12.12.1986
Sameinað þing: 30. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1667 í B-deild Alþingistíðinda. (1390)

1. mál, fjárlög 1987

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það var mál til komið að við ættum einu sinni fund hv. þm. fram yfir lágnættið. Það mun ekki fara það orð af þessu haustþinghaldi að það hafi verið eitt af þeim annasamari í sögu þingsins. Ég verð að segja alveg eins og er, virðulegi forseti, að þó ég sé ekki þingreyndur eða gamall í hettunni á þessum virðulega vinnustað þykist ég þó hafa upplifað og reynt ákveðna þróun sem mér þykir ekki vera af hinu góða. Mér finnst satt best að segja til að mynda þátttaka í 2. umr. um fjárlög til háborinnar skammar. Þá á ég við að hér tala menn yfir tómum stólum og auðum ráðherrabekkjum um einhver mikilsverðustu málefni Alþingis. Þetta mun vera fyrsti kvöldfundur á þessu þingi að slepptum einum útvarpsumræðum. Maður hlýtur að spyrja: Er því svo farið með hv. þm. og hæstv. ráðherra, svo ekki sé talað um ósköpin, að þeir séu orðnir svo kvöldsvæfir að þeir megi ekki vaka eina stund á þessu haustþingi til að taka þátt í þingstörfum? (Forseti: Það bendir allt til þess.) Ég átel það harðlega, um leið og ég met það við hæstv. heilbr.- og trmrh. að hafa verið hér í allt kvöld og tekið þátt í umræðum og svarað fyrir sinn málaflokk, að aðrir hæstv. ráðherrar skuli ekki sjá sóma sinn í því að vera viðstaddir þennan eina kvöldfund og svara fyrir sína málaflokka, vera til viðræðu þegar það á við. Það má vera að hæstv. fjmrh. sé hér einhvers staðar með lappirnar uppi á borði, en hann hefur alla vegana ekki verið mikið inni í þingsalnum það sem af er.

Ég hafði hugsað mér að halda nokkuð ítarlega ræðu og eiga orðastað við nokkra fagráðherra um þeirra málefni og þeirra útreið í þessum fjárlögum, en það hefur kannske ekki mikið upp á sig að tala að þeim fjarstöddum og óvíst að þeir séu mikið iðnari við að lesa þingtíðindi en þeir eru yfirleitt við að mæta á þingfundum þannig að það hefur kannske mest lítið upp á sig. Ég ætlaði því að mæla fyrir þeim brtt. við þessi fjárlög sem ég flyt hér við 2. umr. ásamt með fleiri hv. þm., en fyrst víkja að nokkrum sérstökum viðfangsefnum.

Þessi fjárlög bera með sér að það er kosningaár og það er að ýmsu leyti verið í þeim að reyna að bjarga andlitinu, ef svo má að orði komast, eftir þriggja ára niðurskurð og svelti til mikilvægra málaflokka. Skýrt dæmi um þetta eru framlög til hafnargerðar. Þau eru nú allt í einu hækkuð allverulega. Þó að þau nái reyndar ekki meðaltalsfjárveitingum til þess málaflokks á undanförnum áratug eru þau hækkuð verulega, nánast margfölduð, til þess að sýna lit á kosningaári. Væntanlega eru hv. þm. sumir hverjir, jafnvel ráðherra málaflokksins hæstv., eitthvað feimnir við að fara út í sín kjördæmi og mæta kjósendum sínum eftir frammistöðuna undanfarin ár og sjá því þann kost vænstan að hækka framlögin nú. Þetta er ekki trúverðugur málatilbúnaður og gefur auga leið að það væri öllum fyrir bestu að þetta væri jafnara og meira en einhverjar gusur á árinu síðasta fyrir kosningar.

Hæstv. samgrh. hefði einnig mátt vera hér til að ræða lítillega um fjárveitingar til flugvalla. Hann kann að vera vant við látinn, en ég vil þó leyfa mér að halda því fram að þeir hæstv. ráðherrar sem á annað borð eru í landinu og sæmilega heilir heilsu ættu að sjá sóma sinn í því að vera viðstaddir þessa umræðu.

