12.12.1986
Sameinað þing: 30. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1630 í B-deild Alþingistíðinda. (1383)

1. mál, fjárlög 1987

Guðrún Agnarsdóttir:

Herra forseti. Fyrst af öllu langar mig til að spyrja forseta hvort von sé á einhverjum ráðherrum við þessa umræðu hér í kvöld. Er t.d. von á hæstv. heilbrmrh.? (Forseti: Forseti hefur gert ráð fyrir því að ráðherrar séu hér, en það má líka vera að þeir séu það þó að þeir séu ekki í salnum. Það skal athugað hvort heilbrmrh. er viðstaddur.) Já, takk fyrir. Mætti ég kannske líka spyrja um hæstv. menntmrh.? (Forseti: Hæstv. heilbrmrh. hefur gengið í þingsal.) Gott, en ég fæ kannske upplýsingar um hvort hæstv. menntmrh. er við því að erindi mitt varðar einmitt þann málaflokk sem hann sinnir. (Forseti: Hæstv. menntmrh. er ekki í þinghúsinu.) Þá reyni ég að koma orðum mínum til hans öðruvísi.

Herra forseti. Ég ætla að segja nokkur orð við 2. umr. fjárlaga um leið og ég mæli fyrir brtt. sem fluttar eru af þingflokki Kvennalistans við þetta fjárlagafrv. Hv. þm. Kristín Halldórsdóttir, sem á sæti í fjvn., hefur rætt almennt um afstöðu okkar til þessa frv. og mun ég því ekki verja máli mínu til almennrar umfjöllunar um frv. þótt ærin ástæða væri til. Ég mun samt tæpa á nokkrum atriðum.

Fjvn. eða öllu heldur meiri hl. hennar hefur sýnt óvenjumikinn skilning gagnvart sumum liðum fjárlagafrv. og hækkað framlög til þeirra eða sinnt þeim á annan hátt, t.d. með því að taka inn nýja liði. Það er vel. Tekinn hefur verið inn nýr liður undir 4. gr., sem heitir brjóstakrabbamein, og ætlaðar hafa verið um 5 millj. Þingflokkur Kvennalistans flutti einmitt brtt. við síðasta fjárlagafrv. til að tryggja framlag til hópleitar að brjóstakrabbameini sem verið er að hefja. Þetta er mikið velferðar- og réttlætismál fyrir heilsuvernd kvenna. Þessar 5 millj. eru að sjálfsögðu spor í rétta átt, en Krabbameinsfélagið bað um 7 millj. sem er raunhæf upphæð til þess að sinna því verkefni sem ætlað var á næsta ári. 5 millj. þýðir í raun að mun færri konur verður hægt að skoða en ætlað var. Við munum því athuga þetta mál á milli umræðna og væntanlega gera brtt., en ég vona að meiri hl. muni gera þær í millitíðinni.

Sömuleiðis hefur orðið nokkur hækkun á framlagi til Kvennaathvarfsins, sem nemur 1 millj. kr., og er það einnig ágætt, en þingflokkur Kvennalistans flutti einnig brtt. til hækkunar á framlagi til þessa liðar í fyrra. Þessi hækkun kemur mjög nálægt því að mæta beiðni Kvennaathvarfsins þó að hún geri það ekki fyllilega.

Hins vegar hefur þessi velvild meiri hlutans á kosningaári ekki náð til fjölmargra mikilvægra þátta og má sem dæmi nefna síendurtekin svik þessarar ríkisstjórnar við að láta lögbundið framlag renna til Framkvæmdasjóðs fatlaðra. Að vísu hefur hæstv. fjmrh. nú tilkynnt nokkra hækkun á framlagi til þessa málaflokks, en betur má ef duga skal. Þingmenn úr öllum flokkum hafa lagt fram fsp. til fjmrh. um framlög til framkvæmda í þágu fatlaðra og mun ég því ekki verja tíma mínum nú til að ræða þennan málaflokk frekar, en geyma það til umræðunnar um fsp. og enn fremur til síðari tíma, til 3. umr.

Vegna þess að hæstv. heilbrmrh. er stödd hér langar mig til þess að bera fram fsp. til hennar og hún er sú: Á hvaða liðum, sem heyra undir heilbrigðismál, er ætlað að sinna verkefninu heilbrigði fyrir alla á árinu 2000? Hvar hafa sérstök fjárframlög verið hugsuð til þeirra framkvæmda sem hljóta að tengjast því átaki? Ég mundi mjög gjarnan vilja að hún svaraði þessu. Ég veit að þetta er víðtækt verkefni, ef svo mætti að orði komast, sem grípur inn á mjög marga málaflokka og er ekki auðvelt að skilgreina það, en einhvers staðar hlýtur sérstaklega að hafa verið hugsað fyrir þessu verkefni sem er svo stórt og viðamikið.

