞ: Í málflutningi hv. ræðumanns.) Já, það kom þó að því að hv. þm. Ólafur Þórðarson sér sig tilneyddan til þess að verja liðið. Öðruvísi mér áður brá á nú við um þennan góða pilt, (ÓÞÞ: Hvar er botninn?) ef hann sér sig tilneyddan nú, í þeim kröggum sem hér er verið um að ræða að því er varðar fjárlagagerð fyrir árið 1987, að hlaupa upp til handa og fóta til að verja hæstv. ríkisstjórn, þar á meðal auðvitað brotthlaupsmanninn að vestan. Er það ekki? (ÓÞÞ: Hver hljóp að vestan?) Hver hefur nýlegast gefið yfirlýsingu um að hafa farið þaðan? (ÓÞÞ: Er það sá sem verið er að reka úr framboðinu?) Hann var ekki rekinn sá, var það? Flutti hann ekki sjálfkrafa í Reykjanesið? Nei, hv. þm. Ólafur Þórðarson, ég hugsa að þú vitir betur en þeir ráðherrarnir hvar botninn er í því kviksyndi sem hér er verið um að ræða, sem er fjárlagagerð fyrir árið 1987. Það er slíkt kviksyndi að hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson hefur verið með heitingar um það að styðja ekki málið hér. Kannske kemur að því að slíkt gerist, að hann styðji ekki afgreiðslu þessa kviksyndis, sem hér er verið um að ræða, þó stjórnarliði sé sjálfur og hafi borið ábyrgð á ríkisstjórninni allt til þessa. (GJG: Er framboðsfundur á Vestfjörðum?) Kannske endar málið svo. Já, ég heyri að hv. þm. Guðmundi J. Guðmundssyni finnst gott að hlusta á svona, unir sér vel. Það er sjaldnast sem maður sér hv. þm. svo rólegan hér í sæti sem verið hefur undangenginn klukkutíma.

Herra forseti. Að lokum þetta: Alþfl. hefur lagt á borðið þær hugmyndir sem hann vill styðja að nái fram að ganga. Þær eru í því nál. sem hér er um að ræða. Þær hafa verið fluttar sem þingmál annaðhvort í frumvarpsformi eða sem þingsályktunartillögur, og við fjárlagagerð. Meiri hluti þingsins hér hefur drepið þessar till., en þar sem skammt er til kosninga og litlar líkur á því að þeir sem hér hafa ráðið ferðinni til þessa ráði ferðinni áfram er kannske meiri von til þess að komið verði skipulagi á fjárlagagerð ríkisins og ríkisfjármálin og peningamálin í landinu almennt talað, meira skikki á þau mál en verið hefur undangengin fjögur ár.