Ég var á ráðstefnu að hluta til í dag ásamt með hæstv. samgrh. þar sem rædd voru flugmál. Þar var kynnt ný og falleg áætlun sem búið er að vinna upp með ærnu erfiði og þar hafa nefndarmenn setið ekki færri en 65 bókaða fundi til að koma saman mikilli áætlun um hvernig eigi að byggja upp flugsamgöngur á Íslandi. En til þess að það megi takast þarf fjárveitingar. Þeir hafa komist að því, þessir frómu menn, að það þurfi 203 millj. á ári í tíu ár til að koma þessum málum í þokkalegt horf. En hver er niðurstaðan í þessu fjárlagafrv.? Hún er 69 millj. kr. Þannig er hrint úr vör. Á sama deginum og þessi áætlun er kynnt fyrir þingmönnum og öðrum áhugaaðilum um þessi efni er sýnd tala í fjárlagafrv. sem er réttur þriðjungur af því sem þyrfti að vera á hverju ári til þess að áætlunin gæti haldist.

Einnig mætti nefna við hæstv. samgrh., ef hann hefði verið hér, að sá málaflokkur sem líklega flestir tala um nú um stundir síðan loðdýraræktin vék niður í 2. sætið á vinsældalistanum þegar rætt er um ný atvinnutækifæri, ferðamálin, fær nú þá útreið í þessu fjárlagafrv. að einungis þriðja hluta af lögbundnum tekjum er skilað til þess málaflokks. Hitt er hirt í ríkissjóð með skerðingarákvæðum í lánsfjáráætlun. Samt halda menn þessar frómu ræður um hina miklu möguleika í ferðamálum, ekki síst eftir leiðtogafundinn og þá kynningu sem þjóðin fékk af því tilefni.

Ég vil einnig lítillega nefna byggingarsjóðina, þ.e. Byggingarsjóð ríkisins og Byggingarsjóð verkamanna. Samkomulag var gert um húsnæðismál í kjarasamningum á s.l. vetri og í framhaldi af því var flutt frv. til nýrra laga um húsnæðismál. Þar komu lífeyrissjóðirnir inn í með mikið fjármagn og gert er ráð fyrir því að það verði næstu árin til þess að stórauka fjárveitingar til húsbygginga í landinu. Menn héldu nánast að himnaríki hefði tyllt sér niður á jörðina, a.m.k. hvað þetta varðaði, og nú mundi ungt fólk og aðrir þeir sem þurfa að standa í húsbyggingum eða húskaupum eiga auðvelt með að koma sér þaki yfir höfuðið. En hver er svo reyndin á þegar fjárlagafrv. lítur dagsins ljós? Jú, það er sú niðurstaða að ríkið ætlar ekki að standa við sinn hluta af pakkanum. Þó að lífeyrissjóðirnir kaupi nánast allir fyrir tilskilið hlutfall af sínu ráðstöfunarfé mun vanta hátt í 2 milljarða upp á ráðstöfunarfé sjóðanna til þess að viðunandi geti talist miðað við útlánaáætlanir Húsnæðisstofnunar ríkisins, 1-1,5 milljarða hjá Byggingarsjóði ríkisins og 500-600 millj. hjá Byggingarsjóði verkamanna. Ég vil taka fram að ég tel það sérstaklega alvarlegt hversu staðan verður erfið hjá Byggingarsjóði verkamanna vegna þeirrar miklu áherslu sem ýmsir leggja nú á byggingu leiguhúsnæðis, m.a. fjöldamörg félagasamtök í landinu sem hafa kynnt áform sín um verulegar byggingar á næstu árum. Ég á við aðila eins og Samtök aldraðra, Öryrkjabandalag, Félagsstofnun stúdenta og námsmannahreyfingarnar og fleiri slíka aðila sem telja vera mikla þörf fyrir byggingu á leiguhúsnæði fyrir sína skjólstæðinga. Það er alveg ljóst að Byggingarsjóð verkamanna vantar verulegt fjármagn eingöngu til að standa við skuldbindingar sínar sem þegar liggja fyrir, þ.e. umsamin útlán.og umsóknir sem liggja inni í sjóðnum, þó að ekki sé nú minnst á þau áform sem ýmsir aðilar í þjóðfélaginu hafa um byggingu leiguhúsnæðis og er örugglega full þörf á.