Sömuleiðis var tilgreint í fréttum í kvöld að bráðabirgðasamningur lægi fyrir um sölu Borgarspítalans. Þetta mál hefur þegar verið til umræðu bæði á Borgarspítalanum, þangað sem þingmenn voru boðaðir, á almennum borgarafundi og nú síðast í þinginu í gær. Þetta stóra mál, ég ætla ekki að orðlengja mjög um það, hlýtur að þurfa umræðu þegar um er að ræða svo mikla stefnubreytingu í heilbrigðismálum og enn fremur svo mikið fé sem ríkið ætlar að verja til að kaupa þetta sjúkrahús. Ég spyr hæstv. heilbrmrh. jafnframt hvort þetta sé rétt, hvort það standi í raun og veru til að ríkið kaupi Borgarspítalann og þá hvaða fyrirkomulag í rekstri hefur verið hugsað ef af þessari framkvæmd verður.

Þeir málaliðir sem ég ætla fyrst og fremst að verja tíma mínum til að ræða nú eru liðir sem hafa einnig verið vanræktir eins og þeir sem ég taldi upp áðan. Það eru annars vegar Háskóli Íslands, óskabarn þjóðarinnar, sem á 75 ára afmæli á þessu ári, og hins vegar Rannsóknasjóður Rannsóknaráðs ríkisins og mun ég mæla fyrir brtt. sem varða báða þessa liði.

Fjármögnun Háskóla Íslands og rannsókna á Íslandi varðar hreint og beint framtíðarkosti þessarar þjóðar. Hún mun ráða því hvort börn okkar og barnabörn verða samkeppnisfær við aðrar þjóðir og hver lífsafkoma þeirra verður. Nýlega var gerð könnun af Efnahags- og þróunarstofnun Evrópu á því hvernig íslenskt skólakerfi er í stakk búið. Niðurstöður þeirrar könnunar eru á þann veg að þær hljóta að vekja miklar áhyggjur manna og hljóta jafnframt að hvetja til gagngerrar endurskoðunar og umbóta í skólamálum. Háskólinn og aðstaða til rannsókna fá þar síst bestan vitnisburð.

Hér á þessu þingi höfum við þingkonur Kvennalistans margoft ítrekað og lagt áherslu á mikilvægi menntunar og rannsókna. Íslendingar eru eins og aðrar þjóðir staddir á miklu breytingaskeiði í atvinnuháttum. Örar tækniframfarir og aukin samkeppni í viðskiptum á alþjóðavettvangi knýja til breyttra atvinnuhátta. Auðlindir lands og sjávar þola takmarkaða nýtingu og sókn manna beinist nú fremur að því að rækta og virkja hugvit fólksins í stað þess að þrautpína hefðbundnar atvinnugreinar sem víða geta ekki staðið undir meiri hagvexti án breyttra atvinnuhátta. Til þess þarf auðvitað að kosta fé og það verður ekki gert nema með góðu skólakerfi alveg frá fyrsta grunni til háskólastigs og við þurfum gagngerar breytingar á menntunarmöguleikum sem bjóða upp á fjölþættara nám, fjarnám, símenntun, endurmenntun og fullorðinsfræðslu. Háskólinn þarf að geta sinnt rannsóknum í mun ríkara mæli en nú er, en flestir háskólakennarar verja mestum vinnutíma sínum til kennslu til að geta framfleytt sér og hafa hvorki tíma, fjármagn né aðstöðu til að sinna rannsóknum. Sem stendur rís Háskólinn ekki undir því að uppfylla 1. gr. laga sem um hann fjalla, en þar stendur, með leyfi forseta:

„Háskóli Íslands skal vera vísindaleg rannsóknastofnun og vísindaleg fræðslustofnun er veiti nemendum sínum menntun til þess að sinna sjálfstætt vísindalegum verkefnum og til þess að gegna ýmsum embættum og störfum í þjóðfélaginu“.

