12.12.1986
Sameinað þing: 30. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1626 í B-deild Alþingistíðinda. (1382)

1. mál, fjárlög 1987

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Við 1. umr. um fjárlagafrv. flutti ég ítarlega ræðu um stefnu frv. og vankanta þess. Við 2. umr. hefur hv. þm. Geir Gunnarsson bætt um betur og fjallað mjög ítarlega um einstaka liði frv. Ég mun því láta mér nægja að þessu sinni að fara nokkrum orðum um brtt. sem við flytjum sex AIþýðubandalagsmenn á þskj. 291.

Eitt af því sem er hvað dapurlegast í fjármálastefnu ríkisins eru viðskipti þess við sveitarfélögin. Það er ekki nóg með að sveitarfélögin hafi verið svipt að nokkru tekjustofni sínum, þar sem eru framlögin úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga, með skerðingu á ríkisframlagi til sjóðsins, sem nú nemur um 300 millj. kr., heldur hafa einnig framlög til ýmissa framkvæmda á vegum sveitarfélaga verið skorin svo við nögl á seinustu árum að til hreinna vandræða horfir. Þetta þekkja allir hv. alþm. og er ekki þörf á að fjölyrða frekar um þessa staðreynd. En í fljótu bragði sagt var staðan sú á þessu ári að framlögin til sveitarfélaga og framkvæmda þeirra voru orðin að framkvæmdagildi rétt helmingur af því sem þau voru fyrir fjórum árum. Afleiðing þessa er að sjálfsögðu sú að ýmsar mjög nauðsynlegar framkvæmdir í þágu fólksins í landinu, skólabyggingar, dagvistunarheimili, hafnir, sjúkrahús og flugvellir og uppbygging á þessum sviðum, líða fyrir fjárskort og allt uppbyggingarstarf gengur hægar en eðlilegt getur talist. Við flytjum nokkrar till. til úrbóta þótt vissulega mætti hugsa sér að þær væru miklu fleiri og miklu víðtækari (EgJ: Og miklu hærri.) og jafnvel miklu hærri en hér er gerð tillaga um vegna þess að þó að till. okkar verði samþykktar, hv. þm. Austurl., (EgJ: Landskjörinn.) landskjörinn að vísu, en í framboði fyrir kjósendur á Austfjörðum, þá mundi það engan veginn duga til að vega upp á móti þeirri skerðingu sem ríkisstjórn hv. þm. hefur staðið fyrir á liðnum árum og vantar þar enn töluvert á. Þannig er rétt til getið hjá hv. þm. að vissulega væri ekki vanþörf á að bæta um betur.

En till. okkar ganga út á það í fyrsta lagi að til grunnskóla verði veittar 235 millj. sem er 50 millj. kr. hækkun frá því sem er í frv. (EgJ: Það er búið að hækka þetta í millitíðinni.) Hitt er annað mál að hv. fjvn. hefur rausnast til að laga þennan lið svolítið, en þess vegna er till. flutt að þar er engan veginn nóg að gert. Margir þekkja að hjá sveitarfélögum víða um land er skuldahali af hálfu ríkissjóðs og vantar mikið upp á að ríkissjóður hafi gert upp skuldir sínar við sveitarfélögin. Þetta stendur þróun í skólamálum víða um land fyrir þrifum. Ástandið er síst betra þegar dagvistunarheimilin eru annars vegar. Það var ótrúlegt að ríkisstjórnin skyldi leyfa sér að sýna þá tölu varðandi dagvistarheimili, sem hún gerði í þessu frv., að lækka þau úr 40 millj. á seinasta ári niður í 20 millj. Nú þegar sjónvarpið skýrir frá því í kvöld að fjvn. hafi verið svo rausnarleg að hún hafi tvöfaldað framlögin til dagvistarheimilanna er þess að vísu ekki getið að það er bara verið að koma með nokkurn veginn sömu tölu og var í fyrra, bæta afglöpin í frv. Þarna er ekki um neina framför að ræða í raun. Þess vegna teljum við að ekki veiti af að hækka þetta framlag a.m.k. um 75 millj. eða upp í 95 millj. Ég þekki það t.d. í mínu kjördæmi sem fær ákaflega smáa fjárhæð til dagvistarheimila að þessu sinni. (EgJ: Er það ekki Hvammstangi?) Hv. þm. er iðinn við kolann. Það er einmitt Hvammstangi sem ég hef þyngstar áhyggjur af, en ég gæti bætt við Siglufirði, Sauðárkróki og fleiri stöðum þar nyrðra. Þar hafa menn haft hug á því að byggja dagvistarheimili en vegna þess að ríkisvaldið hefur ekki samþykkt neinar verulegar fjárhæðir til þessara verkefna bíða menn. Þannig verður stefna ríkisvaldsins í þessu máli mikill hemill á framþróun í stað þess að vera hvati til uppbyggingar dagvistunarheimila víðs vegar um land eins og hugsunin var með löggjöfinni á sínum tíma.