Ég vil lítillega nefna fjárveitingar í þessu frv. til stuðnings- og sérkennslu. Þau mál hafa verið nokkuð til umræðu. Það vill svo til að ég lagði fsp. fyrir hæstv. menntmrh. um þetta efni hér á þinginu í haust. Sem ég var að undirbúa mig undir þessa ræðu, herra forseti, barst mér svarið í hendur. Þar kemur fram, eins og margir fræðslustjórar umdæmanna úti um landið hafa haldið fram, að þeirra hlutur sé nokkuð fyrir borð borinn í fjárveitingum til stuðnings- og sérkennslu borið saman við önnur kjördæmi, þau fræðsluumdæmi sem best fara út úr því efni. Það kemur greinilega fram í þessu svari, sem fróðlegt væri fyrir menn að kynna sér og það gera menn eflaust þegar það birtist prentað á borðum þingmanna, að t.d. Norðurlandsumdæmin, Norðurland eystra og vestra, fá einungis um 50-53% af greindri þörf fyrir stuðnings- og sérkennslu í grunnskólum á sama tíma og Reykjavíkurkjördæmi fær 80%. Hér er auðvitað ólíðandi mismunun á ferðinni sem sæmir allra síst hv. formanni fjvn., Pálma Jónssyni úr Norðurlandskjördæmi vestra.

Það mætti einnig bæta því við að Reykjavíkur- og Reykjaneskjördæmi, sem hafa hæst hlutfall af óskum sínum uppfyllt, nota einnig mest sérstofnanir ríkisins á þessu sviði, eins og fram kemur aftar í svarinu. Skýringin á þessu er einföld. Hún er sú að uppbygging þessarar þjónustu var langt á undan hér á þéttbýlissvæðinu og þörfin hafði þegar verið greind og við óskunum orðið áður en sá niðurskurður í þessum efnum hófst sem núv. ríkisstjórn hefur beitt sér fyrir þannig að þau kjördæmi sem á eftir urðu í að byggja upp þessa þjónustu og greina þörfina, þau hafa ósköp einfaldlega aldrei fengið fjárveitingar í samræmi við þarfir. Ég lít svo til að það sæmi ekki þingmönnum landsbyggðarinnar og engum hv. þm. að láta svona augljóst misrétti á undirstöðuþáttum eins og fræðslu á grunnskólastigi viðgangast í þjóðfélaginu. Ég tel að þetta svar um stuðnings- og sérkennslu, sem mun birtast á borðum hv. þm. á mánudag væntanlega prentað sem þskj., sanni svo ekki verður um villst að þarna er um misrétti að ræða. Það er um mismunun að ræða. Ég geri ráð fyrir að mönnum hafi ekki verið það ljóst áður, að þessar upplýsingar hafi ekki legið fyrir á aðgengilegu formi, a.m.k. tók það tæpa tvo mánuði að koma þessu svari á sinn stað. En nú hafa menn það og þá geta menn snúið sér að því að uppræta þessa mismunun. Enn er eftir 3. umr. um fjárlög og ég treysti því og ég heiti á hv. fjvn. að fara ofan í þessi mál í ljósi þeirra upplýsinga sem koma fram í svari hæstv. menntmrh. og bæta þá úr þeirri mismunun sem þar má lesa.

Síðan vil ég, herra forseti, víkja í fáeinum orðum að þeim brtt. sem ég hef flutt á sérstöku þskj. við fjárlagafrv. Þar hef ég í fyrsta lagi flutt ásamt með hv. þm. Guðrúnu Helgadóttur og Svavari Gestssyni brtt. um framlög til yfirstjórnar mannvirkjagerðar á Landspítalalóð, till. um að hækka þá fjárveitingu um 40 millj. kr. Hér er á ferðinni svonefnd K-bygging sem er það mannvirki á Landspítalalóð sem nú er mest áhersla lögð á samanlagt af öllum aðilum innan ríkisspítalanna og um það ríkir full samstaða að þessi framkvæmd hafi algjöran forgang. Ég vil gera mönnum grein fyrir því að allar áætlanir um úrlausn á húsnæðismálum ríkisspítalanna byggja á að framkvæmdaáætlun um K-byggingu haldist. Ég fullyrði að ef ekki verður bætt úr og tryggt að sá þriðjungur byggingarinnar sem nú er verið að vinna við komist í notkun á 1-11/2 ári verður hreint neyðarástand í húsnæðismálum ríkisspítalanna. Ég hef ekki fleiri orð um það tímans vegna, en ég gæti rökstutt það rækilega ef menn hefðu áhuga á.