Íslendingar hafa ekki efni á því að eiga háskóla sem rís ekki undir nafni en vitnað er til, stundum í hálfkæringi, sem „súpergaggó“, þ.e. meiri háttar gagnfræðaskóla, háskóla sem um margra ára skeið hefur haft það verkefni helst í augum stjórnvalda að útskrifa fyrst og fremst embættismenn. Við höfum sömuleiðis ekki efni á því að stunda ekki öflugri og meiri rannsóknir en við gerum nú. Við höfum ekki efni á því að dragast aftur úr. Þingmenn eiga að hafa vit á og þurfa að bera gæfu til að leggja þá hornsteina sem máli skipta. Fjárfesting í háskóla og rannsóknum er fjárfesting í framtíðarkostum. Hún er mikilvægur hornsteinn þeirra framtíðarkosta sem þingmenn þurfa að leggja fyrir börn þessa lands. Því eru þær brtt. fluttar sem ég mæli fyrir nú og eru á þskj. 303. Fyrsti liðurinn er við 4. gr. frv. og varðar í fyrsta lagi aukið fé til byggingarframkvæmda og tækjakaupa Háskóla Íslands og einnig til viðhalds fasteigna hans. Á 75 ára afmælisártíð Háskólans ætlar ríkisstjórnin honum happdrættisfé eingöngu til mannvirkjagerðar, en ljóst er að það dugir hvergi til að ljúka þeim áföngum sem nauðsynlega þarf. Við höfum því lagt til að hækka framlag til fasteignaviðhalds um 25 millj. og framlag til byggingarframkvæmda um 75 millj.

Sigmundur Guðbjarnason, rektor Háskólans, sendi erindisbréf til fjvn. þar sem hann skýrir þarfir Háskólans í þessum efnum og vil ég, með leyfi forseta, gefa þingmönnum og sérstaklega þá fjárveitinganefndarmönnum tækifæri til þess að hlýða á málflutning rektors Háskólans með því að vitna til þessa bréfs. Þetta bréf er frá 18. nóv. s.l. og erindi þess varðar fjárveitingu til byggingarframkvæmda fyrir Háskóla Íslands:

„Húsnæðisþörf. Brýnustu þarfir Háskóla Íslands eru meira og betra húsnæði, bæði til kennslu og rannsókna. Starfsemi Háskólans hefur vaxið hratt síðustu 16 árin með þreföldun á nemendafjölda, úr 1250 árið 1969 í 4565 árið 1985. Aðstaða til starfa hefur ekki aukist að sama skapi, hvorki til kennslu né rannsókna. Aðstaða Háskólabókasafns hefur lengi verið slík að ekki var unnt að veita nema hluta þeirrar þjónustu sem þörf er fyrir. Var því hátíðasalur tekinn undir starfsemi Háskólabókasafns nú í september s.l. þar til safnið flytur í Þjóðarbókhlöðuna. Stærstu nemendahópar rúmast ekki lengur í fyrirlestrasölum Háskólans og er Háskólabíó nú notað til kennslu slíkra hópa. Hluti af húsnæði gamla Verslunarskólans hefur verið leigt til kennslu og tókst með þessum hætti að ráða fram úr brýnasta vanda bóklegrar kennslu til bráðabirgða. Húsnæðisvandi verkkennslu og rannsóknastarfseminnar verður ekki leystur nema með þeim byggingarframkvæmdum sem fyrirhugaðar eru. Skortur á nauðsynlegri starfsaðstöðu tefur mjög eðlilega og nauðsynlega þróun Háskólans og kemur í veg fyrir að hann geti mætt þeim auknu kröfum sem gera verður til hans sem æðstu mennta- og vísindastofnunar landsins.

Framkvæmdaáform. Byggingarframkvæmdir taka mið af þeirri nauðsyn að ljúka: 1) húsi læknadeildar byggingu 7.“ - Af því tilefni vildi ég aðeins áður en ég held áfram beina orðum mínum til hv. þm. sem boðnir voru í kynnisför þegar Háskólinn hafði opið hús nú fyrir skömmu vegna 75 ára afmælis síns. Mér þætti vænt um ef hæstv. forsrh. gæti staldrað við og hlustað á mál mitt vegna þess að ég mun beina spurningu til hans á eftir varðandi síðari hluta tillögugerðar minnar. - Varðandi byggingu 7 vil ég vekja athygli þm. á því að hún hefur um árabil staðið óinnréttuð. Það er hreinasta smán hve margar aðrar byggingar eru reistar á sama tíma og þessi bygging stendur fullbyggð en óinnréttuð og samt kostar ekki nema nokkra tugi milljóna að innrétta hana. Það er alveg fráleitt á meðan þær starfsgreinar búa við mikinn húsnæðisskort og þrengsli sem í þetta hús eiga að fara.

