12.12.1986
Sameinað þing: 30. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1637 í B-deild Alþingistíðinda. (1385)

1. mál, fjárlög 1987

Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Hv. þm. Guðrún Agnarsdóttir ræddi hér í góðu og löngu máli um Háskóla Íslands og nauðsyn þess að efla hann og rannsóknastarfsemina í landinu. Ég get raunar tekið efnislega undir flest það sem hv. þm. sagði. Það er alveg hárrétt að í þjóðfélagi sem vill stuðla að nýsköpun í atvinnulífi er nauðsynlegt að efla þessar greinar.

Hins vegar vantaði ýmislegt í þeim samanburði sem hv. þm. gerði við Norðurlöndin og Japana og fleiri. Hér á landi heimtum við í opinber gjöld samtals um 33-34 af hundraði landsframleiðslu, en í Danmörku um 50 af hundraði, í Noregi og Svíþjóð um 55-58 af hundraði og eðlilegt er að þessar þjóðir geti því lagt töluvert meira til margra þarfra mála, m.a. rannsóknastarfsemi en við. Sömuleiðis er þess að gæta að framlag atvinnuveganna til rannsóknastarfsemi í þessum löndum er margfalt meira en hér og stór hluti af þeim, u.þ.b. 1,5 af hundraði eða svo, sem nú er varið til rannsókna t.d. í Svíþjóð, er frá atvinnulífinu þar. Stórfyrirtækin í Svíþjóð, þessi 20 stórfyrirtæki sem eru þar á heimsmælikvarða, eiga stóran hluta af því fjármagni sem þar er varið til rannsókna. Engu að síður er það hárrétt að hið opinbera ver í þessum löndum meiru til rannsókna en við, enda eins og ég segi eru tekjur hins opinbera þar miklu meiri en hérna.

Ég heyrði ekki nema eina spurningu, sem hv. þm. beindi til mín, það var hvað forsrh. væri að hugsa í þessu sambandi. Ég vil í fyrsta lagi upplýsa að ég flutti í ríkisstjórninni tillögu um rannsóknasjóð þann sem hv. þm. ræddi sérstaklega um. Ég gerði það í lok ársins 1984 og það var þá í tengslum við skiptingu 500 millj. kr. sem ríkisstjórnin tók að láni til nýsköpunar og hagræðingar í íslensku atvinnulífi. Þannig varð þessi sjóður til. Á fyrsta ári var stofnfé hans 50 millj. sem var þá erlent lánsfé. Á öðru ári, þ.e. árinu í ár, voru veittar á fjárlögum 50 millj. kr. til þessa sjóðs og kemst hann þar með inn á fjárlög. Ég beitti mér fyrir því að Framkvæmdasjóður ráðstafaði 10 millj. af rekstrarhagnaði sjóðsins til þessa sjóðs. Ég er ekki úrkula vonar um að unnt kunni að vera að fá slíkt fé til viðbótar þó ég geti engu lofað um það hér.

Ég tek hins vegar undir það með hv. þm. að það er áreiðanlega mjög mikilvægt að auka fjármagn til Rannsóknasjóðs, en á meðan hér vantar ekki tugi heldur hundruð milljóna til fjölmargra mikilvægra verkefna, til fatlaðra, til Háskólans, til Íþróttasjóðs og til Félagsheimilasjóðs, og þannig gæti ég endalaust talið, þá hef ég ekki treyst mér að flytja till. um umtalsverða aukningu í Rannsóknasjóð.

Ég vil sömuleiðis geta þess að staðið hefur til nú nokkurn tíma að flytja hér á Alþingi á vegum menntmrh. frv. um rannsóknastarfsemina og þá m.a. um Rannsóknasjóð og festa hann þannig í lögum. Þessi mál eru nú til meðferðar hjá mönnum frá Rannsóknaráði og Háskóla Íslands, en því miður, eftir því sem ég best veit hafa þær till. ekki komið fram, a.m.k. hef ég ekki séð þær. Ég held að mikilvægt sé að festa þennan sjóð í lögum og athuga hvort unnt er að tryggja sjóðnum jafnvel einhverja sjálfstæða tekjulind.

En ég skal ekki lengja þessar umræður. Ég endurtek það sem ég sagði áðan. Það var hárrétt sem hv. þm. sagði um nauðsyn okkar að efla rannsóknastarfsemina og menntunina, en til þess og til fjölmargs fleira þurfum við að auka tekjur ríkissjóðs.