13.12.1986
Sameinað þing: 31. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1677 í B-deild Alþingistíðinda. (1398)

1. mál, fjárlög 1987

Páll Pétursson:

Herra forseti. Ég átta mig ekki á hvaða hvöt hæstv. samgrh. finnur hjá sér til að meina Blönduósingum að sækja sjó. Forsenda fyrir þróun byggðar á Blönduósi er að íbúum sé gert kleift að sækja sjó og þetta er langstærsta þorp á ströndinni sem hefur alls óviðunandi hafnaraðstöðu. Þarna verður að byggja litla fiskihöfn. Kostnaðartölur, sem menn hafa verið að leika sér með, eru mjög orðum auknar. 1. áfangi hafnarinnar er fullnægjandi um langt árabil. Ég hef skilning á því að framtíð Blönduóss er í veði og ég segi já.