„2) Húsi verkfræðideildar, verk. og raun. 3, svo og 3) 1. áfanga lyfjafræðihúss sem verður jafnframt framleiðsludeild Reykjavíkurapóteks“ - og vísað er í meðfylgjandi yfirlit og áfangaskipan. „Reykjavíkurapótek er eitt af fyrirtækjum Háskólans og verður að flytja framleiðsludeildina í nýtt húsnæði ella missir það framleiðsluleyfið. Hagnaður af rekstri Reykjavíkurapóteks rennur til uppbyggingar á þessari aðstöðu og ætti að greiða helming byggingarkostnaðar. Því næst koma 4) viðbygging við Háskólabíó, en þar verða þrír stórir fyrirlestrasalir, 5) hæð byggð ofan á Raunvísindastofnun, 6) seinni hluti Odda, 7) náttúruvísindahús sem hýsa mun líffræðigreinar og jarðvísindagreinar, 8) aðrir áfangar lyfjafræðihúss. Og 9) seinni hluti af húsi læknadeildar, norðurkjarni. Þetta er þó ekki forgangsröðun framkvæmda.

Fjárþörf. Til þess að halda nauðsynlegum framkvæmdahraða er mikilvægt að Alþingi veiti á fjárlögum næstu fjögur ár 1987-1990 fé til byggingarframkvæmda til jafns við framlag Happdrættis Háskólans. Áætluð fjárþörf er 150 millj. kr. á ári, þ.e. 75 millj. kr. úr ríkissjóði á ári og sama upphæð frá Happdrætti Háskólans. Jafnframt er farið fram á 25 millj. kr. á ári í viðhaldskostnað, en starfsemin fer fram í 24 húsum í eigu Háskólans auk leiguhúsnæðis.

Það verður að teljast óeðlilegt ef eigandi Háskólans veitir honum ekkert fé á fjárlögum til nauðsynlegs viðhalds húsa eða til kaupa á kennslu- og rannsóknartækjum. Það má hafa í huga að hagnaði af rekstri Happdrættis Háskólans hefur ekki aðeins verið varið til byggingarframkvæmda Háskóla Íslands heldur jafnframt til styrktar íslensku atvinnulífi. Einkaleyfisgjaldið, þ.e. af hagnaði Happdrættis Háskólans, hefur fjármagnað allar byggingar rannsóknastofnana atvinnuveganna á Keldnaholti. Hefur Háskólinn allt frá stofnun atvinnudeildar Háskólans verið virkur í atvinnuþróun landsmanna. Á tímum hraðfara breytinga í tækni og atvinnuháttum munu kröfur um aukna menntun, þekkingu og þjálfun fara ört vaxandi. Ef Íslendingar ætla ekki að verða eftir á hraðbraut þekkingarþjóðfélaganna, þá er nauðsyn að skapa betri starfsaðstöðu við Háskóla Íslands. Væntum við meiri skilnings á starfsemi, þörfum og þrengingum Háskóla Íslands en fram kemur í núverandi frv. til fjárlaga. Virðingarfyllst, Sigmundur Guðbjarnason, rektor.“

Annar liður á þskj. 303 varðar hækkun á framlögum til Rannsóknasjóðs úr 50 millj. í 150 millj. og til vara í 100 millj. Undanfarin tvö ár hefur verið veitt 50 millj. kr. í sérstakan rannsóknasjóð sem falinn hefur verið umsjón Rannsóknaráðs ríkisins og var það ágætt frumkvæði. Árið 1985 voru 122 umsóknir að upphæð 205 millj. kr. sem bárust sjóðnum, en samtals voru veittir 32 styrkir að upphæð 49 millj. 489 þús. kr. Á árinu 1986 var aftur úthlutað 50 millj. kr. á fjárlögum til þessa sjóðs, en þá voru 86 umsóknir sem bárust honum að upphæð 167 millj., en samtals voru veittir 33 styrkir að upphæð 60 millj. 694 þús. 1985-1986 varð engin hækkun á úthlutunarfé sjóðsins upp í raunvirði. Hljóp þá Framkvæmdasjóður undir bagga síðara árið og veitti 10 millj. kr. af hagnaði s.l. árs til Rannsóknasjóðs. Með vaxtatekjum var því ráðstöfunarfé sjóðsins rúmlega 60 millj. kr. á þessu ári.