Það væri einnig fróðlegt að nefna lítillega þær fjárveitingar sem eiga að renna t.d. til viðhalds og til almennra eigna og lækningatækjakaupa á ríkisspítölunum. Ég efast stórlega um að hv. þm. geri sér grein fyrir því hversu neðarlega þessir liðir eru komnir. Ég nefni sem dæmi að til almennra eigna og lækningatækjakaupa er áætlað að verja 57 millj. kr. á næsta ári, en samkvæmt mati sérfræðinga er verðmæti þessara tækja á ríkisspítölunum 1-1,2 milljarðar kr. og eðlilegur endurnýjunartími þeirra 8-10 ár sem þýðir að 100-150 millj. þyrftu að vera til ráðstöfunar á hverju einasta ári bara til endurnýjunar svo ekki sé nú minnst á kaup á nýjum tækjum. Til alls viðhalds á öllum mannvirkjum ríkisspítalanna, allra fasteigna og húsnæðis, á að verja 35 millj. kr. Ég held að öllum hljóti að vera það ljóst, sem hafa séð þau miklu mannvirki sem þar eru, að það er aldeilis fráleitt að ætla ekki meiri peninga en svo í þetta verkefni. Það er vond pólitík að svelta svo eignir ríkisins hvað viðhald varðar að þær liggi undir stórskemmdum og grotni niður og verði ónýtar af þeim sökum þannig að innan tíðar bíði manna stórkostleg átök í að byggja þær upp á nýtt eða endurnýja algjörlega. Með skikkanlegum fjárveitingum til viðhalds mætti forða slíku og það eru mikil óhyggindi hjá þeim, sem eiga eignir, að fara svoleiðis með þær.

Ég vil vegna orða hæstv. heilbr.- og trmrh. áðan um stöður á Kópavogshæli taka það fram að fyrir mitt leyti kemur það ekki til greina að starfsemi unglingageðdeildarinnar nýju verði tekin upp með stöðum sem fyrir eru innan stofnunarinnar og merktar Kópavogshælinu sérstaklega. Ég segi mig algjörlega frá öllu samkomulagi um það sem stjórnarnefndarmaður á ríkisspítölum að það verði gert, að hefja þessa starfsemi, ef það á að kosta að 12 stöður hverfa af Kópavogshælinu. Ég tel það ekki koma til greina og þó að menn gætu sæst á tímabundið útboð á matargerð á þeirri stofnun þýddi það ekki í ákvörðun stjórnarnefndar að þar með væri samþykkt að stöðuheimildirnar töpuðust stofnuninni, en það mundi auðvitað gerast með þessari ráðstöfun. Ég mun mótmæla því harðlega bæði innan stjórnarnefndarinnar sem ég geri og hér að þessi tilhögun verði viðhöfð og ég trúi því ekki fyrr en ég tek á að fjárlögum verði lokað með þeim hætti. Það væri aldeilis fráleitt að leika þá stofnun, Kópavogshælið, þannig að taka af henni á þessu herrans ári 12 stöðugildi. Ég held að það væri nær að gera annað tveggja, að hefja þar innréttingu á eldhúsi í húsnæði sem þegar er fyrir hendi eða þá taka ákvörðun um að sinna þeirri þjónustu annaðhvort frá eldhúsi Landspítalans eða Vífilsstaðahælis.

Lánasjóður ísl. námsmanna er fjárlagaliður sem menn kannast lítillega við frá fyrri árum. Það er einnig meinlegt að hæstv. menntmrh. skuli ekki vera hér til að ræða lítillega við hann um þann fjárlagalið. Hann er frægur að endemum fyrir frammistöðu sína í málefnum Lánasjóðs ísl. námsmanna og bætti ekki úr fyrir þjóðinni þegar hún hlustaði á kvöldfréttir Ríkisútvarpsins og fékk að heyra hvernig honum hefði gengið við sparnaðaratrennur sínar, en hann stóð gleiður í ræðustól, á hv. Alþingi og útlistaði hversu geysilega hann ætlaði að spara með því að reka tiltekna starfsmenn o.s.frv. Niðurstaðan er auðvitað sú að þar hefur allt farið úr böndunum vegna þess að hæfasta starfsfólkið var hrakið þaðan burtu og rekstrarkostnaður stóraukist auk þess sem tafir hafa hlotist af. En hvað fjárhag lánasjóðsins varðar og útlánagetu hans á næsta ári standa mál þannig að hann fær litillega hækkaða töluna frá í fyrra og þar með væntanlega gert ráð fyrir að skerðingarákvæði af einhverju tagi verði áfram við lýði hvað varðar útlán lánasjóðsins. Mér sýnist að ekki veiti af hækkun sem nemi um 15-18% ofan á fjárveitingar til sjóðsins eins og þær liggja fyrir í fjárlagafrv. og mundu þær þá nokkurn veginn vega upp þær skerðingarreglugerðir sem hæstv. menntmrh. gaf út 3. jan. og 2. apríl á s.l. vetri.

