12.12.1986
Sameinað þing: 30. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1617 í B-deild Alþingistíðinda. (1380)

1. mál, fjárlög 1987

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að taka upp umræður vítt og breitt um fjárlagagerðina og fjárlagafrv. Fulltrúi Alþb. í fjvn., hv. þm. Geir Gunnarsson, hefur gert glögga grein fyrir viðhorfum Alþb., þingflokks þess til fjárlagastefnu ríkisstjórnarinnar eins og hún endurspeglast í frv. sem liggur fyrir og eins og fjárlögin hafa litið út á þessu kjörtímabili. Þar hefur ekki orðið nein afgerandi breyting með þessu frv. þó að einstaka þættir líti heldur skár út en var í fyrra, en það er líka auðvelt að ná fram breytingum eitthvað upp á við þegar búið er að lækka allt í botn.

Fyrir okkur stjórnarandstæðinga á Alþingi eru möguleikarnir ekki ýkja miklir til að ná fram róttækum breytingum á þeirri stefnu sem hér hefur verið fylgt m. a. í sambandi við opinberar framkvæmdir sem skornar hafa verið niður svo gífurlega sem raun ber vitni. Þó er það svo að með tillöguflutningi og málflutningi á Alþingi ná menn því öðru hverju að fá undirtektir og ná eyrum manna. Ég tel t.d. að viðbrögð hæstv. fjmrh. í sambandi við Framkvæmdasjóð fatlaðra, sem heyrðist um í umræðunni í dag, séu uppskera af einörðum málflutningi og stuðningi við þetta mál af hálfu talsmanna Alþb. og fleiri í stjórnarandstöðunni. Það er sannarlega ánægjuefni þegar hlustað er á slíkan málflutning og eitthvað þokast í áttina að því sem vera ætti í þeim efnum.

Ég ætla, herra forseti, fyrst og fremst að mæla fyrir örfáum brtt. sem ég hef leyft mér að flytja við fjárlagafrv. sem 1. flm. og er að finna á þskj. 290, liður II, en að þeim tillögum standa ásamt mér hv. 2. þm. Austurl. og hv. 4. þm. Norðurl. e. sem eru meðflm., þ.e. Helgi Seljan og Steingrímur J. Sigfússon.

1. till. varðar fjárveitingar til héraðsskóla þar sem við leggjum til að fjárveiting til stofnframkvæmda við Alþýðuskólann á Eiðum verði hækkuð frá þeim 1100 þús. sem þar munu vera skv. skiptingu fjvn. í 2,5 millj. kr. Ég spurðist fyrir um það fyrir ekki löngu í Sþ. hver væri metin þörfin af hálfu menntmrn. Það kom í ljós varðandi þetta mál að ráðuneytið virtist hafa litla grein gert sér fyrir þeirri miklu þörf sem þarna er á ferðinni til framkvæmda, endurbyggingar og viðhalds. Hæstv. menntmrh. nefndi þörf upp á einar 10-20 millj . kr., en það er augljóst að tillögur fjvn. að þessu leyti og sá rammi sem henni var ætlaður eru afar langt frá því að vera fullnægjandi lágmark í þessum efnum og því er þessi hógværa till. um aukningu fram lögð.

Í öðru lagi leggjum við til hækkun á fjárveitingu til Náttúruverndarráðs varðandi framkvæmdir í þjóðgörðum, að í stað 2 millj. 650 þús. kr. komi fjárveiting upp á 5 millj. kr. Hér er um að ræða málaflokk sem hefur verið vanræktur mjög á síðustu árum. Dregið hefur úr fjárveitingum til Náttúruverndarráðs og náttúruverndarmála í landinu, því miður, og framkvæmdir í þjóðgörðum, sem miðaði allvel á síðasta áratug þegar verið var að byggja upp myndarlega aðstöðu í Skaftafelli, hafa lent í hálfgerðu strandi og þokar mjög litið áfram. Þar skiptir mestu nú uppbygging í þjóðgarðinum í Jökulsárgljúfrum og það er sú framkvæmd sem við höfum ekki síst í huga með þessari tillögugerð þó að þörfin sé einnig í Skaftafelli að bæta þá aðstöðu sem þar er þegar risin.