Í tengslum við þetta vil ég geta þess að í tillögu framkvæmdanefndar Rannsóknaráðs ríkisins til menntmrh. um úthlutun styrkjanna á þessu ári minnti framkvæmdanefndin á að stór hluti umræddra styrkja fer til kaupa á tækjum og búnaði til rannsókna og að styrkþegar þurfa flestir að borga toll, vörugjald og sölugjald af þeim tækjum sem keypt eru fyrir styrki úr Rannsóknasjóði. Þá þurfa fyrirtæki í samkeppnisiðnaði væntanlega ekki að greiða slík gjöld samkvæmt undanþáguákvæði í 3. gr. tollskrárlaga. Af þessu tilefni hvatti framkvæmdanefndin eindregið til þess að gjöld þessi verði felld niður af tækjum sem keypt eru fyrir styrki úr sjóðnum.

Úthlutun úr þessum sjóði er beint að nokkru leyti að tilteknum forgangssviðum, eins og greint er í úthlutunarreglum hans, en veitta styrki má flokka í eftirtalin tæknisvið: Líf- og lífefnatækni, fiskeldi, upplýsinga- og tölvutækni, matvælatækni, orku- og efnistækni, gæða- og framleiðslutækni, bygginga- og mannvirkjagerð auk nokkurra annarra verkefna. Flest verkefnin eru þó á sviði fiskeldis, en á þeim sviðum sem hér eru talin vænta menn helstra breytinga og framfara á komandi árum.

Athyglisvert er að fyrirtæki og eða einstaklingar eru þátttakendur í 19 verkefnum af þeim 32 sem fengu styrki á árinu 1985 og á árinu 1986 er þáttur einstaklinga og fyrirtækja enn ríkari. Samkvæmt samningum við styrkþega á árinu 1985 er gert ráð fyrir að á móti framlagi Rannsóknasjóðs, sem var 49 millj. 489 þús. kr., komi 40 millj. kr. frá umsækjendum sjálfum eða öðrum aðilum og 60 millj. kr. koma á móti þeim rúmlega 60 millj. sem sjóðurinn veitti á þessu ári. Þetta bið ég hv. þm. og þá sérstaklega hv. fjárveitinganefndarmenn að athuga. Rannsóknasjóðurinn dregur nefnilega þannig fé að rannsóknum sem að öðrum kosti færi til annarrar starfsemi. Sjóðurinn stuðlar því að meiri samþjöppun á fé um skilgreind rannsóknarverkefni en áður hefur náðst. Með tilliti til þessa er undarlegt að fjárveitingar til Rannsóknasjóðs skuli ekki hækka milli ára. Það lýsir alveg einstöku skilningsleysi og staðnaðri hugsun að nú skuli þessi sjóður þriðja árið í röð vera látinn standa með sömu krónutölu á fjárlagafrv.

Kannske ríkir einmitt í raun sambandsleysi og skilningsleysi milli stjórnvalda og vísindamanna þannig að nægilega sterk skilaboð berast ekki frá vísindamönnum til stjórnvalda. Þeim fyrrnefndu liggur nefnilega gjarnan lægra rómur, tala síður í einföldum slagorðum og viðhafa meiri varkárni í fullyrðingum sínum. Þm. heyra kannske þess vegna ekki nógu vel til þeirra. Þm. eiga að vísu annríkt og þurfa að sinna mörgum erindum en þeir hafa að jafnaði ekki verið allt of duglegir að sækja í smiðju til vísindamanna. Hafa t.d. ekki verið of duglegir við að mæta á fundum Rannsóknaráðs ríkisins sem þeim ber þó alltént sumum að gera. Frá þessu eru auðvitað heiðarlegar undantekningar og ber að virða þær.