Nokkuð hliðstæð rök gilda um framkvæmdir á flugvöllum. Þar er um allt of lága upphæð að ræða. Við leggjum til að hún verði hækkuð um 50 millj. kr. Ekki þarf að rekja hér að mjög margir flugvellir á landinu, í raun flestallir, eru slitlagslausir og oft ekki færir vegna aurbleytu. Ég hef sjálfur lent í því einu sinni að þurfa að ýta flugvél af stað sem var að taka sig í loftið og átti ég þó að vera farþegi með vélinni. (Gripið fram í: Og varðst.) Og varð þótt merkilegt kunni að virðast. En þetta geta menn upplifað á flugvöllum víða úti á landi. Ég vil alveg sérstaklega nefna flugvöllinn á Egilsstöðum, þetta mikilvæga samgöngumannvirki fyrir Austfirði alla, en þar er hreint neyðarástand ríkjandi eins og menn þekkja og óhjákvæmilegt að þegar verði hafist handa um endurbætur og uppbyggingu á þeim flugvelli. En víða er mikil þörf, víða vantar mannsæmandi flugstöðvar til að hýsa fólk sem ferðast með flugvélum, að ekki sé nú talað um slitlagið sem auðvitað verður að koma á alla þessa flugvelli.

Ég nefni í þriðja lagi till. okkar um jöfnun á námskostnaði. Það er til mikils vansa fyrir núv. ríkisstjórn hvernig haldið hefur verið á því máli í tíð hennar. Á sínum tíma voru sett lög um jöfnun á námskostnaði. Þau gerðu ráð fyrir að framhaldsskólanemar, sem væru við nám fjarri heimabyggð sinni, gætu fengið stuðning bæði vegna fæðiskostnaðar og upp í dvalarkostnað. Lengi vel var þessi styrkur nærri því að vera þriðjungur af kostnaði nemendanna, en í tíð þessarar ríkisstjórnar hefur framlagið til jöfnunar á námskostnaði staðið nokkurn veginn í stað í krónutölu allan tímann, er 20 millj. í frv. nú en var fyrir þremur árum 18 millj. Í þeirri verðbólgu sem geisað hefur hefur þetta framlag rýrnað ár frá ári þannig að nú er stuðningur ríkisins í þessu skyni aðeins brot af því sem áður var og munar nánast ekkert um hann fyrir flesta nemendur. Hér þarf að verða stórbreyting á. Þess vegna gerum við ráð fyrir því að framlagið sé ferfaldað og hækki í 80 millj. kr.

Ég get tekið undir margt af því sem kom fram hjá seinasta ræðumanni, hv. þm. Sigríði Dúnu Kristmundsdóttur, þegar hún ræddi um framlög til lista. Framlög til lista hafa rýrnað mjög verulega í tíð þessarar ríkisstjórnar og verður að verða veruleg breyting á. Við leggjum því til að í þessum áfanga verði framlögin hækkuð um 1/3, þ.e. úr 74 millj. upp í rúmar 100 millj.