Í þriðja lagi leggjum við til að veitt verði fé til landbúnaðarmála undir landbrn. þar sem er búrekstrarkönnun. Það er nýr liður. Till. er um 5 millj. kr. fjárveitingu til þessa þáttar. Ég hef í Sþ. mælt fyrir till. til þál. um könnun á búrekstraraðstöðu þar sem fram koma hugmyndir sem lúta að þessari tillögugerð í sambandi við fjárlagaafgreiðsluna. Það hefur verið mikið rætt á þessu þingi um þær þrengingar sem eru í sveitum landsins og um nauðsynina á að ná þar nýjum tökum á málum, en til þess vantar grundvallarupplýsingar. Svo ótrúlegt sem það kann að virðast skortir upplýsingar um stöðu einstakra jarða, framleiðslumöguleika og möguleika á nýbreytni í búrekstri. Það er þetta átak, sem hér þarf að gera, sem við leggjum til að verði varið til litlum 5 millj. kr. skv. fjárlagafrv. næsta árs. Ég geri mér ljóst að vænta má þess, ef till. sem ég nefndi og er á þskj. 138 verður samþykkt, að ríkissjóður muni veita fé til þessa þáttar, en ég tel þó eðlilegt að gefa Alþingi kost á að taka afstöðu til þessa í sambandi við fjárlagagerð þar sem till. er fram komin og liggur í nefnd.

Í fjórða lagi, og það er síðasta till. sem ég er 1. flm. að, er fjárveiting til Ferðamálaráðs þar sem um væri að ræða nýjan lið Til umhverfisverndar á ferðamannastöðum. Það hefur verið í umræðunni sú mikla skerðing sem orðið hefur á mörkuðum tekjustofni til Ferðamálaráðs þar sem nú er aðeins veitt að ég hygg nálægt 1/3 af þeim tekjustofni sem Ferðamálaráð ætti að njóta lögum skv. Þetta er auðvitað dæmalaus meðferð á mörkuðum tekjustofni og það í atvinnugrein sem margir líta á sem vaxtarbrodd og þar sem aukning hefur verið mjög veruleg upp á síðkastið. Þeim mun brýnna er að bregðast þar við með skipulegum hætti og ætla Ferðamálaráði lágmarksframlög til starfsemi sinnar. Þetta á ekki síst við um aðgerðir til umhverfisverndar í sambandi við ferðamennskuna og álag á landið og einstaka staði. Því höfum við sérmerkt þessa till. þannig að gert er ráð fyrir að framlagið fari til umhverfisverndar á ferðamannastöðum og till. er um 10 millj. kr. fjárveitingu í þessu skyni. Ég trúi ekki öðru en hv. þm. sjái nauðsynina á átaki í þessum efnum. Það er að vísu í tillögum fjvn. tekinn upp liður til aðgerða í Dimmuborgum upp á 900 þús. kr. Það er gott svo langt sem það nær. En staðirnir eru fleiri sem eru undir gífurlegu álagi vegna átroðnings af ferðamönnum og það skiptir öllu máli að beina þeim straumi í markaðan farveg, skapa aðstöðu til þess að hægt sé að ganga vel um landið og þá staði sem fólkið langar til að skoða og er vísað á bæði af opinberri hálfu og þeim aðilum sem stunda atvinnurekstur í ferðamennsku.

Herra forseti. Ég stend að öðrum brtt. en ég hef hér nefnt, en ég ætla ekki að ræða þær sérstaklega. Fyrir þeim verður mælt af öðrum talsmönnum Alþb. sem eru flm. með mér að þeim tillögum. Ég kemst þó ekki hjá því frekar en hv. 2. þm. Austurl., sem talaði hér áðan, að nefna að lokum ástandið í flugmálum í landinu og hvernig staðið er að fjárveitingum í því skyni. Þar er um að ræða lægri krónutölu skv. fjárlagafrv. en ætlað var í þennan lið í fyrra. Var þó búið að skera þar ár eftir ár. Og ástandið er með þeim ósköpum sem menn frétta af núna. Það má segja að gott sé að það sé minnt á það þessa dagana, en það gerist á öllum árstímum nema þá yfir hásumarið að aðalflugvöllur á Austurlandi, Egilsstaðaflugvöllur, er ófær jafnvel dögum saman vegna aurbleytu og vegna þess að hann þolir ekki veðurfarsaðstæður. Við Alþýðubandalagsmenn leggjum til 50 millj. kr. aukningu á framlögum til flugmála og þar höfum við alveg sérstaklega í huga þá brýnu nauðsyn sem er til að tryggja Austurlandi lágmarksþjónustu og öryggi í sambandi við lendingaraðstöðu og flugvöllinn á Egilsstöðum. Ég vil ekki trúa öðru en þessi tillöguflutningur og sú staða sem blasir þessa dagana við hverjum manni sem fylgist með hvernig aðstæður eru en það verði til þess að menn skoði þetta mál fyrir 3. umr. fjárlaga alveg sérstaklega. Það er ekki sanngjarnt og það er ekki viðunandi fyrir heilan landshluta, sem liggur einna fjærst frá höfuðstað landsins, að honum sé ætlað að búa við þau ósköp sem þarna er um að ræða.

Herra forseti. Ég ætla ekki að orðlengja þetta frekar og vísa til þess sem þegar er fram komið og tillagna sem mælt verður fyrir síðar við umræðuna.