Ég vil einnig í þessu sambandi minna á að nú er nýlega búið að gera kjarasamninga aðildarfélaga Alþýðusambandsins og vinnuveitenda og þar voru lágmarkslaun hækkuð í 26 100 kr. á mánuði, en fyrir liggur að hæstu námslán eru miklum mun lægri. Þau rök sem menn hafa á undanförnum árum stundum fært fyrir því að skera niður Lánasjóð ísl. námsmanna, sem sagt þau að kjör almennings hefðu verið skert svo verulega að það væri ekki réttlætanlegt að námsmenn fengju námslán sem svaraði fullum framfærslukostnaði, snúa þannig nú að hæstu námslán, hámarksnámslán fyrir einstakling á Íslandi er 21 550 kr. eða 5 þús. kr. lægra en lágmarkslaunin sem nýlega er búið að semja um. Það er því aldeilis fráleitt, að mínu viti, að ætla að loka fjárlögum með þeim tölum til Lánasjóðs ísl. námsmanna sem hér gefur að líta. Það væri í raun og veru að frysta þá skerðingu sem hæstv. menntmrh. greip til á s.l. vetri og gera gott betur þegar litið er til þeirrar hækkunar sem orðið hefur á launum almennings. Ráðherrann hefur ekki sýnt hér á hv. Alþingi enn þá neitt sem snertir breytingar á lögum eða reglum lánasjóðsins og liggur ekki fyrir að neitt samkomulag sé um slíka hluti. Á meðan svo er ekki held ég að menn hljóti að gera ráð fyrir að lánasjóðurinn láni út miðað við gildandi lög í landinu, en þau eru að lána skuli 100% af umframþörf námsmanna miðað við framfærslukostnað þeirra.

Ég hef einnig flutt nokkrar brtt. sem snerta utanrrn. Hæstv. utanrrh. hefur ekki frekar en aðrir látið sjá sig mikið við þessa umræðu í kvöld og gefur því ekki tækifæri til að eiga við hann orðastað, en það hefði þó verið æskilegt vegna þess að ég hef flutt ekki færri en sex brtt. sem snerta hans ráðuneyti, sem snerta fjárlagaliði utanrrn. eða liði og málaflokka sem þar undir færast.

Ég hef í fyrsta lagi flutt brtt. við fjárframlög til Þróunarsamvinnustofnunar Íslands og væri ástæða til að ræða hvernig þeim málum er komið í höndunum á hæstv. utanrrh. sem tók við samþykkt Alþingis um að auka framlög til þess málaflokks í áföngum þangað til þau næðu þeim fjárhæðum sem við höfum skuldbundið okkur til á alþjóðavettvangi að leitast við að uppfylla. En þetta hefur allt farið heldur niður brekkuna hjá hæstv. utanrrh. Sjálfstfl. og stefnir nú enn niður á við með þessu fjárlagafrv. Það er aldeilis ótækt og í raun þyrfti hækkunin að vera mun meiri en ég hef hér flutt brtt. um. Mér skilst að hæstv. fjvn. sé að huga eitthvað að þessum málum og þá er sjálfsagt að kalla brtt. aftur. Það má segja reyndar um fleiri, sem hér eru fluttar, ef einhver von er um að úr þessum hörmungartölum verði bætt. Þó að Þróunarsamvinnustofnun Íslands hafi e.t.v. ekki í dag áætlanir á sínum snærum um hvernig verja mætti stórlega auknum fjárhæðum er vitað að næg er neyðin í heiminum og engin vandamál væru við að koma miklu meiri fjármunum á framfæri og láta þá nýtast vel. Ég bendi á í því sambandi stofnanir Sameinuðu þjóðanna sem við erum aðilar að, eins og Þróunaraðstoð Sameinuðu þjóðanna, UNDP, sem að sjálfsögðu mundi þiggja aukaframlög, og sama mætti segja um t.d. Alþjóðabarnahjálparsjóðinn. Báðar þessar stofnanir vinna mjög merkt starf á alþjóðavettvangi við þróunar- og hjálparstörf og værum við Íslendingar fullsæmdir af því að fela þeim að einhverju leyti að koma framlögum okkar á framfæri þar sem þau væru vel þegin.