Ég vil sérstaklega láta þess getið að í frv. er dengt saman þremur fyrri fjárlagaliðum þar sem eru Launasjóður rithöfunda, Listamannalaun og Starfslaun listamanna. Öllu er þessu dengt saman í einn lið sem er nefndur Starfslaun listamanna og á að fá 23,3 millj. kr. Ég skil vel að þeir sem þessar tillögur gerðu, væntanlega í fjmrn., ég hygg að þeir í menntmrn. hefðu varla látið sig það henda að gera þessa tillögu, hafi haft í huga að þetta væri einföldun og að sjálfsagt væri að sameina þetta allt í eina „púlíu“, en það er ósköp einfaldlega ekki jafnsjálfsagt og virðist vera við fyrstu sýn því að þarna er ein stærsta upphæðin Launasjóður rithöfunda sem er tilkominn þegar ákveðið var að rithöfundar fengju endurgreiddan að hluta til söluskatt af bókum. Það segir sig sjálft að það er ekki hægt að úthluta því fé almennt til listamanna, t.d. myndlistarmanna eða hljóðfæraleikara eða manna í algjörlega óskyldum greinum. Þetta er fé sem rithöfundarnir eiga og er alls ekki hægt að blanda því saman við annað fé. Ég hef orð menntmrh. fyrir því að hann muni beita sér fyrir því að þessu verði breytt í fyrri farveg. Fagna ég því því að svona getur þetta ekki staðið. En til viðbótar þarf bersýnilega að hækka þessi framlög og hafa þá í huga hvað þau hafa rýrnað verulega á undanförnum árum.

Ég nefni í fimmta lagi till. okkar um Þjóðleikhúsið. Það er flestum kunnugt að Þjóðleikhúsið liggur undir skemmdum. Það er löngu orðin brýn þörf á því að gera við útveggi hússins og þakið alveg sérstaklega. Einnig þarf að endurnýja lagnakerfi í húsinu. Og hver sá sem gengur um það sér að bæði teppi og áklæði eru mjög slitin. Ríkinu er til vansa hvernig ásigkomulag hússins er orðið. Það er nokkurt framlag ætlað til þessara framkvæmda í frv. eða um 7 millj. kr., en þarna er um svo mikið verk að ræða, sem verður að hefja af fullum krafti á næsta ári, að sú upphæð getur engan veginn talist fullnægjandi. Þess vegna gerum við till. um að upphæðin verði hækkuð í 13 millj.

Í sjötta lagi nefni ég niðurgreiðslu á rafhitun. Í frv. eru 145 millj. ætlaðar til að greiða niður hitunarkostnað með rafmagni. Það er ljóst að ef þessi upphæð verður látin standa munu raforkutaxtar til hitunar hækka mjög verulega og er ekki á bætandi fyrir það fólk sem hitar híbýli sín með raforku og ekki sanngjarnt heldur eftir að olía hefur lækkað svo mjög í verði. Hætt er við að fólk fari hreinlega að skipta aftur úr rafhitun í olíuhitun sem auðvitað er ekki hagkvæmt fyrir þjóðarheildina og nauðsyn á því að tryggja að menn nýti innlenda orkugjafa í þessu skyni. En fyrst og fremst er þetta að sjálfsögðu stórfellt kjaramál fyrir þá sem eru utan hitaveitusvæðanna. Því leggjum við til að niðurgreiðslur á rafhitun hækki úr 145 millj. í 220 millj., en það er óhjákvæmileg hækkun ef ekki á að verða um sérstaka hækkun hitunartaxta að ræða vegna þeirrar lækkunar á niðurgreiðslu sem frv. felur nú í sér. Það er veruleg lækkun á niðurgreiðslum í frv. frá því sem var á árinu sem er að líða.

Ég hef nefnt sjö till. til hækkunar. Ég læt þess getið að þm. Alþb. flytja allnokkrar till. til viðbótar á þskj. 290 og munu aðrir mæla fyrir þeim till. og hafa sumir gert það nú þegar.