Vita hv. þm. kannske ekki, og þá sérstaklega hv. fjárveitinganefndarmenn, að Íslendingar standa langt að baki öllum Vesturlöndum í framlagi sínu til rannsókna- og þróunarstarfsemi? Við leggjum rétt um 0,8% af þjóðartekjum okkar til þessara mála og hefur það aðeins hækkað á síðustu árum. Þessi hækkun byggist þó alls ekki á því að hið opinbera hafi aukið sín framlög. Þvert á móti. Hækkunin stafar fyrst og fremst frá auknum framlögum atvinnulífsins til rannsókna. Á sama tíma og íslensk stjórnvöld virðast stungin svefnþorni eða kæra sig kollótt hækka nágrannalönd framlög sín til rannsókna svo um munar. Danir, Norðmenn og Finnar hafa nú sett sér það markmið að hækka hlutfallið yfir 2% af þjóðartekjum árið 1990 og munu verja um 1,5-1,7% á þessu ári. Svíar verja nú þegar um 2,5% þjóðartekna til rannsókna- og þróunarstarfsemi og sama gildir um Japana, Þjóðverja og Frakka. Áform þessara þjóða um aukin útgjöld til rannsókna eru mjög tengd bjartsýni um þá möguleika sem felast í nýrri þekkingu og tækninýjungum á sviði tölvu- og upplýsingatækni, líffræði, líftækni og efnistækni. Ef við ætlum ekki að verða illilega út undan verða stjórnvöld að breyta um stefnu.

Hvað er hæstv. forsrh. að hugsa? Hann hlýtur að hafa öðlast talsverða innsýn og yfirsýn um þessi mál þau ár sem hann var framkvæmdastjóri Rannsóknaráðs ríkisins. Hann hlýtur að vita betur en að skammta svo naumt til þessa mikilsverða málaflokks.

Mig langar að vitna til niðurlags greinar, sem Páll Theodórsson eðlisfræðingur skrifaði í Tímann þann 26. nóv. s.l., því hann vill eiga nokkur orð við þingmenn, með leyfi forseta:

„Fyrir tveimur árum var sem nokkuð væri að birta upp.“ - En hann hafði lýst dökku ástandi í þessum efnum fyrr í greininni. - „Ríkisstjórnin ákvað að verja 50 millj. kr. til rannsókna- og þróunarstarfs í þágu nýsköpunar í íslensku atvinnulífi og á árinu 1985 var nýr Rannsóknasjóður stofnaður af erlendu lánsfé. Á fjárlögum yfirstandandi árs er framlagið til sjóðsins óbreytt í krónutölu þrátt fyrir að hópur forustumanna í iðnaði, launþegasamtökum og rannsóknum skoruðu mjög eindregið á Alþingi við afgreiðslu fjárlaga í desember í fyrra að hækka upphæðina í 150 millj. kr.

Í því fjárlagafrv. sem er nú verið að fjalla um á Alþingi er þessi upphæð enn í 50 millj. kr. Þetta verður vart túlkað á annan hátt en verið sé að leggja þennan nýja Rannsóknasjóð niður svo lítið beri á. Hvað eru þið að hugsa, þingmenn góðir? Með þessu er verið að festa hér þjóðfélag láglauna og með því munum við dragast jafnt og þétt aftur úr nágrannaþjóðum okkar sem ganga skipulegar til verks. Ég læt hér nægja að minna á eitt dæmi um skipulegri vinnubrögð stjórnvalda. Í Danmörku var fyrir ári samþykkt að til viðbótar traustum stuðningi við nýsköpun í atvinnulífinu skuli verja á komandi árum 1500 millj. danskra króna til eflingar tölvu- og upplýsingaiðnaði. Þetta svarar til þess að við mundum verja um 70 millj. ísl. króna á ári í fjögur ár. Hér er miðað við mismun á fólksfjölda þjóðanna. Hvernig á íslenskur lífefnaiðnaður, fiskeldi, rafeinda- og upplýsingaiðnaður að keppa við nágrannaþjóðir okkar við svo ójöfn skilyrði? Ef við viljum eiga þar góða möguleika ætti að leggja árlega a.m.k. 200 millj. kr. í hinn nýja Rannsóknasjóð. Það væri í takt við það sem nágrannaþjóðir okkar gera. Hvenær áttar Alþingi og ríkisstjórn sig á kröfum nútímaþjóðfélags?"

Ef hv. þingmenn og ríkisstjórn ætla að gera það, þ.e. að átta sig á kröfum nútímaþjóðfélags, þá ættu þeir m.a. að styðja brtt. á þskj. 303 og hækka myndarlega framlag í Rannsóknasjóð og jafnframt að sjá sóma sinn í því að uppfylla brýnustu þarfir Háskólans.

Ég mun ekki hafa orð mín fleiri við 2. umr. fjárlaga en við munum íhuga þær breytingar sem gerðar hafa verið á frv. og bera fleiri till. fram við 3. umr. Ég vænti þess að fá svör við þeim spurningum sem ég hef borið fram til hæstv. heilbrmrh. og ég vona að hæstv. forsrh. hafi eitthvað um þau mál að segja sem ég hef rætt hér.