Ég hef einnig flutt nokkrar sparnaðartillögur við fjárveitingaliði utanrrn. því ég tel sjálfsagt að við hv. þm. séum ekki síður vakandi fyrir því hvar sé hægt að spara en hinu hvar þurfi meiri fjárveitingar. Ég tel t.d. alveg óhætt að liður 0021 1.30, Þingmannasamtök NATO, falli hreinlega brott. Ég sé enga sérstaka ástæðu til þess að í slíku efni, sem uppi eru miklar deilur um og engin samstaða ríkir um á Alþingi, sé verið að kosta milljónum til þess að senda menn í einhverjar lystireisur til Tyrklands eða hvert það nú er sem þeir kjósa að fara hverju sinni. Ef menn hafa mikinn áhuga á að heimsækja þessa lýðræðiselskandi og friðarþjóð, Tyrki, geta þeir gert það fyrir eigin reikning að mínu mati og sama gildir um það ef það er sáluhjálp þeirra nauðsynlegt að gista í flugmóðurskipi. Þá geta þeir einnig borgað fyrir það sjálfir að mínu mati. Það er óþarfi, herra forseti, að undir fjárlagaliðum Alþingis séu færðir slíkir liðir.

Ég tel að það sé hægt að spara verulega í rekstri utanrrn. sjálfs. Þar hefur vaxið upp á örfáum árum mikið bákn sem heitir „Varnarmálaskrifstofa“ og hefur undanfarin þrjú ár á fjárlögum fengið margfalda hækkun á við nokkurn annan fjárlagalið. Jafnvel á sama tíma og fjárlagaliðir eins og „Sérstök matvæla- og neyðaraðstoð“ hefur verið skorin niður hefur verið hrúgað inn stöðugildum í þessari varnarmálaskrifstofu sem ég sé ekki að sé það sem þjóðin þurfi mest á að halda að eyða í um þessar mundir. Ég legg því til að þessi fjárlagaliður verði lækkaður úr 17 millj. 384 þús. kr. niður í 5 millj. og teldi það meira en nóg til þess að hafa einn eða tvo menn til að sinna þeim störfum sem þar eru unnin.

Einnig legg ég til að fjárveitingar til sendiráðs Íslands í Brussel og fastanefndar Íslands hjá NATO verði lækkaðar og sendiráðið í Brussel sett niður á sama plan og önnur hliðstæð sendiráð, fari úr 15 millj. rúmum niður í 11 millj.

Þá er fjárlagaliður í 4. gr. sem númerast 03 401 1.41 og heitir „Atlantshafsbandalagið NATO“. Það er meiningin að eyða hátt í 13 millj. í þann ófögnuð. Ég tel, herra forseti, að þar væri hóflegt að lækka fjárveitinguna niður í 1000 kr. Menn kunna kannske að spyrja af hverju ég leggi ekki til að liðurinn sé felldur út í heild sinni, en ég tel skynsamlegt að hafa þarna eins og 1000 kr. fjárveitingu á næsta ári til að senda ábyrgðarpóst til höfuðstöðvanna þar sem við tilkynnum að við tökum ekki lengur þátt í þessu samstarfi. 1000 kr. ættu að nægja vel fyrir ítarlega rökstuddu bréfi sem mætti vera þó nokkuð þungt. Það ætti samt að komast á leiðarenda fyrir þennan pening.