Í heildina tekið eru útgjaldaliðir hækkaðir, ef farið verður að tillögum okkar, um 780 millj. kr. Hins vegar erum við með tekjuöflun þar á móti og sparnað, niðurskurð á nokkrum liðum í frv. Samanlagt nema tekjuviðbótin og sparnaðurinn um 1058 millj. kr. eða tæpum 300 millj. kr. hærri upphæð en útgjaldaliðirnir í till. okkar. Auðvitað er óhjákvæmilegt að benda á hvaða tekjur geti komið þarna á móti vegna þess að frv. er með gífurlegum halla, eins og allir þekkja. En því miður sýnist mér að nokkuð skorti á að þeir sem koma hér með útgjaldatillögur komi með tekjutillögur þar á móti og á það m.a. við tillögur sem fulltrúar Kvennalistans hafa gert grein fyrir.

Við leggjum sem sagt til í þessari till. að skattur á skrifstofu- og verslunarhúsnæði verði hækkaður um 45 millj. kr. Hann var lækkaður hér um árið. Það má vel hækka hann á nýjan leik sem þessu nemur. Við leggjum í öðru lagi til að lagður sé á sérstakur stóreignaskattur sem gefi um 300 millj. kr. Í þriðja lagi leggjum við til að afnumdar verði ýmsar ívilnanir sem fyrirtækjum í félagsformi eru veittar í gildandi tekjuskattslögum og þannig verði aflað 400 millj. til viðbótar þannig að samanlagt gefi tekjuskattur á félög 1440 millj.

Satt best að segja væri hugsanlegt að hækka þennan skatt miklu meira en hér er gert, eins og hv. þm. Geir Gunnarsson rökstuddi í dag. Það er ekki fráleitt að ímynda sér að tekjuskattur á félög gæti gefið 1000 til 1500 millj. kr. hærri upphæð en hann gerir í dag, en ég tel að ekki sé raunhæft að allt það fé gangi til að fylla þau göt sem eru í fjárlagafrv. Ég teldi sanngjarnara og eðlilegra að persónuskattar, þ.e. tekjuskattur einstaklinga, yrðu lækkaðir þar á móti og að skattfrelsismörk yrðu verulega hækkuð og að það fé sem ná mætti með því að hækka skattinn á félögin yrði að verulegu leyti notað til að lækka tekjuskatta hjá öllum fjöldanum.

Þar til viðbótar gerum við till. um að skattur á ferðamannagjaldeyri verði lagður á að nýju og gefi ríkinu um 200 millj. kr.

Ég ætla ekki að orðlengja frekar um þessar till. Það er ljóst að fjárlagafrv. verður afgreitt með verulegum halla að þessu sinni, en hversu mikill sá halli verður er enn ekki ljóst. Í frv. er gert ráð fyrir um það bil 1600 millj. kr. halla. Þar til viðbótar koma svo hækkunartillögur frá fjvn. upp á um 450 millj. og einnig hefur verið afturkallaður skattur á innfluttar orkuvörur, bensín og olíuvörur, upp á 600 millj. þannig að hallinn af þeim sökum er kominn upp í 2650 millj. og gæti auðvitað orðið verulega miklu meiri þegar breytingar verða gerðar við 3. umr. Þar á móti koma að sjálfsögðu tekjur nokkrar. Við vitum ekki enn hve miklar þær verða. Raunar eru stórir útgjaldapóstar enn óafgreiddir, eins og t.d. Tryggingastofnun ríkisins. Þegar þetta allt er haft í huga er í sjálfu sér ekki sennilegt að hallinn á frv. verði neitt minni þegar frv. verður afgreitt en þegar það var lagt fram.

Auðvitað er það meiri háttar hneyksli að þessi ríkisstjórn skuli ætla að skilja eftir sig skuldasúpu upp á meira en 6000 millj. kr. sem hún hefur safnað upp á þessu kjörtímabili og ætlar bersýnilega einhverri annarri ríkisstjórn að glíma við og leysa þann vanda sem af því hlýst