13.12.1986
Sameinað þing: 31. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1678 í B-deild Alþingistíðinda. (1399)

1. mál, fjárlög 1987

Pálmi Jónsson:

Herra forseti. Hér er óvenjulega að verki staðið við atkvæðagreiðslu að krefjast nafnakalls um einn tiltekinn lið í heildarskiptingu fjárfestingarliðar, að þessu sinni til hafnarmála. Þær tölur sem hér hafa verið nefndar um framkvæmdakostnað eru með þeim hætti að það hafa engar óskir komið fram um að leggja hér í framkvæmd við stóra höfn sem mundi e.t.v. kosta yfir 300 millj. og engar áætlanir hafa verið gerðar um slíkar framkvæmdir af hálfu heimamanna þó að þær kunni að vera til hjá stórhuga mönnum í þessum efnum eins og hæstv. samgrh. En þær framkvæmdir sem hér er stefnt að að vinna er hafnargarður til að mynda þar litla bátahöfn á milli hafnargarðs og þeirrar bryggju sem til er á staðnum og það er miklu minna verk en hér hefur verið talað um. Ég vænti þess að hv. alþm. breyti ekki þeirri venju að standa að því að samþykkja tillögur sem fram koma úr fjvn. og segi já við þessari till.