Að síðustu við liði utanrrn. legg ég til að algjörlega falli niður liður sem mjög hneykslar mig og ég tel satt best að segja hina mestu hneisu að skuli færður inn í íslensku fjárlögin. Það er rekstur ratsjárstöðva Bandaríkjahers á Íslandi. Nú hafa menn fundið upp það snjallræði að færa út og inn tekjur og gjöld þessa fyrirbæris og koma því þar með inn í íslensku fjárlögin. Að mínu viti er algjörlega fráleitt að taka með þessum hætti útgjöld til hermála inn í íslensku fjárlögin og hefur mér vitanlega aldrei verið gert fyrr. Ég mótmæli því alveg sérstaklega, herra forseti, að slíkt skuli vera gert. Ég tel það hneisu og ég krefst þess að þjóðinni verði ekki gert að horfa upp á að lesa um slíka hluti í sínum fjárlögum. Þessar ratsjárstöðvar koma okkur ekki við. Þetta eru hernaðarmannvirki Bandaríkjamanna, kostuð af þeim, byggð af þeim og rekin af þeim að sjálfsögðu. Hvort sem einhverjir Íslendingar koma til með að vinna þar eða ekki er það aldeilis út í hött að færa þennan lið inn í íslensku fjárlögin. Þetta núllast út, eins og menn sjá ef þeir skoða liðinn, þ.e. tekjur og gjöld standast á, þannig að það er auðséð að þetta kemur okkur ekki við hvorki á einn né annan hátt. Ég hef grun um að hv. varaformaður fjvn. hafi í sinni ræðu fyrr í haust gert einhverjar athugasemdir við þetta einnig og ég spyr hv. formann fjvn., hann má svara mér við 3. umr. og þá vonandi með því að tilkynna að hann hafi ákveðið að fella þennan lið niður, hvort það sé ekki meiningin.

Og að síðustu, herra forseti, hef ég flutt eina litla brtt., það er 3. till. á þskj. 290, og hún varðar menntmrn. Þar er inni, að mér skilst, um 1225 þús. kr. fjárveiting til að undirbúa háskólakennslu á Akureyri. Það er ekki sérliður í fjárlögunum heldur er þetta inni í rekstri aðalskrifstofu menntmrn. ómerkt, en það kemur fram í skýringum að þessar 1225 þús. kr. séu svona merktar. Ég tel þetta óeðlilegt og ég flyt því brtt. um að undir aðalskrifstofu menntmrn. komi nýr liður, þar bætist við nýr liður sem heiti „Til að undirbúa og hefja háskólakennslu á Akureyri“. Það er alveg ljóst að fyrir 1225 þús. kr. gera menn ekki hvort tveggja bæði að undirbúa og hefja þá kennslu. Hæstv. menntmrh. hefur þó látið í það skína af og til í skálaræðum að hann ætli að láta hefja þessa kennslu á Akureyri, reyndar átti það að gerast í haust og síðan þá næsta haust. En ég held að ef mönnum er alvara verði að vera til þess fjárveitingar að greiða laun haustmánaðanna þegar sú kennsla færi af stað og ég tel að lágmarkið væri að í þetta hvort tveggja, til að undirbúa kennsluna og hefja hana, væru eins og 5 millj. kr.

Herra forseti. Ég hefði getað og gjarnan viljað reyndar eiga ítarlegri orðastað við ýmsa hér um margt í þessum fjárlögum og út af fyrir sig hef ég aldrei talið það eftir mér að ræða hlutina hér eitthvað fram á kvöldið ef því er að skipta, tel það ekki nema hollt og heilsusamlegt að við æfum það einstöku sinnum að vaka saman eins og eina stund, en það virðist ekki gefa vel byr í það hér í kvöld og þingsalurinn er nú því sem næst að tæmast af fólki. Þó einhverjir séu enn e.t.v. á vappi geispandi í kringum þingsalinn hefur það svo sem ekki mikið upp á sig að vera að reyna að eiga orðastað við þá. Þeir eru sjálfsagt með hugann við eitthvað annað.

En ég ætla þá að ljúka máli mínu eins og ég byrjaði, ekki með því að gera eins og prestarnir að skamma þá fáu sem mættu í kirkjuna heldur með hinu að skamma þá sem ekki voru hér í kvöld til að taka þátt í þessari umræðu. Ég veit ekki hvernig fer með þingstörf yfirleitt þegar fram líða stundir ef þróunin í þessu á að verða svipuð og mér finnst ég hafa upplifað hana, herra forseti, hér þessi fjögur ár, sem ég hef tekið þátt í þingstörfum. Ég hef það á tilfinningunni, eins og ég hef þegar sagt, að verulega hafi aukist kæruleysi manna fyrir þeirri lögboðnu skyldu sinni að sitja þingfundi og taka þátt í þingstörfum, svo fremi sem heilsa þeirra leyfi, eða þá að hitt hefur gerst að heilsu manna hefur mjög hrakað í hópi alþm. þessi fjögur ár sem ég hef unnið í þeim hópi. Sérstaklega þykir mér það slæmt á hversu alvarlegu stigi þessi þróun er hjá hæstv. ríkisstjórn eins og við höfum fengið að upplifa í kvöld.

Umræðu (atkvæðagreiðslu) frestað.