13.12.1986
Sameinað þing: 31. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1679 í B-deild Alþingistíðinda. (1406)

1. mál, fjárlög 1987

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Hér á það að fara að gerast að ratsjárstöðvar, uppbygging og rekstur þeirra, hernaðarmannvirkja, sem algerlega eru kostaðar af fjárveitingum til hermála, bæði uppbygging og rekstur, eiga að færast inn í íslensku fjárlögin. Gjöld og tekjur eiga að jafnast út á núlli þannig að engin einasta króna í þessum fjárlagalið kemur við fjárhag íslenska ríkisins. Hér er á ferðinni hernaðarmannvirki og rekstur þess sem að engri einustu krónu til snertir íslensku fjárlögin. Það kann vel að vera að hæstv. ríkisstjórn hafi á því sérstakan áhuga að skjalfesta dugnað sinn við uppbyggingu hernaðarmannvirkja með því að láta rekstur þeirra koma inn í fjárlögin, en ég legg til að hún reisi þeim dugnaði minnisvarða með einhverjum öðrum hætti en þeim að saurga íslensku fjárlögin með fjárveitingum til hernaðarmála út og inn. Fé til uppbyggingar og rekstrar hernaðarmannvirkja á ekkert erindi inn í íslensku fjárlögin. Slíkt er óhæfa og ég segi því já við till. um að þessi liður falli niður.